Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvenær urðum við svona snargalin?

Hvenær urðu Vesturlönd skyndilega snargalin spurði Janet Daly dálkahöfundur Daily Telegraph fyrir nokkru.

Hvenær datt fólki í hug að karlmaður gæti ákveðið að hann væri kona?

Af hverju samþykkti stór hluti stjórnmálastéttar Vesturlanda að iðnbyltingin og frjálst markaðshagkerfi sem tryggði meiri velferð en þekkst hefur í mannkynssögunni væra af hinu illa sem þyrfti að gera erfitt fyrir og helst útrýma og taka upp sjálfsþurftarbúskap?

Hvernig stóð á því að hlustað er á þá sem segja að lýðræðis- og mannréttindabyltingin í kjölfar upplýsingaaldarinnar sé svívirðileg afurð feðra- og nýlenduveldisins?

Þetta rugl hafa stjórnmálamenn Vesturlanda verið að vandræðast með í tæpa 2 áratugi og sett upp ríkisstofnanir og ráðið fjölda opinberra starfsmanna til að sinna þessum ótrúlegu ósannindum og algjöru rugli á kynbreytingarstofnunum, við „sjálfbæra orkuöflun, við að níða niður markaðskerfið, gera loftslagstilraunir með trjákurli og dæla eitri á sjó og landi.

Ef til vill er þetta allt afleiðing af því þegar Vestrið sigraði kommúnismann árið 1989 og í sigurvímunni uggðu menn ekki að sér. Gömlu kommúnistarnir skriðu síðan úr holum sínum við að prédika kynjafræði, loftslagsfræði, sjálfbærnifræði, vindmyllufræði, andsamkeppnis fræði, feðraveldisfræði, rasisma þar sem fólk ljóst á hörund eru ávallt hinir illu. Allt er þetta rekið áfram eins og um trúarbrögð sé að ræða.

Sókn woke ómenningarinnar og vinstrisins gegn þeim gildum, sem gerðu Vesturlönd sterk hefur verið hörð og óvægin en á sama skapi gjörsamlega glórulaus della. Sótt er að trúarlegum gildum, fjölskyldunni, að þeim hugmyndum, að sinna verka njóti hver þannig að orka og framkvæmdavilji einstaklingsins fái að njóta sín. En wokeið og nývinstrið vill lama slíkan framkvæmdavilja einstaklingsins með alls kyns reglum boðum og bönnum sem nú tröllríður t.d. Evrópusambandinu og Bretlandi undir dyggri leiðsögn öfgavinstrisins í persónu Ed Miliband.

Þeir sem hafa mótmælt þessu rugli hafa átt á brattann að sækja og iðulega verið útilokaðir frá umræðunni auk þess að þola hatursáróður og merkimiða eins og rasistar, fasistar, fólk í afneitun eða fólk sem heldur að jörðin sé flöt hafa verið viðhöfð um okkur sem höfum haldið uppi málstað og gildum vestrænna sjónarmiða um frelsi, mannréttindi og framfarasókn á grundvelli frelsis einstaklingisins.

En skyndilega breytist umræðan eins og hendi sé veifað. Nýr forseti Bandaríkjanna bendir á það sem öllum hefði alltaf átt að vera ljóst, en í dyggðaflöggun og dekri við ruglið og afneitun á yfirburðum vestrænna gilda, hafa forustumenn Vesturlanda þ.á.m. Bandaríkjanna ekki síst afneitað því sem hefur tryggt mestu framfarasókn mannkyns fyrr og síðar þ.e. vestræn gildi, lýðræði og mannréttindi.

Forsetinn gerir ekki annað en að segja það augljósa, sem engum upplýstum manni ætti að vera hulið:

Það eru bara tvö kyn, karlar og konur. Það eru engar konur og kvár.

Það er þörf á ódýrri orku til að styðja við vöxt og aukna auðlegð og velferð.

Aukin iðnaðarframleiðslu er góð fyrir alla.

Ólöglegir innflytjendur eru hérna ólöglega og það ber að fara að lögum.

Þessi einföldu sannindi sem Donald Trump benti á í innsetningarræðunni er almenn skynsemi og engilsaxar nefna „common sense“

Mér finnst miklu skipta að fá að vita strax, hvort að þeir sem bjóða sig fram til formennsku og annarra embætta hjá Sjálfstæðisflokknum eru sammála því sem kom fram í innsetningarræðunni og vísað er til hér að ofan sem almennri skynsemi eða þeir ætla að halda áfram dyggðaflöggun og daðri við wokið og vinstrið eins og því miður átti sér stað í ríkum mæli í þau allt of mörgu ár, sem ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var við völd. 


Misnotkun á almannafé

Nánast á hverjum degi hneykslast fréttastofa RÚV á einhverju sem varðar nýkjörinn forseta Banadríkjanna og því sem hann stendur fyrir. Ekki er minnst á það jákvæða og hverju hann hefur komið til leiðar á stuttum ferli eins og vopnahlé á Gasa sem hann á allan heiður að og að stíga skref í átt að vopnahléi og/eða friðarsamningum milli Rússlands og Úkraínu. 

Það er e.t.v. þess vegna sem að forseti lýðveldisins talaði í setningarræðu á Alþingi um aukna ófriðarhættu, að því sem skilja mátti með tilkomu nýs valdamanns í Hvíta húsinu í Washington DC.

Á RÚV þykir ekki fréttnæmt að segja frá því, að á hverjum degi eftir valdatöku Trump koma fram ný sönnunargögn um það, með hvaða hætti Biden stjórnin og raunar Obama stjórnin misnotuðu ríkisins fé og dældu út peningum skattgreiðenda í þágu aðallega woke stjórnmálasamtaka og stjórnmálamanna, en einnig til að fjármagna starfsemi stríðsherra og hryðjuverkasamtaka jafnvel þeirra sem berjast gegn bandarískum hagsmunum. 

Í stórblaðinu Daily Telegraph er vakin athygli á þessu í leiðara í dag. Þar segir að mikið af þessum styrkjum hafi runnið í gegnum USAID stofnuna en aðrir hafi verið greiddir beint úr ríkissjóði. Þannig hafi í Bretlandi ýmis woke samtök, samtök samkynhneigðra og transara notið mikilla styrkja,  sem og ólöglegir hælisleitendur og fjölmenningarsamtök.

Þetta er smátt og smátt að koma í ljós eftir því sem Elon Musk og samstarfsmenn hans í ráðuneyti sem kallast "Department of Government Efficiency" nær að grafast meira og betur fyrir um hvað hefur verið að gerast í bruðlinu hjá Biden og Obama, þar sem að peningum var iðulega dælt út til andstæðinga þeirra gilda sem Vesturlönd hafa staðið fyrir og hafa gert þau að forustuþjóðum í heiminum, þar sem best og öruggast er að búa. 

Hér á landi hefur Guðmundur Franklín einn vakið athygli á þessum ósóma í fjölmiðli og á hann þakkir skyldar fyrir það. Enginn meginfjölmiðill hefur gert þessu skil ekki einu sinni Morgunblaðið og finnst manni þó að þeim ætti að renna blóðið til skyldunar eins og Daily Telegraph í Bretlandi. 

Við íslendingar eigum rétt á að fá góðar hlutlægar fréttir svo þjóðhöfðingi okkar biskup eða aðrir framámenn verði sér ekki til minnkunar vegna þekkingarskorts og afvegaleiddrar umræðu RÚV um alþjóðamál.  

 


Pólitískur jarðskjálfti

Það kom nokkuð á óvart að fregna að borgarstjórnarmeirihlutinn væri sprunginn. 

Það hlítur að hafa tekið á taugarnar, fyrir venjulegt borgaralega sinnað fólk, að starfa með Pírötum og Samfylkingu þar sem þessir flokkar höfðu verið valdamestir meðan Dagur B. Eggertsson var borgarastjóri og bera mesta ábyrgð á stefnu sem kjósendur hafa ítrekað hafnað, en Degi tekist að lappa upp á og búa til nýjan meirihluta með nýjum hækjum nú síðast Framsókn. 

Nú vonast Einar Þorsteinsson borgarstjóri að geta myndað nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokki, Flokki fólksins og Viðreisn. Það væri virkilega ánægjulegt ef það tækist. 

En Sjálfstæðisflokkurinn má ekki fara í meirihluta samstarf nema að ákveðnum mikilvægum skilyrðum uppfylltum. Meðal þeirra er að leggja niður óþarfa starfsemi og stofnanir tengdar woke áhugamálum fráfarandi meirihluta. Það þarf að fækka borgarfulltrúum niður í 15. Gjörbreyting í skipulagsmálum og umferðarmálum er nauðsyn til að gera Reykjavík vistvæna borg fyrir venjulegt fólk. Umhverfi verslunar og þjónustu þarf að breytast m.a. með því að gefa Laugaveginum líf til að skapa meiri fjölbreytni og gefa neytendum aukna valkosti. Svo fátt eitt sé nefnt.

Höfuðatriðið er að ná fram nýrri stefnu og nýjum áherslum skynsemi í borgarmálum, en takist það ekki er betur heima setið en af stað farið. 

Sjálfstæðisflokkurinn bregst sjálfum sér og kjósendum sínum ef hann anar út í meirihlutasamstarf án þess að ná fram gjörbreytingu í stjórnun borgarinnar og þar skipta málefni meira máli en einstaklingar.


Ellert Schram

Það er sárt að sjá á eftir góðum vinum og Ellert B.Schram var góður vinur minn, sem ég mat mikils allt frá því að við störfuðum saman sem ungir menn á vettvangi ungra Sjálfstæðismanna.

Það gustaði af Ellert og hann var hugsjónamaður og málafylgjumaður. Hann varð formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á miklum umbrotatímum, þar sem unga fólkið lét mikið til sín taka. Ellert bar af sem tækifærisræðumaður og var manna skemmtilegastur.

Breyttur lífstíll, gildismat unga fólksins kom þeim eldri á óvart og það var viðfangsefni okkar ungra sjálfstæðismanna á þeim tíma, að kalla fram breytingar á flokki og í flokksstarfi, sem svaraði kalli nýrrar kynslóðar, þannig að við sjálfstæðisfólk yrðum áfram í fararbroddi með hugmyndafræði frelsis gegn  ógnarveldi og helsi kommúnismans. Bábiljur kommúnismans átti á þessum tíma töluvert fylgi ungs fólks eins og svo oft svo furðulegt sem það er.

Við kröfðumst öflugra flokksstarfs og aukins lýðræðis innan flokks sem í þjóðfélaginu. Við náðum að virkja miðstjórn flokksins, sem áður hafði sætt einokun þingflokksins. Við náðum fram breytingum á vali frambjóðenda flokksins til þings og sveitarstjórna m.a. með prófkjörum. Allt varð það til að Sjálfstæðisflokkurinn átti um langt skeið um helmingsfylgi meðal ungs fólks. Þessari baráttu stýrði Ellert með miklum ágætum. 

Við áttum síðan samleið sem vinir alla tíð, þó að leiðir skildu pólitískt hvað flokka varðar þá fylgdum við báðir samt alla tíð hugsjónum lýðræðis, frelsis og jöfnuðar. 

Við Ellert og Friðrik Sóphusson áttum virkt samstarf sem ungir Sjálfstæðismenn og gegndum formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna hver á eftir öðrum og vorum vinir. 

Síðustu árin hefur verið ómetanlegt fyrir okkur þrjá að hafa getað átt góðar og notalegar samverustundir á stundum, en okkur var ljóst að það hallaði þá undan fæti hjá vini okkar Ellert. 

Það er mikill missir að sjá á eftir okkar góða vini. Missirinn er samt mestur hjá Ágústu og börnum, sem hér eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

 


Skynsamleg og óeigingjörn ákvörðun Guðlaugs Þórs

Guðlaugur Þór Þórðarson lýsti því yfir í Kastljósi í kvöld, að hann muni ekki gefa kost á sér sem formaður. Guðlaugur nefnir þá ástæðu helsta, að það sé heppilegt fyrir Flokkinn, að þeir sem hafi leitt fylkingar og verið í átökum vinni að því að góð samstaða verði um að að velja formann, sem getur sameinað Flokkinn og góð samstaða getur orðið um.  

Jóhann Hafstein orðaði það svo í upphafi eins Landsfundar þegar harðar var tekist á um menn en málefni, að það væri enginn maður svo merkilegur að Flokkurinn væri ekki miklu merkilegri. 

Þar sem Guðlaugur hefur í raun stigið til hliðar í bili og mælt fyrir um einingu í Flokknum, þá er eðlilegt að flokksfólk einhendi sér í það að finna frambjóðanda eða frambjóðendur sem eru líklegir til að geta náð víðtækri sátt í Flokknum og reka málefnabaráttuna af krafti.

Þessi afstaða Guðlaugs var manndómsbragð, sem hann á þakkir skyldar fyrir og vonandi gengur sú ósk hans og okkar eftir að Flokkurinn nái vopnum sínum sameinaður undir styrkri stjórn öflugs formanns. 


Má ekki segja frá þessu?

Í gær birtist lítil frétt á visi.is um að karlmaður hefðu verið handtekinn í Hafnarfirði á milli kl. 13 og 14 í gær fyrir að hafa reynt að stinga mann, sem sat í bíl sínum. Fréttin lét lítið yfir sér og aðrir fréttamiðlar hafa ekki tekið þessa frétt hvorki birt hana né gert nánari grein fyrir málinu. 

Skv. mínum upplýsingum er þetta grafalvarlegt mál, en sá sem fyrir árásinni varð mun vera forstjóri fyrirtækis,sem að Hamas vinir á Íslandi hafa ítrekað kvatt fólk og fyrirtæki til að eiga ekki samskipti við.  

Hversvegna þessi þögn um það sem gæti verið manndrápstilraun? Já og gæti verið af pólitískum toga.

Í frjálsu þjóðfélagi skiptir máli að fréttamiðlar geri rækilega grein fyrir öllu sem á erindi til almennings. 


Því er hættast við að ofmetnast sem af veslu batnar

Filipus II Makedóníukonungur hafði mikinn metnað bæði fyrir sjálfan sig og son sinn Alexander, sem síðar var nefndur hinn mikli. Hann fékk færasta kennara, heimspeking og fræðimann samtímans sjálfan Aristóteles til að kenna syni sínum. 

Fyrir margt löngu las ég um þegar Aristóteles var að kenna verðandi stjórnanda víðlendasta ríkis veraldar um fólk og hverju mætti búast við af því, þar sem hann sagði við Alexander:

"Því er hættast við að ofmetnast sem af veslu batnar" 

Mér hafa oftar en einu sinni dottið þessi vísdómsorð Aristótelesar í hug síðustu daga þegar ég fylgist með framgöngu Ingu Sæland. 

Það er aumkunarvert að horfa upp á með hvaða hætti hún hefur tekið á málum sem varðar ólögmæta styrkveitingu til Flokks fólksins í stað þess að vinna strax að því að leysa málið á sem farsælasta hátt fyrir sig og flokkinn sinn. 

Þó kastar tólfunum, þegar hún fer fram með hótanir gagnvart embættismanni sem ekkert hefur til saka unnið, á grundvelli þess hve hún sé valdamikil og geti því eftir því sem næst verður komist valdið honum miklu tjóni ef hann fellur ekki fram og hlýðir fyrirskipunum hinnar máttugu Ingu.

Fyrst hún gerir það í lítilfjörlegu máli, sem viðkomandi embættismanni kom raunar lítið við, hvað gerist þá í málum sem varða mikilvæga hagsmuni?


mbl.is Mikil misbeiting á ráðherravaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við styðjum Dani

Donald Trump hefur ítrekað talað um að Danir selji Bandaríkjunum Grænland. Fyrst töldu allir að þetta væri grín, en svo er ekki. 

Trump talaði við Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana í síma fyrir nokkru og því fór fjarri að það væri vinsamlegt símtal og Trump sat við sinn keip. 

Danir leita eftir samstöðu og stuðningi Norðurlanda í þessu máli. Forsætisráðherrar Svía, Noregs og forseti Finnlands sóttu óformlegan kvöldverð Mette í gær. Forsætisráðherra Íslands var ekki viðstödd og eðlilegt að spurt sé  hverju sætir. 

Hvað sem því líður þá breytir það engu um, að við eigum þegar í stað að taka afgerandi afstöðu með Dönum gegn þessum tuddaskap. Sá tími verður að vera liðinn, að stórveldin fari sínu fram gagnvart smáþjóðum. 

Norðurlöndin eiga þegar í stað að lýsa yfir órofa stuðningi og samstöðu með Dönum í þessu máli. Á sama tíma er æskilegt að tryggja samvinnu Bandaríkjanna, Dana og annarra Norðurlandaþjóða um varnir, öryggi og velferð Grænlands. 

Við eigum Dönum skuld að gjalda hvað svo sem ritað hefur verið um samskipti þjóðanna meðan Danir fóru með stjórn Íslands m.a. sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Við höfum því margar ríkar ástæður umfram réttlætið til að standa með Dönum. 


mbl.is Danir í kröppum dansi: Trump ekkert að grínast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Kúrda?

Kúrdar eru þjóð, sem býr í fjallahéruðum Tyrklands, Sýrlands, Íran og Írak. Öldum saman hafa þeir verið kúgaðir og sviptir mannréttindum. Nú sækja vígasveitir á mála Tyrkja að þeim með blessun Erdogan forseta og stuðningi hans.

Í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi náðu Kúrdar að njóta sjálfstjórnar. Vesturlönd, Bretland og Bandríkin mega þakka þeim fyrir að hafa náð að sigrast á ISIS hryðjuverkasamtökunum. Ríki ÍSIS leið undir lok ekki síst vegna hetjulegrar baráttu Kúrda.

Staða Kúrda hefur verið vernduð af þúsund manna bandarísku herliði í Sýrlandi. Hvað gera þeir nú?

Í fangelsum Kúrda eru þúsundir Íslamskra hryðjuverkamanna, sem voru handteknir þegar ríki Íslam(ISIS) var sigrað 2017. Herði Tyrkir sóknina gegn Kúrdum er hætt við að Kúrdar geti ekki lengur gætt þessara hryðjuverkamanna.

Hvað ætla Vesturlönd að gera? Hvað ætlar Trump að gera? Ef Trump er sjálfum sér samkvæmur lætur hann Erdogan heyra, að Bandaríkin sætta sig ekki við að hann fari með hernaði á hendur þessum traustu bandamönnum og hlutaðist til um það að tryggja frelsi, sjálfstjórn og mannréttindi Kúrda í Sýrlandi. 

Vesturlönd hafa siðferðilega skyldu til að vernda Kúrdíska bandamenn sína í Sýrlandi og verða að gera Erdogan ljóst, að þau munu ekki hverfa frá stuðningi við Kúrdíska sjálfstjórn í Sýrlandi og muni verja hana með hernaði ef þörf krefur. 

Meira þarf til. Vestræn ríki eiga að gangast fyrir því að losa Kúrda úr ánauð og gera sitt til að sjálfstætt Kúrdistan verði að veruleika. Áfamhaldandi kúgun Kúrda á ekki að líða.

 


Fréttir eða áróður .

Aðilar á vegum múslimaríkisins Abu Dhabi leitast við að kaupa fjölmiðilinn Daily Telegraph.(DT) DT er með beittari fjölmiðlum skynsemishyggju og baráttu fyrir þjóðlegri arfleifð. Áhugi emírsins í Abu Dhabi og skósveina á að eignast DT snýst ekki um að efla tjáningarfrelsið eða að blaðið haldi áfram óbreyttri ritstjórnarstefnu heldur hafa virk áhrif á skrif blaðsins og loka á upplýsingaveitu til almennings. 

Í stöðugt auknum mæli hafa hagsmunaaðilar keypt fjölmiðla eða stofnað slíka oftast í nafni annarra en sjáfls sín. Fjölmiðillinn breytist þá í áróðursrit fyrir hagsmunum eigendannaog birtir ekkert sem þeim er mjög andsnúið. 

Margir hafa undrast á afstöðu ýmissa "vestrænna" fjölmiðla í innflytjendamálum,hryðjuverkasamtaka múslima, nauðgunargengja múslima, baráttu varnarsveita Ísrael gegn hryðjuverkasamtökum o.s.frv. Stutta svarið er að þetta stafar af tvennu. Annars vegar ógnina. Íslamskir vígamenn hafa drepið og leitast við að drepa fjölmiðlafólk sem þeir telja sér andsnúið og fjölmargir "vestrænir" fjölmiðlar eru í eigu fjárfestingasjóða í eigu múslmaríkja. Þannig er komið tjáningarfrelsinu í hinni "frjálsu" Evrópu. 

Einn er sá miðill, sem emírarnir og kalfífarnir þurfa ekki að kaupa. Fréttastofa RÚV, sem kemur boðskap þeirra ómenguðum til skila. Raunar hefur fréttastofa RÚV þróast þannig að ekki verður annað séð en fram sé kominn nýr stjórnmálaflokkur. Flokkurinn í Efstaleitinu, sem hefur það helst á stefnuskrá sinni að berjast fyrir opnum landamærum, woke hugmyndafræði,auknum ríkisútgjöldum, aðild að Evrópusambandinu, gegn Trump og öllu sem hann stendur fyrir og gegn þjóðlegri arfleifð þó svo það sé í lögum stofnunarinnar að hennar skuli sérstaklega gæta. 

Eðlilegra er að fréttafólkið á RÚV stofni eigin stjórnmálaflokk, sem fengi styrki í samræmi við þá spillingu alla, en léti eftir RÚV, sem yrði gert að raunverulegu ríkistúrvarpi,sem hefði að markmiði að efla íslensku, þjóðlegan fróðleik og íslenskan menningararf og stæði vörð um hlutlægan fréttaflutning og hagsmuni þjóðarinnar. Óneitanlega yrði mikil bragrabót af því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.3.): 672
  • Sl. sólarhring: 710
  • Sl. viku: 2159
  • Frá upphafi: 2504806

Annað

  • Innlit í dag: 642
  • Innlit sl. viku: 2033
  • Gestir í dag: 615
  • IP-tölur í dag: 603

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband