Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Bara svolítinn sykur

Þeir sem hafa séð kvikmyndina Mary Poppins muna vafalaust eftir því þegar hún fékk börnin til að taka meðalið sitt og söng "Just a spoonful of sugar helps the medicine go down( sykurskeið hjálpar til að koma meðalinu niður) Nú áratugum eftir að þessi sannindi komu fram hjá barnfóstrunni Mary Poppins þá er sagt frá því í tímaritinu "Nature" að þetta sé ekki bara rétt hjá Mary Poppins heldur auki sykurinn virkni sumra lyfja.

Þannig að "a spoonful of sugar makes the medicine work" (sykurskeið lætur lyfið virka) Þannig segir tímaritið frá því að sýklalyf sem gefin eru með sykri geti aukið virkni sýklalyfsins eins og t.d. þegar um berkla er að ræða og ýmissa aðra sjúkdóma.

Mary Poppins hefur greinilega vitað sínu viti og rúmlega það.


Dagdraumar

Samkvæmt grein í breska blaðinu The Daily Telegraph þá eyðum við tæpum helmingi af vökutíma okkar í dagdrauma. Nú hefði maður ætlað að fólk væri hamingjusamast þegar það sökkti sér niður í dagdraumana en því fer öðru nær. Staðreyndin er nefnilega sú að dagdraumarnir gera okkur döpur og valda iðulega hugarvíli.

Þess vegna segir í þessari könnun líður okkur best þegar við erum að gera eitthvað og lifum í núinu.  Það gerum við til dæmis með því að eiga samneyti við aðra, taka þátt í samræðum, fara í líkamsrækt eða út að ganga. Líka ef við einbeitum okkur að vinnunni merkilegt nokk. Þetta færir fólki meiri vellíðan en að horfa á sjónvarp eða gera ekki neitt annað en að sökkva sér niður í eigin dagdrauma.

Athyglivert.


Ráðdeild og sparnaður.

Flestir muna eftir helsta efnahagsúrræði forsætisráðherra sem hann setti fram í sumar að fólk ætti að spara m.a. fá sér sparneytnari bíla auk annars sparnaðar. Þessi ráðgjöf virðist bara eiga við almenning.  Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins á undan Davíð og Geir lögðu mikla áherslu á sparnað og ráðdeild í ríkisrekstri og töldu það aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins að standa þannig að landsstjórninni að fyllsta aðhalds og sparnaðar væri gætt.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn skipt um stefnu.  Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra lætur sig ekki muna um að fara til Kína með ráðuneytisstjóra sínum og  mökum þeirra til að horfa á handboltaleik. Vissulega mikilvægan handboltaleik þar sem spurning var um gull eða silfur á Olympíuleikum.  Ferðin kostaði skattgreiðendur 2.090.000 eða tæplega tværmilljónir og eitt hundrað þúsund eða 35.000 á hverja mínútu leiksins.

Ljóst er að fjármunir eru afstæðir og nauðsynlegt er að eyða ríkisins fé til brýnna hluta. Spurningin er hins vegar hvort þessi útgjöld eru afsakanleg. Þurfti menntamálaráðherra, ráðuneytisstjóri og makar að fara? Þau höfðu ekkert með gengi eða gengisleysi landsliðsins að gera. Menntamálaráðherra tók ákvörðun um að fara vegna þess að hana langaði til að horfa á handboltaleik. Vissulega má  hana langa til þess en þá er líka eðlilegt að hún og föruneyti hennar borgi fyrir sig.  Það var engin þjónustu við skattgreiðendur að fara þessa ferð.

Ég velti fyrir mér hvort starfsþunginn í menntamálaráðuneytinu sé svona lítill við upphaf skólaárs að menntamálaráðherra og ráðuneytisstjóri geti fyrirvaralaust tekið ákvörðun um að hlaupa í burtu í viku að eigin geðþótta.

Nú geta einhverjir reiðst og sagt að eðlilegt hafi verið að menntamálaráðherra sem líka er íþróttamálaráðherra væri viðstödd þennan mikilvæga leik. Þannig er það bara ekki. Það bar enga nauðsyn til og hvernig sem bullinu er á botnin hvolft þá liggur það fyrir að það var engin þörf á þessari ferð. Það væri mannsbragur að því að menntamálaráðherra og föruneyti borguðu fyrir sig en létu skattgreiðendur ekki sitja uppi með kostnaðinn af bruðli og óráðssíu fyrirfólksins í þjóðfélaginu.

Hvað skyldi þurfa skatta margra láglaunafjölskyldna til að borga fyrir íslenska aðalinn í Peking?


Dýragarðsbörnin.

Heroinhatesyou

Saga Christine F er mjög sterk og myndin sem gerð var um hana var það líka. Mér er minnistætt þegar Christine F og kærastinn hennar höfðu vanið sig af heróíni og gengið í gegnum kvalirnar sem því fylgdu og fóru síðan að hitta vinina á Bahnhof Zoo í Berlín og þá sagði vinur þeirra að hann ætlaði að hætt líka en það væri bara svo gott efni á markaðnum núna að hann ætlaði að nota það og hætta síðan. Þau Christine F og kærastinn ákváðu þá að fyrst þau hefðu getað hætt þá væri það ekkert mál að prófa þetta frábæra efni og þar með voru þau bæði sokkinn í neysluna. Kærastinn og vinurinn dóu en Christine F lifði.

Líf þessarar 46 ára konu sýnir hvað það er erfitt fyrir fólk sem byrjar í harðri neyslu fíkniefna ungt að koma sér frá neyslunni í eitt skipti fyrir öll. Það er dauðans alvara að prófa fíkniefni.

Skyldi saga Christine F vera kynnt í íslenskum skólum  og kvikmyndin sem gerð var um hörmungar krakkana sem voru í fíkniefnaneyslu með henni vera sýnd í íslenskum skólum.

Ef til vill er virkara að beita fræðslu og forvörnum í stað refsinga og lögregluaðgerðum.


mbl.is Christiane F. enn í eiturlyfjavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er forseta Íslands allt leyfilegt?

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson er um margt góður og verðugur þjóðarleiðtogi. Miklu skiptir að forsetaembættið njóti virðingar og á það falli ekki skuggi. Þess vegna hafa samskipti forsetans við ákveðna einstaklinga orkað tvímælis.  Forsetinn er ekki prívatpersóna og verður því að neita sér um ýmislegt vegna virðingar embættisins og hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Mér brá því nokkuð þegar ég sá í dag  forsíðufrétt í Fréttablaðinu með mynd af þeim Dorrit Moussaieff og Mörthu Stewart þar sem sagt er frá því að "bandaríski lífstílsfrömuðurinn Martha Stewart" sé stödd hér á landi og hafi snætt humar með forsetahjónunum á veitingastað á Eyrarbakka í gærkvöldi. 

Martha StewartMartha Stewart var dæmd í fimm mánaða fangelsi árið 2004 fyrir að ljúga að yfirvöldum varðandi viðskipti fyrirtækis síns og innherjaviðskipti. Af þeim sökum fékk hún ekki að koma til Bretlands að sögn breska blaðsins Daily Telegraph. Hægt er að komast inn á fréttina hér. 

Mér finnst ólíklegt að nokkur annar þjóðhöfðingi í norðanverðri Evrópu hefði tekið á móti Mörthu Stewart og boðið henni út að borða. 

Er það viðeigandi að forseti Íslands geri það? 


Mismunandi verðmætamat.

Svo eru menn að býsnast yfir því að það sé hátt verð hundrað milljónir fyrir góðan stóðhest á hestamannamóti þjóðarinnar meðan málverk seljast á hundruðir milljóna.
mbl.is Þrjár teikningar Goya seldar á 610 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Magnús Scheving

Í síðasta tbl blaðsins Economist er heilsíða um Magnús Scheving og Latabæ eða eins og segir. Toddlers know Magnus Scheving the boss of Lazy Town og síðan er gerð grein fyrir þáttunum um Latabæ og þýðingu þess að vera með sjónvarpsefni fyrir börn sem skírskota til heilbrigðra lífshátta.

Magnús Scheving hefur með frumkvæði sínu og dugnaði sýnt hvað er hægt að gera og hvaða árangri menn geta náð hafi þeir ákveðin markmið. Sagt er frá því að breska ríkisstjórnin sé nú í viðræðum við fyrirtæki Magnúsar um sameiginlegt átak.

Boðið er upp á fjölbreytt barnaefni í sjónvarpi og börn munu horfa á sjónvarp. Það skiptir því máli að börnum sé boðið upp á efni sem skírskotar til þess góða og hvað einstaklingurinn getur gert til að bæta sig og gera lífið skemmtilegra. Latibær er því kærkomið barnaefni sem á vonandi eftir að ná enn lengra.  Oft er barnaefni hlaðið af skrímslum og hræðilegum átökum milli kynjavera. Sumum kann að finnast það gott. En má ég þá heldur biðja um Latabæ.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 326
  • Sl. sólarhring: 632
  • Sl. viku: 4147
  • Frá upphafi: 2427947

Annað

  • Innlit í dag: 301
  • Innlit sl. viku: 3837
  • Gestir í dag: 288
  • IP-tölur í dag: 269

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband