Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tilbúinn hvar sem vera skal

Brynjar Níelsson fv.þingmaður sækist eftir sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins og er það ánægjuefni. Nái hann kjöri má telja upp á að almenn leiðindi á Alþingi verði minni en verið hefur á þessu kjörtímabili þar sem á hefur skort að á þingi sitji fólk sem sér líka spaugilegu hlutina við tilveruna. 

Skv. frétt mbl.is má skilja Brynjar, að hann sé tilbúinn í slaginn í hvaða kjördæmi sem er. Þegar atkvæði eru talin í alþingiskosningum er jafnan talað um flakkarann sem er sá þingmaður óbundinn kjördæmum sem dettur inn sem jöfnunarmaður síðast allra. Nú býðst Brynjar til að vera flakkari fyrirfram. 

Sumir ætla vegna þess skamma tíma, sem eru fram að kjördegi,að þá sé ekki annað í stöðunni en að samþykkja óbreytta framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Það er rangt. Allar heimildir eru fyrir hendi í skipulagsreglum til að lýðræðið fái að ráða og kjördæmisráð ákveði framboðslista flokksins óbundið af því hverjir sitja fyrir í hvaða fleti. 

Mikilvægt er að breytingar verði á framboðslistum Flokksins og þess sjáist glögg merki að Flokkurinn telji nú nauðsynlegt að víkja í burtu því vinstra foraði sem Flokkurinn hefur of lengi verið fastur í. 

Einnig að sú einarða afstaða flokksmanna, sem kemur fram í skoðanakönnunum. um að gæta verði fullveldis þjóðarinnar og játast ekki undir erlent skattlagningarvald hvort sem er í loftslagsmálum eða á öðrum sviðum, fái framgang með því að fulltrúar þeirra sjónarmiða skipi sæti efst eða ofarlega á framboðslistum Flokksins. Þar er til mikils að vinna hvað varðar heildarfylgi Flokksins að vel takist til. 


Ótrúleg vanþekking á stjórnskipun landsins.

Í viðtalsþætti formanna stjórnmálaflokkanna í kvöld kom fram ótrúleg vanþekking á þeim atriðum í stjórnskipun landsins sem snúa að Alþingi og ríkisstjórn. Ekki var annað ráðið, en Bjarni Benediktsson væri sá eini, sem kynni skil á stjórnskipun landsins. 

Það er ekki von á vandaðri lagasetningu frá Alþingi þegar helstu forustumenn stjórnmálanna hafa ekki einu sinni kynt sér stjórnarskrána og  helstu atriði íslenskrar stjórnskipunar í þaula. 

Í fyrsta lagi virtist skorta á að forustumennirnir gerðu sér grein fyrir því hvað felst í þingrofi. Það ætti þó ekki að þurfa að vefjast fyrir neinum. Þegar þing er rofið, þá eru engir þingmenn lengur. Fólkið sem situr á Alþingi núna hefur ekki meira að segja um löggjafarmálefni eftir þingrof en Baldur Breiðholtinu eða Árný í Árbæjarhverfinu.

Frá þeim tíma að forseti rýfur þing eru engir Alþingismenn og þar af leiðandi verða ekki afgreidd fjárlög eða önnur lög. Þessvegna eru líka ákvæði í stjórnarskrá að kosið skuli innan fárra daga svo landið sé ekki lengi þingmannslaust.  

Verulega skorti á að forustufólkið gerði sér grein fyrir hvaða völd og skyldur starfsstjórn hefur. Bjarni Benediktsson tók raunar þá sem voru hvað galnastir í ágæta kennslustund, en dugði samt ekki til. 

Að vanþekkingunni á stjórnskipun landsins frágenginni, þá var þetta um margt ágætur umræðuþáttur og foringjarnir stóðu sig vel að frátalinni Svandísi Svavarsdóttur og Þórhildi Sunnu.

Bjarni Benediktsson náði góðum sprettum og mikið var ánægjulegt að sjá hann á lokametrunum boða eindregna stefnu okkar hægri manna, sem hann gerði frábærlega vel, en hún hefði mátt hljóma og komast að einhverju leyti í framkvæmd öll þau 7 ár sem ríkisstjórnin hefur setið.

Bjarni ásamt Kristrúnu Frostadóttur stóðu sig langbest, en Kristrún var málefnaleg og yfirveguð. Þá komu þau líka sterk inn Sigurður Ingi og Inga Sæland. 

Nú þarf forseti lýðveldisins að ákveða sem allra fyrst hvað skuli gera og vandséð er eftir yfirlýsingar forustumanna mikils meirihluta þingmanna að hún geri annað en að fallast á að þing verði rofið og boðað til kosninga 30 nóvember. 

Já og þá er að láta hendur standa fram úr ermum til að sem flestir kjósi rétt.

 


Hvað nú?

Vonum seinna sleit Bjarni Benediktsson stjórnarsamstarfinu. Það hefði átt að gera löngu fyrr, áður en í óefni væri komið í svo mörgum málum aðallega vegna þvergirðingsháttar VG. 

Í rúm 7 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn gefið svo mikið eftir fyrir VG að það verður erfitt fyrir forustu flokksins og þingflokk að heyja kosningabaráttuna sem trúverðugur hægri sinnaður borgaralegur flokkur sbr. grunnstefnu flokksins: 

"Að vinna í innanlandsmálum  að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Hvað skal þá til ráða?

 


Og ég sem á eftir að vaska upp.

Sagt er að eitt sinn, þegar Lási kokkur og skipsfélagar hans voru úti á rúmsjó, hafi einhver kallað niður til Lása: "skipið er að farast Lási" og þá glumdi um allt skipið."Ó Guð minn góður og ég sem á eftir að vaska upp."  Þannig lítur hver með sínum hætti á sitt mikilvægasta hlutverk.

Á Íslandi er ríkisstjórn sem á ekkert erindi lengur. En ráðherrarnir afsaka slímsetu sína í ráðherrastólum með því að það séu svo mörg verkefni sem brýnt sé að leysa áður en þeir standi upp úr stólunum.  Þannig er það alltaf. Samt er  mikilvægast að losna við ríkisstjórn sem hefur þrotið örendið.

Ríkisstjórnina þraut örendið þegar þáverandi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir stóð upp úr stólnum. Þá þegar voru andstæður orðnar áberandi og vaxandi. Þess þá heldur mátti öllum vera ljóst að það væri glæfraspil að halda áfram þegar VG mundi breytast í SS (skæruliðasveit Svandísar Svavarsdóttur), sem hefur ekki vílað fyrir sér að ganga gegn stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi og valda einstaklingum, fyrirtækjum og ríkinu milljarða tjóni. 

Þar sem ríkisstjórnina skortir framtíðarsýn og innan hennar er ekki samstaða um neitt sem máli skiptir væri ráðlegast fyrir forsætisráðherra að biðjast þegar á morgun lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. 

Það er svo annað mál, hvort formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar vilja leggja áfram á djúpið, þá með tilstyrk annarra. En þessi ríkisstjórn gengur ekki þar sem VG Svandísar Svavarsdóttur er ekki stjórntækur flokkur lengur. 


Viðurstyggilegur glæpur

Í dag er ár liðið frá einu hræðilegasta grimmdarverki og hryðjuverki sem framið hefur verið. 1.200 manns voru myrt og 251 tekin í gíslingu af hryðjuverkasveitum Hamas allt vegna þess að þau voru Gyðingar. Mesta mannfall Gyðinga frá tímum "Helfararinnar" Ungabörn voru steikt í ofnum og einstaklingar og fjölskyldur brenndar lifandi. Þetta fólk hafði ekkert til saka unnið annað en að tilheyra ákveðnum kynþætti. Árásin var algerlega rasísk.

Konum var hópnauðgað og flestar myrtar síðan og lík þeirra svívirt eins og raunar flestra sem drepnir voru. Hamas liðarnir sem framkvæmdu þennan hrylling voru svo stolltir að þeir hringdu í mömmu eða pabba og sendu myndir af svívirtum líkum Gyðinga, stoltir yfir hryðjuverki sínu. Við skulum minnast þessa í dag. Þessa hroðalega hryðjuverks samtaka sem berst opinberlega fyrir þjóðarmorði á Gyðingum. Öllum Gyðingum hvar svo sem þeir eru.

Ekið var með lík sumra kvenna sem hafði verið nauðgað og líkin svívirt um götur Gasa borgar og þar skyrpti fólk á líkin og lét sér vel líka viðbjóðurinn og hryllingurinn.

Varnarsveitir Ísrael gripu að sjálfsögðu til vopna til að verja land og þjóð. Við skulum muna að stríðið á Gasa er ekki vegna þess að Ísrael  hafi óskað eftir því. Það er háð af brýnni nauðsyn, þjóðar sem veit að ef hún sýnir ekki styrkleika verður henni útrýmt.

Hryðjuverkasamtökin Hamas og Hesbollah (stjórnmálaflokkur Guðs) hafa það bæði á stefnuskrá sinni að drepa alla Gyðinga, karla, konur og börn hvar svo sem þeir finnast. Þegar talað er um þjóðarmorð þá er það yfirlýst stefna þessara samtaka að fremja þjóðarmorð á Gyðingum. Það er því argasta öfugmæli þegar því er haldið fram að Ísrael í sinni varnarbaráttu sé að framkvæma þjóðarmorð. Því fer fjarri.

Varnarsveitir Ísrael hefur tekist að koma í veg fyrir þjóðarmorð á Gyðingum með því að sýna styrk og reynt til hins ítrasta að koma í veg fyrir að almennir borgarar slasist eða deyji.  Í því sambandi er athyglisvert að skoða íslenska fréttamiðla einkum RÚV. Aldrei segir sú fréttastofa að rúmlega 18 þúsund liðsmenn Hamas hafi fallið í átökunum. Þvert á móti er látið líta svo út sem allir þeir sem falla á Gasa séu konur, börn og gamalmenni. Afbökun staðreynda hjá RÚV er algjör.

Hamas liðar eins og Hesbollah skæruliðar telja það málstað sínum til stuðnings að sem flestir óbreyttir borgarar falli og þeir hafa því komið stjórnstöðvum sínum  og skotpöllum fyrir undir sjúkrahúsum, barnaleikvöllum, skólum og í fjölbýlishúsum til að nota íbúa á Gasa sem mannlega skildi fyrir sig. Til að verjast og geta farið úr einu hverfi í annað hafa Hamas liðar gert göng undir Gasa sem eru lengri en allt neðanjarðar lestarkerfið í Lundúnum. Já og það er allt gert fyrir mannúðar aðstoð frá Vesturlöndum.

Það er verið að fást við harðsvíruðustu hryðjuverkahópa í heimi verri en ÍSIS og Al Kaída.

Hesbollah er talið hafa um 100 þúsund vígamenn og 150 þúsund eldflaugar. Þeir hafa skotið þeim á Ísrael eftir hentugleikum þeirra og mikill fjöldi íbúa í norður Ísrael þurftu að yfirgefa heimili sín í upphafi átakanna, en RÚV og vestrænir fréttamiðlar segja aldrei frá því. 

 

Það er nánast ótrúlegt að svo margir á Vesturlöndum skuli ekki sjá þennan einfalda veruleika sem blasir við í baráttunni við þessi hryðjuverkasamtök sem gerð eru út af klerkastjórninni í Íran þar sem konur eru drepnar fyrir að hafa hár sitt ekki hulið.  

Það er líka ótrúlegt að fólk á Veturlöndum skuli veifa fána Hamas og kyrja möntruna þeirra frá ánni til sjávar sem þýðir í raun drepum alla Gyðinga. Slíkt á ekki að líðast, það er rasismi af verstu sort. 

Einkar athyglivert hefur verið að fylgjast með því að allan þann tíma sem að Ísraelsmenn hafa staðið í varnaraðgerðum vegna þeirra árása sem gerð hefur verið á þá, hafa vestrænir stjónmálamenn hamast við að þrýsta á þá að gera vopnahlé. Vopnahlé, sem er eingöngu í þágu hryðjuverkahópanna og mundi leiða til þess að Hamas gæti náð að vígvæðist á nýjan leik og fremja ný hryðjuverk. 

Við getum ekki liðið hryðjuverkahópa, sem hafa þjóðarmorð á stefnuskrá sinni. Biden er því miður úr takt við raunveruleikann í þessu máli sem svo mörgum öðrum. En fátt hefur sýnt jafn mikinn veikleika og aumingjaskap og framganga Biden stjórnarinnar í þessu máli. Af hverju studdu þeir ekki bandamenn sína Ísrael þegar Íran hefur látið sprengjum rigna yfir Ísrael og sýndu klerkastjórninni að þetta yrði ekki liðið og hvað með Hútana í Yemen sem Klerkastjórnin í Íran vígvæðir. Af hverju er þeim ekki svarað. Þeir hika þó ekki við að ráðast gegn öllu vestrænu. 

Þess vegna er svo dapurlegt að sjá ungt fólk samsama sig með hryðjuverkahópunum sem ætla að útrýma Gyðingum, en felstir þeirra munu ná áttum þegar aldurinn færist yfir. Það er verra með stjórnmálamenn í Evrópu og Bandaríkjunum, sem neita að horfast í augu við hvað er að etja og skyldu okkar til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á Gyðingum og nauðsyn þess fyrir okkur að sú varnarlína sem Gyðingar reisa í Ísrael gegn hryðjuverkaöflunum bresti ekki og færist til Evrópu. En það gerist bili sú brjóstvörn og hetjuskapur og hreysti, sem Ísrael sýnir núna. 

Í dag skulum við minnast þeirra sem féllu í hryðjuverkaárás Hamas og við skulum líka minnast þess af hverju Varnarsveitir Ísrael þurfa að standa í bóðugum mannskæðum átökum við hryðjuverkahópa. 

Stöndum með Ísrael gegn rasísku hryðjuverka- og öfgaöflunum.

 

 


Nú skal hamarinn þyngdur og sigðin brýnd sem aldrei fyrr.

Landsfundi VG er lokið og síbrotaráðherran Svandís Svavarsdóttir var kjörinn formaður. Líkur eru á að við lok ríkisstjórnarsamstarfsins falli dómur vegna embættisafglapa hennar, sem muni kosta skattgreiðendur milljarða. 

Nýkjörni formaðurinn var að vonum glöð yfir frama sínum og boðar að nú skuli hamarinn þyngdur og sigðin brýnd sem aldrei fyrr til að koma auðvaldinu á kné og koma í veg fyrir samkeppni. Þess í stað skuli auka skattheimtu, þó ekki sé sérstaklega getið til hvers. Vinstri öfgaflokkur eins og VG á aldrei í vanda með að eyða annarra manna fé.

Já og ríkisstjórnina segur VG mega skröngla fram á vor náist samstaða um óræðar frekari áhugamál VG. 

Ríkisstjórnin hefur setið í tæp 8 ár. Í upphafi samstarfsins komu flokkarnir sér saman um málefnasamning, sem síðan var endurnýjaður með breytingum í upphafi þessa kjörtímabils. Hann var síðan enn og aftur ritrýndur og um hluti samið þegar Katrín ætlaði að verða forseti og Bjarni Benediktsson tók við. 

Ef til vill væri gott að nýr formaður VG horfði í spegil og svaraði þeirri spurningu ærlega hvað væri helsta vandamál ríkisstjórnarinnar. Heiðarlegt svar væri frekja og yfirgangur VG í stjórnarsamstarfinu ekki síst hennar sjálfrar. 

Með sama hætti mætti forsætisráðherra horfa í spegil og spyrja hve lengi enn ætlið þið í VG að misbjóða þolinmæði vorri, eins og ræðusnillingurinn Cicero í hinni fornu Rómaborg mælti, til helsta misyndismannsins í rómverska senatinu um 50 fyrir Krist.

En hættan er sú að forsætisráðherra láti enn og aftur bullið og ruglið í þessum öfgavinstri flokk yfir sig ganga eins og ekkert sé og rýri þar með kapítal eigin flokks enþá meira. 

Það er þegar allt of langt gengið í þjónkun við VG og segja má að ríkisstjórn Bjarna Ben hefði átt fyrir löngu að segja það sem Hermann Jónasson þáverandi forsætisráðherra Framsóknar sagði árið 1958 "innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um neitt sem máli skiptir" og sagði síðan af sér.  Samstaða innan þessarar ríkisstjórnar um það sem máli skiptir hefur ekki verið til staðar lengi. Slíkar ríkisstjórnir eiga að víkja því þær eru ekki á vetur setjandi.  


Kamelljónið

Kamelljón skipta um lit eftir aðstæðum og eru alætur. Viðreisn hefur eignast sitt kamelljón í holdgervingi Jóns Gnarr.

Helsta vandamálið, sem að Jón Gnarr nefnir sem nýbakaður Vðireisnarmaður er, að við höfum tekið við of mörgum flóttamönnum. Bregðast verði við með því að loka landinu.

Jón Gnarr sýndi eftirminnilega sem borgarstjóri, hvað hann átti gott með að bregða sér í margbrotin hlutverk t.d. á degi fatlaðra, hinssegin fólks og sjónskertra svo dæmi séu nefnd. Nú eru útlendingarnir of margir og Jón sækir gegn þeim.

Jón Gnarr var í framboði til forseta og var spurður um fjölmenningu og útlendinga og þá hafði hann þessa skoðun: 

Ég er eindreginn fjölmenningarsinni. 

Íslenska samfélagið er miklu skemmtilegra vegna innflytjenda.

Sem forseti mun ég tala máli þeirra útlendinga sem hingað vilja koma og setjast að. 

Þá gagnrýndi Jón sérstaklega að RÚV gæfi upp þjóðerni sakamanna og sagði almenningi kæmi  það ekki við. 

Þegar vegin eru saman orð og áherslur Jóns Gnarr forsetaframbjóðanda og Viðreisnarframbjóðanda kemur í ljós það sem einkennir pólitísk kamelljón. Þú veist ekkert fyrir hvað kamelljónið stendur eða hvað það vill í pólitík annað en að komast í vellaunaða innivinnu, án takmarks eða tilgangs.

Alætan kamelljónið sem getur skipt litum eftir aðstæðum segir því eitt í dag annað á morgun.

Það er eðli kamelljóna. 


Verðugt verkefni

Það styttist í 29.loftslagsráðstefnu S.Þ. í Bakú. Þangað ætlar ríkið að senda 50 fulltrúa og styrkir annan eins fjölda frá allskyns sértrúarsöfnuðum í loftslagsmálum. 

Þessir fulltrúar íslenskra skattgreiðenda munu styðja tillögur  um að leggja meiri höft og takmanir á atvinnustarfsemi okkar, sem bitnar harðast á neytendum og atvinnurekstrinum. 

Ég tel upp á, að engin íslensku fulltrúana muni hafa burði til að segja sannleikann á þessari ráðstefnu. Menn munu veifa loftslagsbók Gulla ráðherra "Loftslagsþolið Ísland" og samþykkja frekari álögur á neytendur og fyrirtæki þessa lands. 

En hver er raunveruleikinn. Miðað við hitastig síðustu ára, þá er ekki að hlýna á Íslandi heldur kólna. Úr því má bæta með því að setja fleiri hitamæla á heitustu stöðum landsins eins og SÞ gerir varðandi sínar mælingar. 

Nýliðinn september var kaldasti september í 19 ár á Íslandi og árið í heild stefnir í að vera kaldasta árið á öldinni. En staðreyndir hafa aldrei verið til trafala fyrir þá loftslagspáfa, sem höndla með peninga og framtíð annarra. 

Mér er sagt að a.m.k. á fimmta hundrað manns hér á landi hafi verulegar atvinnutekjur eða jafnvel allar sínar tekjur af því að prédika hlýnun jarðar og nauðsynleg viðbrögð við því. Væri ekki rétt að segja þessu fólki upp ásamt þeim stjórnmálamönnum sem hugsa fyrst og fremst um að gera lífskjör fólksins í landinu verri og senda stöðugt fleiri milljarða úr landi til einhvers sem engin veit hvað er, en eru einhverskonar aflátsgreiðslur til einhverra sem síðan draga úr loftslagsvá með því að henda þúsundum tonna af trjákurli í sjóinn til að draga úr hlýnun og grafa  holur til að jarðsetja þar erlenda mengun. 

Burt með þetta endemis rugl. Veljum fólk sem vill bæta lífskjörin í landinu í stað þeirra sem vinna gegn hagsmunum almennings og fyrirtækja. 


Flóttamannabúðir í vesturbænum

Stofnun ríkisvaldsins hefur ákveðið að í JL húsinu vestast í Vesturbæ Reykjavíkur, hvar vorsólin fegurst skín skuli vera fjölmennar flóttamannabúðir fyrir ólöglega innflytjendur. 

Þetta ráðslag var ekki kynnt íbúum hverfisins eða þeir spurðir álits. Samt er þetta grundvallarbreyting, sem mun hafa víðtæk áhrif á mannlíf og verð fasteigna m.v. reynslu erlendis frá.

Svo sérkennilegt sem það nú er í lýðfrjálsu landi, þá eru íbúarnir, fólkið aldrei spurt að því hvað það vilji í sambandi við ólöglega innflytjendur. Stjórnleysi stjórnvalda í innflytjendamálum bitnar á venjulegu fólki, sem aldrei er spurt og hefur aldrei fengið neitt til málanna að leggja.

Búast má við að álíka flóttamannabúðir rísi í fleiri hverfum í Reykjavík á næstunni ef ekki verður komið böndum á þetta rugl, með sömu afleiðingum og verður nú vestast í Vesturbænum, þar sem nágrannar flóttamannabúðanna mega búast við ónæði, breytingu á hverfinu til hins verra og verðrýrnun eigna sinna.

Hverjum datt eiginlega í hug það ráðslag að koma flóttamannabúðum fyrir í fjölmennu friðsælu íbúðahverfi án þess að fá samþykki íbúanna fyrir þessari grundvallarbreytingu?

Og þetta gerist í vesturbænum,á þeim stað sem skáldið meitlaði í eitt fegursta ljóð sitt:  "veit auga þitt nokkuð fegurra en vorkvöld í Vesturbænum".

Er ekki tími til kominn að gæta hagsmuna íbúanna í landinu, þjóðarinnar?


Aldrei skal hvikað.

Stundum er sagt að það sé ekkert eins varanlegt og tímabundið starf hjá hinu opinbera. Jafnvel þó að tilefnið fyrir tímabundinni ráðningu sé löngu liðið, þá er engum sagt upp. 

Í gær skilaði starfshópur um flugvöll í Hvassahrauni skýrslu um framtíðarflugvöll. Formaður hópsins viðurkenndi að vissulega væri til staðar eldgosahætta, en sá ekki ástæðu til annars en að hópurinn héldi áfram störfum til undirbúnings flugvallarins, Skynugir sjá þó í hendi sér að hann verður aldrei gerður. 

Þetta starf og  skýrsla er ekkert vitlausari en svo margt annað hjá ríkinu, sbr. skýrsluna "loftslagsþolið Ísland" þar sem fjallað er um viðbrögð við hlýnun, sem engin verður var við nema þeir sem vinna að slík verkefni hjá ríkinu og áfram skal haldið hvað sem tautar og raular.

Til að kóróna alla þá vitleysu, hyggst ríkið senda 60 manna sendinefnd á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Því miður virðist sem hver vitleysan eftir annarri sem stjórnvöld taka upp á sé jafn varanleg og tímabundin störf hjá ríkinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 372
  • Sl. sólarhring: 490
  • Sl. viku: 4193
  • Frá upphafi: 2427993

Annað

  • Innlit í dag: 343
  • Innlit sl. viku: 3879
  • Gestir í dag: 322
  • IP-tölur í dag: 300

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband