Leita í fréttum mbl.is

Að dæma lifendur og dauða

Skv. kristinni trú er Jesú falið allt vald af Guði til að dæma lifendur og dauða. Prestlingurinn Davíð Þór Jónsson telur sig þó líka hafa þetta vald og hefur dæmt Vinstri græna til ævarandi helvítisvistar. Hvaðan skyldi Davíð Þór hafa þegið sitt vald? 

Lögregla mundi rannsaka orð Davíðs Þórs sem hatursorðræðu, hefði hann beint orðum sínum t.d. að transfólki eða múslimum. Sennilega gildir ekki það sama um Vinstri græna þó að þeir séu í meiri útrýmingarhættu en hinir hóparnir. 

Öfgafull orðræða prestlingsins í Laugarnessókn er vegna þess, að ríkisstjórnin hyggst framfylgja lögum og senda þá sem hafa dvalið hér ranglega á kostnað skattgreiðenda aftur  til þess lands þar sem þeir eiga rétt á að vera skv. þeim lögum sem að t.d. Samfylkingin og Píratar komu að því að semja.

Af hverju er prestlingnum svona uppsigað við Vinstri græna? Hvaða stað eiga þá Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn að mati klerksins, fyrst Vinstri grænir fara lóðbeint til helvítis. 

Dante vísaði til þess í bók sinni "Hinn guðdómlegi gleðileikur" (La Divina Comedia)að ákveðnir liðnir einstaklingar væru í helvíti en dæmdi engan þá lifandi, en það hefur páfinn gert á stundum og e.t.v telur Davíð Þór að hann hafi sama vald og páfinn og Jesús.

Allt er þetta með miklum  ólíkindum. Samfylkingin hamast við að berjast gegn því að framfylgt sé Evrópureglum varðandi hælisleitendum á sama tíma og flokkurinn berst fyrir því að þjóðin afsali sér fullveldi sínu og gangi í Evrópusambandið. 

En það er ekki bara Davíð Þór Jónsson sem missir sig í þessari umræðu. Í gær var dapurlegt að horfa á ofurfréttakonuna Sigríði Dögg Auðunsdóttur stjórna umræðuþætti þar sem Jón Gunnarsson ráðherra og Helga Vala Helgadóttir áttu að ræðast við. Það fór þó ekki svo. Sigríður Dögg Auðunsdóttir þáttastjórnandi fór mikinn og í hvert skipti sem hún hafði borið fram spurningu til ráðherra þá gat hún ekki unnt honum að svara, heldur greip stöðugt fram í og hélt orðinu og kom í veg fyrir að vitrænar umræður gætu átt sér stað. 

Dapur dagur fyrir annars ágæta fréttakonu, sem hefur margt gert vel. Dómsmálaráðherra lét þetta ekki valda sér hugaræsingi, en fór fram af stakri prúðmennsku eins og honum er lagið.

Ef til vill finnst prestlingnum Davíð Þór rétt að dæma ráðherrann til helvítisvistar fyrir prúðmennsku og málefnalega orðræðu. Fróðlegt væri líka að fá upplýsingar um það hjá biskupi hinnar furðulegu þjóðkirkju hvort hún hafi fært Davíð Þór vald til að dæma lifendur og dauða og hvort hún telji sig yfirhöfuð hafa eitthvað með slíka dóma að gera eða framsal slíks valds.

Er ekki kominn tími til að Biskupinn, RÚV, Samfylkingin, Rauði Krossinn og Davíð Þór ræddu þessi mál af skynsemi og án upphrópana eða helvítisprédikunar. Það færi þeim öllum betur.


Bloggfærslur 25. maí 2022

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 371
  • Sl. sólarhring: 1009
  • Sl. viku: 7586
  • Frá upphafi: 2313234

Annað

  • Innlit í dag: 334
  • Innlit sl. viku: 7011
  • Gestir í dag: 329
  • IP-tölur í dag: 318

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband