Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heilbrigðismál

DDT er gott fyrir mig.

Ég sá myndskreytingu á tímariti Máls og menningar þar sem stóð. DDT er gott fyrir mig.  Þessi mynd minnti mig á það að vinstri elítan og umhverfisverndarsinnar og aðrir fulltrúar váfræðinnar komu því fram að undraefnið eins og það var kallað, DDT, var bannað.

En hvað er DDT?

DDT er eiturefni sem  vann kraftaverk. Þetta eiturefni drap mosquito flugur sem báru malaríu og bjargaði  milljónum mannslífa.  Þrátt fyrir þetta var DDT bannað þó að sannanir fyrir því að það ylli fólki eða búfé heilsutjóni  þegar efnið er notað með réttum hætti, væru ófullkomnar. En EPA (Environmental Protection Agency) umhverfisverndarstofnunin bannaði efnið engu að síður. Banninu var fagnað af vinstri sinnum eins og aðstandendum tímarits Máls og menningar. 

Bann EPA leiddi til minni framleiðslu á DDT og mjög takmarkaðrar notkunar. Hverjar hafa afleiðingarnar orðið? 

Á Sri Lanka voru um 3 milljónir malaríusýkinga og 7.300 dauðsföll vegna þess árið 1948. Vegna DDT þá voru sýkingarnar 1964 aðeins 17 og engin dó. Eftir að notkun DDT var hætt sýktust um 500 þúsund. 

Á milli 1950 og 1970 var malaríu nánast útrýmt og sá sem fann upp þetta undraefni Dr. Paul Muller fékk Nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 1948.  Árið 1970 var skrifað af vísindaráði Bandaríkjanna að DDT hefði komið í veg fyrir dauða 500 milljóna manna. 

Váfræðingunum gengur vafalaust oft gott til. En þeir gleyma því iðulega í offorsinu að í upphafi skyldi endirinn skoða. Þeir sem stóðu að banninu á DDt verða að viðurkenna það tjón sem þeir hafa unnið með því að banna efnið. Það er í samræmi við annað að helsta menningartímarit kommúnista á sínum tíma "Tímarit Máls og menningar." skuli telja eðlilegt að taka sérstaklega upp baráttuna gegn efninu sem bjargaði hundruðum milljóna manna á sama tíma og bannið veldur sýkingum og dauða fjölda fólks.

Væri nokkuð úr vegi að skoða þessar staðreyndir í sambandi við váfræðikenningarnar um loftslagsbreytingar af manna völdum.  Undarlegt að það eru sömu öflin í báðum tilvikum sem berjast fyrir banni á bann ofan.

 


(Ó)vinurinn í eldhúsinu

Það er ekki allt sem sýnist og vinurinn sem léttir manni störfin er ekki endilega himnasending. Þannig ku það geta verið með diskaþvottavélina.

Í könnun sem var framkvæmd á yfir 100 heimilum í ýmsum þjóðlöndum  kom í ljós að 62%  uppþvottavélina voru með sveppi á gúmmíinu innan á dyrunum. Meira en helmingur var með eitthvað sem ég veit ekki hvað er ("the black yeast Exophilala dermatidis og E. phaeomuriformis) en það er sagt vera heilsuspillandi.

Dr. Polona Zalar í háskólanum í Ljubljana segir (í blaðinu Fungal Journal) að það megi alls ekki líta framhjá þeirri hættu sem þessir sveppir og/eða bakteríur valda og aðstoðarmaður hennar Nina Gunde-Cimmerman segir að diskarnir hefðu verið skoðaðir sérstaklega eftir þvott og þeir hafi verið fullir af þessum óhroða og það sé ekki vitað nákvæmlega hversu alvarlegt þetta geti verið.  Þær segja að þetta sé sérstaklega hættulegt fyrir fólk með "cystic fibrosis" þar sem þetta geti valdið skaða á lungum. 

Þess skal þó getið að framleiðendur diskaþvottavéla hafna þessum niðurstöðum.

En þá er spurningin hvort við sem erum ekkert hrifin af diskaþvottavélum hvort sem er látum þetta ekki verða til þess að nota gömlu góðu aðferðina vatn, sápu, uppþvottabursta.

Það ætti alla vega að vera betra ef vel er að verki staðið. 


Bara svolítinn sykur

Þeir sem hafa séð kvikmyndina Mary Poppins muna vafalaust eftir því þegar hún fékk börnin til að taka meðalið sitt og söng "Just a spoonful of sugar helps the medicine go down( sykurskeið hjálpar til að koma meðalinu niður) Nú áratugum eftir að þessi sannindi komu fram hjá barnfóstrunni Mary Poppins þá er sagt frá því í tímaritinu "Nature" að þetta sé ekki bara rétt hjá Mary Poppins heldur auki sykurinn virkni sumra lyfja.

Þannig að "a spoonful of sugar makes the medicine work" (sykurskeið lætur lyfið virka) Þannig segir tímaritið frá því að sýklalyf sem gefin eru með sykri geti aukið virkni sýklalyfsins eins og t.d. þegar um berkla er að ræða og ýmissa aðra sjúkdóma.

Mary Poppins hefur greinilega vitað sínu viti og rúmlega það.


Staðgöngumæður

Forsjárhyggjan lætur ekki að sér hæða og birtist í mörgum og sérkennilegum myndum. Þannig hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðum um staðgöngumæður undanfarna daga.

Sérfræðingar úr heilbrigðis- siðfræði- og andans stéttum mæta hver af öðrum til umræðunnar og segja að það sé í sjálfu sér allt í lagi með að fá staðgöngumæður en þó megi þessir hlutir ekki vera svona og aðrir hlutir ekki hinseginn. Ég hélt að þetta væri fyrst og fremst spurning um að gengið væri frá málinu með tryggum samningum milli aðila og gætt væri að heilbrigði og jafnræði þeirra aðila sem í hlut eiga.

Eitt flækjustigið er að staðgöngumæður megi ekki græða á að vera staðgöngumæður. Í umræðunni hefur mér fundist þetta taka hvað lengstan tíma.  Af hverju skyldu staðgöngumæður ekki mega græða á því að vera staðgöngumæður. Af hverju ættu þær ekki að taka gjald fyrir það. Hverjum kemur það í sjálfu sér við hvort samningar ganga út á það eða ekki svo fremi sem þess sé gætt að jafnræði sé með aðilum og annar aðilinn sé ekki að misnota hinn.

Af hverju þarf að gera einfalda hluti flókna?


Dagdraumar

Samkvæmt grein í breska blaðinu The Daily Telegraph þá eyðum við tæpum helmingi af vökutíma okkar í dagdrauma. Nú hefði maður ætlað að fólk væri hamingjusamast þegar það sökkti sér niður í dagdraumana en því fer öðru nær. Staðreyndin er nefnilega sú að dagdraumarnir gera okkur döpur og valda iðulega hugarvíli.

Þess vegna segir í þessari könnun líður okkur best þegar við erum að gera eitthvað og lifum í núinu.  Það gerum við til dæmis með því að eiga samneyti við aðra, taka þátt í samræðum, fara í líkamsrækt eða út að ganga. Líka ef við einbeitum okkur að vinnunni merkilegt nokk. Þetta færir fólki meiri vellíðan en að horfa á sjónvarp eða gera ekki neitt annað en að sökkva sér niður í eigin dagdrauma.

Athyglivert.


Löstur er ekki glæpur

Danir vilja virða lesti reykingarfólks og gefa því kost á að eiga sitt griðland. Danir hafa heimilað kráareigendum á krám sem eru 40 fermetrar eða minna að leyfa reykingar í sínum veitingahúsum. Nú sýna skoðanakannanir að meiri hluti Dana vill virða þennan sjálfsákvörðunarrétt og heimila reykingarfólki löst sinn án algers banns.

Við ættum að hugleiða þessa leið líka. Það er óneitanlega ankannalegt að sjá fólk norpa í vetrarkulda eða sumarrigningum fyrir utan veitingastaði. Annað sem væri þó betra að mínu mati og ég lagði til á þingi í fyrra, að heimila uppsetningu á sérstökum reykherbergjum.

Löstur er ekki glæpur og það verða rétttrúnaðarþjóðfélög ríkisafskipta af einstaklingunum að virða. Ég er persónulega algerlega á móti reykingum en get ekki og á ekki að stjórna því fyrir aðra svo fremi það trufli ekki þá sem ekki reykja.  Það hefði verið betra að við hefðum tileinkað okkur meira af dönsku umburðarlyndi.


Svínaflensan ógurlega

Nú er komið í ljós að svínaflensan svokallaða er mildasti heimsfaraldur sem sögur fara af. Í byrjun maí mátti skilja á fréttamiðlum að þvílíkt fár væri í uppsiglingu þar sem svínaflensan var að Spánska veikin sem gekk yfir 1918 væri barnaleikur miðað við það sem nú væri í vændum. Ég var staddur erlendis á þessum tíma og dag eftir dag snérust heilu fréttatímar heimsféttamiðlana um þá ógn sem mannkyni öllu stafaði af svínaflensunni. Ferðir milli landa voru takmarkaðar og ferðamannaiðnaður Mexícó lagður í rúst.

Svo reyndist þetta ægilega fár geisa fyrst og fremst í fjölmiðlum. Samt sem áður dugði það til að æra fólk og ríkisstjórnir þannig að milljarðar skiptu um hendur vegna fjölmiðlaógnarinnar.  Nokkru áður komu fjölmiðlar á þeirri ógnarspá að fuglaflensa mundi verða ægilegasti faraldur allra tíma. Afleiðing þess var að milljónum fugla var slátrað og menn veltu því fyrir sér hér á landi hvaða varnarviðbúnað yrði að setja upp til að farfuglarnir kæmu ekki hingað ósótthreinsaðir. Svo hvarf sú vá.

Það er alltaf verið að finna upp nýja og nýja váboða. Stefnulausir stjórnmálamenn eru fljótir að renna í fjölmiðlaslóðina til að freista þess að slá sig til riddara sem baráttufólk gegn vánni. Þeir krefjst þess að gripið verði til dýrra aðgerða og það án tafar á kostnað almennings. Þannig hefur það verið með svínaflensuna og fuglaflensuna. 

Sama gildir e.t.v.  um loftslagsbreytingarflensuna?


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 514
  • Sl. sólarhring: 831
  • Sl. viku: 5163
  • Frá upphafi: 2587627

Annað

  • Innlit í dag: 473
  • Innlit sl. viku: 4810
  • Gestir í dag: 445
  • IP-tölur í dag: 433

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband