Leita í fréttum mbl.is

Þegar betur er að gáð.

Nýráðinn ritstjóri Fréttablaðsins Sigmundur áður þingmaður Samfylkingarinnar ritar leiðara í blað sitt í dag og fjallar um fullveldi þjóða. Ritstjórinn telur að fordjarfi Íslendingar ekki fullveldi sínu verði þeir einskonar Kúba. Raunar þekkt samlíking þ.e. Kúba norðursins. 

Eitthvað virðist hugtakafræðin vefjast fyrir ritstjóranum, en helst má skilja skrif hans um aflát fullveldis með þeim hætti, að alþjóðasamningar og samstarf svo og frjáls viðskipti leiði óhjákvæmilega til afsals fullveldis. En það er fjarri lagi.

Síðan tiltekur ritstjórinn þær þjóðir, sem hann telur að hafi mest fullveldi þjóða í heiminum. Þær eru að hans mati, Kúba, Venesúela og Norður-Kórea. Þessi tilvísun er klaufaleg í besta falli. Það eina sem þjóðirnar eiga sameiginlegt, hefur ekkert með fullveldi að gera. Sósíalískar kommúnistastjórnir fara þar með völdin og því pólitískt tengdar hugmyndafræði ritstjórans um Internationalinn sem muni tengja strönd við strönd og þjóðríki leggist af. 

Ritstjóranum datt ekki í hug að nefna Sviss, en þar er hvað besta dæmið um þjóð, sem heldur fullveldi sínu inni í miðri Evrópu og neitar að láta Evrópusambandið kúga sig til afsals fullveldis síns. Ritstjórinn ætti í því sambandi að huga að því sem gerðist nýlega þegar Sviss hafnaði því að verða EES þjóð vegna þess, að þeim hugnaðist ekki fullveldisafsalið, sem það hafði í för með sér. Samt býður Sviss borgurum sínum upp á ein bestu lífskjör í heimi og eru með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Fullveldi er annað og meira en verslun og viðskipti. Hvorki Þjóðverjar né Frakkar afsöluðu sér fullveldi þegar þeir komu á Kola-og Stálsambandinu og það sem þróaðist upp úr því viðskiptasamband Evrópuríkja leiddi ekki til þess fyrr en steininn tók að töluverðu leiti úr með Maastricht samningnum og síðar Lissabon sáttmálanum. Þá breyttist Evrópusambandið í annað og miklu miklu meira en viðskiptasamband aðilarríkjanna með tilheyrandi hlutbundnu fullveldisafsali til Brussel og Strassborgar.

Íslendingar hafa alltaf verið opnir og jákvæðir fyrir samstarfi og viðskiptum við aðrar þjóðir. Sem betur fer hefur meirihluti þjóðarinnar verið sammála um að slík samskipti verði á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar og fullveldisréttar Íslands. Það er fyrst á síðustu tuttugu árum, sem ákveðnir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafa haldið því fram, að fullveldið skipti engu máli, þegar valkosturinn sé framsal hluta sjálfstæðis- og fullveldisréttar þjóðarinnar til yfirþjóðlegs valds gegn þeirri dásemd að öðlast Evru sem gjaldmiðil. 

Því miður er svo komið fyrir okkur, að það eru valdamikil öfl í þjóðfélaginu sem krefjist þess að við afsölum okkur því fullveldi sem við höfum gegn ímynduðum hagsmunum. Þvert á móti ætti umræðan að snúast um nauðsyn þess að endurskoða EES samninginn miðað við þá þróun sem orðið hefur til að tryggja fullveldi þjóðarinnar enn betur en nú er og að því leyti ættum við að horfa til Sviss sem hefur gott samband við allar þjóðir sem vilja hafa samband og samstarf við Sviss á sama tíma og þeir neita að hlusta á erkibiskups boðskap hvort heldur hann er í Niðarósi eða Brussel.

Ekki væri úr vegi að ritstjóri Fréttablaðsins sem og aðrir skoðanabræður hans mundu hyggja að því sem frelsishetja Íslands Jón Sigurðsson forseti sagði í ritgerð sinni 1841 um Alþingi á Íslandi.

"Veraldarsagan ber ljóst vitni þess, að hverri þjóð hefur þá vegnað best, þegar hún hefur sjálf hugsað um stjórn sína og sem flestir kraftar hafa verið á hræringu."

Þessu ættu íslenskir stjórnmálamenn og ritstjórar aldrei að gleyma.

 


Bloggfærslur 28. ágúst 2021

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 608
  • Sl. sólarhring: 1108
  • Sl. viku: 8062
  • Frá upphafi: 2312323

Annað

  • Innlit í dag: 575
  • Innlit sl. viku: 7465
  • Gestir í dag: 561
  • IP-tölur í dag: 547

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband