Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

200 innheimtulögfræðingar

Meiri hluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi, Þráinn Bertelsson fór mikinn í ljósvakamiðlum í kvöld vegna Kvikmyndaskóla Íslands og gerði kröfu til að hann fengi rekstrarfé úr ríkissjóði og sagði það merkilegra en mennta 200 innheimtulögfræðinga.

Kvikmyndaskóli Íslands er allra góðra gjalda verður  og vel getur verið rétt að skólinn fái aukið fé úr ríkissjóði. Það er óviðkomandi námi annars fólks.  Ég veit ekki til þess að nokkur skóli á Íslandi mennti innheimtulögfræðinga eða það sé sérstök námsbraut.  Þráni Bertelssyni finnst hins vegar rétt að gera lítið úr lögfræðinámi og það er  í samræmi við aðra sleggjudóma þessa manns.

Ekki er hægt að áfellast Þráinn Bertelsson fyrir vanþekkingu í skóla-og menntamálum en hitt ætti hann að vita, að hann er í sama stjórnmálaflokki og menntamálaráðherra og gæti því borið erindi Kvikmyndaskóla Íslands beint undir hana. Hann gæti komið fordómum sínum varðandi lögfræðinám á framfæri milliliðalaust og gert kröfur varðandi Kvikmyndaskólann. Þráinn er altént líftaug gjörspilltrar ríkisstjórnar, sem mundi vafalaust ekki muna um einn kepp í sláturtíðinni þegar svo mikilvægur maður á í hlut.

Þráinn getur því sparað sér þann pópúlísma og sýndarmennsku sem hann viðhafði í sjónvarpi í kvöld en unnið vinnuna sína á þingflokksfundum Vinstri grænna en undir þá heyra þessi mál.

Skrýtið að þessi heiðurslaunþegi skuli aldrei geta opnað munninn án þess að veitast að öðru fólki og reyna að gera lítið úr því.


Gróði skattgreiðenda?

Fulltrúar hagsmunaaðila halda jafnan fram, að leggi ríkið þeim til peninga þá muni þjóðfélagið græða. Gróði skattgreiðenda er að borga þessi arðbæru verkefni núna til að geta notið þeirra síðar.

Í meir en 50 ár hafa skattgreiðendur greitt gríðarlega fjármuni árlega til að tryggja markaðssókn í sauðfjárrækt. Ekkert hefur skilað sér til baka og enn nýtur sauðfjárræktin meiri styrkja skattgreiðenda en aðrar landbúnaðargreinar í Evrópu.

Talsmenn músíkhússins við höfnina í Reykjavík halda því fram að húsið muni ekki kosta skattgreiðendur neitt því að þjóðhagslegur hagnaður af músíkhúsinu vegna grósku í söng- og öðru listalífi muni skila sér í auknum tekjum þ.á.m. gjaldeyristekjum. Fróðlegt verður að sjá hvernig á að rökfæra það að ná megi inn hagnaði þó ekki sé nema bara á móti rekstrarkostnaði við músíkhúsið sem verða rúmir 8 milljónir á dag, hvað þá byggingarkostnaðinum.

Annað ferlíki er norður á Akureyri sem minnir á rómverskt hringleikahús, þar sem menning og menntun á að vera í öndvegi.  Þessi Circus Maximus átti að vera lyftistöng í menningarstarfsemi og draga til sín ferðamenn þannig að  gróði yrði af öllu saman. Er þar ekki sama og með músíkhúsið?

Talsmenn háskóla hafa bæst í hóp þeirra sem benda á þjóðhagslegan hagnað háskólastarfs. Ísland ætti að vera betur sett en nokkuð annað land í veröldinn með flesta háskóla fyrir hvern íbúa.  Á grundvelli þjóðhagslegrar hagkvæmni ber því enn að auka háskólakennslu vafalaust einkum á þeim  námsbrautum þar sem engin eftirspurn er fyrir menntuninni á markaðnum. Vafalaust má rökfæra það með sömu rökum og með músíkhúsið, sauðaketið og hringleikahúsið norðan Helkunduheiðar að þetta muni vera gríðarlegur vaxtabroddur og færa skattgreiðendum mikið hagræði.  

Í framtíðinni geta því skattgreiðendur horft fram á góða daga með því að standa undir okursköttum í núinu og samþykkja hallarekstur ríkissjóðs í núinu vegna þeirra gríðarlegu tekna sem myndast í frjósömu listalífi landsmanna tengdum músíkhúsinu og hringleikahúsinu, markaðssókn sauðaketsins og aukinni kennslu í kynjafræðum á háskólastigi. Eða er ekki svo?


Hin nýju goð álitsgjafa og háskólamanna?

Athyglivert hefur verið að fylgjast með stórum hópi Háskólasamfélagsins á Íslandi og álitsgjafa í kjölfar útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þar hoppar þessi hópur knékrúpandi í andakt og takt og boðar að hér hafi hinn heilagi sannleikur loksins komið fram um bankahrunið.

Þessi sami hópur hoppaði raunar líka fyrir tveimur árum knékrúpandi í andakt og aðdáun fyrir bankamönnum og útrásarvíkingum. Þá var spurt eins og einn háskólamaður orðaði það í gær í útvarpi  þegar menn þar á bæ veltu fyrir sér hlutunum: "Hvað skyldi Björgólfur segja um þetta"  Ég gat ekki skilið orð þessa manns með öðrum hætti en þeim að aðgerðir og áherslur í háskólasamfélaginu hafi verið í samræmi við vilja og þarfir þeirra ríku, en gagnrýnin hugsun hafi vikið þar sem styrkja og velgjörða var helst von af gnægtaborðum gullæta úr bankakerfinu og sporgöngumanna þeirra í hópi stærstu lántakenda.

Hvar var hin gagnrýna hugsun á þessum tíma?  Háskólasamfélagið og opinberu álitsgjafarnir ættu að spyrja sig þeirrar spurningar og svara heiðarlega. Það er ekki vanþörf á.

Í dag bendir Jón Tómasson fyrrum stjórnarformaður SPRON og Ríkislögmaður, sá sem harðast barðist gegn því að hirðarnir hirtu fé sparisjóðanna, á það að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki skoðað Sparisjóði landsins sérstaklega. Um það segir nefndin raunar að ekki hafi unnist tími til að taka þau mál til sérstakrar skoðunar. Nú verður það að teljast með nokkrum endemum að Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, sem telur eðlilegt að fjalla um pólitíska þróun þjóðfélagsins í tuttugu ár og fella pólitíska dóma um stjórnun, stjórnarfar og efnhagsstjórn þann tíma á hundruðum blaðsíðna, skuli ekki hafa séð ástæðu til að fjalla ítarlega og skoða þann mikilvæga hluta fjármálakerfisins sem sparisjóðakerfið var og samspil þess og annarra leikenda í fjármálalífinu.

Skipti það ekki máli að fjármunir sparisjóðanna skyldu vera hirtir með þeim hætti sem gert var?

Háskólasamfélagið ætti að standa undir nafni og sýna fram á tilverurétt sinn með því m.a. að fara með gagnrýnum hætti ofan í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar og velta við hverjum steini og mynda sér sjálfstæða skoðun í stað þess að lúta nú nýjum goðum í stað þeirra sem féllu 6. október 2008.


Dýragarðsbörnin.

Heroinhatesyou

Saga Christine F er mjög sterk og myndin sem gerð var um hana var það líka. Mér er minnistætt þegar Christine F og kærastinn hennar höfðu vanið sig af heróíni og gengið í gegnum kvalirnar sem því fylgdu og fóru síðan að hitta vinina á Bahnhof Zoo í Berlín og þá sagði vinur þeirra að hann ætlaði að hætt líka en það væri bara svo gott efni á markaðnum núna að hann ætlaði að nota það og hætta síðan. Þau Christine F og kærastinn ákváðu þá að fyrst þau hefðu getað hætt þá væri það ekkert mál að prófa þetta frábæra efni og þar með voru þau bæði sokkinn í neysluna. Kærastinn og vinurinn dóu en Christine F lifði.

Líf þessarar 46 ára konu sýnir hvað það er erfitt fyrir fólk sem byrjar í harðri neyslu fíkniefna ungt að koma sér frá neyslunni í eitt skipti fyrir öll. Það er dauðans alvara að prófa fíkniefni.

Skyldi saga Christine F vera kynnt í íslenskum skólum  og kvikmyndin sem gerð var um hörmungar krakkana sem voru í fíkniefnaneyslu með henni vera sýnd í íslenskum skólum.

Ef til vill er virkara að beita fræðslu og forvörnum í stað refsinga og lögregluaðgerðum.


mbl.is Christiane F. enn í eiturlyfjavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 375
  • Sl. sólarhring: 488
  • Sl. viku: 4196
  • Frá upphafi: 2427996

Annað

  • Innlit í dag: 345
  • Innlit sl. viku: 3881
  • Gestir í dag: 324
  • IP-tölur í dag: 302

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband