Leita í fréttum mbl.is

Þessi orusta tapaðist. Sú næsta vinnst.

Jóhanna Sigurðardóttir er ótvíræður sigurvegari kosninganna. Nú reynir á Jóhönnu og ég óska henni alls góðs því sannarlega þarf íslenska þjóðin á því að halda.

Vinstri grænir eru að vísu hástökkvarar kosninganna miðað við síðustu alþingiskosningar og eru nú með meira fylgi en róttækir sósíalistaflokkar eru í öðrum þróuðum lýðræðisríkjum. Fróðlegt verður að fylgjast með framgangi þeirra á þessu kjörtímabili miðað við stefnu þeirra, orð og aðgerðir meðan þeir voru í stjórnarandstöðu.

Borgarahreyfingin náði markinu sem þarf til að ná fjórum þingmönnum og er full ástæða til að óska þeim til hamingju með þann árangur. Síðan reynir á að hreyfingin sýni hvað í henni býr pólitískt. í kosningabaráttunni fannst mér vanta skýra mynd á hreyfinguna en þannig er það iðulega með ný framboð. Spurning er hvar Borgarahreyfingin staðsetur sig í litrófinu og hvaða stöðu hún tekur gagnvart ríkisstjórn.

Því miður náði Sjálfstæðisflokkurinn ekki þeim árangri sem ég hafði vonast eftir. Vafalaust koma þar til margar ástæður og full ástæða er fyrir nýja forustu að setja nú þegar niður vinnunefnd til að fara yfir þau atriði sem úrskeiðis fóru í kosningabaráttunni og skilgreina hvaða atriði það voru sem helst ollu því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki betri útkomu en raun ber vitni. Mér fannst ánægjulegt að heyra það í morgun að vinur minn Jón Gunnarsson hefði náð kjöri síðastur inn og óska honum til hamingju með það.

Frjálslyndir eru taparar þessara kosninga og tapa tveim af hverjum 3 atkvæðum sem þeir fengu greidd árið 2007 eða um 67% atkvæðanna. Þetta er með ólíkindum fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu allan tímann.  Það er mér mikið ánægjuefni að nú skuli ekki vera hægt að kenna mér eða vinum mínum sem voru í Nýju afli um þennan ósigur því nú er hann alfarið á ábyrgð Guðjóns Arnars Kristjánssonar og hirðar hans sem hrakti okkur í burtu. Guðjón reyndist eftir allt ekki vera límið í flokknum.

Fróðlegt verður að sjá nýjan stjórnarsáttmála Rauðgrænu ríkisstjórnarinnar og með hvaða hætti ráðherrasætum verður skipað.  Vonandi tekst borgaralegu öflunum í Samfylkingunni að halda aftur af Sósíalistunum.

 


Bloggfærslur 26. apríl 2009

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 95
  • Sl. sólarhring: 816
  • Sl. viku: 3685
  • Frá upphafi: 2560555

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 3466
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 89

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband