Leita í fréttum mbl.is

Sjónhverfingar forsætisráðherra

Á Alþingi í dag dró Jóhanna Sigurðardóttir upp hátíðarmynd af árangri ríkisstjórnarinnar sem raunar er álíka áþreifanleg og kanína sem töframaður dregur upp úr hatti þegar betur er að gáð.

Í fyrsta lagi sagði hún að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar væri atvinnuleysi nú komið niður í 7.5%. Þetta telur forsætisráðherra vera árangur og það í landi þar sem atvinnuleysi hefur lengst af ekki mælst nema á billinu 1-3%. En sjónhverfingin er sú að hér er einungis vísað til atvinnuleysisins eins og það er yfir háannatímann í íslensku samfélagi. Hvað verður þá atvinnuleysið í nóvember fyrst það er svona núna? Hvað höfum við flutt út margar vinnandi hendur?  Nú væri nær að spyrja hvað mundi atvinnuleysið vera mikið hefði ríkisstjórnin ekki þvælst fyrir nýframkvæmdum. Atvinnuleysið er þetta þrátt fyrir ríkisstjórnina en úr því hefur ekki dregið vegna hennar. En óneitanlega er dökkt framundan og úrræði ríkisstjórnarinnar eru engin í atvinnumálum.

Í annan stað hrósar Jóhanna sér af því að dregið hafi úr verðbólgu úr 18.6% í 4.5%. Það er afleiðing af því að við búum í dag við fastgengisstefnu sem er haldið uppi með gríðarlegum höftum og verðlag sérstaklega á húsnæði hefur lækkað verulega. Hins vegar eru framundan verulegar hækkanir því miður og þess vegna er þetta einungis svikalogn á undan verðbólgustormi vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar.

Í þriðja lagi talar forsætisráðherra um að gengi krónunnar sé það sterkasta í eitt og hálft ár einmitt sama dag og krónan gaf eftir fyrir öðrum gjaldmiðlum og lækkaði þannig að staðhæfingin var röng og það þrátt fyrir að gengisfölsunarstefna Seðlabanka Íslands sé í fullum gangi.

Í fjórða lagi segir forsætisráðherra það verulegan árangur að stýrivextir Seðlabankans hafi lækkað úr 18% í 7% á tímabili ríkisstjórnar hennar. En hvað er það mikið ef verðbólga er reiknuð inn eins og Jóhanna talar um. Sé eingöngu miðað við tölur forsætisráðherra þá voru stýrivextirnir mínus 0.6% miðað við verðbólgu í upphafi viðmiðunartímabilsins en eru nú 2.5% yfir verðbólgu. 

Forsætisráðherra talar ekki um skjaldborg heimilanna nú á sama tíma og tilkynningar um nauðungaruppboð þekja heilu blaðsíður dagblaða. Hún talar ekki um verðtryggingarfárið. Hún talar ekki um aðgerðir til að koma í veg fyrir sjálftöku ýmissa hópa á opinberu eða hálfopinberu fé.

Það er auðvelt að berja sér á brjóst um miðjan uppskerutímann og benda á hvað kartöflugrösin eru græn og falleg. En það þýðir ekki að uppskeran verði í samræmi við það.

Með hvaða hætti ætlar ríkisstjórnin að spara þannig að ríkissjóður verði rekin hallalaust? Það getur ríkisstjórnin ekki.

Með hvaða hætti ætlar ríkisstjórnin að gæta að hagamunum skuldara þannig að þeir verði ekki sviptir eignum sínum vegna ranglást lánakerfis? Það verður ekki gert.

Með hvaða hætti ætlar ríkisstjórnin að gæta hagsmuna neytenda? Það gerir hún ekki og fer með Jón Bjarnason í broddi fylkingar ofurtollheimtumanna.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Jóhanna mun þakka sér fyrir í áramótaávarpinu verði hún ennþá forsætisráðherra þegar þar að kemur.


Af hverju að skipta um ráðherra núna?

Jóhönnu Sigurðardóttur lá á að gera breytingar á ríkisstjórn sinni þegar vandræðamál Gylfa Magnússonar kom upp. Þrátt fyrir að Gylfi viðskiptaráðherra væri ítrekað beraður af að hafa sagt þingi og þjóð ósatt, þá lýsti Jóhanna Sigurðardóttir yfir stuðningi við hann og taldi hann trúverðugan. Nú liggur hins vegar fyrir að þau hafa hvorugt talið að Gylfi Magnússon væri á nýjan þingfund setjandi og því verður að gera breytingar á ríkisstjórn sem annars hefði ekki komið til fyrr en í lok september í fyrsta lagi.

Gylfi Magnússon dregur vinsælasta ráðherra ríkisstjórnarinnar með sér í fallinu. Ragna Árnadóttir sker sig úr ráðherrahóp ríkisstjórnarinnar að því leyti að hún hefur gegnt störfum sínum af fagmennsku og heiðarleika. Hún er auk heldur vinsælasti ráðherrann.  Við þær aðstæður er óneitanlega dómgreindarbrestur af forsætisráðherra að ýta henni til hliðar jafnvel þó að óhjákvæmilegt hafi verið að láta Gylfa fara.

Með þessum breytingum er verið að reyna að berja í brestina og tryggja ríkisstjórninni þingmeirihluta. Nú verður órólega deildin í Alþýðubandalaginu sennilega til friðs og kokgleypir Icesave og Evrópusambandið af því að hún fær þá dúsu að Ögmundur verður ráðherra. Verði svo þá er óhjákvæmilegt að spyrja hvort hugsjónirnar hafi ekki verið mikilvægari en það að þær hafi þegar á öllu hafi verið á botninn hvolft snúist um ráðherradóm Ögmundar Jónassonar.


Bloggfærslur 2. september 2010

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 16
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 2574
  • Frá upphafi: 2562172

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 2374
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband