Leita í fréttum mbl.is

Öfgamenn með skrýtnar jaðarskoðanir

Guðmundur Andri Þórsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu á Alþingi í gær að öfgamenn með skrýtnar jaðarskoðanir ættu ekki að ráða ferð þegar málefni Ríkisútvarpsins væru til umræðu. Lýðræðishugmyndir þingmannsins eru því þær að aðeins útvaldir með ásættanlegar skoðanir megi hafa skoðun og þeir í Samfylkingunni séu þeir einir sem hafi dómsvald í málinu.

Þessi ummæli þingmannsins eru í samræmi við þá skoðun forustufólks Samfylkingarinnar, að þeir einir séu með ásættanlegar skoðanir og geti því talað úr háhæðum og dæmt alla aðra sem taka þátt í pólitískri umræðu. Samfylkingarfólk telur sig almennt þess umkomið að tala úr hásætum heilagleikans niður til annarra vegna skoðana þeirra.

Ummælin lét þingmaðurinn falla þegar rætt var um frjálsa fjölmiðlun gagnvart ofurvaldi Ríkisútvarpsins. Þingmaðurinn telur ófært, að frjáls samkeppni fái að ríkja á fjölmiðlamarkaði, en skylda skuli alla borgara landsins til að greiða til RÚV. 

Spurning er hvort það eru ekki einmitt öfgamenn með skrýtnar jaðarskoðanir sem afneita frjálsu markaðshagkerfi og heimta að fólk borgi fyrir fjölmiðlun, sem það hefur engan áhuga á og stuðli þannig að fákeppni á fjölmiðlamarkaði. 

Í máli þingmannsins kom líka fram, að mikill meirihluti þjóðarinnar styddi Ríkisútvarpið og vildi hag þess  hinn mestan. Liggur fyrir einhver nýleg könnun á því. En sé svo er þá nokkuð vandamál að veita fólki fjölmiðlafrelsi? Þeir sem vilja greiða fyrir áskrift að RÚV geri það, en þeir sem hafa ekki áhuga á því verði þá lausir undan því oki. Miðað við þróun á fjölmiðlamarkaði er það þá ekki hið eðlilega en frávikin skrýtnar jaðarskoðanir.

Er ekki valfrelsi, frjáls samkeppni og lýðræði það sem almennt er talið hefðbundnar skoðanir í lýðræðisþjóðfélagi? Sé svo þá má spyrja hvort að þingmaðurinn hafi ekki verið að sneiða að sjálfum sér þegar hann talar um öfgamenn með skrýtnar sérskoðanir.

En þó svo sé, þá á slíkt fólk eins og Guðmundur Andri Þórsson sama rétt og aðrir til að halda fram sínum sérskoðunum hversu svo galnar sem einhverjum öðrum kann að finnast þær og reyna að vinna þeim fylgi með lýðræðislegum hætti. Mikið ósköp væri æskilegt að Samfylkingarfólk færi að tileinka sér þessar grunnhugmyndir lýðræðisins.

 

 


Bloggfærslur 26. september 2018

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 802
  • Sl. sólarhring: 958
  • Sl. viku: 3204
  • Frá upphafi: 2601578

Annað

  • Innlit í dag: 727
  • Innlit sl. viku: 2985
  • Gestir í dag: 684
  • IP-tölur í dag: 656

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband