Leita í fréttum mbl.is

Fyrr má nú aldeilis fyrrvera

Þeir Guðmundur og Eyjólfur voru vinir, þó þeir væru ósammála í pólitík. Þeir deildu oft hart. Eitt sinn var Guðmundur í heimsókn hjá Eyjólfi og talið barst að frumvarpi sem flokkur Eyjólfs bar fram og fann Guðmundur því allt til foráttu og fór mikinn. Eyjólfur stóð þá upp og bað Guðmund vinsamlegast um að fara og sagði: "Það er óþolandi að þurfa að viðurkenna að þú hafir rétt fyrir þér og það í mínu húsi."

Mér varð álíka við þegar ég las orðaskipti formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra í gær vegna ríkisfjármála og efnahagsstefnunnar. Ábyrgðarlaus eyðslustefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur undir fjármálastjórn formanns Sjálfstæðisflokksins og áframhaldandi eyðslustefna nú undir stjórn formanns Framsóknarflokksins er langt frá því að vera sjálfbær og andstæð grunngildum Sjálfsstæðisstefnunnar. 

Þessi ósjálfbæra helstefna í ríkisfjármálum er algjörlega andstæð hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um aðhald og sparnað í ríkisfjármálum og takmörkuð umsvif hins opinbera. Má vera að þetta algjöra frávik frá stefnu flokksins valdi stöðugt minna fylgis hans skv. skoðanakönnunum. 

Er virkilega engin þingmaður í bergmálshelli þingflokks Sjálfstæðisflokksins utan Óla Björns Kárasonar,  sem er ósammála þeirri ríkishyggju og ofurskattlagningu sem fylgt hefur verið undanfarin ár og meiningin er að fylgja áfram.

Fari svo fram áfram, er hætt við að það verði ólíkt því sem var með heimili Eyjólfs, þegar hann vísaði Guðmundi vini sínum á dyr að í þess stað vísi kjósendur núverandi valdhöfum á dyr og vistaskipti verði á stjórnarheimilinu. 

En er einhvers betra að vænta taki annar ríkishyggjuflokkur við af þeim sem nú stjórna? Sé ekki svo, hvað eiga kjósendur þá að gera? 


Að sjálfsögðu voru það hinir gjörspilltu Píratar

Í færslu fyrr í dag varð mér það á, að segja að Viðreisn og Flokkur fólksins bæru ásamt Samfylkingu Dags B. Eggertssonar ábyrgð á siðleysinu og spillingunni við að gefa olíufélögum milljarða af peningum Reykvíkinga. 

Þar varð mér á í messunni. Að sjálfsögðu var það ekki hin vandaði borgarfulltrúi Flokks fólksins Kolbrún Baldursdóttir, sem kom þar að málum heldur hinir siðlausu Píratar, sem sjá aldrei bjálkann í sínu eigin auga, en jafnan flísina í augum náungans.

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og nú Framsóknarflokkurinn bera alla ábyrgð á þessum siðlausa og gjörspillta gjafagjörningi. 


Sóðaskapur

Pólitísk spilling er það fyrsta sem kemur upp í hugann, þegar þær staðreyndir sem komu fram í úttekt Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur eru skoðaðar. Svo virðist sem vanhæfni, pólitísk spilling og vinargreiðar hafi fylgt meirihlutastjórn Dags B. Eggertssonar á Reykjavíkurborg.

Á þessu bera samstarfsflokkar Dags í Reykjavík, Viðreisn og Flokkur fólksins fulla ábyrgð. 

Það er sjálfstætt rannsóknarefni út af fyrir sig af hverju stjórnendur RÚV beittu sér gegn því af öllum mætti, að þáttur Maríu Sigrúnar fengist ekki sýndur. Loksins tókst þó að sýna hann og þá allt í einu þá -loksins- áttuðu sumir sig á því að þeim var ekki stætt á því lengur að reyna að breiða yfir óhroðann. 

Borgarstjórinn í Reykjavík tilkynnti að innri endurksoðun Reykjavíkur eigi að skoða málið skv. tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. En er það eðlilegt? Er málið ekki miklu stærra og alvarlegra og geri kröfu til að óháður aðili en ekki hluti af stjórnkerfi Reykjavíkurborgar kanni málið til hlítar. 

Getur Dagur B. Eggertsson setið sem formaður borgarráðs meðan könnun á þessu alvarlega máli fer fram?

Það eru síðan sjálfstæð rannsóknarefni út af fyrir sig: 

Hversvegna ekki var brugðist við gagnrýni Vigdísar Hauksdóttur þá borgarfulltrúa á sínum tíma. 

Hvað olli því, að stjórnendur Kveiks og RÚV reyndu af öllum mætti að koma í veg fyrir að þáttur Maríu Sigrúnar yrði sýndur á RÚV. 

Getur verið að núverandi borgarstjóri hafi ekki vitað af samningum Dags. B. Eggertssonar við olíufélögin um beinsínstöðvarnar á tveggja ára náms- og undirbúningstíma sínum til að taka við sem borgarstjóri?

Getur borgarstsjóri frýjað sig ábyrgð á a.m.k. vítaverðri stjórnsýslu Dags B. Eggertssonar í þessu máli?

Því miður virðist svo sem spilling í íslenskri stjórnsýslu, sem teygir anga sína inn í RÚV, sem hefur reynt yfirhilmingu í málinu sé mun víðtækari en margir höfðu ætlað.  

Það mein verður að rífa upp með rótum hvar svo sem það bærir á sér. 

Þess vegna er yfirborðsskoðun innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar ekki nægjanleg til að fullnægjandi rannsókn fari fram á þessu spillingarmáli. 


Það er auðvelt að bæta þjónustuna

Fyrir nær hálfri öld var ég í New York á leið til Washington DC. Þegar ég steig út úr leigubílnum við byggingu flugfélagsins sem ég flaug með kom vörpulegur stór hörundsdökkur maður og spurði;

You flying National? Ég sagði já. Hvert sagði maðurinn og tók töskuna mína eftir að ég hafði sagt frá áfangastað og setti hana niður í stærðar hólf fyrir utan bygginguna. og það skipti engum tökum og sagði mér að hvaða hliði ég ætti að fara. Ég var kominn að brottfararhliðinu tæpum tíu mínútum eftir að ég steig út úr leigubílnum. 

Mér varð svolítið um og bjóst ekki við að sjá töskuna aftur en sá hörundsdökki var svo valdsmannslegur að ég hreyfði ekki mótmælum. Taskan skilaði sér og ég sá að þarna var bara góð þjónusta. 

Nú 50 árum síðar á tölvuöld fyndist manni að það ætti að vera einfaldara að gera hlutina á flugvöllum til þæginda fyrir farþega. Fólk ætti að geta fá send gögn til að geta innritað og losað sig við  farangur við komu að flugstöð án vafninga og engin þyrfti að fara að innritunarborði þar sem farþegar innrita sig fyrirfram og gætu gengið beint að öryggisleitinni, sem líka mætti einfalda, þar sem megin hluti farþega er ekki fólk sem þarf að vera í einhverri reikistefnu við. 

Á ferðalögum hef ég alltaf með mér krossmark, Jesú á krossinum. Það bregst sjaldan  við öryggisleit, að mér er gert að opna handfarangur og sýna krossmarkið.

Við nánari hugsun er það e.t.v. ekkert skrýtið. Jesú er sá byltingarmaður, sem hefur með kenningum sínum um frið, kærleika og að allir séu jafnir fyrir Guði þar sem Guð fari ekki í manngreinarálit ollið meira umróti og jákvæðum breytingum en nokkur annar. En að sama skapi er hann kenningar hans og kristið fólk engin ógn við flugfarþega eða flugöryggi nema síður sé.

Sú ógn kemur frá öðrum en kristnu fólki frá trúarbrögðum sem valda ógn,ófriði og ójafnvægi hvar sem er í heiminum.

 


Hvernig gat þetta gerst?

Kóvíd hræðslan er liðin hjá. Eðlileg mannleg samskipti eru nú til staðar. Nú eigum við að horfa til baka og huga að því hvernig það sem gerðist í Kóvídinu gat gerst í lýðfrjálsu landi.

Grundvallar mannréttindum um frelsi og ábyrgð einstaklingsins var vikið til hliðar og alræðisvald ríkis,"sérfræðinga" og fjölmiðla,tók yfir. Með auglýsingum og óttastjórnun (líf þitt er í hættu) og siðferðilegum ásökunum (þú ógnar lífi annars fólks), útiloka andmæli og banna rökræður ollu fjöldahræðslu sem nýja valdastétt alræðisvaldsins nýttir sér út í æsar.

Mannréttindum var vikið til hliðar með markvissum áróðri m.a um að fólk mundi deyja og börnin þeirra og barnarbörn ef það hlýddi ekki.

Mín kynslóð barðist fyrri hluta ævinnar fyrir frelsi og lýðræði gegn helsi ógnarstjórnar kommúnismans. Forusturíkið Sovétríkin varð gjaldþrota og Kína tók upp kapítalískt efnahagskerfi að mestu leyti þó alræðisstjórn kommúnismans sitji þar áfram og beri ábyrgð á Kóvíd fárinu.

Við hægra fólkið, baráttufólk fyrir markaðshyggju takmörkuðum ríkisafskiptum, frelsi og mannréttindum sigruðum, þó sá sigur hafi síðan glutrast að mestu leyti niður.

Þá voru allt of margir sem ímynduðu sér, að ekki þyrfti framar að berjast við ógnar- og einræðisstjórnir. Hvernig gat þá kóvíd óttinn tekið öll lýðréttindi og eðlilegar lýðræðislegar umræður úr sambandi? Allt í einu var frelsi fólks takmarkað meir en nokkru sinni fyrr. Fólki var meinað að heimsækja aldraða foreldra,ættingja eða jafnvel maka á sjúkrastofnanir og öldrunarheimili að viðlagðri refsingu. Börn máttu ekki faðma afa og ömmu líka að viðlagðri refsingu. Margt gamalt fólk og sjúklingar dóu úr einmannaleik og leiðindum, en það skipti hina nýju valdastétt ekki máli.

Þau sem voru á móti takmörkunum og lokunum fyrirtækja vegna efnahagslegra afleiðinga voru sökuð um að vera vont fólk, sem vildi fórna lífi fólks vegna hagnaðarsjónarmiða. Ríkisvaldið tók á sig glórulausan kostnað, sem við súpum seyðið af í dag, með um 200 milljarða vaxtakostnaði ríkissjóðs á ári vegna sóunar- og eyðslustefnu ríkisins í kóvídinu. Sjálfstæðisflokkurinn brást því hlutverki sínu að gæta aðhalds og eyða ekki um efni fram og hefur ekki fundið fjölina sína aftur þó kóvídið sé löngu búið. 

Samspil stjórnmála, fjölmiðla og stjórnenda heilbrigðismála gerði fólk ofsalega hrætt. Tjáningarfrelsið og fleiri mannréttindi voru tekin úr sambandi og þaggað var niður í þeim heilbrigðisstarfsmönnum, sem höfðu aðra skoðun en kerfið. Þeir sem andmæltu þeim fasísk-, kommúnísku ráðstöfunum sem gripið var til voru óvinir ríkisins.

Fara eftir vísindunum og hlýða Víði var síbylju mantran. En það voru stundum engin vísindi heldur geðþóttaákvarðanir sóttvarnalæknis. 

Ríkisvaldið gerir ekkert til að kanna hvað fór úrskeiðis, þó ekki væri til annars en að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig. Hvað með bólusetningar með tilraunabóluefnum. Hvaða tjóni hafa þær valdið og hvaða tjóni eru þær líklegar til að valda? Má tala um það í dag?

Lýðræði, framfarir og mannréttindi byggja  á gagnrýnni hugsun og umræðum. Við megum aldrei aftur fórna mannréttindum vegna öryggis og fela alræðisstjórn völdin.


Ég forseti

Fundur RÚV með frambjóðendum til forseta var óvenju vel heppnaður. Rennslið var gott, spyrlarnir héldu sig þokkalega á mottunni og voru málefnalegir nema e.t.v. vottaði fyrir nokkru óþoli gagnvart Ástþóri Magnússyni, en að því slepptu gat þetta varla verið betra.

Frambjóðendur koma úr mismunandi umhverfi. Sumir eru alvanir að tjá skoðanir sínar og miðla upplýsingum og það leyndi sér ekki hvað frambjóðendur eins og Arnar, Baldur,Höllu Tómasdóttur og  Katrínu varðaði, sem öll komust mjög vel frá þessum þætti og þau Katrín, Baldur og Arnar komu að mati þess sem þetta ritar best frá þessum kappræðum frambjóðenda og þar tókst Katrínu Jakobsdóttur best upp.

Jón Gnarr stóð sig mjög vel og tókst að koma inn nokkrum léttleika í þáttinn sem gerði hann skemmtilegri. Ástþór Magnússon kom á óvart og stóð sig betur en áður og tókst að koma friðarboðskapnum og vandamálum vegna straums hælisleitenda vel til skila.

Miðað við það sem búast mátti við komumst allir frambjóðendurnir vel frá þessum þætti að einum undanskildum, sem stóð ekki undir væntingum, en vera má að sá frambjóðandi hressist þegar líður á eins og Eyjólfur forðum. Það kemur í ljós.   

 


Mótmæli fávísu dekurkynslóðarinnar

Það er dapurlegt að horfa upp á háskólastúdenta í lýðræðisríkjum Evrópu og Bandaríkjunum standa fyrir mótmælum og kyrja möntru hryðjuverkasamtaka Hamas um að eyða öllum Gyðingum í Ísrael.

Stúdentamótmæli hafa almennt beinst að því að ná fram mannréttindum t.d. tjáningafrelsi og mótmæla ófrelsi og nauðung. Stúdentar í Íran efndu til víðtækra mótmæla til að krefjast lágmarksmannréttinda fyrir konur í Íran í fyrra. Þau mótmæli voru barin niður af skefjalausri hörku og þúsundir ungra baráttumanna og kvenna lágu í valnum. Það hreyfði ekki við þeim stúdentum sem nú stilla sér upp við hlið hryðjuverkasamtaka Hamas, sem hafa gerst sek um svívirðilegan skepnuskap m.a. morð og nauðganir auk ýmiss annars.

Miðað við orðfæri mótmælendanna þá virðist helsta inntak mótmælendanna vera mótmæli gegn eigin menningu og hatur á öllu vestrænu, sér í lagi Bandaríkjunum. Í samræmi við það sem Douglas Murray skrifar í bók sinni „War on the west. (stríðið gegn vestrinu) Þessum mótmælendum hefur verið kennt, að allt illt stafi frá Vesturlöndum þeim er kennt að við eigum að skammast okkar fyrir sögu okkar og menningu sem hafi alla tíð stefnt að því að tortíma jörðinni m.a. með kynrænu atferli sem leitt hafi m.a. til hnattrænnar hlýnunar.

Sú mantra var einmitt kyrjuð af íslensku sendinefndinni á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn þar sem Svandís Svavarsdóttir ráðherra var forsöngvari.

Þeim er kennt að fyrirlíta forfeður sína og þau afrek sem unnin hafa verið í vestrænum lýðræðisríkjum, sem hafa skapað bestu lífsafkomu almennings fyrr og síðar, mesta frelsið og mestu mannréttindin. Fólk eins og dekurkynslóð mótmælendanna, sem neitar að horfst í augu við þessar grundvallarstaðreyndir á verulega bágt, en það breytir því ekki að framkoma þeirra og atferli nú er þeim til skammar og háskólasamfélagi nútímans, sem virðist í vaxandi mæli víða um heim eiga við mikinn tilvistarvanda að etja.

Fávísa dekurkynslóð háskólastúdenta sem nú stillir sér upp við hlið dauðasveita Hamas virðist telja, að öll fátæk ríki séu náttúrurlega góð og rík lönd séu að sama skapi af sömu ástæðu slæm. Vestræn ríki séu kúgarar og Klerkastjórnina í Íran telur þetta fólk vera bandamann sinn í baráttunni gegn hinum mikla Satan.

Mótmælendurnir virðast gjörsneyddir þekkingu á nútíma sögu sem og fyrri tíma sögu og hafa nánast enga trúfræðilega þekkingu vita m.a. ekki að Íslam stefnir að heimsyfirráðum og kúgun allra sem ekki játa Íslam.

Þessir krakkar veifa fána samkynhneigðra og transara og virðast ekki vita að samkynhneigt fólk er hundelt og drepið miskunarlaust í þursa- og einræðisríkjunum sem játa Íslam m.a. á Gasa svæðinu.

Það er dapurlegt að verða vitni að því hversu illa er komið varðandi menntun og menningu stórs hóps háskólastúdenta í dag. Þekkingarleysi og skilningsleysi þessa hóps er alvarlegt mál. Það versta er þó að verða vitni að þeim skefjalausa rasisma gagnvart Gyðingum og skefjalausu Gyðingahatri, sem birtist hjá þeim, sem í orði kveðnu segjast berjast gegn rasisma.

Það sem Evrópa og að stórum hluta lönd Íslam þurfa að skammast sín fyrir úr sögu sinni er sá skefjalausi ofstopi, hatur og fjöldamorð sem þau hafa unnið á Gyðingum í margar aldir, sem náði fullkomnun vitfirringarinnar á dögum 3.ríkisins um miðja síðustu öld. Velviljuðu fólki fallast nánast hendur við að horfa upp á forsmekkin af þeim hryllingi, sem nú virðist vera að búa um sig í háskólasamfélagi Vesturlanda.

Gegn því verður að bregðast af hörku.


Hinir útvöldu

Óbreyttur alþýðumaður Eiríkur Ingi Jóhannsson hefur gefið kost á sér í kjöri til forseta Íslands. Þegar hann og ferill hans er skoðaður sést að þar fer einarður maður, sem gefur sig ekki jafnvel ekki í fulla hnefana, hvort heldur er í baráttu við náttúruöflin eða stórfyrirtæki. E.t.v. er það þessi eðliskostur þeirra sem samsamað geta sig með Bjarti í sumarhúsum, sem gerir Eírík Inga athyglisverðan sem frambjóðanda. 

Einn frambjóðenda til forseta, vekur Eiríkur athygli á því forgangsmáli, að við sem frjálst og fullvalda ríki tökum stjórn á eigin landamærum og stöðvum þá óreiðu sem þar ríkir.

Hjörtur J. Guðmundsson blaðamaður hefur vakið athygli á þeim málum í frábærum blaðagreinum sínum að undanförnu og sýnt fram á með gildum rökum hve mikilvægt það er að ganga úr Schengen.

Fullkomin óreiða ríkir á landamærunum og hefur gert í langan tíma. Fróðlegt verður að sjá hvort aðrir frambjóðendur taka undir með Eiríki Inga, eða hvort fjölmiðlar og meðframbjóðendur hans reyna að þegja þessi sjónarmið í hel.

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum forseti gerði eitt sinn grein fyrir því sjónarmiði, að hingað ættu ekki að streyma peningar frá auðveldum olíugróðans til að byggja moskur og viðræðum við forustumenn þess ríkis sem beitt hefur sér fyrir moskubyggingum í Evrópu. Þetta ríki Saudi Arabía tekur ekki við neinum hælisleitendum,þó þeir séu frá Sýrlandi, Palestínu, Líbanon eða Íran, en sendir þá til Evrópu.

Sjálfstæði og fullveldi Íslands er viðkvæmt mál og smáþjóð þarf alltaf að vera á verði gagnvart þeim öflum sem vilja ná tökum, stjórnmálalega,viðskiptalega eða trúarbragðalega hvort heldur,  það er Evrópusambandið, Davos eða Íslam. 

 

Ísland sem sérstakt ríki í þjóðahafinu verður að gæta að öllu því sem íslenskt er, tungu, menningu, trú og siðum. Það verður ekki gert nema þjóðin taki að fullu stjórn á landamærunum og taki upp grundvallarviðhorf hinnar hagsýnu húsmóður "að eyða ekki um efni fram". Nauðsynlegt er að á öllum stigum veljist því fólk sem hefur þá mikilvægu yfirsýn, þó skorti á kufla fræðanna.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 276
  • Sl. viku: 5871
  • Frá upphafi: 2367231

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 5503
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband