Leita í fréttum mbl.is

Baugur gjaldþrota

Þegar efnahagshrunið varð þá bjóst ég við að Baugur og flest fylgifélög Baugs yrðu fljótlega gjaldþrota. Mér virðist sem sumum finnist það gleðiefni að Baugur skuli nú hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ég skil ekki slík viðhorf því hagur þjóðarinnar er að fyrirtækin gangi vel hvaða nafni sem þau nefnast. En fyrirtæki sem hafa ekki rekstrargrundvöll, eru skuldsett upp fyrir rjáfur og eiga enga peninga þau fara eðlilega í þrot.

Það virðist flest benda til þess að Baugur og skyld félög hafi á undanförnum árum fengið ótrúlega bankafyrirgreiðslu og ég hef ekki heyrt sennilega skýringu hjá þeim sem stýrðu þessu viðskiptaveldi á réttmæti þeirra risalána sem fyrirtæki þeirra fengu. Það stoðar lítið núna að vandræðast með það að Baugur skuli ekki geta verið 100 ár í greiðslustöðvun þegar fyrirtækið skuldar meir en hundrað milljarða umfram eignir. Einn milljarður er mikið fé hvað þá hundrað. Mér finnst satt að segja frekar dapurlegt að hlusta á þá síbylju að fyrirtækið fái ekki tíma til að vinna sig út úr vandræðum. Með hvaða hætti ætluðu forráðamenn Baugs að vinna sig út úr vandræðum. Var einhver skynsamleg áætlun í gangi.

Það er óvirðing við skynsemi fólks að halda því fram að Baugur eða skyld fyrirtæki séu knúin í þrot og ekki hafi verið gefinn eðlilegur tími til að vinna úr vandanum, þegar ekki er gefin nein trúverðug skýring á því hvað stjórnendur gjaldþrota fyrirtækisins ætluðu að gera til að bjarga því.

Meðan skýringarnar koma ekki er þá hægt að taka mark á því að vondir kröfuhafar séu að eyðileggja verðmæti?


Kirkjan komi að velferðarmálum með ákveðnari hætti.

Á fundi sem var á kosningaskrifstofu minni í hádeginu kom fram sú hugmynd frá einum fundargesta að þjóðkirkjan ætti að beita sér í auknum mæli í velferðarmálum fólks t.d. koma að hjálparstarfsemi og opna sérstaka neyðaraðstoð fyrir þá sem á þurfa að  halda.  Mér finnst þetta góð tillaga og kirkjunnar fólk ætti að taka þetta til sérstakrar skoðunar.

Það eru margir sem þurfa á aðstoð að halda og ég tel að tvær þjóðfélagsstofnanir eigi nú að bregðast við sérstaklega en þá er ég að tala um kirkju og kristilega söfnuði og verkalýðshreyfinguna.  Það er mikilvægt að við vinnum að því að komast út úr kreppunni og einstaklingsbundnum erfiðleikum með virkri samhjálp.

Eða eins og segir á einum stað í Nýja Testamentinu: "Berið hvers annars byrðar."


Össur telur sinn tíma kominn.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur undanfarið skemmt sér við að blogga með þeim hætti sem honum einum er lagið. Í síðasta bloggi sem ég las eftir þennan helsta ritsnilling þjóðarinnar þá kallar hann mig ýmist tundurspillaforingja eða skæruliðaforingja. Tilefnið eru málefnalegar umræður sem ég hef haldið uppi um þau dagskrármál þingsins sem hafa verið til umræðu síðustu tvo daga. Annars vegar séreignasparnaðinn í gær og illa ígrundað frumvarp til breytinga á stjórnarskrá í dag.

Á máli utanríkisráðherra þá heita málefnalegar umræður á Alþingi málþóf. Raunar fór besti ræðumaður Samfylkingarinnar að utanríkisráðherra frátöldum mikinn í ræðustól á Alþingi í dag og vildi fá sérstakar skýringar á hugtakinu málþóf. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt þar sem þessi háttvirti þingmaður Mörður Árnason hefur verið og er e.t.v. enn ritstjóri orðabókarinnar. Eðlilegt að hann vilji fá sem gleggstar skýringar á því hvað felst í hugtakinu málþóf. Raunar skýrði hann það sjálfur og hélt því fram að Sjálfstæðismenn væru að beita málþófi.

Málþóf er viðurkennd aðferð stjórnarandstöðu og eitt af þeim fáu tækjum sem stjórnarandstaða hefur og það þekkir Mörður Árnason og Össur Skarphéðinsson foringi hans og leiðtogi vel. Þeir þekkja það vel með hvaða hætti þeir vörðu Baugsmiðlana á sínum tíma þegar fjölmiðlafrumvarpið var til umræðu og komu í veg fyrir að málið fengi farsælan framgang.  Þá stóðu þeir félagar Mörður og Össur fyrir því að halda Alþingi í gíslingu málþófs svo dögum skiptir. Skrýtið að Mörður skyldi þurfa að spyrja að því á Alþingi í dag hvað hugtakið málþóf þýðir. Fáir ættu að geta skýrt það betur en hann ef hann kastar af sér pólitíska hamnum og fer í þann fræðilega.

En Össur telur sinn tíma kominn enda veit hann það jafnvel og ég að hann er mesti þungavigtarmaður Samfylkingarinnar bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

 

 


Bloggfærslur 11. mars 2009

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 21
  • Sl. sólarhring: 855
  • Sl. viku: 3611
  • Frá upphafi: 2560481

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3394
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband