Leita í fréttum mbl.is

Engin ábyrgur?

Íslandsbanki hefur samþykkt að greiða sekt upp á 1.2 milljarða króna vegna athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Slík ofursekt er ekki lögð á fyrirtæki eða þá að fyrirtæki sætti sig við nema eitthvað verulegt sé að í starfseminni.

Íslands­banki gengst við því að hafa ekki starfað í sam­ræmi við eðli­lega og heil­brigða viðskipta­hætti og venj­ur í verðbréfaviðskipt­um vegna fram­kvæmd­ar á sölu hlutabréfa í bankanum skv. margnefndu útboði. Þar komu til samskipti við þáttakendur í útboðinu auk kaupa einstakra starfsmanna á hlut í bankanum.

Æskilegt hefði verið að fá betri og fyllri upplýsingar um þessi alvarlegu brot Íslandsbanka og stjórnenda hans, en það verður sennilega látið liggja í láginni og bankinn sættir sig við að greiða meir en milljarð vegna afglapa og e.t.v. einhvers þaðan af verra.

Nú er það þannig, að þegar fyrirtæki er fundið sekt um að brjóta gróflega af sér eins og Íslandsbanki í þessu tilviki, þá er það ekki lögpersónan Íslandsbanki sem brýtur af sér heldur einstaklingar sem starfa í og/eða stjórna viðkomandi banka. Þá er stóra spurningin hvort einhver verði látinn bera ábyrgð á því að bankinn skyldi brjóta svona gróflega af sér og ekki starfa í samræmi við lög og reglur. 

Af fréttum að dæma virðist engin þurfi að sæta ábyrgð og engin hafa gert neitt af sér nema lögpersónan Íslandsbanki.

Gott að vera í slíku vari ekki síst fyrir bankabófa.


mbl.is Birna Einarsdóttir: Við drögum lærdóm af þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mr. Humphrey Appleby er alltaf til staðar ef á reynir.

Ég gat ekki varist því að brosa út í báðar og hugsa til frægasta ráðuneytisstjóra veraldar Mr. Humphrey Appleby úr þáttunum "Já ráðherra" þegar Halldór Þorgeirsson formaður loftslagsráðs lagði fram tillögur ráðsins um viðbrögð við meintri loftslagsvá. 

Í samanburðarþættinum var Mr. Humphrey að ræða við ráðerrann um fullbúið sjúkrahús, með 1.500 starfsmenn, en engan sjúkling. Ráðuneytisstjórinn sagði að fjölga yrði starfsfólki um 500.  Ráðherrann spurði til hvers hvað er þetta fólk að gera. Mr. Humphrey talaði lengi um alls kyns verkefni, skjalavörslu, rannsóknarstörf,skipulagningu,stjórnsýsluverkefni,fjármálastjórn o.s.frv. Já sagði ráðherrann en það eru engir sjúklingar. Til hvers sjúklingar sagði Humphrey. Af því að sjúkrahús eru fyrir sjúklinga sagði ráðherra, en þar var Mr. Humphrey ekki á sama máli og færði fróðleg rök máli sínu til stuðnings. 

Í tillögum loftslagsráðs er lagt til að móta markvissa loftslagsstefnu, stórefla stjórnsýslu loftslagsmála m.a. í öllum krummaskuðum og hreppum landsins, skerpa aðgerðir stjórnvalda, beita stjórntækjum skilvirkar, nýta sérfræðiþekkingu, virkja getu stjórnvalda. bæta rannsóknir, bæta vöktun og undirbyggja ákvarðanir. Alvege eins og Mr. Humphrey hefði samið þetta.

Því miður bregst loftslagsmálaráðherrann okkar öðru vísi við en í þættinum Já ráðherra. Loftslagsmálaráðherra Íslands finnst tillögur hins íslenska Humphrey vera einmitt stórasannleikann í málinu og grípa þurfi til hamfaraðgerða alias Kóvíd gegn almenningi.

Vissulega má sjálfsagt finna matarholu fyrir 1500 opinbera starfsmenn til viðbótar til að sinna þeim stjórnsýslutengdu verkefnum sem íslenski Humphreyinn leggur til og ráðherrann er greinilega tilbúinn til að kokgleypa. Jafnvel þó að hamfarahlýnunin hér sé sú að hitastig undanfarna mánuði og ár hefur verið að lækka en ekki hækka. En það skiptir Guðlaug Þór ráðherra og hinn íslenska Humphrey formann Loftslagsráðs engu máli. Alþýðan skal blæða.  

 

 


Takk fyrir. Nú þarf að breyta um stefnu

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er boðaður til fundar skv. frétt í Mbl. Þinflokksfundir eru ekki algengir skömmu eftir þingslit. En tilefnið er ærið. 

Viðfangsefni þinflokksfundarins ætti að vera hvort forsenda er fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram í vinstri stjórninni undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.

Vinstri grænir komu lengi vel í veg fyrir nokkrar breytingar á Útlendingalögum og Sigríður Andersen sem reyndi að koma skikki á þann málaflokk, sem arftaki hennar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gerði hinsvegar ekki var rekin til baka af VG með frv. til breyttra útlendingalaga. Í fimmtu tilraun tókst Jóni Gunnarssyni að koma útvötnuðu frv. um breytingu á útlendingalögum í gegnum þingið, en þá hafði VG verið í varðstöðunni til að koma í veg fyrir að hagsmunum þjóðarinnar og fólksins í landinu yrði sinnt vegna hagsmuna ólöglegra innflytjenda um árabil. 

Vegna þvergirðingsháttar VG og stjórnarandstöðunnar að undanskildum Miðflokki og Flokks fólksins eru útlendingamálin komin í algjört óefni eins og daglegar fréttir frá Reykjanesbæ bera vitni. Þau mál eiga bara eftir að versna og hagsmunir íslendinga eru ítrekað settir til hliðar vegna þess að koma verður hlaupastrákum frá Sómalíu og víðar að komnum fyrir og útvega þeim læknisaðtoð strax, þó að íslenskar fjölskyldur þurfi að bíða svo vikum og mánuðum skipti eftir slíkri þjónustu.

Ekki nóg með að VG hafi verið með þvergirðingshátt varðandi hagsmuni þjóðarinnar gagnvart ólöglegum innflytjendum. Nú stendur vinnumálaráðherra gegn því að lagt sé fram nauðsynlegt frumvarp varðandi vinnudeilur, sem gæti tryggt miðlunartillögum Ríkissáttasemjara öruggan framgang. Af hverju skyldi það nú vera?

Síðast en ekki síst, þá hefur atvinnumálaráðherra nú á vægast sagt hæpnum forsendum komið í veg fyrir eðlilega arðsköpun og bættan hag verkafólks með því að banna á síðustu stundu hvalveiðar og það án þess að nokkur lagalegur grundvöllur sé til staðar. 

Þessi gerð Svandísar Svavarsdóttur bætist ofan á annan óskapnað, sem frá henni hefur stafaði í gegnum tíðina og hefur m.a. kostað skattgreiðendur gríðarlega fjármuni eins og stöðvun virkjunar án lagalegra forsendna. Framganga hennar í Kóvíd faraldrinum og nú ofstopafull aðgerð, sem er að mati Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness algjör pópúlismi. Tekið skal undir þau orð Vilhjálms.

Síðast en ekki síst þá hefur ríkisstjórnin farið fram með þeim hætti varðandi umframeyðslu og skattlagningu að Sjálfstæðisfólk getur ekki unað við það. Hvað þá að Sjálfstæðisflokkurinn beri áfram stjórnskipulega ábyrgð á þeirri vegferð. Á 6 ára tímabili ríkisstjórnarinnar hafa ríkisútgjöld aukist gríðarlega, báknið hefur einnig vaxið gríðarlega og skv. fjárlögum 2023 munu ríkisútgjöld aukast um 193 milljarða, sem er algjört met og stór hluti þessarar umframeyðslu er tekin að láni hjá börnum okkar og barnabörnum, án þess að þau hafi nokkuð um það að segja. Því miður ber Sjálsfstæðisflokkurinn stjórnskipulega áfram á ríkisfjármálunum, eitthvað sem flokkurinn verður að taka til gagngerrar skoðunar og móta stefnu í samræmi við grundvallarhugsjónir flokksins um ráðdeild og sparsemi í ríkisrekstri, þar er líka um að ræða hvort Sjálfstæðisflokkurinn á áfram erindi við þjóðina eða ekki. 

Innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um að taka á þeim málum sem brenna helst á þjóðinni. Ríkisstjórnin gerir þá borgurum sínum þann mesta greiða að viðurkenna að hana hafi þrotið örendið og rétt sé að leita annarra leiða og reyna að finna starfhæfan meirihluta til að lækkka ríkistúgjöld, lækka skatta, loka landinu fyrir hælisleitendastraumnum og auka frelsi til atvinnu- og arðsköpunar í landinu. 


Sullað í rasistapollinum.

Þingmaður VG sendir samstarfsflokki VG, Sjálfstæðisflokknum heldur betur tóninn og segir flokkinn vera að sulla í rasistapolli vegna þess að formaðurinn benti á það augljósa, að fjölgun hælisleitenda væri komin út yfir viðráðanleg mörk. 

Allir með sæmilega glóru í höfðinu, sjá að þarna var formaðurinn að greina frá staðreyndum en slíka glóru skortir fylgismenn VG iðulega.

Mér var hugsað til forvera VG, sem stóðu fyrir Keflavíkurgöngum og mótmælum gegn sjónvarpssendingum frá Keflavík á sinni tíð. Þá töluðu skoðanabræður þessa arga þingmanns VG um svik við íslenska þjóðmenningu og þá hættu sem þetta gæti haft á íslenskuna og íjuðu að því, að við mundum tapa móðurmáli voru héldi svo fram, að ómerkileg sjónvarpsstöð, sem sjónvarpaði nokkra tíma á dag héldi starfsemi sinni áfram. 

Nú er staðan sú, að meira en 70 þúsund útlendingar eru í landinu. Okkur hefur mistekist og skort metnað til að aðlaga nema mjög lítinn hluta fólksins að íslenskum aðstæðum menningu og tungu. 

Í dag heitir það á máli VG að hræra í rasistapolli, að vilja standa vörð um íslenska þjóðmenningu, íslenska tungu og íslenskar hefðir og gera þá kröfu, að þeir útlendingar hvaða litarhátt svo sem þeir hafa og af hvaða þjóðerni svo sem þeir eru læri íslensku og aðlagi sig að íslenskum siðum og menningu.

Ef það er að hræra í rasistapolli, þá skulum við hræra sem óðast í þeim polli, því að framtíð lands og þjóðar byggist á varðstöðu um íslenskt mál og íslenska menningu. 

En fyrst og fremst skulum við horfa á staðreyndir sem blasa við og athuga hver úrlausnarefnin eru. Fari það framhjá einhverjum, að fjöldi innflytjenda til landsins er komin umfram þolmörk þjóðarinnar, þá hefur sá aðili heldur betur ákveðið að stinga höfðinu í sandinn til að sjá ekki, heyra ekki og skilja ekki. 

Slíkt fólk sbr. þingmann VG sem viðhafði ummælin um rasistapollinn á ekkert erindi í stjórnmál eða til að fara með málefni fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.

 


Neyðarástand í Reykjanesbæ

Í fréttum Mbl. í dag segir að neyðarástand ríki í almenningssamgöngum í Reykjanesbæ. Rekstraraðili strætisvagna í bænum kvartaði.Þá komst þessi frétt í þau hámæli, að greint var frá henni í Morgunblaðinu. Fréttir af vandamálum vegna ólöglegra innflytjenda eru venjulegar faldar eða gert sem minnst úr þeim svo lengi sem það er hægt. RÚV er auk heldur með stöðugan áróður fyrir góða innflytjandann en þegir um raunveruleikann.

Rekstraraðili almenningssamgangna í Reykanessbæ telur sig ekki geta sinnt þjónustunni lengur nema gagnger breyting verði á. Í álitinu kemur fram, að börn hverfi úr strætisvögnum vegna áreitis og þá séu skemmdarverk mikil. Rekstraraðilinn telur að betra ástand verði hvað þetta  varðar ef strætókortum flóttamanna verði lokað. Þá liggur fyrir hverjir valda. 

Þetta er ein birtingarmynd þeirra vandamála, sem að innflytjendastefna stjórnvalda veldur. Það er nauðsynlegt að breyta um stefnu og gæta hagsmuna fólksins í landinu,en ekki ólöglegra flökkustráka, sem eru uppistaðan í þeim hópi ólöglegra innflytjenda sem valda stöðugum vandræðum, sem fjölmiðlar gæta sem lengst að segja ekki frá. 

Það þarf að breyta um stefnu og loka landinu alla vega tímabundið til að hægt verði að ná tökum á ástandinu og aðlaga þá sem komið hafa hingað löglega með því að kenna þeim íslensku auk annars sem nauðsynlegt er til að þeir aðlagist samfélaginu.

Miðað við orð forsætisráðherra á Bessastöðum í gær virðist hún ekki skilja alvöru málsins. Gangi svo áfram verður ekki hjá því komist að slíta stjórnarsamstarfinu og kjósa á ný milli þeirra sem hafa þjóðlegan metnað og þjóðníðinganna sem vilja skipta um þjóð í landinu.  

 


Góð störf ber að þakka

Það er sjaldgæft í seinni tíð, að stórum hópi fólks þyki miður að ráðherra láti af störfum. En þannig er það með Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra, sem hefur staðið sig einstaklega vel sem ráðherra dómsmála þann tíma sem hann hefur gengt því starfi. 

Það hefur oft gustað um Jón í þessu embætti og þannig er það oftast með þá stjórnmálamenn sem láta til sín taka. Því miður gat hann ekki gengið eins langt og hann hefði viljað til að takmarka fjölda meintra hælisleitenda, sem hingað komu, en ljóst má vera að hann gerði það sem hann gat í þessari fjölflokkastjórn, þar sem VG reyndi að sporna á móti sjálfsögðum lagabreytingum og Jón fékk iðulega allt of lítinn stuðning forustufólks í eigin flokki hvað það varðar. 

Jón ávann sér traust og stuðning þorra Sjálfstæðisfólks, sem þykir miður og raunar fráleitt að hann skuli nú hverfa úr ríkisstjórn.

Á sama tíma og Sjálfstæðisfólk almennt telur slæmt að missa Jón úr ráðherrastól, þá þarf ekki að efa, að eftirmaður hans Guðrún Hafsteinsdóttir er vel hæf til að takast á við krefjandi verkefni og er henni hér með óskað alls velfarnaðar í því vandasama starfi sem hún mun taka við í dag. 

Á sama tíma og ég þakka Jóni Gunnarssyni vel unnin störf, þá vænti ég þess, að hann muni láta að sér kveða í þjóðmálum í auknum mæli og takast á við ný og krefjandi verkefni á því sviði. Jón Gunnarsson hefur það alla vega sem veganesti úr dómsmálaráðuneytinu, að þorri Sjálfstæðisfólks treystir honum best og telur hann best dugandi til að takast á við erfiðustu verkefnin í pólitíkinni sem Sjálfstæðismaður.


mbl.is Málefni útlendinga vega þyngst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógnarstjórn sektarkenndar

Enn einn bátur yfirfullur af fólki sökk á rúmsjó í Miðjarðarhafi næst Grikklandi og mikill fjöldi fólks fórst. Fjölmiðlar töluðu um sök Grikkja, en Grikkir höfðu ekkert með þennan skipsskaða að gera.

Alla þessa öld hafa smyglarar grætt gríðarlega á að selja fólki sem vill komast frá Afríku og Asíu til Evrópu far á okurverði. Í fæstum  tilvikum mundu bátarnir fá haffærnisskírteini hér. Þegar eitthvað fer úrskeiðis hamra fjölmiðlar á sök Evrópubúa og ógnarkennd sektarkenndar heltekur marga einkum vanstilltum leiðtogum bresku biskupakirkjunnar. Við berum samtn enga ábyrgð á framferði smyglarana eða þá áhættutöku, sem farendurnir svokölluðu takast á hendur. 

Þ. 3.október 2013 sökk bátur við eyjuna Lampedusa. Ítalska strandgæslan bjargaði meira en 100 manns, en 300 drukknuðu. Í kjölfar þessa greip ítalska ríkisstjórnin til víðtækra björgunaraðgerða á ítalska hafssvæðinu, sem kostuðu ítalska skattgreiðendur mikið fé. 

Til svipaðra aðgerða var gripið af hálfu Spánar og Grikklands auk aðgerða sem Evrópusambandið stóð að sbr.störf áhafna á flugvél landhelgisgæslunnar íslensku á Miðjarðarhafi. 

Þrátt fyrir þessar víðtæku aðgerðir til að tryggja aukið öryggi á Miðjarðarhafi, svo að farþegar á lekahripum smyglarana komist alla leið, þá gerast slysin enn enda Miðjarðarhafið ógnar stórt.

Evrópa hefur gert meira en hægt er að ætlast til, en löndin sem heimila starfsemi smyglaranna gera ekki neitt. Það er þessum ríkjum að kenna löndum eins og Líbýu, Marokkó, Alsír,Túnis og að hluta til Tyrklandi að smyglararnir geta haldið upp iðju sinni en ekki okkur. 

Smyglararnir vita hvernig kaupin gerast og nú fara smyglbátarnir af stað með minnsta mögulega bensín, sem dugar ekki til að fara lengra en út á mitt Miðjarðarhafið. Smyglararnir vita að þar verður fólkinu að öllum líkindum bjargað.  

Frá 2013 hefur Evrópa verið að berjast gegn þessu smygli á fólki til Evrópu með litlum árangri. Samt láta fjölmiðlar í Evrópu og einstaka kirkjkudeildir eins og Evrópubúar eigi að bera ábyrgð á öryggi allra sem fara um Miðjarðarhafið löglega eða ólöglega. 

Vilji Evrópubúar gera eitthvað skynsamlegt í þessum málum og koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið verði áfram stærsti kirkjugarður í heimi, þá er ekki rétta leiðin að floti og strandgæsla Evrópuríkja sigldi strax með fólkið til baka til þess lands þaðan sem þau lögðu af stað.

Með þeim eina hætti er hægt að koma í veg fyrir að Miðjarðarhafið haldi áfram að vera stærsti kirkjugarður í heimi. Með þeim hætti er hægt að tryggja málefnalegri afgreiðslu umsókna hælisleitenda og með þeim hætti yrðu tekið fyrir starfsemi glæpamannanna sem gera sér neyð fólks að féþúfu auk þess að beita það allskyns harðræði m.a. nauðgunum og eignaupptöku. 

Sem betur fer er stjórn Giorgiana Melloni á Ítalíu byrjuð að feta sig inn á þessa leið og vonandi nær hún árangri, en Evrópusambandið dregur lappirnar og gerir ekki neitt skynsamlegt í málinu því miður líklega hér eftir sem hingað til. 

Skipasskaðarnir með flóttafólk á Miðjarðarhafi eru ekki okkur að kenna, en við eigum að leysa vandamálið með því eina sem hægt er að gera þ.e. að sigla beint með fólkið til baka til þess staðar þar sem lagt var úr höfn. 

 


mbl.is Að minnsta kosti 78 fórust og fjölmargra er saknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers virði er stjórnmálaflokkur sem keppist við að verða eftirmynd annarra

Fyrir nokkru fjallaði blaðamaður á DT um þing ungra þjóðlegra íhaldsmanna. Vinstri menn höfðu talað um þingið sem samkomu öfga hægri manna, sem mundu spúa eitri hatursáróðurs. Blaðamaðurinn segir að þvert á móti hafi þáttakendur verið ungt framsækið og gáfað fólk og fjarri því að það væri haldið öfgaskoðunum.

Þingfulltrúar hafi verið reiðir Íhaldsflokknum fyrir að halda ekki fram stefnu íhaldsmanna eða koma henni í framkvæmd.

Meginefni ráðstefnunar voru svikin loforð Íhaldsflokksins um að stöðva ólöglega innflytjendur og vinstri lausnir í félagsmálum í stað þess sem flokkurinn ætti skv. stefnuskrá að standa fyrir sbr. aðhald og sparnaði í ríkisrekstri. Þingfulltrúar hefðu verið óhræddir við að fjalla um innflytjendamál, sögulega arfleifð og hnignun vestrænnar menningar auk fjölmörg önnur mál.

Fjallað var um hvers vegna íhaldsmönnum hefur mistekist að ná til unga fólksins og þá sérstaklega þess fólks, sem aðhyllist hefðbundnar skoðanir á þjóðfélaginu og þróun þess.

Með því að verða flokkur sem eltir sósíalskar velferðarhugmyndir vinstri manna verður Íhaldsflokkurinn ekki annað en eftirmynd eða eftirherma af andstæðingum sínum. Hvaða þýðingu hefur þá að kjósa slíkan flokk.

Það sama gildir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og breska Íhaldsflokkinn, að skoðanakannanir verð stöðugt óhagstæðari og sama gildir fyrir báða, að þegar þú svíkur grundvallarstefnuna, þá ertu að svíkja kjósendur þína og hvernig er hægt að ætlast til að þessir sviknu kjósendur kjósi flokkinn aftur.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem hefur ekki síður en Sjálfstæðisflokkurinn og raunar mun meira, farið algjöru offari í vinstri lausnum og útþennslu ríkis og ríkisútgjalda ættu að gaumgæfa, að það þarf ekki endilega að vera best að kjósa Framsókn og Sjálfstæðisfólk þó það sé seinþreytt til vandræða lætur ekki allt yfir sig ganga eins og skoðanakannanir sína.

Fólk kýs ekki endalaust eftirlíkingar.


Innflytjendamál eru ekki á dagskrá

Rishi Sunak forsætisráðherra Breta kom á tildurráðstefnu Evrópuráðsins í boði Katrínar Jakobsdóttur og Þórdísar Kolbrúnar og sagðist vilja ræða innflytjendamál. Þórdís Kolbrún sagði slík mál ekki á dagskrá. 

Svarið er í samræmi við það hvernig íslenska stjórnmálastéttin misvirðir hagsmuni fólksins í landinu hvað varðar innflytjendamál. Þau skynja ekki vandamálið.

Þó stjórnmálastéttin skynji það ekki, þá áttar almenningur sig á því að innflytjendastraumurinn veldur gríðarlegum vanda í heilbrigðis-, mennta-,húsnæðisálum og vegna afbrota o.fl. 

Það hefur aldrei verið eins einfalt að ferðast á milli landa og heimsálfa eins og núna og samskipti milli landa og heimsálfa hafa heldur aldrei verið eins auðveld.

Innflytjendur sem koma til Evrópu senda myndir og skilaboð til vina og fjölskyldu og segja þeim hvernig eigi að fara að því að komast til Evrópu, hvað þá heldur Íslands, þar sem mest sé frá ríkinu að hafa, ef þú segist vera flóttamaður. Leiðbeiningar koma frá fleirum þar sem minnst er á ákveðna stjórnmálamenn og lögmenn íslenska, sem leita megi til, svo að landvist og aðgangur að velferðarkerfinu íslenska verði tryggt og hvernig megi plata kerfið.

Sumir telja að það sé útilokað að takmarka innflytjendastraumin og segja að þetta sé bara sá heimur sem við lifum í og við þessu sé ekkert að gera. Slík afstaða er uppgjöf fyrir tilverunni og tilvistinni eins og við séum ósjálfbjarga áhrifalausir áhorfendur,sem höfum ekkert með þróun mála að gera. 

Staðreyndin er sú, að lönd geta lokað landamærunum ef þeim sýnist svo. Hvað þá við, sem erum eyland og meintir flóttamenn og hælisleitendur koma aðeins í gegnum Keflavíkurflugvöll. 

Á tímum Kóvíd lokuðu ýmis ríki landamærunum t.d. Kanada og Nýja Sjáland. Fyrst þau gátu það þá getum við það. 

Við erum farin að finna fyrir því að vegna innflytjendastraumsins er gríðarleg vöntun á húsnæði, læknum, heilsugæslustöðvum, leikskólum, skólum. Við getum ekki þjónustað þá sem fyrir eru í landinu með viðunandi hætti og það liggur algerlega fyrir það sem Milton Friedman sagði á sínum tíma. "Það er hægt að hafa opin landamæri eða velferðarkerfi. En þú getur ekki haft hvorutveggja." Nú eykst yfirdráttur og skuldir ríkisins með hverjum nýjum hælisleitenda af því að ríkið er rekið með bullandi tapi.

Fólkið í landinu veit þetta, en þessi mál eru samt ekki á dagskrá að mati stjórnmálaelítunar, sem er upptekin við vandamál, sem við höfum enga möguleika til að hafa áhrif á.

Vonandi gera fleiri og fleiri sér grein fyrir hversu staðan í innflytjendamálum er grafalvarleg og hversu brýnt það er að fá nýja stjórnmálamenn sem skynja alvarleika raunveruleikans sem blasir við almenningi, en ekki þeim stjórnmálamönnum, sem horfa á málin úr fílabeinsturninum og ástunda það eitt sem segir í gamla texta Bítlana:

"Making all their nowhere plans for nobody."

Af því að mál sem varða þjóðina mestu máli eru ekki á dagskrá.

 

 

 


Til varnar frelsinu

Tjáningarfrelsi er grundvöllur lýðræðislegs stjórnskipulags.  Málfrelsið er markaðstorg hugmynda og ólíkra skoðana.

Heimspekingar upplýsingaaldarinnar, sem börðust fyrir breyttum stjórnarháttum og lýðræði var ljóst að málfrelsið voru brýnustu og nauðsynlegustu mannréttindin til að koma í kring breytingum á stjórnarháttum og koma í veg fyrir að ofbeldið gæti farið sínu fram. 

Frá byrjun aldarinnar hefur verið þrengt að tjáningarfrelsinu. Sett hafa verið ákvæði í refsilög þar sem bann er lagt við því að viðlagðri refsingu að talað sé óvirðulega um ákveðna, á sama tíma og ákvæði um guðlast voru afnumin. Í hinum kristna heimi má skattyrðast út í kristna trú og níðast á trúarkenningum kristins fólks, en það má ekki orðinu halla á múslima eða lífsskoðunarhóp transara.

Haft er eftir heimspekingnum Voltaire, sem barðist hatrammlega fyrir tjáningarfrelsi sú gullvæga setning, einkennisorð þeirra sem hafna helsi en verja frelsi: "Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég er tilbúinn að leggja mikið í sölurnar til að þú fáir að halda þeim fram." (sumir segja lífið í sölurnar)

En það er vegið að tjáningarfrelsinu og forsætisráherra þjóðarinnar ætlar sér að fá samþykkt ákvæði um svonefnda hatursorðræðu og skikka fólk til að sæta innrætingu um það sem má ekki segja og hvað má. Hversu mikið hyldýpis djúp er á milli hugmynda heimspekingsins Voltaire og Katrínar Jakobsdóttur. 

Það er kreppt að tjáningarfrelsinu með ýmsum hætti. Nýverið var vinstri sinnaður kennari við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands Kristján Hreinsson rekinn fyrir að setja fram skoðanir um transara. Fólk á hægri væng stjórnmálanna brást almennt við og fordæmdu þessa gerræðislegu lýðræðisfjandsamlegu ákvörðun Endurmenntunarstofnunar, en vinstri menn með Egil Helgason í broddi fylkingar réttlættu ofbeldið og  mæltu köpuryrði  í garð Kristjáns. Lítið lagðist þá fyrir þessa kappa.

Ofstopinn gagnvart Kristjáni og starfsbann (berufsverbot) í garð fólks sem setur fram aðrar skoðanir en þær viðurkenndu hefur því miður fest ákveðnar rætur hér á landi. Fórnarlömb rétthugsunarinnar hafa m.a.verið Kristinn Sigurjónsson, sem var gert að láta af störfum við Háskólanun í Reykjavík og Snorri kenndur við Betel, sem fékk ekki heldur að stunda kennslu vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar, en Snorri hafði unnið það sér til saka að vísa til ákveðinna ritningarorða Biblíunar á fésbókarvef sínum.  

Þessir hlutir voru fordæmanlegir, en því miður áttu þeir Kristinn og Snorri sér allt of fáa formælendur á sínum tíma þó fólk fordæmi ritskoðun HR og Akureyrarbæjar í dag. 

Þessi dæmi sýna okkur að við verðum stöðugt að vera á verði gagnvart ófrelsinu og lýðræðisfjandsamlegum aðgerðum. 

Því miður eru dæmin mörg þar sem fólk þarf í dag að líða fyrir skoðanir sínar. En það versta sem er að gerast í núinu er að stórir hópar fólks, einkum ungt fólk, veigrar sér við að setja fram skoðanir sínar af því að það sér hvaða afleiðingar það getur haft.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 35
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 3189
  • Frá upphafi: 2599742

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2986
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband