Leita í fréttum mbl.is

Vér mótmælum allir.

Þegar við gengum í EES, þá samþykktum við ákveðin atriði sem tengdust viðskiptum, þjónustu, frjálsri för og nokkur fleiri atriði. En við samþykktum aldrei, að Evrópusambandið hefði sjálfstæða skattlagningarheimild gagnvart Íslandi eða fólki og fyrirtækjum hér á landi. 

Evrópusambandið hefur samþykkt viðamiklar tillögur í loftslagsmálum vegna ímyndunar um manngerða hlýnun jarðarinnar. Tillögurnar fela í sér, að leggja verulega skatta á flutninga til og frá landinu með flugvélum eða skipum.

Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna í þessu efni og gert Evrópusambandinu grein fyrir að við værum ekki sett undir skattlagningarvald sambandsins og ætluðum okkur ekki að vera það. 

Það er ljóst, að frjáls og fullvalda þjóð, getur ekki sætt sig við að velferð og velmegun þjóðarinnar verði frá henni tekin vegna skattpíningar Evrópusambandsins. 

Við eigum hvert og eitt sem og þingmenn þjóðarinnar að rísa upp eins og gert var á þjóðfundinum í Menntaskólanum í Reykjavík í ágústmánuði árið 1851, þegar dönsk stjórnvöld ætluðu að innlima Ísland í Danmörku og Ísland hefði sömu lög og Danmörk.

Þá reis upp frelsishetjan Jón Sigurðsson sagði ég mótmæli þessu ranglæti fyrir hönd konungsins og þjóðarinnar og aðrir þingfulltrúar risu úr sætum og sögðu við mótmælum allir. 

Við eigum ekki að vera minni menn og mótmæla allir þeirri rangsleitni sem Evrópusambandið ætlar að beita okkur og gera möppudýrunum í Brussel það ljóst, að norður í Atlansthafi býr sjálfstæð þjóð, sem ætlar að vera það og hafnar að vera öðrum þjóðum háð hvað um lagsetningu og skattlagningu. 

Við höfum ekki enn framselt fullveldi okkar til Evrópusambandsins og megum aldrei gera.


Þegar staðreyndir verða hatursorðræða

Framsæknir minnihlutahópar eru iðnir við að fordæma skoðanir sem þeir telja sér mótdrægar. Í hinum vestræna heimi sækir transhópurinn hvað harðast fram og hafnar jafnvel líffræðilegum staðreyndum og fordæmir þá sem benda á þær staðreyndir.

J.K.Rowlings metsöluhöfundur Harry Potter ævintýranna hefur ekki látið þessar öfgar setja sig út af laginu. Þegar transhugmyndafræðin sagði; fólk sem fer á túr" sagði Rowlings "Það eru bara konur sem fara á túr." 

Gríðarleg hatursherferð fór þá af stað gegn Rowlings. Reynt var að banna verk hennar. Sumir brendu bækur hennar eins og nasistar forðum við bækur sem þeir töldu óæskilegar. 

Merkilegt að það skuli talin hatursorðræða gagnvart transfólki að segja frá þeirri líffræðilegu staðreynd að "það eru bara konur sem fara á túr".

Stórt  listasafn í Seattle (Museum of Pop Culture bannar nú verk Rowlings vegna öfgaskoðana og hatursorðræðu. 

Þó fólk almennt sé ekki að amast við transmálum, þá er ekki hægt að líða að þessi hópur frekist yfir allt og alla og krefjist þess að öllu verði breytt m.a. tungumálinu til að þóknast þeim. Slíkan yfirgang á að fordæma, þó viðurkennt sé að transfólk skuli hafa öll réttindi eins og aðrir í þjóðfélaginu.


Hættan færist nær

Osló er ekki örugg lengur segir lögreglustjórinn Osló og vill að stjórnvöld ræði málið. Vandinn í Osló er fyrst og fremst að kenna hælisleitendum og annarrar kynslóðar hælisleitenda. 

Í júlí hafa borgaryfirvöld í Stokkhólmi m.a. þurft að glíma við illvígar óeirðir hælisleitenda frá Eritreu. Ágreiningsmálið þar á bæ er á milli þeirra sem styðja einræðisstjórnina í Eiritreu og hinna sem eru á móti henni. 

Sama er upp á teningnum í nokkrum borgum í Þýskalandi varðandi innbyrðis átök Eritreumanna.

Athyglisvert, að það skuli vera stór hópur "flóttafólks" frá Eritreu sem lýsir yfir stuðningi við stjórninni í landinu, sem þau sögðust hafa flúið frá. Fátt sýnir betur ruglið, sem Evópubúar láta yfir sig ganga og uppskera í samræmi við það.

Svona fréttir frá nágrannalöndum okkar eru orðnar svo algengar, að fjölmiðlar greina almennt ekki frá þeim nema þeir sem eru í nærumhverfinu.

Hvað skyldu verða mörg ár þangað til lögreglustjórinn í Reykjavík krefst umræðna eins og lögreglustjórinn í Osló?

Við stefnum hraðbyri í að lenda í sömu ef ekki verri vandræðum en Osló, Stokkhólmur og Kaupmannahöfn vegna hælisleitenda vegna þess að stjórnvöld sofa á verðinum og galnir stjórnmálamenn halda að þeir sýni sérstaka manngæsku með því að hlaða inn í landið erlendum hlaupastrákum.

Er ekki kominn tími til að skipta um fólk til að stjórna. Fá fólk sem lítur á það sem hlutverk sitt að gæta hagsmuna fólksins sem er í landinu. 


mbl.is Segir Ósló ekki örugga lengur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur markaður og svartur föstudagur

Það verður stöðugt erfiðara að lifa í þjóðfélagi, sem er heltekið af fórnalambavæðingu og stórir hópar gáfumannasamfélags sjálfsvaldra leita með logandi ljósi að nýjum tilefnum til að grípa geirinn í hönd í baráttu gegn "ranglætinu" í þjóðfélaginu.

Félagar úr gáfumannasamfélaginu hafa fundið það út, að orðið "svartimarkaður" sé gildishlaðið og rasískt. Þá er spurning hvaða orð á að nota. Ekki er hægt að nota hvítur, gulur eða rauður því það er þá álíka rasískst hvað þá hinsegin markaður. 

Hvað með svartan föstudag. Svartur föstudagur var heiti á frídegi eftir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum og markaði síðar upphaf jólakaupæðisins eins og alkunna er og auglýst hér á landi sem svartur fössari. 

Vandlifað í honum heimi, þar sem sumir hafa rasisma á heilanum og aðrir afbrigðilegt kynlíf. Fyrirgefið afbrigðilegt má ekki segja ekki frekar en að segja að einstaklingur sé feitur. Nú heitir það að vera öðruvísi vaxin, athugið að þarna forðast fólk að nota orðið hinsegin því það gæti heldur betur valdið ruglingi og sálarskaða.

Í þjóðfélagi þar sem eðlilegri umræðu til að koma að sannleikanum um  woke, trans, kynþáttahyggju og íslamvæðingu, er úthýst og skilgreint sem hatursorðræða af Katrínu Jakobsdóttur og hennar líkum er vandlifað.  


Glæsilegur við hliðina á ruslinu

Nýtt flokkunarkerfi á sorpi. Nýjar tunnur og aukið framlag íbúana við sorphirðu var tekið með fögnuði af ýmsum. 

Hér á heimilinu var ég ofurliði borinn og sakaður um að vera "grumpy old man" vegna athugasemda við þetta. Síðan hefur verið flokkað, en það hefur heldur komið babb í bátinn.

Bréfpokarnir fyrir matarúrgang eru varla boðlegir og valda vandamálum og ógeði. 

Sorphirða óviðunandi. Ekki hefur verið tæmt plast og pappír úr þeim hólfum, sem þessum úrgangi er ætlað í rúman mánuð og þau  blindfull og víða eru haugar af pappír og plasti við sorptunnur í hverfinu, sem Dagur ólst upp í. 

Á sama tíma og sorphirðan er í ólagi, mætir borgarstjóri til þykjustuvinnu til að láta taka af sér myndir, þar sem hann er sagður leggur gjörva hönd á plóg. 

Þetta trix er ekki nýlunda. Stjórnmálamenn hafa iðulega látið mynda sig við hliðina á sorpinu. Sbr. þekktur borgarstjóri í New York og þá var sagt,að þetta væri eina leiðin fyrir hann til að líta vel út á mynd.  Sennilega hefur Dagur frétta af þessu. 


mbl.is Dagur reyndi fyrir sér við sorphirðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvika nú þeir sem síst skyldu?

Haustið 2005 birtust teikningar af Múhammeð spámanni í danska blaðinu Jótlandspóstinum. Nokkur Íslömsk ríki brugðust ókvæða við og stóðu fyrir refsiaðgerðum gegn Dönum. Þess var krafist að bannað yrði að teikna eða birta myndir af spámanninum og teiknaranum og ritstjórn blaðsins refsað. 

Ander Fogh Rasmussen sem var forsætisráðherra neitaði að mæta á fund með fulltrúum 11 Íslamskra ríkja til að ræða málið og biðjast afsökunar á teikningunum. Anders Fogh sagði að þetta kæmi stjórnvöldum ekki við, það væri tjáningarfrelsi í Danmörku. Það eiga Íslamistar erfitt með að skilja. Mótmælin fjöruðu út og Danmörk átti hrós skilið og fékk það fyrir að standa með grunngildum sínum gegn Íslamska ofbeldinu. 

Að undanförnu hafa nokkrir flóttamenn frá Íslömskum ríkjum staðið fyrir því að rífa Kóraninn og/eða brenna fyrir framan sendiráð nokkurra íslamskra ríkja í Danmörku og Svíþjóð. Samtök 57 íslamskra ríkja krefjast þess, að þetta verði bannað og hóta hefndaraðgerðum gegn Svíþjóð og Danmörku. 

Því miður er nú enginn Andres Fogh til að standa með tjáningarfrelsinu og þeir Lars Lökke Rasmussen í Danmörku og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía bregðast við með undirlægjuhætti til að þóknast Íslamistunum.

Við megum hvergi hvika gagnvart íslamska ofbeldinu og þurfum að sýna það einarðlega að við stöndum með okkar gildum og mannréttindum. Jafnvel þó við séum ekki sammála því sem flóttamennirnir frá íslamska ofbeldinu eru að gera, þá megum við ekki bregðast okkar grunngildum. Aldrei að víkja.

Við eigum aldrei að hvika vegna ofbeldishótanna þursaríkja. Það er meira en nóg komið af þjónkun við þessa óværu. 

 


Ekki bregst RÚV vana sínum.

Í hvert skipti, sem ólöglegum innflytjanda er vísað úr landi, á grundvelli laga, skal Áróðursstofa RÚV (ÁRUV), sem kallar sig fréttastofu, koma með einhliða frétt um nauðsyn þess, að viðkomandi, sem hefur orðið uppvís  að sækjast eftir alþjóðlegri vernd á grundvelli falskra forsendna, fái samt andstætt lögum og reglum að vera áfram í landinu.

Ein slík einhliða frétt var flutt í gær og ÁRUV veit, að yfirvöld geta ekki tjáð sig um einstök tilvik, þannig að ÁRUV situr eitt að því að birta sinn ranga og vilhalla áróður.  

Þetta þjóðfjandsamlega kennistef ÁRUV um opin landamæri, hefur verið kyrjað árum saman og í framhaldi hefur jafnan verið sótt að sitjandi dómsmálaráðherra, því miður iðulega með góðum árangri. Þannig kiknaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir jafnan í hnjáliðunum þegar hún var dómsmálaráðherra, en Jón Gunnarsson aldrei. Nú reynir á Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra, hvort hún stendur með undirmönnum sínum og lögum og reglum og kiknar hvergi. Ég hef fulla trú á að hún standi sig.

Ísland þarf allra síst,að halda áfram á þeirri braut, að skipta um þjóð í landinu. Fólk af íslensku bergi brotið verður í minnihluta í landinu með sama áframhaldi innan 20 ára.

Þjóðhollum Íslendingum ber skylda til að bregðast við og láta það ekki gerast.

 


Sjóðandihlýnun

Nú er ekki lengur hamfarahlýnun. Ástandið er miklu verra það er sjóðandi hlýnun, sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kommúnistinn Antonio Guterres fyrir nokkrum dögum. 

Hvað er sjóðandi hlýnun? Vatn sýður við ákveðið hitastig eins og við þekkjum vel. Er það þannig á jörðinni? Eru höfin sjóðandi, vötnin eða ár og lækir? 

Ummæli Guterres eru ekkert annað en fals og rangfærslur.

En hvað vilja Guterres, Katrín Jakobsdóttir og þeirra líkar? Hvaða heim vilja þau sjá í sínu kolefnishlutlausa framtíðarríki?  Það er ekki heimurinn eins og við þekkjum hann með velmegun og lágri dánartíðni og lengri og lengri lífaldri. 

Þeirra draumaheimur er eins og hann var fyrir tíma iðnbyltingarinnar á 18.öld. Þá dóu hlutfallslega margfalt fleiri vegna náttúrulegra hamfara. Auk heldur var líftími mun styttri.

Viljum við virkilega fara á stig fátæktar og afturfara akuryrkjustigið eins og Guterres og Katrín krefjast?


Vaxtaokur og dýrtíð

Afkomutölur viðskiptabankanna og ávöxtun eigin fjár þrátt fyrir ofurlaun og bruðl, sýna að bankarnir eru með óeðlilega háa vexti og óeðlilega mikinn vaxtamun. Ástæða þess er takmörkuð samkeppni og skortur á aðhaldi.

Þegar um takmarkaða samkeppni er að ræða ber ríkisvaldinu að gæta hagsmuna neytenda bæði sparifjáreigenda og lántakenda, en það gerist ekki og enn og aftur bregðast stjórnvöld neytendum. 

Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands eiga ekki að leiða  til hærri vaxta bankanna eða meiri vaxtamunar en sem því nemur. En íslensku bankarnir hafa alltaf kunnað það fag með miklum ágætum, að nýta hækkun stýrivaxta til að taka meira af kökunni til sín en eðlilegt er. 

Sé vilji fyrir að ná verðbólgunni niður, þá þarf að bregðast við á öllum sviðum til að stöðva það gegndarlausa okur sem viðgengst í þessu þjóðfélagi einkum þar sem samkeppni er takmörkuð.

Af hverju virkja stjórnvöld ekki almannasamtök eins og Neytendasamtökin og fleiri með myndarlegum fjárframlögum, til að sinna því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki að berjast gegn verðbólgu og fyrir eðlilegum viðskiptaháttum? Það kostar minna og er þjóðhagslegra hagkvæmara en að láta einokunarfyrirtækin og okrið vaða yfir samfélagið.  

 


Gölluð vara í boði ríkisstjórnar og olíufélaga.

Allir söluaðilar bensíns tilkynntu, að þeir hygðust hefja sölu á gölluðu bensíni. Bensínið er blandað etanoli, orkan er minni og veldur skemmdum á vélum bíla. Gölluðu vörunni á að troða upp á neytendur hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Á sama tíma og olíufélögin hefja sölu á gallaða bensíninu er venjulegt bensín tekið af markaðnum og er ekki í boði lengur. Neytandinn fær ekki sjálfur að velja. 

Einokunarkaupmennirnir á 18.öld voru frægir fyrir að selja maðkað mjöl. Nú hafa olíufélögin ákveðið að feta í fótspor þeirra. 

Af hverju fá neytendur ekki sjálfir að ráða hvort þeir vilja venjulegt bensín eða þetta lélega? Af hverju eru olíufélögin og ríkisstjórnin að svindla á neytendu og koma í veg fyrir valfrelsi þeirra með þvingaðri neyslustýringu.

Er einhver furða þó mörgu Sjálfstæðisfólki þyki lítið leggjast fyrir forustu flokksins í ríkisstjórn þegar frelsinu og almennum markaðslögmálum er vikið ítrekað til hliðar og víðtæk neyslustýring er tekin upp?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 69
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 3774
  • Frá upphafi: 2599700

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 3515
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband