Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Heimsmethafinn í skattahækkunum lofar skattalækkun

Sjálfstæðisflokkurinn á heimsmetið í skattahækkunum á tímabilinu 1995-2004 miðað við verga landsframleiðslu. Sem dæmi má nefna að aukin skattbyrði á Íslandi á tímabilinu var 9.8% á meðan hún var 3.8% í Noregi og 3.3.% á Spáni. 

Skattleysismörk hafa ekki fylgt breytingum þá hefur kaupmáttaraukning orðið óveruleg í lægri tekjuhópum og misskipting aukist í þjóðfélaginu. Ekki kemur fram í fréttinni að Sjálfstæðismenn hyggi lagfæra þetta.

Við Frjálslynd krefjumst þess að velferðarhallinn sem orðið hefur í tíð ríkisstjórnarinnar verði lagfærður og þeir tekjulægstu og bótaþegar fái lagfæringar til sín en ekki bara þeir sem best hafa kjörin eins og raunin hefur orðið í tíð ríkisstjórnarinnar. Við viljum hækka skattleysismörk í allt að 150 þúsund krónur og leyfa frítekjumark fyrir alla bótaþega. Okkar leið í skattamálum er leið velferðar hinna mörgu. Leið Sjálfstæðisflokksins er sérstök skattalækkun fyrir hina fáu útvöldu.

Það verður að breyta því í næstu kosningum og rétta af velferðarhallann. Tekjulágum, öldruðum og öryrkjum til hagsbóta.

Annars er það spurning hvernig eyðsluflokkur eins og Sjáflstæðisflokkurinn ætlar sér að draga saman ríkisútgjöldin til að mæta skattalækkunum? Vill einhver svara því hvað ríkisútgjöldin hafa aukist mikið í stjóranrtíð Sjálfstæðisflokksins? Var einhver að tala um báknið burt? Það á alla vega ekki við um efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur stefnir að frekari skattalækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að banna plastpoka?

Íslendingar eru í fremstu röð þjóða sem þykir vænt um plastpoka og notar þá gjörsamlega úr öllu hófi. Þessi mikla notkun plastpoka er umhverfisfjandsamleg. Það er því löngu tímabært að berjast gegn þessari miklu notkun.  Við sem erum í alvöru græn verðum að huga að því í okkar daqlega lífi hvernig við getum hvert og eitt reynt að draga úr mengun en stuðla þess í stað að vistvænni heimi. Plastpokarnir skipta þar máli. Hvað viljum við gera í því.

Burðarpokarnir sem boðið er upp á í verslunum eru mjög mengandi en kaupmenn halda þeim að neytendum vegna þess að þeir fá álitlega fjárhæð í sinn vasa af sölu hvers plastpoka og svo leggja þeir í sameiginlegan sjóð sem "pokasjóð" sem þeir úthluta úr árlega. Allir kaupmenn selja plastpokann á sama verði og Samkeppnisstofnun fellst ekki á að þetta sé samráð samt sem áður.

Nú er spurning hvort að ríkisvaldið, stjórnmálamenn vilja móta ákveðna stefnu í þessu máli sem og öðrum sem varða okkar nánasta umhverfi og er til þess fallið að draga úr mengun. Í sumum tilvikum hefur sú leið verið farin að banna plastpoka. Ég er ekki hrifin af þeirri leið. Notkun plastpoka getur átt rétt á sér. Hins vegar kemur til álita að skattleggja notkunina í því skyni að leggja skattféð sem þannig fæst til að vinna gegn skaðsemi af notkun plastefna og hins vegar til að draga úr notkuninni. Einnig  verður að gera þá kröfu til kaupmanna að þeir bjóði upp á plastpoka sem hafa ekki eins mengandi áhrif eins og þeir sem nú eru í boði.

Höfuðatriðið er að minnka notkun plastpoka og gefa netyendum sem vilja nota plastpoka kost á að nota framleiðslu sem er vistvænni en sú sem kaupmenn bjóða nú upp á.


Crimes against logic.

Í bók sinni Crimes against logic fjallar Jamie Whyte um ýmis efni m.a. í einum kafla um erfðabreytt matvæli og meginskoðanir vinstri manna. 

Þar segir hann m.a. að margir hafi ákveðnar skoðanir í pólitík ekki vegna þess að þeir haldi endilega að þær eigi rétt á sér heldur vegna þess að þeim líki félagsskapurinn. Hann bendir síðan á að það sé einskonar plastpakka stefna fyrir ungt vinstra fólk. Það sé á móti frjálsu markaðskerfi, berjist fyrir umhverfisvernd, dreifingu fjármuna, femínisma og réttindum dýra. Ég gat ekki að mér gert að brosa út í annað þegar ég las þetta því að þetta virðist eiga við flesta sem nefndir hafa verið til sögunnar í forustu Íslandshreyfingarinnar.

Var einhver að tala um hægri græna?  Kemur þetta hægri e.t.v. í gegn um fyrrum frambjóðendur Vinstri grænna sem ætla nú að leiða framboðslista fyrir Íslandshreyfinguna. Spurning er hvort að nafnið á bók Jamie Whyte smellpassar ekki fyrir Íslandshreyfinguna.


Glæsileg frammistaða Magnúsar Þórs.

Magnús Þór Hafsteinsson sat fyrir svörum hjá Agli Helgasyni í þætti hans í dag og gerði þar skilmerkilega grein fyrir sjónarmiðum Frjálslynda flokksins í tilefni auglýsingar sem birtist í Fréttablaðinu í dag. 

Sumir halda því fram að þau vandamál sem tengjast miklu aðstreymi innflytjenda séu þeirri umræðu að kenna sem við Frjálslynd höfum vakið máls á. Það er mikill misskilingur. Umræðan er vegna vandamála sem aðstreymið hefur valdið. Við höfum m.a. bent á að brotin séu mannréttindi á innflytjendum. Okkar málflutningur er ekki útlendinga- eða innflytjendafjandsamlegur heldur teljum við ekki hægt fyrir litla þjóð að taka við of mörgum á stuttum tíma. Okkar málflutningur lítur líka að því að gera þá sem hingað koma að íslendingum. Við höfum sett fram þá stefnu að þeir sem hér vilja búa fái 500 tíma í íslenskunámi og 300 tíma í námi um íslenska samfélagið. Okkar stefna er aðlögun og velferð einstaklinga og þjóðar.

Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og andvaraleysi veldur því að vandamál hefur skapast. Hefði verið farið að varnaðarorðum Frjálslyndra á Alþingi fyrir ári síðan og hefði ríkisstjórnin ásamt Vinstri grænum og Samfylkingunni verið tilbúin til að taka á málum eins og við Frjálslynd þá væri hér ekkert um að tala. Það verður að hafa í huga hver ber ábyrgð á ástandinu. Það er rangt að skjóta sendiboðann eða þá sem segja sannleikann.


Svo verður sungið og spilað á sítar og mandólín tvö

Morgunblaðið hefur í vetur verið pólitísk öndunarvél Margrétar Sverrisdóttur. Allt var það gert til að fá Margréti til að koma deilum af stað innan Frjálslynda flokksins og koma henni í pólitíska eyðimerkurgöngu. Það tókst, en nú hefur flokkurinn náð vopnum sínum. Óskaframboðið sem átti að sundra Frjálslynda flokknum, draga fylgi frá Vinstri grænum til að ríkisstjórnarflokkarnir héldu meirihluta sínum - hefur ekki náð að gera sig svo sem Morgunblaðsmenn og aðrir Sjálfstæðismenn ætluðust til.

Vonbrigðin leyna sér ekki.

Staksteinar í dag segja að það sé svo sem í lagi að syngja fyrir kjósendur og er þá vísað til Ómars Ragnarssonar en það sé ekki nóg. Þá segir að það dugi ekki fyrir Íslandshreyfinguna að lofa því að gera lífið skemmtilegra og staksteinahöfundur spyr. Hvernig ætlar fylkingin að standa við þetta?

Þetta minnti mig á sólskinsflokk í Danmörku sem fór fram með þau kosningaloforð að lofa betra veðri, styttri vetrum og hamingjusamara þjóðlífi og fallegra fólki. Allir vissu að þetta var í gamni. 

Staksteinahöfundur telur að framboð Ómars og meðreiðarfólks hans í Íslandsfylkingunni sé þannig að ekki sé hægt að taka það alvarlega. "Geir kann líka að syngja"; - segir Staksteinahöfundur.  En í lokin kemst Staksteinahöfundur að kjarna málsins. Pólitík er alvörumál. Talibanísk viðhorf varðandi Kárahnjúkavirkjun eiga ekki erindi í umræðuna í dag. Baráttan um það stóð fyrir 4 árum. Þá tók Ómar Ragnarsson ákvörðun um að sitja hjá. Nú vill hann berjast um fallið vígi með söng og dansi.

Og svo verður sungið og spilað á sítar og mandólín tvö og komdu og höndlaðu Ómar það hefst klukkan rúmlega sjö - eða hvað? 

Hefst það ef til vill ekki?


mbl.is Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálp til sjálfshjálpar

Við Frjálslynd beitum okkur fyrir því að skattleysismörk verði hækkuð í 150 þúsund og bótaþegar geti unnið sér fyrir tekjum allt að kr. 100 þúsund án þess að bætur til þeirra skerðist að nokkru leyti. Ég hef heyrt þá gagnrýni á þessar tillögur okkar að þetta mundi hafa mikinn kostnað í för með sér. Það er rangt. Þetta hefur engan kostnað í för með sér. Hins vegar minnka tekjur ríkissjóðs með hækkun skattleysismarka en sú aðgerð er löngu tímabær og besta aðferðin í velferðarþjóðfélagi til að bæta kjör þeirra sem lökust hafa kjörin. Það er annkannanlegt að fólk sem er á bótum sem ekki duga til framfærslu skuli þurfa að greiða skatt af bótunum. Þannig á það ekki að vera.

Varðandi frítekjumarkið þá kostar það ríkissjóð ekki neitt. Þeir sem geta unnið gera það og geta þá jafnvel komið sér út úr fátæktargildrum eða bætt lífskjör sín og með því gætu skatttekjur ríkissjóðs aukist ef eitthvað er. Ríkissjóður tapar engu því án frítekjumarksins verða tekjurnar ekki til. Fólk sem getur unnið og vill vinna fær þá tækifæri til að bæta lífskjör sín og það ekki bara efnalega. 

Þessar tillögur skipta miklu  fyrir aldraða og öryrkja. En ekki bara bótaþega. Hækkun skattleysismarka hefur þýðingu fyrir þá tekjulægstu og stuðlar að auknum jöfnuðu í þjóðfélaginu. Gott væri ef aðrir stjórnmálaflokkar tækju einarðlega undir þessi sjónarmið. Hér er um það mikilvægt velferðarmál að ræða.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 423
  • Sl. viku: 3229
  • Frá upphafi: 2513729

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 3014
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband