Leita í fréttum mbl.is

Sjálftaka og sérkjör

Stjórnmálastéttin hefur verið iðin við að hlaða undir sig undanfarin ár. Svo er komið að iðulega er um algert siðleysi að ræða og fara þá sveitarfélög í fararbroddi og skammta sínum stjórnendum ekki úr hnefa heldur hverja handfyllina á fætur annarri. Allt er þetta vegna þess að þessi stjórnendur semja við sjálfa sig og aðra sem eiga sömu hagsmuni að gæta og þá er ekki rifist um prósentur launahækkana heldur frekar tugi prósenta. 

En öll met slær borgarstjórinn í Reykjavík. Hvernig stendur á því að laun hennar margfölduðust á stuttum tíma þrátt fyrir að vinnan sem hún innti af hendi væri afar takmörkuð.  Sjálftaka borgarstjórans með aðstoð vikapilta og vikastúlkna er óafsakanleg. Algjör spilling eins og formaður Eflingar benti á í fréttum í gærkvöldi. 

Það er þörf siðvæðingar í íslenskum stjórnmálum og nauðsyn krefur að heildar uppstokkun verði gerð á launakjörum æðstu stjórnenda landsins og allrar stjórnmálastéttarinnar. Þá verður að endurskoða alla styrki til stjórnmálaflokka og helst fella þá algjörlega niður því þar er einfaldlega um fordæmanlega sjálftöku að ræða. 

Hvernig skyldi standa á því að svonefndir félagshyggju og vinstri flokkar skuli hvað óðast láta greipar sópa um ríkis-, borgar- og sveitarsjóði. 

Hvernig ætla Sósíalistar, Flokkur fólksins og Píratar að rökfæra það að borgarstjórinn sitji áfram þrátt fyrir að rækilega hafi verið sýnt fram á að hjá henni ríður spillingin og persónuleg sjálftaka launa ekki við einteyming.


Farsæl niðurstaða

Hvað svo sem líður stuðningi við eintaka frambjóðendur þar á meðal þess, sem þetta ritar, þá skal viðurkennt, að niðurstaðan þegar á allt er litið gat ekki orðið farsælli fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns og Jens Garðars Helgasonar varaformanns bíða mörg og misjafnlega erfið verkefni varðandi endurreisn Sjálfstæðisflokksins til fyrri vegs og virðingar eins og þau orðuðu það bæði eftir að hafa náð kjöri, þó með mismunandi hætti væri. 

Þó Guðrún og Jens eigi ákveðinn hóp sameiginlegra stuðningsmanna, þá fengu þau þó aðallega stuðning frá sitt hvorri fylkingunni sem tókust á í formannskjöri. 

Báðum skal óskað farsældar í störfum sínum fyrir Flokkinn og nú reynir á að þau standi sig og nái að byggja Flokkinn upp á nýju. Allt Sjálfstæðisfólk hvar svo sem það stóð í fylkingu verður að gefa þeim nauðsynlegt svigrúm og styðja þau til allra góðra verka. 


Landsfundur- Ný forusta

Það útheimtir gott skipulag og fjölda fólks sem kann til starfa að skipuleggja og halda rúmlega 2000 manna Landsfund eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú í Laugardalshöll. 

Skipulag og frágangur er til fyrirmyndar að flestu leyti, en á það skortir þó á pappírslausum fundi, að tillögur o.fl. skili sér nægjanlega vel. Þá verður að gagnrýna lýðræðisstífinguna og takmörkun á möguleikum hins almenna flokksmanns til að geta látið til sín taka málefnalega í ræðustól á fundinum.

Þá er það dapurlegt að ötult baráttufólk fyrir Sjálfstæðisflokkinn í meir en hálfa öld og hafa sótt Landsfundi allan tímann síðan, skuli ekki vera fulltrúar á þessum fundi. Í því sambandi nefni ég sérstaklega þá Ólaf Egilsson sendiherra, Þór Whitehead prófessor emeritus og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara, prófessor og lögmann allt emeritus. Marga fleiri mætti nefna. Til að koma í veg fyrir svona slys þyrfti miðstjórn, að geta úthlutað ákveðnum fjölda landsfundarsæta þess vegna með auknu meirihlutasamþykki.

Fyrir þá sem hafa verið um árabil í flokksstarfi er það ómetanlegt að hitta vini og kunningja alls staðar að af landinu. Landsfundur er annað og meira en bara fundur. 

Á sama tíma og aðrir flokkar halda sína aðalfundi og Landsfundi þar sem mæta um hundrað til þrjúhundruð manns, þá sýnir það hvílíkur munur er á skipulagi og því afli sem býr í Sjálfstæðisflokknum og annarra stjórnmálaflokka á Íslandi. 

Slaklega er þá staðið að verki, hvað sem líður lofi og oflofi um fráfarandi forustu þegar þessi ofurkraftur brýst ekki fram og finnur sér stað í kosingum. En það er sú staðreynd sem að flokksmenn horfast í augu við eftir síðustu kosningar.

Það þarf að greina með heiðarlegum hætti og hika ekki við að hverfa frá mið-vinstri stefnunni og taka upp ákveðnari stefnu sem býður upp á raunverulegan valkost frá vinstri villum. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur alla tíð verið óskoraður foringi flokksins meðan hann gegnir formennsku. Miklu skiptir því að vel takist til í dag með val á formanni flokksins. 

Ég sé ekki að neinar breytingar til góðs fyrir flokkinn hvað varðar endurskipulagningu og nýjar áherslur nema okkur beri gæfu til að kjósa Guðrúnu Hafsteinsdóttur athafna- og stjórnmálakonu sem formann flokksins. 

 


Alþingi og þjóðlífið

Bjarni Benediktsson heitinn fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra taldi alla tíð nauðsynlegt að Alþingi væri í sterkum tengslum við þjóðlífið, en það gerði þá kröfu til þingmanna, að þeir hefðu þekkingu og tilveru utan hins hefðbundins stjórnmálastarfs og sagði:

"Til þess að taka að sér forsjá í málum annarra og stjórna þeim, þarf ætíð mikla þekkingu. Stjórnmálamaðurinn verður að þekkja land sitt og gæði þess og torfærur,þjóð sína, kosti hennar og galla"

Það má lesa út úr ræðum Bjarna, að hann telur illt í efni ef allir þeir sem sitja á Alþingi eða stór hluti þeirra séu atvinnustjórnmálamenn og á skorti nauðsynlega þekkingu slíkra stjórnmálamanna. 

Dæmi um sannleiksgildi þessarar hugsunar Bjarna heitins eru flokkslíkamabörnin bresku, bræðurnir Ed og David Miliband. Þeir fóru í háskóla og síðan í pólitík eða pólitískt tengd störf á vegum Verkamannaflokksins og klifruðu síðan upp metorðastigann og enduðu með því að takast á um það hvor þeirra yrði formaður, en þann slag vann Ed. Þeir þekktu ekki þjóðlífið utan stjórnmálanna. 

Vegna skorts á annarri þekkingu en starfi í pólitík skortir þá nauðsynlegu þekkingu til að geta stýrt málum til góðs þegar þeir hafa haldið um valdataumana.  Skýrasta dæmið er hvernig Ed fer fram sem umhverfismálaráðherra. Hann hefur lagt fram tillögur sem mundu drepa breskan landbúnað og en áður hefur hann hafið vegferð gegn vinnslu olíu í Norðursjó þannig að sú vinnsla mun stöðvast. Allt er þetta hið versta mál, en flokkslíkamabarnið Ed skortir skilning á því, þar sem þekking hans er bundin við stjórnmálin eingöngu.  

Þingmenn telja sig oft vera í miklu og góðu sambandi við þjóðina og þekkja kosti hennar styrkleika og veikleika út og inn. Þingmenn eru samt að mestu leyti uppteknir við að tala alltaf við sama fólkið. Þröngan hóp frá stjórnsýslunni eða talsmenn hagsmunasamtaka. Þá skortir því oft nauðsynlega yfirsýn hafi þeir ekki haft yfirgripsmikla þekkingu þegar þeir settust á þing og sinnt almennum störfum til lands eða sjávar. 

Sjálfstæðisflokkurinn velur forustu sína á sunnudaginn. Væri ekki rétt að fara eftir þeim leiðarmerkjum og vísdómsorðum, sem einn farsælasti forustumaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni heitinn Benediktsson taldi nauðsyn á að forustumaður í stjórnmálum hefði til að bera til að geta rækt starf sitt til heilla fyrir land og lýð. 


Kæri Jón

Kæri vinur minn Jón Gunnarsson. Skelfing fannst mér það lítið líkt sjálfum þér, sem þú skrifar um "stolnar" fjaðrir Guðrúnar Hafsteinsdóttur eftir að hún tók við sem ráðherra dómsmála af þér 

Ég taldi eins og þú veist að heppilegra væri að Guðrún kæmi inn í staðinn fyrir aðra ráðherra t.d. Áslaugu Örnu, þar sem þú stóðst þig vel sem ráðherra dómsmála. En vinur þinn formaður flokksins ákvað þetta og því við hann að sakast. 

Með mannaskiptum í dómsmálaráðuneytinu var ekki verið að breyta um stefnu eins og þú þekkir og því hlaut Guðrún að taka við þínum málum og reka þau áfram eins og gerist við slík tækifæri. Eðli máls skv.gerir hún því grein fyrir þeim málum sem sínum málum. Hún vann áfram að þeim eða mótaði ný. 

Jón hún er því ekki að skreyta sig með stolnum fjöðrum heldur gera skilmerkilega grein fyrir þeim málum sem hún fékkst við sem ráðherra. Það gera allir stjórnmálamenn og ekkert er eðlilegra eins og þú þekkir kæri Jón minn Gunnarsson.

 


Á þeirra kostnað

Óteljandi eru samstöðufundir, heimsóknir og fjálgleg ræðuhöld, leiðtoga NATO ríkja síðustu 3 ár. Þau hafa hvatt Úkraínumenn til dáða á vígvellinum og afhent þeim vopn þannig að þeim mætti sem best duga í baráttunni við "illyrmið" Pútín.

Stöðugt var hamrað á að landamæri væru heilög og Úkraínumenn þyrftu að vinna fullnaðarsigur á Rússum. Þau heilögu landamæri voru dregin af alræmdasta kommúistaleiðtoga Sovétríkjanna sálugu,í lok síðari heimstyrjaldar og síðan við skiptingu á dánarbúi Sovétríkjanna á síðasta áratug síðustu aldar.

Hvattir áfram sérstaklega af Bandaríkjunum sem lögðu fram mikið fé, en einnig ríkjum Evrópu sem lögðu einnig fram mikið fé til að halda stríðsrekstrinum gangandi, tóku Úkraínumenn á sig miklar fórnir þar sem hundruðum þúsunda ungra manna var att fram á vígvöllinn. Ekki fæst upplýst hvað margir þeirra féllu, en ljóst að mannfall var mikið. Gjörspillt yfirstétt Úkraínu hélt samt sínu striki og makaði krókinn enda Úkraína gjörspilltasta land Evrópu fyrir stríðið og varla skánaði það við stór "gjafir" NATO ríkja. 

Nú krefjast Bandaríkjamenn að fá endurgreitt það sem þeir lögðu fram af fjármunum til Úkraínumanna með því að fá veð í helstu þjóðareignum Úkraínu, en í ljós kom, að ýmis stærstu ríki Evrópu höfðu þá þegar gengið frá endurgreiðslu samningum vegna framlags þeirra til að viðhalda stríðinu. 

Verður þá öll þjóðareign Úkraínu seld eða veðsett hinum öflugu talsmönnum frelsisins, sem hver um annan þveran þyrptust til Kænugarðs aftur og aftur til að tala kjark í Úkraínumenn með fyrirheit um órofa stuðning. 

Verða þá breytingar á landamærum Úkraínu þegar upp er staðið minnsta málið en aðalmálið stærsta framsal þjóðarauðs Úkraínu til stærstu ríkja Vesturlanda? 

Ætla Vesturlönd með Bandaríkin í broddi fylkingar þegar upp er staðið að gera Úkraínu að lénsríki sínu og innheimta stríðsskaðabætur vegna stríðsins sem þau stóðu í raun fyrir. Það  gæti orðið þessu fátæka landi svo þungbært að Úkraína gæti aldrei risið undir því ekki frekar en Þjóðverjar vegna Versalasamninganna 1919, eða Haiti búar vegna nauðungarsamninga við Frakka á sínum tíma. 

Fari svo þá eru mestu svikin við Úkraínu framundan. Svik sem binda landið á skuldaklafa til allar framtíðar? 

Vorum við sem kölluðum eftir friði strax í upphafi stríðsins fyrir þrem árum þá e.t.v. einu raunverulegu vinir Úkraínu og fólksins þarna í Austurvegi?

 

 


Stórsigur AFD. Sama fylgi og Samfylkingin

 Hægri flokkurinn Alternative für Deutschland (AFD) fékk 20.8% atkvæða í  þýsku kosningunum í gær eða nákvæmlega sama fylgi hlutfallslega og Samfylkingin.

AFD tvöfaldaði fylgi sitt og er ótvíræður sigurvegari kosninganna, þó að Kristilegir (CDU/CSU) eru að fá næstverstu úrslit flokksins þó þeir bæti við sig atvkæðum á meðan AFD tvöfaldar fylgi sitt.

AFD berst fyrir því að tekin verði upp ákveðnari stefna í málum hælisleitenda. Þess vegna er því haldið fram að þeir séu öfga hægri flokkur og megi ekki komast í ríkisstjórn. 

Helsta innlegg Sósíalistaflokks fráfarandi kanslara í kosningabaráttunni var að gangast fyrir útifundum ásamt hinum "lýðræðislegu" kommúnistum í vinstri flokknum til að mótmæla því að fólk kysi AFD eða AFD kæmist í ríkisstjórn.

Var einhver að tala um fasisma?

En svo fór að Sósíalistar guldu afhroð og töpuðu meira en þriðjungi fylgis síns. Sósíalistum finnst samt að þeir eigi að vera í ríkisstjórn þó fólk hafni þeim af því að þeirra mati hvar svo sem er í heiminum eru þeir áskrifendur að stórasannleikanum í þjóðfélgsmálum. 

Það er ógæfa miðhægri flokka eins og CDU/CSU í þýskalandi að fallast á það að úthýsa beri skoðunum AFD, en allir aðrir þar á meðal kommúnistar séu eðlilegri valkostur. Þessi sjónarmið í ýmsum Evrópulöndum hefur leitt til þess að sósíalistar hafa haldið um stjórnartaumana í löndum eins og Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð lengi vel. 

Kanslaraefni kristilegra á þann valkost að mynda hægri stjórn með AFD eða hefja nýja eyðimerkurgöngu með sósíalistum eins og Angela Merkel. Svo gæti þá farið að AFD tvöfaldaði enn fylgi sitt í næstu kosningum.

AFD lýðræðislegur flokkur og starfar eftir lýðræðilegum meginreglum. Hvað réttlætir þá að gefa það út að þeir séu óstjórntækir? 

Hætt er við að Þjóðverjum finnist þeir hafa verið sviknir ef næsta ríkisstjórn Þýskalands verður samstjórn Kristilegra og Sósíalista. Þá breytist ekkert og sama helstefna að skipta um þjóð í landinu heldur áfram.

Já og hryðjuverkin munu ef eitthvað er færast í aukana. Sífelld fleiri Þjóðverjum finnst með réttu nóg komið. 


Baráttan um buxurnar

Jón Gnarr þingmaður Viðreisnar lét til sín taka á löggjafarþingi þjóðarinnar í gær. Í fyrsta lagi náði hann að stela athyglinni með því að gera mikið veður út af því að hann hefði klæðst í gallabuxur.  Fréttastofu RÚV fannt það aðalatriðið í fréttaflutningi frá Alþingi í gær. Þó var sérstök umræða um strandveiðar. 

Jón Gnarr var að vandræðast með það, hvort hann væri klæddur að heldri manna sið og í samræmi við það sem eðlilegt er á Alþingi, þegar  hann skrýddist gallabuxunum. Í sjálfu sér átti þessi sjálfhverfa sýniþörf Jóns Gnarr lítið erindi við almenning. 

Þessi umræða er ekki ný, en RÚV finnst hún alltaf jafn merkileg. Einfaldleiki málsins varðandi klæðaburð alþingismanna er að það er ekki skylda að vera í einkennisbúningi heldur snyrtilega klæddur. Sumir róttækir þingmenn, sem hafa lítið til málanna að leggja annað en vekja á sér athygli, hafa iðulega mætt eins og skítakamrar til fara og talið það innlegg í þjóðmálabaráttuna. Með því eru þeir að gera lítið úr sjálfum sér og draga úr virðingu Alþingis.

En Jón Gnarr náði að auglýsa gallabuxurnar sínar vel og öllu minni athygli vakti samt ræða hans um strandveiðar, þar sem hann minntist á það í upphafi umræðnanna að hann hefði raunar ekkert vit á strandveiðum og vissi meira um landbúnaðarmál. Að sjálfsögðu var því við hæfi að þingmaðurinn blandaði sér í umræðuna sem hann segist ekkert vit hafa á. En óháð þessu sjálfsmati Jóns Gnarr, þá var ræða hans um strandveiðar mun betri en hugsvölun sýniþarfar hans á gallabuxunum sínum.


Hótel fyrir heiminn þ.á.m.hryðjuverkafólk.

Í gær fimmtudag ók afganskur hælisleitandi inn í hóp fólks og slasaði 30 manns suma lífshættulega í München í Þýskalandi.

Þ. 20. desember s.l. ók hælisleitandi frá Sádi Arabíu á fjölda fólks á jólamarkaði í Magdeburg í Þýskalandi, 6 dóu og 299 slösuðust sumir lífshættulega.

Í ágúst s.l. myrti sýrlenskur Íslamisti þrjá einstaklinga og særði 8 til viðbótar á hátíð fjölbreytileikans í Solingen í Þýskalandi

Árið 2016 var það hælisleitandi frá Túnis, sem framdi samskonar hryllings hryðjuverk í Berlín.

Þessi hryðjuverk og mörg önnur hafa gjörbreytt Þýskalandi. Rólegu huggulegu stundirnar sem þýskar fjölskyldur áttu áður á jólamörkuðum og álíka eru ekki lengur í boði nema að viðhafðri mikilli lögregluvernd og steinblokkum sem takmarka möguleika hryðjuverkafólks á því að aka inn í mannþröngina.

Samt tekst þessum meindýrum of oft að framkvæma hryðjuverkin.

Því er jafnan neitað af evrópskum stjórnmálamönnum, íslenskum þar á meðal að það sé samhengi á milli innflytjendastefnu löglegra en þó frekar ólöglegra og fjölgun glæpa þ.á.m. hryðjuverkum.

Það verður aldrei umflúið, að þegar þú flytur inn fólk hvaðan æva úr heiminum, þá flytur þú líka inn öll heimsins vandamál.

Á þetta benti Douglas Murray (DM) skilmerkilega á í bók sinni Dauði Evrópu, sem kom út fyrir 10 árum, en þrátt fyrir gildar ábendingar og varnaðarorð og jafnvel hrós hefðbundinna stjórnmálamanna, þá brást stjórnmálaelítan ekki við að neinu leyti.

Hann benti líka á að með sama áframhaldi yrði ekkert eftir lengur sem héti þjóðleg einkenni eða þjóðleg gildi. Við hefðum gert Evrópu að hóteli og heimili fyrir allan heiminn. Við erum á vondri leið í þá átt að eiga ekkert land fyrir okkur, engin þjóðleg gildi eða sameiginlega þjóðlega menningu og arfleifð.

Barnabörnin okkar munu því ekki ef svo heldur áfram sem horfir upplifa það íslenska sem hefur um aldir verið bústaður og vistarvera á Íslandi og þurfa að sætta sig við það, að íslenska verði ekki lengur gilt samskiptamál í Reykjavík árið 2050. 

Er það eftirsóknarvert?


Friður í Úkraínu

Utanríkisráðherra og forseti Íslands sögðu eftir að Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna, að veður gerðust nú vályndari og ófriðarhætta magnast. Á hverju skyldu þær hafa byggt þær skoðanir?

Ísland hefur ekki verið boðberi friðar í stríðinu í Úkraínu, þvert á móti því miður og illu heilli lokað sendiráðinu í Moskvu í stað þess að nota það m.a. til að tala fyrir friði.  

Stefna Biden var sigur Úkraínu. Það voru gjörsamlega óraunhæf markmið, en samt tóku þáverandi og núverandi utanríkisráðherrar Íslands undir þá stefnu,í stað þess að vera málssvarar friðar. Farið var fram óðslega gegn Rússum, sem bitnaði fyrst og fremst á íslenskum framleiðendum, sem urðu af milljarðatekjum vegna fráleitrar hernaðarstefnu Íslands.

Trump talar fyrir friði og í gær talaði hann við Putin um friðarsamninga. Trump sagði að þeir væru sammála um að stöðva mannfórnir í milljónatali, en byrja friðarsamninga strax til að ljúka stríðinu í Úkraínu. 

Trump talaði líka við Zelensky um símtal sitt við Pútín og um friðarviðræður, sem munu  byrja á morgun föstudag. Zelensky sagði að Trump hefði gert honum grein fyrir viðtalinu við Pútín og að Úkraína og Bandaríkin væru að setja saman tillögur um að stöðva frekari árásir Rússa og koma á varanlegum friði.

Af hverju var þetta ekki gert fyrr? Af hverju gerði Biden aldrei neitt til að stöðva þessar hrikalegu mannfórnir eða Þórdís Kolbrún og síðan Þorgerður Katrín að tala fyrir friði. Sennilega hefur meir en milljón ungra manna fallið vegna þeirra afglapa að stuðla ekki strax að vopnahléi og friðarsamningum. 

Svo er spurningin hvar þær eru staddar utanríkisráðherra og forseti lýðveldisins og fleira íslenskt valdhrokafólk, þegar það  talar um vaxandi óveðursblikur og vaxandi líkur á stríðsátökum með valdatöku Trump. 

  


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 98
  • Sl. viku: 1472
  • Frá upphafi: 2496221

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1327
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband