Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2025

Verður bankað á dyrnar þínar í fyrramálið?

Af hverju afnámum við ákvæði um guðlast úr refsilögum og tókum upp ákvæði um hatursorðræðu í staðinn spyr dálkahöfundurinn Michale Deacon í grein. Honum og fleirum er ofbboðið yfir framferði bresku lögreglunnar, sem bankar á dyr fólks snemma að morgni, handtekur og framkvæmir húsleit vegna sakleysislegra ummæla. 

Hvað hefur fólkið, sem lögreglan knýr dyra hjá árla morguns gert af sér? Það hefur gerst sekt um að móðga fólk eða hópa skv. mati einhvers móðgunargjarns. 

Fólki var nóg boðið í síðustu viku, þegar lögreglan barði að dyrum og handtók fyrrum lögregluþjón 71 árs að aldri, sem hafði framið þann glæp að vara við gyðinga hatri. Raunar sá lögreglan líka að hann var með bækur sem voru hliðhollar Brexit og það var afleitt skv. lögregluskýrslunni. 

Brenni einhver Biblíuna yrði það ekki talinn hatursglæpur og mundi ekki valda vökunum hjá lögregluliði Bretaveldis. Annað gildir um Kóraninn,sbr. það þegar skólatrákur missti hann fyrir slysni og mátti þola útskúfun og leiðindi fyrir vikið. 

En af hverju er bannað að viðlagðri refsiábyrgð á Vesturlöndum að andmæla sumum trúarskoðunum? Af hverju vorum við að afnema ákvæðið um guðlast og taka upp í staðinn víðtækari lög um bann við að móðga fólk. Raunar er það svo að það virðist oft á tíðum vera nóg að einhver segi að sér sé misboðið til að hinir vösku Sérlokkar Bretaveldis fari á stúfana. 

Ef við höfum ekki frelsi til að gagnrýna það sem annað fólk heldur fram og trúir býr fólk þá við tjáningarfrelsi? 

Hvað þýðir þá fjölmenning? Má ekki ætlast til þess, að þeir sem koma til Íslands eða Bretlands, aðlagist þjóðfélagi okkar. Bæði á Bretlandi og Íslandi þá er þessu öfugt farið. Gestgjöfunum er ætlað að aðlaga sig að gestunum og mega ekki gagnrýna þá eða móðga. 

Deacon segir, að til þess sé ætlast, að fólk verði fyrir alla muni að forðast að vera með guðlast gagnvart spámanninum til að vera í friði fyrir löggunni en til þess að tjáningarfrelsi ríki, þá verði að vernda rétt fólks til að móðga múslima og hvern sem er. Það er talið sjálfsagt að hver sem er geti móðgað kristið fólk án viðurlaga. Af hverju á ekki það sama að gilda um allar lífsskoðanir hvort heldur það eru trúarbrögð,trans, sam- eða gagnkynhneigð.

Meðan löggjöfin í Bretlandi er eins og hún er, þá mega þeir sem reyna að standa varðstöðu um tjáningarfrelsið búast við því að lögreglan knýji dyra í morgunsárinu framkvæmi húsleit og handtaki fólk fyrir það sem á ekki að vera sök í siðaðra manna samfélagi, þar sem leyfi á að vera til að gera grín að hlutum, vera ósammála og þess vegna móðga fólk ef svo ber undir. 

En að sjálfsögðu gildir sú meginregla að aðgát skal höfð í nærveru sálar. 

 

 


Verndari öfganna.

Erdogan Tyrklandsforseti hikar ekki við að fangelsa alla, sem eru honum mótdrægir. Ferðamenn eiga jafnvel á hættu að vera fangelsaðir, ef leyniþjónusta Tyrklands hefur upplýsingar um að viðkomandi hafi gagnrýnt forsetann. 

Í marsmánuði s.l. lýsti Erdogan því yfir í stærstu mosku Tyrklands, að hann væri verndari "sharía" laga og bætti við; 

"Megi Allah sökum nafns síns Sigurvegarinn(Al-Qahhar)eyðileggja og tortíma Ísrael"

Þetta er maðurinn, sem Vesturlönd hafa gælt við og reynt að telja fólki trú um að væri með öllu meinlaus og stjórnendurnir í Brussel viljað taka inn í Evrópusambandið. Það sýnir fádæma dómgreindaleysi og glópsku evrópskra stjórnmálamanna.

Þrátt fyrir ótvíræða yfirlýsingu um að eyðileggja annað ríki, sem fælist þá í því að tortíma þeim sem þar búa,hefur engin mótmælt þessari skefjalausu,illsku,rasisma og glæpum gegn mannkyninu.

Utanríkisráðherrar vinstri stjórna Evrópu með Þorgerði Katrínu í fararbroddi hafa ekki mótmælt þessum skefjalausu öfgum og rasisma meðan þau hamast að Ísrael. Þau mundu aldrei amast við Erdogan enda virðist þeim í mun, að sýna íslamska heiminum fullkomna uppgjöf og undanlátssemi.

Engu máli skiptir þó að Erdogan, Hamas samtökin, Hesbollah og Hútar boði útrýmingu Gyðinga það hreyfir ekki við vinstri sinnuðu utanríkisráðherrunum, sem eru í óða önn að grafa undan eigin þjóðríkjum og menningu. 

Við sem viljum mannréttindi, frið, öryggi og höfnum rasisma þurfum að bregðast við og fordæma kröftuglega svik og undanlátssemi Þorgerðar Katrínar og annarra vinstri sinnaðra utanríkisráðherra, sem telja það helst vera til varnar sínum sóma að fordæma Ísrael þó andstæðingar þeirra lýsi því yfir, að ekki komi annað til greina en að útrýma Gyðingum og Ísraelsríki.

Í öllu skálaglamrinu virðist Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra Íslands algjörlega sjást yfir mikilvægi þess að standa með vestrænni menningu og lýðréttindum gegn afturhalds-, fornaldar- og öfgahyggju íslamska heimsins. 

 

 

 

 – 


Ekki mátti tryggja öryggi borgaranna.

Yngsti bæjarfulltrúi Verkamannaflokksins í Bretlandi, Daisy Blakemore Creedon 19 ára, í Peterborough, hefur sagt sig úr flokknum, eftir að hafa verið kölluð rasisti, drusla og öðrum illum nöfnum af fyrrum samflokksfólki sínu.

Hvað var afbrot þessarar ungu stúlku? Hún lýsti áhyggjum af öryggi farþega og ökumanna smábíla í leiguakstri, en bílstjórarnir eru aðallega múslimar. Hún setti fram þá tillögu, að setja CCTV myndavélar í bílana til að tryggja öryggi bílstjóra og farþega. Það var of mikið fyrir "góða fólkið" í Verkamannaflokknum og hún var sökuð um að ráðast gegn leigubifreiðastjórum af "Asískum" uppruna, sem þýðir á bresku fjölmiðlamáli múslimar aðallega frá Pakistan.

Ungi bæjarfulltrúinn hafði  ekki áttað sig á því að í breska Verkamannaflokknum má aldrei orðinu halla gagnvart þeim þjóðfélagshópi, sbr. að flokkurinn hafnar því að rannsókn fari fram á málum sem varða nauðgunargengi múslima í mörgum borgum í Bretlandi.

Miðað við aðgerðarleysi yfirvalda í málum sem varða leiguakstur hér, spyr maður sig hvort að "góða fólkið" hér hafi sömu tök og það hefur í Bretlandi og komi í veg fyrir að settar séu reglur til að tryggja öryggi farþega. Hugmynd unga bæjarfulltrúans í Peterborough er í því sambandi allrar athygli verðar. En meira þarf að koma til. 

Það verður að gera þær lámarkskröfur að leigubifreiðastjórar tali íslensku og hafi ekki gerst sekir um ofbeldisbrot. Er ekki mál til komið, að Alþingi, samgönguráðherra og Samgöngustofa komi þessum atriðum í lag svo að fólk sé öruggt í leigubifreiðum og það sé ekki svindlað á útlendingum sem hingað koma. Hvað dvelur þessa aðila? Það er brýnt að úr þessu sé bætt strax. 

 


Gerist ekkert?

Fyrir nokkru voru umræður á Alþingi um málefni leigubifreiða. Svo virtist sem almenn samstaða væri um, að ný lög um leigubifreiðar væru slæm og nauðsyn bæri til að gera breytingar til að tryggja öryggi neytenda og viðunandi ástand. 

Þegar Sigurður Ingi þá samgönguráðherra stóð illu heilli að nýrri löggjöf um leigubifreiðar sem reynst hefur illa, var ekki hugað að hagsmunum neytenda og þeirrar staðreyndar, að viðskiptavinir leigubifreiðastjórar eru iðulega í vondri stöðu t.d. þekkja ekki til sbr. ferðamenn eða eru ekki upp á sitt besta vegna áfengisneyslu eða annarrar neyslu. Ekkert af þessu var haft í huga þegar ganað var út í breytingar á lögunum. 

Þrátt fyrir að samstaða virtist vera á Alþingi um  nauðsyn aðgerða til að tryggja öryggi fólks og viðunandi ástan, þá hefur ekkert gerst. Þar stendur fyrst og fremst upp á samgönguráðherra að hafa frumkvæði, en þingmenn mega ekki bíða eftir því að duglaus ráðherar hristi af sér slenið. 

Þegar ófremdarástand ríkir hvort heldur er í málum sem varðar leiguakstur, fræðslumál eða annað, þá dugar ekki að setja hendur í skaut. Aðgerða er þörf strax. 

Af hverju hefur samgönguráðherra ekki gert neitt? Er það metnaðarleysi, leti eða dugleysi. Veit hann e.t.v. ekki hvað hann á að gera eða er ekki samstaða um málið innan ríkisstjórnarinnar? 

Það er ekki hægt að una við að ríkisstjórnin geri ekkert í máli sem er jafnmikilvægt fyrir neytendur og þá sem stunda leiguakstur af heiðarleika. 

 

 

O


Frelsi hverra?

Undanarið hefur nokkuð sérstakt verið að gerast. Venjulegt fólk á Gasa mótmælir ógnarstjórn Hamas. En í ríki Hamas á Gasa verða allir að lúta ógnarstjórninni annars er voðinn vís.

Uday Al Rabbay borgari á Gasa fékk að finna fyrir því, en Hamas drap hann og henti líkinu fyrir utan heimili foreldra hans. Glæpur hans var sá að hafa tekið þátt í mótmælagöngu gegn ógnarstjórn Hamas. Uday eins og vafalaust mikill meirihluti Gasabúa vildi að það yrði bundinn endir á stríðið. En Hamas vill það ekki og hefur aldrei haft áhyggjur af dauða almennra borgara, sem þjást á meðan Hamas foringjarnir búa við alsnægtir í mat í neðanjarðarbyrgjum sínum undir skólum, sjúkrahúsum og barnaleikvöllum.

Fleiri og fleiri borgarar á Gasa  átta sig á að Hamas er ekki frelsari heldur kúgari í stöðugri baráttu við stærsta stjórnmálaafl Palestínumanna, Al Fatah og önnur.

Stjórn Hamas á Gasa felur vopn í skólum, sjúkrahúsum, sjúkrabílum og stelur peningum sem ætlaðir eru til hjálparstarfs og uppbyggingar. Hamas hefur stolið svo mörgum milljörðum, af þeim peningum, að þeir gátu byggt net neðanjarðarganga sem eru lengri á þessu litla landssvæði en heildarlengd neðanjarðarlestakerfis London.

Inngangur og útgangur í mikilvægustu göngin eru við sjúkrahús og skóla og stjórnstöðvar Hamas eru iðulega í sjúkrahúsum.

Á sama tíma og nytsamir sakleysingjar á Vesturlöndum fara í mótmælagöngur og lýsa stuðningi við Hamas, samtökin sem berst fyrir þjóðarmorði á Gyðingum, fordæma þjóðir í Mið-Austurlöndum, Hamas og aðra öfgahópa.

Saudi Arabía vill eðlileg samskipti við Ísrael. Egyptaland þekkir hvaða ógn stafar af Hamas og Múslimska bræðralaginu og hafa lokað landamærunum við Gasa og bannað starfsemi Múslimska bræðralagsins. Sameinuðu Arabísku furstadæmin hafa sett ýmis vestræn velferðarsamtök á svartan lista vegna tengsla við Íslamska öfgahópa.

Jórdanía hefur tekið afdráttarlausa afstöðu gegn Íslamskri öfgahyggju og hefur diplómatísk tengsl við Ísrael. Samt sem áður hrópar oft velmeinandi gott fólk á Vesturlöndum slagorð dauðasveita Hamas, ekki síst hér vegna þess hve mjög öflugasti fréttamiðill landsins hið skelfilega RÚV heldur úti stöðugum áróðri gegn Ísrael og fyrir öfgar dauðasveita Hamas.

Þessir mótmælendur fordæma ekki ógnarstjórn og hryðjuverk Hamas. Þeir hafa ekkert við það að athuga að Hamas skuli nota almenna borgara þ.á.m. börn sem mannlega skildi fyrir vígamenn sína. Í því sambandi má benda á að vígamenn Hamas eru allt niður í 12 ára og þegar RÚV birtir fréttir af því hvað mörg börn hafi fallið, þá er aldrei sagt hvað stór hluti þessara "barna" voru vígamenn Hamas. 

Vestrænir mótmælendur ganga kyrjandi vígorð dauðasveita Hamas, en það minsta sem hægt er að krefjast af þeim er að þeir sýni venjulegu Palestínufólki stuðning og fordæmi morðsveitirnar sem kúga venjulegt fólk á Gasa með ógnarstjórn sinni.

Hvaða vitræn glóra er í því að lýsa yfir einhliða stuðningi við morðsveitir og kúgara, sem drepa alla borgara á Gasa sem mótmæla valdbeitingu þeirra og morðum og nota almenna borgara þar á meðal konur og börn sem mannlega skildi fyrir vígasveitir sínar.

Af hverju voru allir á því að ganga yrði á milli bols og höfuðs á ISIS sveitunum, en telja að annað eigi að gilda um Hamas?


Þjóðfjandsamlegar yfirlýsingar utanríkisráðherra

Það eru vonbrigði, að hlusta á utanríkisráðherra segja ítrekað, að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð og séu sekir um stríðsglæpi. Ummælin eru bæði Gyðingafjandsamleg og andstæð hagsmunum Íslands. Yfirlýsingar utanríkisráðherra eru mun fjandsamlegri Ísrael en annarra ríkisstjórna í Evrópu hvað þá Bandaríkjanna og þjóna ekki utanríkispólitískum hagsmunum Íslands.  

Í leiðara breska stórblaðsins Daily Telegraph fyrir nokkru sagði um hugmyndafræði fólks eins og utanríkisráðherra Íslands;

„Siðferðilega andhverfan og umsnúningurinn er alger. Leiðtogar Ísrael eru lögsóttir fyrir glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi sem er fráleit og fjarri því að haft sé í huga að þeir urðu að grípa til vopna í sjálfsvörn eftir að svívirðilegustu og mestu Gyðingamorð frá lokum síðari heimstyrjaldar.

Hamas hryðjuverkasamtökin frömdu stríðsglæpina. Kerfi alþjóðalaga var sett upp í lok síðari heimstyrjaldar til að koma í veg fyrir að „Helförin“ gæti átt sér stað aftur. En nú horfum við á land þar sem lýðræði ríkir, land sem reynir að koma í veg fyrir annað fjöldamorð á íbúum sínum, af hálfu samtaka, sem hafa á stefnuskrá sinni að útrýma öllum Gyðingum.

Óhjákvæmileg innrás Ísrael á Gasa hefur því miður leitt til dauða óbreyttra borgara. Það er átakanlegt að horfa upp á, jafnvel þó að hlutfall Hamas liða sem hafa fallið sé hærra en almennt gerist í stríði þar sem hryðjuverkamenn fela sig meðal óbreyttra borgara og tala fallina óbreyttra borgara sé hlutfallslega lægra en almennt gerist í stríði í borgum eins og í stríði Bandaríkja,Breta og Kúrda við ISIS.

Um helmingur fallinna eru Hamas vígmenn. Hamas felur sig á bakvið óbreytta borgara og hafa ekki áhyggjur þó að óbreyttir borgarar falli.

Hamas ber siðferðilega ábyrgð á öllum sem hafa fallið í stríðinu á Gasa með sama hætti og þýskir nasistar báru ábyrgð á þeim sem féllu í síðari heimstyrjöld og japanska keisaraveldið á þeim Japönum sem féllu." Síðar segir í leiðaranum;

“Vinstri sinnaðir lögfræðingar í alþjóðarétti hljóta þá að líta á öll dauðsföll óbreyttra borgra í síðari heimstyrjöld árin 1944 og 1945 sem stríðsglæpi og siðferðilega ámælisverða. Harry S. Truman, Winston Churchill, De Gaulle o.fl. hefði þá átt að lögsækja ásamt þeim leiðtogum nasista sem sóttir voru til saka í Nürnberg réttarhöldunum 1945-1946."

Hvílíkt fordæmi hefði það nú verið og andhverfa skynseminnar. Það er sú andhverfa sem utanríkisráðherra samsamar sig með og íslenska ríkisstjórnin og henni til jafn mikillar skammar. Svigurmæli og röng og fólskulegra ummæli í garð vinaþjóðar getur aldrei verið heilladrjúg framkoma smáríkis gegn vinaþjóð, sem nýtur órofa stuðnings þess ríkis,sem hefur tryggt varnir Íslands í tæp 80 ár og er eina ríkið sem við verðum að treysta til að gera það áfram. Það eru engin önnur ríki sem hafa áhuga vilja og getu til þess en Bandaríkin.

Sé Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mikið í mun að huga að hagsmunum Múslima í veröldinni, þá er sérkennilegt að íslenska ríkisstjórnin skuli ekki ræða um málefni og ofsóknir gegn Uyghurum í Kína og Rohingyum í Myanmar, en báðir þessir þjóðflokkar múslima sæta ofsóknum. Já og hafa þegar sent frá sér bunka af yfirlýsingum um þær hraklegu aðfarir sem ríkisstjórnir umræddra landa beita þessa minnihlutahópa. En þetta fer einhverra hluta vegna algjörlega framhjá vökulu auga "réttlætisgyðjunnar" Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra og sú glöggskyggna Kristrún Frostadóttir horfir þögul og afskiptalaus á.

E.t.v. er ríkisstjórn Kristrúnar mikið í mun að sýna fram á virka andstöðu sína gegn öllu sem tengist hægri, frjálshyggju eða kristnum viðhorfum og taka undir söng dauðasveita Hamas, Húta og Hezbollah um að þurrka Ísrael af kortinu.

Það er hið eina og raunverulega þjóðarmorð sem vofir yfir og það sem þessar dauðasveitir berjast fyrir að verði að veruleika. Þjóðarmorð á Gyðingum.

Vill íslenska ríkisstjórnin leggja sín lóð á vogaskálunum með hryðjuverkasamtökunum?

 

 

 


Fórnarlamb allra fórnarlamba

Venjulegast er a.m.k. einni frétt í aðalfréttatíma RÚV sjónvarps, um meint fórnarlamb, sem telur sig órétti beitt, vegna skorts á aðhlynningu á kostnað skattgreiðenda.

Einstaka sinnum og bara einstaka sinnum eiga þessar fórnarlambafréttir erindi til almennings.

Í gær birtist á skjánum í fréttatímanum, fórnarlamb allra fórnarlamba Harry nokkur prins af Bretlandi.

Fórnarlambið Harry býr í 2 milljarða króna húsi, með þjóna á hverju strái og flýgur með einkaþotum hvort heldur heimsálfa á milli eða til að fara á næsta Póló leik. Hann óskapaðist yfir dómstólum í Bretlandi,sem hefðu synjað honum um að fá lífverði og öryggisgæslu á kostnað skattgreiðanda, þegar hann lætur svo lítið að koma til Bretlands. 

Eðlilegasta spurningin er af hverju ættu skattgreiðendur að borga fyrir þetta ömurlegasta fórnarlamb allra tíma? Að sjálfsögðu kemur þeim þetta ekkert við eins og dómurinn sagði.

Svo er það annað mál hvað verið er að gera með svona dúkkulísur í nútímanum.


Pólitískur jarðskjálfti

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninga og aukakosningar í Bretlandi í gær eru sögulegar.

Reform (Umbótaflokkur) Nigel Farage vann stórsigur og gengju þau úrslit eftir við þingkosningar mundi Verkamannaflokkurinn fá 156 þingmenn og tapa 255. Íhaldsflokkurinn fengi 4 þingsæti og tapaði 117. Umbótaflokkurinn fengi 427 þingsæti og bætti við sig 422 og fá afgerandi meirihluta. 

Annar eins pólitískur jarðskjálfti hefur ekki orðið í Bretlandi síðan Verkamannaflokkurinn kom á sjónarsviðið snemma á síðustu öld og skákaði Frjálslyndum í þriðja sæti.

Fyrir tveim árum ætlaði einn stærsti banki Bretlands, þar sem formaður Reform hafði bankaviðskipti, að loka á viðskipti hans sem einstaklings, ekki vegna vanskila heldur skoðana hans. Nú liggur fyrir að skoðanir hans hafa yfirgnæfandi fylgi í Bretlandi. En þetta sýnir hvað elítan er tilbúin að ganga langt til að svipta þá sem þora að tala af skynsemi og gegn Davos og Woke hugmyndafræðinni réttindum sínum. 

Woke hugmyndafræðin hefur tröllriðið Bretlandi og stærstu stjórnmálaflokkkarnir Íhald og Verkamannaflokkur gjalda fyrir að hafa tekið tillit til hennar og jafnvel fylgt henni þrátt fyrir að woke hugmyndafræðin fari í bág við það sem engilsaxar kalla "common sense" ekki síst í kynja- og innflytjendamálum.

Það eru spennandi tímar framundan í breskri pólitík. 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.5.): 33
  • Sl. sólarhring: 1237
  • Sl. viku: 4679
  • Frá upphafi: 2534642

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 4377
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband