Leita í fréttum mbl.is

Hræðslan við lýðræðið

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins sagði á fundi Evrópuandstæðinga í dag að úrslitabaráttan um aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi ráðast á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.  Þetta er rangt.  Úrslitaorrustan mun ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu um þá skilmála sem kunna að vera í boði eftir samningaviðræður í kjölfar aðildarumsóknar Íslands.

Í dag lýsti formaður þingflokks Vinstri Grænna, Ögmundur Jónasson því yfir að hann teldi eðlilegt að þjóðin kysi um þetta mál. Hann sagðist jafnframt hafa miklar efasemdir um Evrópusambandið og þær efasemdir hefðu aukist. Þannig mátti skilja Ögmund að hann væri á móti því að Ísland gengi í Evrópusambandið en hann teldi að lýðræðið yrði að ráða og leggja þyrfti málið undir þjóðina. Þrátt fyrir að VG mælist nú sem stærsti stjórnmálaflokkur Íslands í skoðanakönnun þá dettur Ögmundi ekki í hug að segja að mikilvæg þjóðmál muni ráðast á landsfundi Vinstri Grænna.

Ég er sammála Ögmundi ég vil að lýðræðið fái að ráða. Ég hef um árabil haldið því fram að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að fá úr því skorið hvaða kostir væru í stöðunni og síðan ætti þjóðin að kjósa um aðild eða hafna aðild. Það segir hins vegar ekkert til um það hvort ég muni telja æskilegt að við göngum í Evrópusambandið. Það fer allt eftir köldu mati á þjóðarhagsmunum þegar aðildarviðræðum er lokið.

Nú hefur fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins stigið fram og sagt það sama og formaður þingflokks VG. Ljóst er að mikill stuðningur er við það í Framsóknarflokknum að fara þessa leið.  Það virðist því ljóst að taki Sjálfstæðisflokkurinn þá ákvörðun að hafna lýðræðinu þá mun hann samt ekki endalaust koma í veg fyrir að það nái fram að ganga.

Styrmir Gunnarsson er talsmaður gamla valdakjarnans í Sjálfstæðisflokknum sem er búinn að vera svo lengi við stjórn að þeir eru farnir að hugsa eins og arfakonungar á fyrri öldum sem sögðu þegar talað var um að kanna hug þjóða þeirra.  "Vér einir vitum".  Þá þurfti ekki frekari vitnanna við hin eina rétta ákvörðun hafði verið tekin.

Nú reynir á hvort það eru enn það margir í Sjálfstæðisflokknum sem kannast við þann uppruna flokksins sem var fyrir tíma Davíðs:

Að flokkurinn væri frjálslyndur og víðsýnn umbótaflokkur.

Að flokkurinn berðist fyrir lýðræði

Staðreyndin er sú að eftir 17 ára þrásetu í valdastólum hefur Davíð Oddssyni tekist að gera Sjálfstæðisflokkinn að hugmyndafræðilegu þrotabúi sem skilur eftir sig efnahagshrun, fjöldaatvinnuleysi, heimsmet í aukningu ríkisbáknsins og landi þar sem dýrast er fyrir venjulegt fólk að taka lán.

Er kominn tími til þess að hinn þögli meirihluti Sjálfstæðismanna myndi nú breiðfylkingu um frjálslynd viðhorf og lýðræðisleg, utan Sjálfstæðisflokksins?


Til hamingju með daginn.

Í dag eru 90 ár liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. 

Mér finnst þessi dagur merkasti dagurinn í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þá var fullveldi þjóðarinnar staðfest. Við réðum málum okkar en kusum að láta Dani sjá um ákveðin mál fyrir okkar hönd tímabundið sem var skynsamlegt á þeim tíma. Allt gekk það samstarf með ágætum.

Eins slæmt og það er að vera seldur undir aðra þjóð þá megum við Íslendingar þakka fyrir að Danir skyldu vera okkar nýlenduherrar því hætt er við að fáar aðrar þjóðir hefðu gefið okkur frelsi og fullveldi.

Við ættum að minnast þess í dag hvað íslenska þjóðin hefur þurft að glíma við á þeim árum sem liðin eru frá því að við fengum fullveldið.  Jafnframt að huga að því hvaða skyldur við berum við nútímann og komandi kynslóðir við að tryggja sjálfstæði, framfarir og mannsæmandi lífskjör í landinu.  


Bloggfærslur 1. desember 2008

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 365
  • Sl. sólarhring: 553
  • Sl. viku: 4831
  • Frá upphafi: 2558754

Annað

  • Innlit í dag: 343
  • Innlit sl. viku: 4530
  • Gestir í dag: 326
  • IP-tölur í dag: 319

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband