Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Kaka eða faðmlag

Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa vakið athygli á því að það sé betra að fólk sem vill gera vel við samstarfsfólk sitt sýni því væntumþykju með faðmlagi eða með öðrum hætti innan siðrænna og viðurkenndra marka í stað þess að færa því kökur eða annað sætmeti,eftir komu frá útlöndum, á afmælum eða öðru tilefni.

Offita, áunnin sykursýki og vaxandi tannskemmdir eru verulegt og vaxandi heilbrigðisvandamál í Bretlandi. Þannig er það einnig hér. Nauðsynlegt er að vinna gegn sykurómenningunni.

Talið er að börn innbyrði að jafnmagni þriggja sykurmola með morgunkorninu sínu á hverjum morgni og sum mun meira. Sykur er nánast í allri tilbúinni fæðu og erfitt að varast hann. Það er heilbrigðismál að vinna gegn sykurneyslu.

Sykur er eins og hvert annað fíkniefni. Aukin sykurneysla kallar á meira magn af fíkniefninu sykri. Sykur kallar fram vellíðan hjá okkur sykurfíklunum og þess vegna sækjumst við í fíkniefnið, þrátt fyrir að vita að líkamlega er það bara vont fyrir okkur.

Á sama hátt og yfirvöld unnu gegn tóbaksreykingum ættu þau nú að setja sér markmið varðandi að draga úr sykur- og þess vegna saltneyslu þjóðarinnar. Það mundi auka vellíðan fólks þegar fram í sækir og draga úr kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Hver einstaklingur ber ábyrgð á sjálfum sér, en hann verður þá að eiga þess kost að geta valið ósykraða neysluvöru í stað sykraðrar eins og morgunkorn, brauð o.s.frv. Ef til vill mætti gera eins og með sígarettupakkana að setja varúðarmerki á neysluvörur þar sem sykurmagn er umfram ákveðið viðmið t.d:

VARÚÐ: Óhófleg sykurneysla er hættuleg heilsu þinni.


Brennur Borgarinnar

Í gær birtist vörpulegur borgarstarfsmaður á skjánum og sagði frá starfi borgarinnar við að gera brennur víðsvegar um borgina.

Sú var tíðin að Reykjavíkurborg kom þetta óverulega við. Þá var borgin bara með eina brennu þar sem nú er Kringlan. Á þeim tíma voru krakkar að hamast í frítíma frá skólanum við að búa til brennur. Undirbúningurinn tók allan desember og það var bankað upp á í hverri íbúð og víðar og sníktur eldsmatur.

Við krakkarnir lærðum mörg nauðsynleg handbrögð við undibúning brennunar bæði að hlaða með réttum hætti, byggja frumstæð hífingartæki, aga, samvinnu o.fl. o.fl. Allt var það af hinu góða og ungdómurinn lærði handbrögð og útsjónarsemi sem hefur reynst mörgum ómetanlegt veganesti í lífinu.

Óneitanlega vorum við sem tilheyrðum ungdómnum í nágrenni Ægissíðunnar í Reykjavík vestur á þeim tíma ánægð með það þegar okkar brenna sló út einu borgarbrennuna að stærð og var sú stærsta í borginni.

Áratugum síðar sat ég í stjórn íþróttafélags í síðasta þorpi Reykjavíkur "Árbæjarhverfinu" og varð undrandi þegar formaðurinn mæltist til þess að við stjórnarmenn færum að ganga frá brennu á svæði félagsins. Mér varð á orði en krakkarnir. Nei sagði formaðurinn þeir koma ekki nálægt því það er allt og hættulegt og þau geta það ekki.

Nú enn nokkrum áratugum síðar er þetta líka fyrir bí. Borgin sér um þetta. Borgarstarfsmenn safna í brennur og ganga frá þeim að öllu leyti frá upphafi til þess að þær verða eldinum að bráð og í þeim slokknar allt á kostnað skattgreiðenda.

Æskileg þróun?

Alla vega læra krakkarnir ekki vinnu- og handbrögð og kynnast ekki þeim aga sem þarf til að búa til góða brennu. Sýndarveruleiki tölvuleikjanna er tekinn við- hann er sjálfsagt ekki eins hættulegur.


Brennivínsmeingenið fundið

Enn eitt meingen hefur verið uppgötvað af forstjóra íslenskrar erfðagreiningar. Nú er það áfengismeingenið. Þetta meingen hefst illa við í nágrenni við áfengisútsölur að sögn forstjórans.

Þetta með áfengismeingenið er raunar ansi skondin uppfinning hjá Kára Stefánssyni og fróðlegt verður að lesa um það í virtum vísindaritum ef uppfindingin skyldi einhvern tíma rata þangað.

En þetta þráláta deilumál með áfengi í verslanir tekur á sig endalausar furðumyndir. Neysla á áfengi og öðrum neysluvörum fer eftir verði og aðgengi. Nú er aðgengi meginhluta almennings að áfengi svo mikið, að ekki verður séð að brýna nauðsyn beri til að troða því einnig í hillur matvörubúða. Á hinn bóginn verður ekki séð að aðgengið aukist til neinna muna þó að áfenegi fari í matvörubúðir miðað við ástandið eins og það er. Þannig að vesenast með það er dæmigert upphlaup sem þessari þjóð er svo tamt varðandi minni háttar atriði.

En svo er það spurning um frelsið. Mér finnst þjóðfélagslega óæskilegt að fólk reyki, drekki áfengi,  borði óhollan mat, teikni særandi myndir af Jesús eða Múhameð og svo mætti lengi telja, en ég vil ekki fórna frelsi borgarana og láta meingenafræðinga, stjórnmálamenn eða hryðjuverkamenn eyðileggja frelsið til að  passa fólk fyrir sjálfu sér eða ákveða hvar mörk tjáningafrelsisins liggja.

Eða eins og einn góður maður sagði forðum prentfrelsið og sorinn ganga hönd í hönd við verðum að þola sorann t.d. klámið ef við ætlum ekki að vinna tjáningafreslinu óbætanlegt tjón.

Ef kaupmaðurinn á horninu vill selja áfengi og Kári Stefánsson vill kaupa það af honum á þá að banna báðum að eiga þau viðskipti? Hvaða vitræna glóra er það í frjálsu landi?


Reykingarfasisminn

Ég er á móti tóbaksreykingum og mér finnst sígarettureykur óþægilegur og vil vera laus við hann. Reykingafólk á samt sinn rétt og verður að fá að stunda nautnalíf sitt með þeim hætti að það skaði ekki aðra en sig sjálft.

Tóbaksreykingar eru hættulegasta fíkniefnið hvort sem er ólöglegt eða löglegt af því að þær drepa flesta. Þrátt fyrir það telur löggjafinn rétt að leyfa þetta fíkniefni en banna önnur sem valda minna tjóni.

Fyrst notkun þessa fíkniefnis tóbaks er leyft þá er ekkert sem réttlætir að yfirvöld banni ákveðnar tegundir tóbaksreykinga eins og sígarettur með mentolfílter meðan fílterlausar lútsterkar Camel sígarettur eru látnar óáreittar. Það ekkert óáþekkt að banna bjór og leyfa brennivín.

Tilraunir alræðissinnaðs rétthyggjufólks til að setja sem víðtækustu takmarkanir á réttindi reykingafólks til að stunda þessa viðbjóðslegu nautn sína minna á hugmyndafræði alræðisríkis fasista á Ítalíu í tíð Mussolinis þegar ákveðna hluti skyldi framkvæma með þeim hætti sem voru að skapi Il Duce (leiðtoganum)

Fyrst við viljum banna að selja annað en vondar sígarettur af hverju færum við þetta ekki á aðrar skaðlegar nautnir eins og t.d. sykurneyslu sem drepur líka marga. Hvað segðu súkkulaði og sælgætisneytendur við því að hvorugt væri sjáanlegt í búðum og það þyrfti að biðja um það sérstaklega og þá yrðu lokaðir kassar opnaðir. Þá er spurning um hvort banna eigi sérstaklega sælgæti sem börn eru líkleg til að ánetjast eins og t.d. kókómjólk og Coco Puffs.

Svo má banna transfitu og krefjast þess að 29 vikur á ári borði fólk samkvæmt matseðli frá Lýðheilsustofnun.

Svo er líka til sú leið að gera fólk ábyrgt gerða sinna, uppfræða það og leyfa því síðan að lifa lífinu án afskipta Ríkisins af neysluvenjum borgaranna.


Hlutfallslega mest aukning þjóðarframleiðslu hvað?

Jóhanna Sigurðardóttir þrástagast á því að á Íslandi hafi orðið mestur vöxtur þjóðarframleiðslu ríkja í Evrópu á síðasta ári. Þetta er raunar ekkert afrek miðað við aðstæður undanfarin ár.

Þetta minnti mig á vini mína tvo sem fóru í megrunarkeppni um áramótin 2011. Þeir voru báðir 100 kg. Um áramótin 2012 hafði Gulli vinur minn náð af sér 8 kg. en Gústi vinur minn bætt á sig 2. Þeir ákváðu að halda keppninni áfram og um þessi áramót hafði Gulli  bætt á sig 2 kílóum og var orðinn 94 kg., en Gústi náði af sér hálfu og var 101.5 kg. Þegar þeir ræddu þetta vinirnir sagði Gústi. Þú ert nú meiri feitabollan Gulli bætir á þig 2 kílóum meðan ég næ af mér hálfu kílói. Gústi ræddi það síðan endalaust hvað hann hefði náð að gjörsigra Gulla hlutfallslega í megrunarkeppninni árið 2012.

Hér fljótum vér eplin sögðu hrossataðskögglarnir.


Nigella og uppskriftin að friðsælum jólum

Nigella Lawson sjónvarpskokkur segist hafa uppskriftina að góðum og friðsælum jólum. Hún býður alltaf einhverjum utanaðkomandi  til að taka þátt í hátíðarhöldunum  með fjölskyldunn.

"Það verður alltaf að vera einhver  til staðar sem fólk vill ekki líta illa út gagnvart." Það á heldur ekki að skipa fólki til sætis og það er mikilvægt segir hún. Ef fólki er skipað til sæti þá lítur fólk á mikilvægi sitt í samræmi við það hvað það er sett langt frá gestgjafanum. Svo segir hún það líka vera rugl að það eigi að skipa fólki til sætist eftir kynferði þ.e. stelpa, strákur og stelpa strákur.  Á hvaða öld haldið þið eiginlega að við lifum segir Nigella.

Ef uppskriftin er ekki flóknari til að eiga góð og happasæl jól sameiningar og friðar í fjölskyldum þá ættu allir að geta notið þess.

Svo er spurning hvort að sjónvarpskokkur veit betur en aðrir um atriði sem eru ótengd eldamennsku.

Alla vega skiptir máli að við skipum málum þannig að jólin verði sem gleðilegust, skemmtilegust og friðsælust.


Lattelepjandi gáfumannafélagið

Silfur Egill Helgason lýsir því á netsíðu sinni hvernig hann vill hafa lattekaffið sem hann lepur við tilgreind tækifæri. Sjálfsagt talar hann þar fyrir munn fleiri úr lattelepjandi gáfumannafélaginu.

Ekkert er við það að athuga hvernig Egill Helgason vill hafa kaffið sitt eða aðrar neysluvörur og fólki kemur það ekkert við. En Egill er að amast við því  að íslenskir neytendur geti fengið aukna fjölbreytni. Egill er á móti því að hér komi Starbucks kaffihús og finnur því allt til foráttu.

Með sama hætti hlítur Egill að vera á móti fjölþjóðlegum keðjum eins og Kentucky Fried af því að hann vill hafa kjúklingavængina öðru vísi en þeir eru þar. Hvað þá að vera með Subway sem treðst inn á markað Hlölla báta sem framleiða ágætann skyndibita. Svo ekki sé talað um Dominos Pissur.

Starbuck hefur átt í erfiðleikum vegna skattamála og á það bendir Egill réttilega. Það er málefni sem íslensk skattayfirvöld verða að leysa. En meðal annarra orða hvað finnst Agli þá um Decode Genetics sem hefur starfað með íslenska erfðagreiningu hér á landi í rúman áratug og aldrei greitt tekjuskatta ekki frekar en fjölmörg önnur stórfyrirtæki. 

Er ekki eðlilegt að neytandinn ekki að fá að velja hvað hann vill án afskipta lattelepjara í 101 Reykjavík.


Gutti borgar biluð brjóst

Gutti velferðarráðherra lofar að borga konum sem hafa leka bjóstastækkunarpúða kostnað við lagfæringar á þeim.

Yfirlýsingin um greiðslur vegna gallaðra fegrunar- og lýtaaðgerða vekur upp ýmsar spurningar.

Hvað með mistök vegna rass- og magalagfæringar eða tatóveringa.

Hvað svo með  þær sem  hafa flata eða feita rassinn, kartöflunefið, appelsínuhúð og litlu brjóstin. Fyrst velferðarráðherra telur eðlilegt að borga kostnað vegna gallaðra lýta- og fegrunaraðgerða eiga þá þær sem ákveða að þola útlit sitt ekkert að fá?

Er ekki rétt að  Ríkið taki þá ábyrgð á öllum mistökum á markaðnum og bæti neytendum allar gallaðar vörur hverju nafni sem nefnast.

Hvar er þá ábyrgð neytandans við val á vöru og þjónustu?  Hver er þá ábyrgð seljenda?

Með greiðslum eins og þeim sem velferðarráðherra lofar, þá er hann ekki að bæta konunum neitt sem þær eiga ekki rétt á samkvæmt lögum frá seljendum vegna gallaðrar vöru eða þjónustu.  Velferðarráðherra ætlar í raun að borga fyrir mistök markaðarins á gallaðri söluvöru.

Þá verður líka allt í lagi að fá sér ódýrustu þjónustuna því Ríkið borgar ef eitthvað verður að.

Þegar ríkissjóður tekur 20 krónur af hverjum hundrað sem það eyðir að láni frá framtíðinni er þá ekkir rétt að skoða hvar setja á mörkin á greiðsluþáttöku ríkisins. Eiga brjóstastækkanir að vera þar í forgangsröð?


Beðið fyrir steikinni

Fræg fatahengilmæna Giesela Bündchen viðurkennir að vera mikil kjötæta og hún elski líka dýr. Þess vegna segist hún biðja fyrir steikinni áður en hún borðar hana. Auk þess segist hún leggja hendur yfir steikina og blessa hana þakklát fyrir að hún skuli eitt sinn hafa lifað.

Það er mismunandi hvernig fólk sækir sér sáluhjálp og aflát misgerða og í sjálfu sér er þetta ekkert fráleitarar en margvíslegt annað ritual. 

Hvað sem þessu líður þá hefur Gíesela þessi fengið þá blessun að vera ríkasta módel í heiminum. Verði henni að góðu.

 


Dýrt fyrir forsætisráðherra, en ekki bankastjóra

Fyrir nokkrum dögum var skrifað um það í breskum blöðum að forsætisráðherra Breta, David Cameron hefði tekið á leigu sumarbústað í Tuscanny á Ítalíu. Af mörgum var það talinn flottræfilsháttur af forsætisráðherranum að leigja sumarbústað í Tuscanny á tímum niðurskurðar og erfiðleika í þjóðarbúskapnum.

Fyrir nokkru leigði íslenskur bankastjóri sumarbústað  í sama héraði á Ítalíu engu síðri  en þann sem forsætisráðherra Breta leigir -já og það með öðrum. Hér talar engin um flottræfilshátt heldur þykir það greinilega sjálfsagt hér að yfirstéttinni leyfist allt.  Þannig var talið áður fyrr að það væri í Bretlandi, en nú er greinilega öldin önnur.

Já meira að segja forsætisráðherrann af Bretlandi þarf að ná í capucínóið sitt sjálfur þegar hann kemur eins og sléttur og felldur ferðamaður á veitingastað.

Ekki fer neinum sögum af raunum íslenska bankastjórans íslenska  í Tuscanny þegar hún var þar á ferð enda væntanlega haft meira umleikis en David Cameron forsætisráðherra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 291
  • Sl. sólarhring: 736
  • Sl. viku: 4112
  • Frá upphafi: 2427912

Annað

  • Innlit í dag: 267
  • Innlit sl. viku: 3803
  • Gestir í dag: 259
  • IP-tölur í dag: 248

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband