Leita í fréttum mbl.is

Getur enginn neitt nema Ríkið?

Ríkisbáknið hefur vaxið öruggum og hröðum skrefum. Mikil hækkun á launum alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins í upphafi kjörtímabilsins hafa leitt launaþróun, sem engin innistæða var fyrir og það var fyrirséð, eftir að gírugur ráðamenn vildu engu sleppa af feng sínum. 

Ríkissjóður var rekinn með verulegum halla 2019 í mesta góðæri sem við höfum fengið. Nú er fyrirséð, að tekjur ríkisins muni dragast verulega saman. Þrátt fyrir það hefur fjármálaráðherra mótað þá efnahagsstefnu, að ekki skuli skera niður í ríkisfjármálum og ráðist skuli í auknar fjárfestingar hin opinbera að því er sagt er, til að verja störf. 

Sú var tíðin, að Sjálfstæðisflokkurinn boðaði, að nauðsyn bæri til að minnka umsvif ríkisins og lækka skatta. Með því yrðu þau öfl leyst úr læðingi, sem mundu stuðla að aukinni nýsköpun,  framkvæmdavilja og aukinni arpðsköpun. Við það mundu ný störf verða til og tekjur ríkissjóðs aukast. Ungir sjálfstæðismenn leiddu baráttuna undir vígorðinu "Báknið burt."

Stefnumótun fjármálaráðherra nú sýnir að það hefur orðið 180 gráðu stefnubreyting hjá Sjálfstæðisflokknum, Talið er vænlegast til árangurs og varnar gegn þjóðarvá að stækka ríkisbáknið hlutfallslega með því að spara ekkert og með auknum fjárfestingum hins opinbera, en með þeim hætti verði störfin varin. 

Samkvæmt hefðbundinni borgaralegri hagfræði þýðir þessi stefna, gríðarlegan hallarekstur ríkssjóðs og þar sem ekki á að lækka skatta þrátt fyrir efnahagsáföll, sem bitna af mestum þunga á þeim helmingi vinnumarkaðarins, sem þarf að standa sjálfur undir launagreiðslum með því að afla tekna fyrst áður en hægt er að greiða laun verður greinilega þröngt í búi. Ef það verður þá nokkuð bú eftir annað en þrotabú. 

Hjá ríkisvaldinu í núinu er því öfugt farið og hin nýja stefna þýðir, að fyrst skuli eytt áður en teknanna er aflað. Stórfelldum halla á ríkissjóði verður þá ekki mætt nema leggja á aukna skatta á fólk og fyrirtæki nema sú auðvelda leið bráðabirgðaaðgerða verði valin, að vísa þessum vanda eyðslustefnu ríkissjóðs til framtíðarinnar. Til barna og barnabarna.

Stjórnmálastéttin hefur á fáum árum hlaðið undir sig með margvíslegum hætti og færri og færri þingmenn eru í raunverulegum tengslum við framleiðsluatvinnugreinarnar í landinu. Stjórnmálastéttin hefur á kjörtímabilinu bætt kjör sín verulega og langt umfram flestar aðrar stéttir í landinu. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir verið á einu máli um að fjölga aðstoðarmönnum bæði þingflokka og ráðherra auk þess sem framlög til stjórnmálaflokka hafa verið margfjölduð.

Það er dapurlegt, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem hafði það einu sinni á stefnuskrá sinni að draga úr ríkisútgjöldum, bruðli og sóun í ríkisrekstrinum en hlúa að frjálsu framtaki skuli ekki sjá neina leið til að spara ogdraga saman  m.a. með því að lækka ofurlaun íslenska stjórnunaraðalsins. Þá er slæmt, að ekki skuli  vera til í orðabók ríkisstjórnarinnnar, að lækka skatta til að stuðla að nýsköpun og fleiri störfum.

Ég sé því ekki betur, en Óli Björn Kárason undirritaður og vafalaust margt annað Sjálfstæðisfólk séum orðin eins og nátttröll í flokki, sem var flokkur einstaklingshyggjunar. Hvað sem því líður, þá er ég ekki tilbúinn til að víkja frá þeirri stefnu í pólitík, sem mótast af því. "að hver sé sinnar gæfu smiður"  og "sinna verka skuli hver njóta". Slíkt gerist ekki nema ríkisvaldið hafi sem minnst afskipti af borgurum þessa lands.  


Bloggfærslur 5. ágúst 2020

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 262
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 1949
  • Frá upphafi: 2296509

Annað

  • Innlit í dag: 251
  • Innlit sl. viku: 1811
  • Gestir í dag: 251
  • IP-tölur í dag: 242

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband