Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Fjármál

Vaxtaokur og dýrtíð

Afkomutölur viðskiptabankanna og ávöxtun eigin fjár þrátt fyrir ofurlaun og bruðl, sýna að bankarnir eru með óeðlilega háa vexti og óeðlilega mikinn vaxtamun. Ástæða þess er takmörkuð samkeppni og skortur á aðhaldi.

Þegar um takmarkaða samkeppni er að ræða ber ríkisvaldinu að gæta hagsmuna neytenda bæði sparifjáreigenda og lántakenda, en það gerist ekki og enn og aftur bregðast stjórnvöld neytendum. 

Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands eiga ekki að leiða  til hærri vaxta bankanna eða meiri vaxtamunar en sem því nemur. En íslensku bankarnir hafa alltaf kunnað það fag með miklum ágætum, að nýta hækkun stýrivaxta til að taka meira af kökunni til sín en eðlilegt er. 

Sé vilji fyrir að ná verðbólgunni niður, þá þarf að bregðast við á öllum sviðum til að stöðva það gegndarlausa okur sem viðgengst í þessu þjóðfélagi einkum þar sem samkeppni er takmörkuð.

Af hverju virkja stjórnvöld ekki almannasamtök eins og Neytendasamtökin og fleiri með myndarlegum fjárframlögum, til að sinna því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki að berjast gegn verðbólgu og fyrir eðlilegum viðskiptaháttum? Það kostar minna og er þjóðhagslegra hagkvæmara en að láta einokunarfyrirtækin og okrið vaða yfir samfélagið.  

 


Gegn vinnandi fólki

Svokallaðir vinstri flokkar, sem kenna sig við almannahagsmuni,  hafa á nokkrum árum skipt algerlega um áherslur. Þeir berjast ekki lengur fyrir hagsmunum vinnandi stétta, hinn almenna verkalýð. Ekki manninn sem Steinn Steinar orti um  í ljóði sinu "Verkamaður"

Barátta meintra verkalýðsflokka, nýja vinstrisins snýst ekki um kaup og kjör heldur að troða hælisleitendum inn í landið á kostnað skattgreiðenda. Kolefnisjöfnun með hækkun skatta og verðlags og koma í veg fyrir möguleika  vinnandi fólks til að ferðast. Á sama tíma fara auðmennirnir hvert sem þeir vilja á einkaþotum án þess að nýja vinstrið hafi neitt við það að athuga. 

Gæluverkefni vinstra fólksins er að banna arðskapandi atvinnu ef hún er þeim ekki að skapi eins og hvalveiðar og strandveiðar. Fjöldi alþýðumanna er sviptur lífsviðurværi en það skiptir ný-vinstrið engu máli og transhyggja hinna örfáu og kynræna sjálfræðið er að þeirra mati aðalatriði ásamt því að skipta um þjóð í landinu.


Hefði hann verið hælisleitandi

Frásögn systur af andláti Ólafs Ögmundssonar bróður síns er átakanleg. Mikill dugnaðarmaður þurfti að þola það í ellinni, að vera hent út úr leiguíbúð eftir að heilsan gaf sig og konan hans lá banaleguna. 

Ég þekkti Ólaf sem mikinn dugnaðarmann, greindan, skoðanafastan og ákveðinn. Mér finnst átakanlegt að heyra hvernig staða hans var, en hann kunni ekki að kvarta. Samt sem áður lá fyrir hver staða hans var, en kerfið hafði engum skyldum að gegna við hann. Fjársöfnun honum til stuðnings bar nokkurn árangur en þó ekki nægan. 

Hefði Ólafur sem var geðþekkur og góður maður með mikla réttlætiskennd verið hælisleitandi, hefði honum verið útveguð íbúð og læknishjálp. 

Svona er nú misskipt mannanna gengi á landi hér. Þannig er Ísland í dag. 


Ábyrgðin og ofurlaunin

Rúmri viku eftir að sátt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FSÍ) var opinberuð um brot Íslandsbanka við hlutafjárútboð í bankanum hafa 5 stjórnendur, regluvörður og bankastjóri hætt störfum eða allir sem komu að hlutafjárútboði í bankanum. Skv. sáttinni greiðir bankinn 1.160.000.000 í sekt. 

Málið kom upp fyrir hálfu ári. Af hverju var ekkert gert þá? Bankastjórn og umræddir starfsmenn þ.á.m. bankastjórinn töldu að þau kæmust upp með þetta og mundu halda áfram óáreitt í störfum sínum "busines as usual"

Formaður bankastjórnar segir að starfslokasamningur hafi verið gerður við starfsmennina í samræmi við ráðningarsamning, sem má ætla að losi hálfan milljarð auk kostnaðar vegna starfsloka bankastjórans. 

Þegar allt er talið má ætla að sektin sem Íslandsbanki þarf að greiða auk greiðslur til burtflæmdra starfsmanna nemi hátt í tvo milljarða, sem neytendur þurfa á endanum að greiða. 

Hvað afsakar það að slík hyldýpisgjá skuli vera á milli æðstu stjórnenda banka og almenns launafólks í landinu og þó vísað væri þessvegna til alþingismanna eða ráðherra? Ekki er ábyrgðinni fyrir að fara eins og þetta dæmi sýnir. Í raun er ekkert sem afsakar ofurlaun sem viðgangast fyrir toppana í bankakerfinu. Banka sem eru að meginstefnu til í eigu ríkisins.  

 


mbl.is Allir stjórnendur og regluvörður hættur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaspur og glóruleysi

Það er iðulega galli við umræðu hér á landi hve hún fer oft út um víðan völl og er í litlu samræmi við það sem máli skiptir.

Helsta vonarstjarna íslenskra stjórnmála skv. skoðanakönnunum, Kristrún Frostadóttir sem og flokkssystir hennar Helga Vala Helgadóttir fjölluðu í gær um Íslandsbankahneykslið og komust lítt upp úr þeim hjólförum að þarna hefði verið afhjúpuð brot fjármálaráðherra og sýnt fram á réttmæti sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis um sölu hluta í Íslandsbanka.

Þó ég sé og hafi verið þeirrar skoðunar að best hefði verið að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara yfir allt söluferli hluta í Íslandsbanka, þá hefði slík nefnd ekki farið í þá fagvinnu, sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FMESÍ) gerði enda verkefni rannsóknarnefndar annað.

Fyrir liggur eftir úttekt FMESÍ sbr sáttina sem Íslandsbanki undirgekkst, að brotin voru framin af ákveðnu starfsfólki Íslandsbanka, sem fjármálaráðherra hefur ekkert með að gera.

Fjármálaráðherra verður hins vegar að bregðast við strax og hlutast til um það sem handhafi 42% hlut í bankanum, að þeir sem ábyrgð bera verði leystir frá störfum þegar í stað. Sama krafa ætti að koma frá þeim lífeyrissjóðum sem eiga stóra hluta í bankanum. Fjármálaráðherra getur ekki dregið þessa ákvörðun. 

Það er slæmt ef ekki tekst að fá umræðuna á það stig, að ná fram réttmætum nauðsynlegum breytingum í fjármála- og bankakerfinu í stað gaspurs og glóruleysis þar sem stjórnmálamenn reyna að koma höggi á andstæðing sinn. Verkefnið er að uppræta svikastarsemi og ólögmæta sérhygli lygi og sviksemi í fjármálakerfinu og skapa traust.

Svo er annað mál hvort trúverðugleiki ákveðinna einstaklinga er orðinn slíkur að hentast væri að aðrir tækju við.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sem fyrrum vann hjá Kviku banka, sem hefur falast eftir að sameinast Íslandsbanka, ætti að geta lagt margt gott og uppbyggilegt til þeirrar umræðu vegna þekkingar sinnar og reynslu. Nú reynir á og ætti að sjá úr hvaða efnivið hún er gerð, hvort þar fer stjórnmálamaður sem er á vetur setjandi eða pólitískur gasprari.


Ekki hægt að þola svindlið og svínaríið lengur.

Lestur sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er dapurleg lesning. Stjórn Íslandsbanka hefur viðurkennt það sem kemur fram í skýrslu Seðlabankans, þannig að ekki er deilt um málsatvik. Það liggur því fyrir að Íslandsbanki veitti viðskiptavinum rangar upplýsingar, fylgdi ekki skilyrðum við mat á upplýsingum, var að hygla eigin starfsmönnum á kostnað viðskiptavina sinna auk margra annarra lagabrota. Eitt er m.a. að hafa gefið Bankasýslu ríkisins rangar upplýsingar.

Það er af mörgu að taka, en eitt er ljóst, að stjórn Íslandsbanka og helstu lykilstarfsmenn þ.á.m. bankastjórinn og innra eftirlit bankans hafa algerlega brugðist.

Hvað á þá að gera? Stærsti hluthafi bankans er Íslenska ríkið og aðrir helstu eigendur bankans eru lífeyrissjóðir. Geta þessir aðilar sætt sig við að þeir sem ábyrgð bera á þeim lagabrotum og rangfærslum sem viðurkennt er að hafi verið gerð sitji áfram og véli um málefni bankans eins og ekkert hafi í skorist?

Hvernig í ósköpunum á að vera hægt eða samþykkja það, að þetta fólk, sem hefur orðið bert að jafn alvarlegum brotum og misferli leiði viðræður við Kviku banka um sameiningu. Hvaða fiskar munu þá liggja undir steini þegar upp verður staðið. 

Af fréttum að dæma þá boðaði stjórn Bankasýslu ríkisins stjórn Íslandsbanka á fund, en ekki var annað að skilja, en það yrði ósköp þægilegur kaffifundur, þar sem farið yrði yfir málin. Það þarf í raun ekkert að fara yfir nein mál. Brotin liggja fyrir. Þau eru auk heldur samþykkt af stjórn og starfsmönnum Íslandsbanka. Raunar er Bankasýslan stofnun, sem að fram kemur í sáttinni, að starfsfólk Íslandsbanka gaf rangar og villandi upplýsingar.

En hvað sem kaffisamsæti stjórnar Bankasýslu ríkisins og stjórnenda Íslandsbanka varðar, þá má e.t.v. minna á, að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðu fyrir um 9 mánuðum að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður þegar gagnrýni beindist að henni. Hvernig skyldi nú standa á því að það hefur ekki verið gert? Er ekkert að marka þetta fólk eða hefur ný ákvörðun verið tekin? 

Þessir vondu hlutir sem hafa verið afhjúpaðir hvað Íslandsbanka varðar eru þess eðlis, að það gengur ekki að hluthafar og viðskiptavinir bankans eigi að bera þær sektir sem að einstakir starfsmenn bankans bera ábyrgð á. 

Stjórn bankans hefði átt að sjá sóma sinn í að boða til hluthafafundar sem allra fyrst og segja af sér. Bankastjóri Íslandsbanka ætti líka að sjá sóma sinn í að gera slíkt hið sama. 

Hvað svo sem þetta fólk varðar, þá er það íslenska ríkisins stærsta hluthafans, að leiða nú það ferli sem er óhjákvæmilegt að skipta um stjórn og þá starfsmenn í bankanum, sem ábyrgð bera á þessu hneyksli og fá starfsfólk, sem virðir lög og reglur. 

Það er ekki hægt að þola það að þeir sem eru brotlegir við þær starfsreglur sem þeir eiga að vinna eftir  haldi áfram störfum eins og ekkert hafi í skorist. 

Það stendur nú upp á fjármálaráðherra fulltrúa stærsta eiganda bankans, að láta hendur standa fram úr ermum og grípa til viðeigandi ráðstafana svo að almenningur í landinu eigi þess kost að öðlast einhverja trú á fjármálakerfi landsins og það sé verið að leika og verði leikið eftir leikreglum réttarríkisins.

Svona óskapnað má ekki líða.

 


mbl.is Samkomulagið birt – „alvarleg brot“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ábyrgur?

Íslandsbanki hefur samþykkt að greiða sekt upp á 1.2 milljarða króna vegna athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Slík ofursekt er ekki lögð á fyrirtæki eða þá að fyrirtæki sætti sig við nema eitthvað verulegt sé að í starfseminni.

Íslands­banki gengst við því að hafa ekki starfað í sam­ræmi við eðli­lega og heil­brigða viðskipta­hætti og venj­ur í verðbréfaviðskipt­um vegna fram­kvæmd­ar á sölu hlutabréfa í bankanum skv. margnefndu útboði. Þar komu til samskipti við þáttakendur í útboðinu auk kaupa einstakra starfsmanna á hlut í bankanum.

Æskilegt hefði verið að fá betri og fyllri upplýsingar um þessi alvarlegu brot Íslandsbanka og stjórnenda hans, en það verður sennilega látið liggja í láginni og bankinn sættir sig við að greiða meir en milljarð vegna afglapa og e.t.v. einhvers þaðan af verra.

Nú er það þannig, að þegar fyrirtæki er fundið sekt um að brjóta gróflega af sér eins og Íslandsbanki í þessu tilviki, þá er það ekki lögpersónan Íslandsbanki sem brýtur af sér heldur einstaklingar sem starfa í og/eða stjórna viðkomandi banka. Þá er stóra spurningin hvort einhver verði látinn bera ábyrgð á því að bankinn skyldi brjóta svona gróflega af sér og ekki starfa í samræmi við lög og reglur. 

Af fréttum að dæma virðist engin þurfi að sæta ábyrgð og engin hafa gert neitt af sér nema lögpersónan Íslandsbanki.

Gott að vera í slíku vari ekki síst fyrir bankabófa.


mbl.is Birna Einarsdóttir: Við drögum lærdóm af þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir. Nú þarf að breyta um stefnu

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er boðaður til fundar skv. frétt í Mbl. Þinflokksfundir eru ekki algengir skömmu eftir þingslit. En tilefnið er ærið. 

Viðfangsefni þinflokksfundarins ætti að vera hvort forsenda er fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram í vinstri stjórninni undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.

Vinstri grænir komu lengi vel í veg fyrir nokkrar breytingar á Útlendingalögum og Sigríður Andersen sem reyndi að koma skikki á þann málaflokk, sem arftaki hennar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gerði hinsvegar ekki var rekin til baka af VG með frv. til breyttra útlendingalaga. Í fimmtu tilraun tókst Jóni Gunnarssyni að koma útvötnuðu frv. um breytingu á útlendingalögum í gegnum þingið, en þá hafði VG verið í varðstöðunni til að koma í veg fyrir að hagsmunum þjóðarinnar og fólksins í landinu yrði sinnt vegna hagsmuna ólöglegra innflytjenda um árabil. 

Vegna þvergirðingsháttar VG og stjórnarandstöðunnar að undanskildum Miðflokki og Flokks fólksins eru útlendingamálin komin í algjört óefni eins og daglegar fréttir frá Reykjanesbæ bera vitni. Þau mál eiga bara eftir að versna og hagsmunir íslendinga eru ítrekað settir til hliðar vegna þess að koma verður hlaupastrákum frá Sómalíu og víðar að komnum fyrir og útvega þeim læknisaðtoð strax, þó að íslenskar fjölskyldur þurfi að bíða svo vikum og mánuðum skipti eftir slíkri þjónustu.

Ekki nóg með að VG hafi verið með þvergirðingshátt varðandi hagsmuni þjóðarinnar gagnvart ólöglegum innflytjendum. Nú stendur vinnumálaráðherra gegn því að lagt sé fram nauðsynlegt frumvarp varðandi vinnudeilur, sem gæti tryggt miðlunartillögum Ríkissáttasemjara öruggan framgang. Af hverju skyldi það nú vera?

Síðast en ekki síst, þá hefur atvinnumálaráðherra nú á vægast sagt hæpnum forsendum komið í veg fyrir eðlilega arðsköpun og bættan hag verkafólks með því að banna á síðustu stundu hvalveiðar og það án þess að nokkur lagalegur grundvöllur sé til staðar. 

Þessi gerð Svandísar Svavarsdóttur bætist ofan á annan óskapnað, sem frá henni hefur stafaði í gegnum tíðina og hefur m.a. kostað skattgreiðendur gríðarlega fjármuni eins og stöðvun virkjunar án lagalegra forsendna. Framganga hennar í Kóvíd faraldrinum og nú ofstopafull aðgerð, sem er að mati Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness algjör pópúlismi. Tekið skal undir þau orð Vilhjálms.

Síðast en ekki síst þá hefur ríkisstjórnin farið fram með þeim hætti varðandi umframeyðslu og skattlagningu að Sjálfstæðisfólk getur ekki unað við það. Hvað þá að Sjálfstæðisflokkurinn beri áfram stjórnskipulega ábyrgð á þeirri vegferð. Á 6 ára tímabili ríkisstjórnarinnar hafa ríkisútgjöld aukist gríðarlega, báknið hefur einnig vaxið gríðarlega og skv. fjárlögum 2023 munu ríkisútgjöld aukast um 193 milljarða, sem er algjört met og stór hluti þessarar umframeyðslu er tekin að láni hjá börnum okkar og barnabörnum, án þess að þau hafi nokkuð um það að segja. Því miður ber Sjálsfstæðisflokkurinn stjórnskipulega áfram á ríkisfjármálunum, eitthvað sem flokkurinn verður að taka til gagngerrar skoðunar og móta stefnu í samræmi við grundvallarhugsjónir flokksins um ráðdeild og sparsemi í ríkisrekstri, þar er líka um að ræða hvort Sjálfstæðisflokkurinn á áfram erindi við þjóðina eða ekki. 

Innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um að taka á þeim málum sem brenna helst á þjóðinni. Ríkisstjórnin gerir þá borgurum sínum þann mesta greiða að viðurkenna að hana hafi þrotið örendið og rétt sé að leita annarra leiða og reyna að finna starfhæfan meirihluta til að lækkka ríkistúgjöld, lækka skatta, loka landinu fyrir hælisleitendastraumnum og auka frelsi til atvinnu- og arðsköpunar í landinu. 


Þjóðin skal skattlögð út úr verðbólgunni

Forsætisráðherra tilkynnti í gær, að ríkisstjórnin ætlaði að hækka skatta til að vinna gegn verðbólgu. Tvennt er athyglisvert við þessa yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur.

Í fyrsta lagi er óeðlilegt að völdin séu tekin af fjármálaráðherra og forsætisráðherra tilkynni um væntanlegar aðgerðir í ríkisfjármálum.

Í öðru lagi gengst ríkisstjórnin með þessu í fyrsta sinn við ábyrgð sinni á heildarefnahagsstjórn í landinu. Hingað til hefur virst sem þar á bæ í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík, hafi sú skoðun verið uppi að verðbólga væri alfarið á ábyrgð Seðlabankastjóra og honum að kenna.

Fyrir 3 mánuðum samþykkti Alþingi fjárlög. Nú boðar forsætisráðherra breytingar á þessum nýsamþykktu lögum. 

Ríkisstjórnin hækkaði ýmis þjónustugjöld og neysluskatta við afgreiðslu fjárlaga. Þær aðgerðir voru olía á verðbólgueldinn.  Vonandi vegur ríkisstjórnin ekki enn og aftur í þann knérunn. Þá væri jafnað metin við það þegar Bakkabræður báru inn sólarljósið. 

Sú stefna sem forsætisráðherra kynnti í gær var sú að skattleggja ætti þjóðina út úr verðbólgunni. Allt byggist það á þeim sjónarmiðum, að ríkisvaldið kunni betur með fé að fara en einstaklingarnir, fólkið í landinu. 

Fróðlegt verður að sjá hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins finnur hugmyndafræðilegan farveg þess að háskattastefna út úr efnahagsvanda, sé einmitt það sem Sjálfstæðisflokkurinn eigi að berjast fyrir og með því verði einstaklingsfrelsið og athafnafrelsið best tryggt.  

Fólkið í landinu, sem á erfitt með að ná endum saman í vaxandi verðbólgu hlítur að velta því fyrir sér líka hvort þetta bjargráð ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu sé líkleg til að skapa velferð og velmegun í landinu. 

 

 


Þjóðarátak um

Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra og borgarstjóri kynntu í dag stöðu og næstu skref byggingar nýrrar þjóðarhallar. Sem á mæltu máli kallast íþróttahús þeirrar gerðar, að það standist alþjóðlegar kröfur, en Laugardalshöllin er löngu hætt að gera það. 

Það er ekki vansalaust, að við skulum ekki hafa haft döngun í okkur til að byggja sómasamlegt íþróttahús og þjóðaríþróttin svokallað handboltin skuli hafa verið á hrakhólum og undanþágum. 

Áætlað að bygging þjóðarhallarinnar kost 15 milljarða,en ekki liggur fyrir hver borgar hvað ríki eða Reykjavík.

15 milljarðar ættu ekki að þvælast fyrir "ofurríkri þjóð", sem eyðir árlega hærri upphæð í vafstur í kringum hælisleitendur.

En sum verkefni eru brýnni en önnur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 293
  • Sl. sólarhring: 707
  • Sl. viku: 4114
  • Frá upphafi: 2427914

Annað

  • Innlit í dag: 269
  • Innlit sl. viku: 3805
  • Gestir í dag: 261
  • IP-tölur í dag: 250

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband