Leita í fréttum mbl.is

Friðurinn á jólanótt fyrir 110 árum. Ekki skjóta, þá skýt ég ekki.

Í desember 2014 fyrir 110 árum, í byrjun fyrri heimstyrjaldar höfðu Þjóðverjar sótt inn í Belgíu og Frakkland. Þýski herinn gróf skotgrafir og tæpum kílómeter frá voru skotgrafir Breta. Á milli þeirra á einskis manns landi voru lík fallinna félaga.

Á aðfangadagkvöld settu þýsku hermennirnir upplýst jólatré fyrir ofan skotgrafirnar og sungu Heims um ból. Bresku hermennirnir tóku undir. Eftir að hafa skipst á hrópum sín á milli "You no shoot, we no shoot" komu hermennirnir upp úr skotgröfunum til að heilsast og skiptast á sígarettum, skosku viskí og þýskum snafs.

Á jóladag hjálpuðust þeir að við að grafa hina föllnu og héldu minningarmessu. Þeir sungu saman 23. Davíðssálm á þýsku og ensku jafnhliða. Hermennirnir skiptust síðan á gjöfum og kepptu í fótboltaleikjum. Engin vildi halda stríðinu áfram. Ungir menn sem áttu framtíðina fyrir sér og vildu eiga hana í sátt og samlyndi við þá sem þeir voru í stríði við.

Hershöfðingar og stjórnmálamenn urðu vitstola af reieði, þegar þeir fréttu þetta og hótuðu hermönnunum að refsa þeim grimmilega og jafnvel að þeir yrðu skotnir. Tilgangslausa stríðið hélt því áfram. Milljónir ungra manna féllu fyrir ekki neitt. Það var engin málsstaður sem verið var að berjast fyrir.

Þýskur hermaður skrifaði heim eftir jóladagsvopnahléð 1914:

"Mikið var þetta yndislegt, en samt skrýtið"

Haldið hafði verið að ungu mönnunum að óvina hermennirnir væru samviskulausar skepnur,annað kom í ljós aðfangadagskvöld 1914. Ungir menn sem voru að berjast á fölskum forsendum. Því miður voru stjórnmálamennirnir og herforingjaráðin svo heillum horfin að þeir gátu ekki horft á fáránleika stríðsins og samið vopnahlé og koma á friði.

Æskilegt væri að stjórnmálaforingjar í dag gæti tekið sér þýsku og bresku hermennina sem sömdu vopnahlé upp á sitt eindæmi á aðfangadagskvöld 1914 sér til fyrirmyndar og sameinast um að gera heiminn betri og stuðla að bættum hag og aukinni velferð í anda jólaboðskaparins, sem er: 

Friður, fyrirgefning og kærleikur.

Vona kæru vinir að þið eigið öll gleðileg jól.

Gangið á Guðs vegum.


Nú tekur alvaran við.

Ríkisstjórnarsamstarf er ekki lautarferð táningsstúlkna með tilfallandi skrækjum og hlátrasköllum. Í aukaþætti Silfursins í gær mátti á stundum ætla að þannig litu stöllurnar, Inga, Gerða og Rúna á málin.

Viðfangsefni ríkistjórna eru dauðans alvara og miklu skiptir að vel takist til og fólk nálgist viðfangsefnin í samræmi við sjónarmið sín vit og skoðanir. Lausnir vandamála eru ekki fólgnar í fleðurlátum eða gleðileikjum vinkvenna.

Í stjórnarsáttmálanum kennir ýmissa grasa eins og gengur og markmiðin um margt háleit, en á það skortir að gerð sé grein fyrir með hvaða hætti á að framkvæma allt það sem ríkisstjórnin ætlar að gera nema stefnt sé í enn meiri ríkissjóðshalla. 

Stefna ríkisstjórnarinnar er að ná hallalausum fjárlögum og hækka ekki skatta. Hvorutveggja frábær markmið. En þá reynir á það sem fráfarandi ríkisstjórn lét aldrei steyta á, en það er að forgangsraða takmörkuðum fjármunum. Hætt er við að þegar þangað kemur verði fleður- og gleðilætin minni á stjórnarheimilinu en í silfurþætti gærkvöldsins. 

Ánægjulegt var að sjá að ríkisstjórnin ætli að huga að íslenskri tungu, menningu og náttúru, það verður raunar ekki gert nema Samfylkingin og Viðreisn taki upp aðra stefnu en þeir fylgdu á síðasta kjörtímabili í innflytjenda- og hælisleitendamálum.

Gengið er út frá rangri forsendu í upphafi stjórnarsáttmálans þegar talað er um að rjúfa þurfi kyrrstöðu og þar hlítur að vera átt við atvinnulífið.  Þar hefur og er heldur betur ekki um kyrrstöðu að ræða en sótt fram á mörgum sviðum. Það er raunar eitthvað sem ríkisstjórnir hafa lítið með að gera. Ríkisstjórnir vinna best að öflugara atvinnulífi með því að láta ríkið ekki þvælast fyrir og gera ekki upp á milli fólks. 

Þar vantaði í stjórnarsáttmálann nauðsynlega stefnumótun um skattlagningu fyrirtækja og þá sérstaklega að afnema ívilnanir í virðisaukaskatti fyrir ferðaþjónustuna, stærstu atvinnugreinina landsins og fráleitar endurgreiðslur til sumra annarra atvinnugreina eins og t.d. kvikmyndagerðar. Til að móta þjóðfélag á jafnréttisgrundvelli verða allir að sitja við sama borð, en ekki hlaða í spillingarbálköstin með mismunun borgaranna og atvinnugreina.

Í pistli sem þessum er ekki hægt að gera stjórnarsáttmálanum viðhlítandi skil, en ég velti fyrir mér nokkrum atriðum. Talað er um að taka upp réttlát auðlindagjöld t.d. af útgerðinni. Hvað er það? Hver er dómari um réttlætið og hvaða stefnumörkun er þetta yfirhöfuð. Í raun er þetta ekki stefnumörkun heldur orðagjálfur.

Það er góð og gleðileg stefnumörkun að hækka elli- og örorkulífeyri í samræmi við launavísitölu og með ólíkindum að fráfarandi ríkisstjórn skuli hafa þybbast við að gera það.

Fjölgun lögreglumanna er löngu tímabær og nauðsynleg. En það þarf líka að setja víðtækari reglur um heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna og aðgerða vegna þeirra.

Evrópusambandsdraumur Viðreisnar og Samfylkingar fær rými og ákveðið að þjóðin skuli greiða atkvæði um hvort stefna eigi að aðilda að efnahagslega hnignandi Evrópusambandi eða ekki. Lýðræðissinnar geta ekki haft á móti því að þjóðin sjálf kveði upp sinn dóm og þá reynir á að við fullveldissinnar höldum vöku okkar og komum í veg fyrir aðild að ES með ötulli baráttu fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands.

En nú fær ríkisstjórnin sína hveitibrauðsdaga eins og nýar ríkisstjórnir fá að jafnaði og allra hagur að hún nái að vinna sem best úr málum meðan hún nýtur skjólsins af þeim.

 

 


Sólstöðustjórnin

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tekur við völdum í dag á vetrarsólstöðum. Sólstöður er það kallað þegar sólin stendur kyrr. Eftir vetrarsólstöður fer sólin að hækka á lofti. 

Því má líkja við þær væntingar sem margir hafa fyrirfram til væntanlegrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin fær gott leiði og þjóðhagslega skiptir öllu máli að hún spili vel úr sínum spilum.  

En sem komið er vitum við lítið um áherslur væntanlegrar ríkisstjórnar, en það gæti komið í ljós í stjórnarsáttmálanum og vonandi er þar greint á milli aðalatriða og aukaatriða í þeirri moðsuðu sem stjórnarsáttmálar almennt eru.  

Okkur er gjarnt að búa til sérstök nöfn á ríkisstjórnir. Um er að ræða ráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur. Morgunblaðið kallar hana valkyrjutjórnina. Valkyrjur höfðu það aðal hlutverk, að sækja fallna hermenn og flytja þá til Valhallar. Ekki góð tivísun fyrir ríkisstjórn.

Miðað við væntingar til hinnar nýju ríkisstjórnar væri eðlilegra að vísa til skapanorna. En skapanornir vísa til þeirra sem búa til nýja hluti, verk og hugmyndir. 

Skapanornirnar voru þrjár. Urður, Verðandi og Skuld og þeirra hutverk var að ausa vatni á lífsins tré "Ask Yggdrasil" svo það visnaði ekki. Urður er myndgervingur fortíðar, sem gæti átt við Þorgerði Katrínu, Verðandi nútímans sem sómir þá Ingu Sæland og Skuld vísar til framtíðarinnar, sem er þá Kristrúnar, en gengi og/eða gengisleysi ríkisstjórnarinnar veltur fyrst og fremst á því hve vel henni tekst til við að móta framtíðina. 

Hvað sem þessu tilgangslitla hjali líður þá tekur alvaran við.

Þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu, þá óska ég nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í vandasömu hlutverki. 


Rauðhetta hin nýja

Mér skilst að í upphaflega ævintýrinu af Rauðhettu og úlfinum, hafi Rauðhetta látið glepjast af fagurgala úlfsins með þeim afleiðingum að hann át hana upp til agna. 

Spurningin er alltaf: Verður hið illa gott með því að yfirbuga aðra illsku?

Vestrænir stjórnmálamenn virðast illa haldnir af Rauðhettu heilkenninu eins og kemur nú í ljós hvað varðar Sýrland, en nú streyma að fulltrúar Evrópusambandsins og fleiri Evrópuríkja til að bjóða fram peninga og aðra aðstoð.

Hinn nýi foringi í Sýrlandi sem kallar sig Al-Jolani er í Al Kaída og hefur sagst vera stoltur Íslamisti. Frá 18 ára aldri hefur hann drepið fólk í nafni Íslam. En núna hefur hann látið snyrta hár sitt og skegg og klætt sig úr fötum Íslamskra vígamanna og farið í hefðbundinn einkennisbúning hermanna að hætti Fidel Castro og Zelensky. 

Er það trúverðugt að þessi maður hafi allt í einu umbreyst í umburðarlyndan stjórnmálamann?

Vissulega getur fólk breyst og þroskast. En það er engin ástæða til að hlaupa til áður en nýir stjórnendur sýna á spilin. Vesturlönd ættu að læra af reynslunni, en fjárstuðningur þeirra til múslímska bræðralagsins eftir að það tók yfir í Egyptalandi var óafsakanlegur og leiddi m.a. til ofsókna gegn kristnu fólki.

Er ekki ástæða til að vestrænir stjórnmálaleiðtogar læri af reynslunni og láti ekki teyma sig á asnaeyrunum. Eða vera eins auðtrúa og Rauðhetta var.

Með sama áframhaldi lendum við líka í gini úlfsins

 

 

 


Umbúðaþjóðfélagið

Aðstoðarmenn formanna flokkanna sem hafa átt í stjórnarmyndunarviðræðum rembast við að orða sem best stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar Kristrúnar Flosad. 

Á árum áður meðan stjórnmálamenn þurftu að vinna vinnuna sína en voru ekki með aðstoðarfólk á hverju strái, gengu stjórnmálaforingjarnir frá stjórnarsáttmálum, en nú sjá aðstoðarmennirnir um það og foringjarnir koma síðan að léttum yfirlestri áður en skjalið er signerað sem varði á veraldlegri vegferð komandi ríkisstjórnar. 

Vandinn við ritun stjórnarsáttmála er að segja sem minnst í sem flestum orðum og stefna að sem flestu án þess að lofa nokkru. Stjórnarsáttmálinn verður þá iðulga eins og svissnesku ostur með fleiri holum en mat. Fróðlegt verður að sjá hversu vel tekst til núna, að búa til miklar umbúðir utan um lítið. 

 


Til hvers orkupakkar

Mér er það hulin ráðgáta af hverju íslenskum ráðamönnum fannst það helst vera til varnar sínum sóma, að fara í orkusamstarf við Evrópusambandið (ES)og aðlaga okkar reglur varðandi raforku að tilskipunum sambandsins í orkupökkum 1,2 og 3 o.s.frv.

Við þurftum aldrei að vera þáttakendur í þessu og það var engin auljós hagnaður eða kostur við að tengjast þessu regluverki. En ráðamenn vildu ekki hlusta á varnaðarorðin og nú koms afleiðingarnar í ljós. 

Skýrasta dæmið er aukinn kostnaður fyrir neytendur. Með orkupökkunum eru búnir til milliliðir sem nýta sér tækifærið og afleiðingin verður að aðilar sem enga orku framleiða stórgræða á kostnað neytenda. 

Stjórnmálamenn sem vilja búa í sátt við þjóðina og móta reglur sem eru almenningi og framleiðslufyrirtækjum til hagsbóta ættu því að segja sig frá orkusamstarfi ES og  móta reglur sem eru í samræmi við íslenska hagsmuni, neytenda og framleiðenda. 

Mun þessa verða getið í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar?

 


Ber engin ábyrgð

Kúðrið við Álfabakka þar sem stærðarinnar geymsluhús rís nokkrum metrum frá íbúðarblokk er eitt alvarlegasta skipulagsslys í Reykjavík og er þó samkepnnin í þeim efnum mikil. 

Borgarstjóri segir af gefnu tilefni: 

„Ég furða mig á að borg­in, um­hverf­is- og skipu­lags­svið og upp­bygg­ing­araðilarn­ir sem létu hanna þetta hús skyldu ekki átta sig á því hvaða viðbrögð þetta hús myndi fá.“

Bíðum nú við. Borgarstjóra finnst alvarlegast að skipulgssvið borgarinnar og lóðarhafar skyldu ekki átta sig á hvaða viðbrögð þetta hús mundi fá.  Það eru semsagt viðbrögðin sem eru vandamálið ekki algjört skipulagsklúður og aðfarir að venjulegu fólki sem hefur mikil áhrif á líf þess og vellíðan en ekki nóg með það. Þetta klúður verðfellir íbúðir fólksins líka um margar milljónir 

Er það virkilega svo að það sé engin af holdi og blóði sem ber ábyrgð á þessu rugli. Einstaklingur eða einstaklingar. Eru það einhver ópersónuleg umhverfis- og skipulagssvið sem bera ábyrgðina og lóðarhafinn að átta sig ekki á að ruglið mundi valda verðskuldaðri fordæmingu. 

Nú getur borgarstjóri gert annað tveggja, að feta í fótspor fyrirrennara síns alþingismannsins Dags B. Eggertssonar og láta sig hverfa, fara t.d. í veikindaleyfi meðan stormurinn gengur yfir eða það sem væri enn mennilegra af honum, að gera það sem þarf að gera. Það er í fyrsta lagi að bjóða íbúum að kaupa íbúðirnar sem verða fyrir tjóni vegna skipulagsruglsins og gera aðrar þær ráðstafanir sem hægt er að gera til að draga sem mest úr afleiðingum þessa og svo ekki sé talað um, að þeir sem ábyrgð bera verði látnir bera ábyrgð. 

Verði engin eða engir dregnir til ábyrgðar vegna þessa rugls, þá situr borgarstjóri einn uppi með ábyrgðina ásamt meirihluta sínum í borgarstjórn. 


mbl.is Klúðrið á ábyrgð borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúnar stjórnarmyndunarviðræður

Líklegur forsætisráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir stjórnamyndunarviðræður snúnari vegna þess að líkur séu á meiri halla á ríkissjóði en búist var við. 

Það ætti ekki að koma Þorgerði sem setið hefur lengst allra á Alþingi á óvart, að afkoma ríkissjóðs sé verri en fjárlög mæla fyrir um. Hún hefur á þingferli sínum samþykkt fjáraukalög á hverju ári vegna þess að halli var meiri á ríkissjóði en ætlað var. Hún Kristrún og Inga tóku auk heldur þátt í afgreiðslu fjárlaga fyrir nokkrum dögum. Hvað var þá hulið sem er að koma í ljós núna?

En það er minna til að eyða en þær stöllur höfðu ætlað.

Stjórnmálamenn þurfa að forgangsraða og eyða ekki um efni fram. Eitthvað sem fráfarandi ríkisstjórn hafði allt of litlar áhyggjur af og þær, sem sitja við stjórnarmyndun höfðu ef eitthvað var helst áhuga á að eyða enn meiru. 

Nú þegar horft er framan í að ábyrgðin flytjist á hendur pilsanna þriggja þá er vandinn snúnari. 

Á sama tíma er gleðilegt, sem Þorgerður upplýsir, að það sé algjör samhljómur að styðja við Seðlabankann svo hann geti haldið áfram sínu "góða verki." Hvernig samræmist það sjónarmiðum Flokks fólksins sem vildu setja neyðarlög á Seðlabankann vegna illsku hans gagnvart fólkinu í landinu. 

Það verður gaman fyrir fyrrverandi formann VR og fyrsta þingmann Suðurkjkördæmis bæði úr Flokki fólksins, að kokgleypa "góð" verk Seðlabankans nokkrum dögum eftir að þau sögðu þennan banka kyrkingaról um velferð fólksins í landinu. 


mbl.is Verri afkoma tefur viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2034

Fifa alþjóða knattspyrnusambandið ætlar að beita afbrigðilegum aðferðum til að tryggja að heimmeistaramótið í knattspyrnu árið 2034 verði í þursaríkinu Saudi Arabía. 

Þegar valið stóð á sínum tíma á milli Bandaríkjanna og Abu Dabi um heimsmeistaramótið 2022 þá sóttu Bandaríkjamenn það fast að fá að halda heimsmeistaramótið og sendu hina bestu samninga- og sendimenn til að tryggja að þeir hrepptu hnossið. 

Fyrir bandarísku sendinefndinni fór Bill Clinton fyrrum forseti og sagt er að þegar hann kom upp á hótelið sitt eftir að Bandaríkjunum hafði verið hafnað en Abu Dhabi valið, að þá hafi hann í reiði grýtt forláta vasa í næsta vegg með tilheyrandi afleiðingum. 

Ljóst var afhverju Abu Dhabi var valið umfram Bandaríkin og þótti flestum nóg um. 

En nú skal það vera Saudi Arabía. Ríkið sem virðir ekki réttindi kvenna auk ýmissa annarra mannréttindaskerðinga í samræmi við Sharia lögin. En það þvælist ekkert fyrir stjórnendum FIFA. Vegna þess að Mammon ræður för, en hvorki mannréttindi, siðfræði eða annað. 

Sr. Friðrik Friðriksson merkasti æskulýðsleiðtogi landsins sagði við Valsmenn eftir að hafa stofnað félagið:  Látið ekki kappið bera fegurðina ofurliði.  

Nú hafa stjórnarmenn í Fifa ákveðið að láta peningana bera allt annað ofurliði. Sýnir enn og aftur hnignun okkar menningarheims og fráhvarf frá þeim gidum, sem gerðu Evrópu að forustuálfu í heiminum. 


mbl.is Gestgjafalönd HM 2030 og 2034 staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of snemmt að fagna

Stjórnmálamenn í Evrópu og Bandaríkjunum fagna falli Assad. Sumir tala um sigur lýðræðisins.  Fjarri fer því að bylting sem stýrt er af öfgafullum Íslamistum sé sigur lýðræðis og hætt er við að ný einræðisstjórn taki við af hinni fyrri jafnvel enn verri en hin fyrri. Koma verður í veg fyrir það.

Í Sýrlandi búa mörg þjóðarbrot, sem aðhyllast mismunandi trúarbrögð. Þessi þjóðrabrot hafa lifað saman í þokkalegum friði, en helsta ógnin varð framrás ISIS liða, sem hraktir voru til Idlip fyrir nokkrum árum, en láta nú á sér kræla á ný ásamt öðrum hryðjuverkahópum, sem fagna nú sigri.

Ástandið í Sýrlandi er bæði hættulegt og eldfimt. Nú reynir á að komið verði í veg fyrir að nýtt Talibana ríki raungerist í Sýrlandi. Þó helsti talsmaður uppreisnarmanna sé mjúkmáll í dag, þá ber að hafa í huga að þannig töluðu talsmenn Talibana í Afganistan líka þegar ameríski herinn var að fara úr landinu. 

Það virðist ganga illa fyrir vestræna stjórnmálamenn að átta sig á hverskonar óöld, frelsisskerðingar, kvennakúgun og þjóðarmorð fylgja alltaf yfirráðum öfgafullra Íslamista. 

Nú reynir á að vestrænir stjórnmálamenn hlutist til um það, að fólk í Sýrlandi fái að njóta almennra mannréttinda, aðhyllast þá trú sem það vill og landinu verði stýrt á átt til þess lýðræðis sem gæti gefist best í landinu. 

Það má ekki láta hryllingin sem fylgdi  ISIS  endurtaka sig. Þar voru konur sigraðra þjóðarbrota seldar mannsali á opinberum uppboðsmörkuðum, hommum hent fram af húsþökum, kristið fólk tekið af lífi í fjöldaaftökum og vestrænir hjálparstarfsmenn skornir á háls og morðin tekin upp á myndskeið sem síðan voru sýnd og send fjölmiðlum.  

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 14
  • Sl. sólarhring: 426
  • Sl. viku: 4230
  • Frá upphafi: 2449928

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 3941
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband