Leita í fréttum mbl.is

Lífeyrisránið

Ríkiskerfi sósíalismans skyldar alla  til að borga 15% af launum sína alla ævi í lífeyrissjóði.  Þeir sem borga í lífeyrissjóðina ráða engu um það með hvaða hætti peningunum þeirra er ráðstafað eða þeir ávaxtaðir.  Við ráðum ekki nema að takmörkuðu leyti í hvaða lífeyrissjóð við verðum að greiða. Hér gildir fullkomið einræði.

Við eigum þess ekki kost að spara sjálf á eigin forsendum.  Ríkisvald forsjárhyggjunnar svipti okkur því frelsi.

Lífeyrissjóðirnir spila á hlutabréfamörkuðum erlendis og tapa miklu fé. Ef til vill andvirði eins músikhúss eða 40-50 milljörðum síðustu viku.  Þá er eftir að gera upp tapið á vogunarsjóði lífeyrissjóðanna sem er í samkeppnisatvinnurekstri við einkafyrirtæki og ruglar allt sem heitir frjáls samkeppni.

Ræningjar forsjárhyggjunnar hafa ekki áhyggjur af þessu. Þeir stela sparnaðinum okkar með því að segja að við fáum bara minna borgað til baka. Hvaða ábyrgð ber ríkið á þessu. Það setti þvingunarlögin en ber enga ábyrgð.

Er lífeyriskerfið  risastórt svindl þar sem núkynslóðin er sú eina sem fær eitthvað út úr þessu, en komandi kynslóðir ekki. Í grein í Daily Telegraph á sunnudaginn var þessu líkt við frægasta svindl sögunnar kennt við Ponzi en þar gilti reglan fyrstir koma fyrstir fá hinir borga bara.

Þarf ekki að hugsa þetta kerfi upp á nýtt og gefa borgurunum aukið frelsi. Þeir sem vilja það ekki treysta fólki ekki og álíta að forsjárhyggjan sé betri en einstaklingsfrelsið. 

Hvernig stóð annars á því að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessari skerðingu einstaklingsfrelsisins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Jón þó! Þú átt nú að vita betur en að láta svona bull frá þér fara! Og fyrst þú spyrð: "Hvernig stóð annars á því að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessari skerðingu einstaklingsfrelsisins?", spurðu Guðmund H. Garðarsson. Já, vel á minnst, ríkið setti ekki lög um lífeyrissjóði (né annað), það gerði hið þjóðkjörna Alþingi. Annars bestu kveðjur:-)

Þórhallur Birgir Jósepsson, 9.8.2011 kl. 13:37

2 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Með leyfi herra hæstaréttarlögmaður: Ertu viss um að þessi "skylda" standist Stjórnarskrá?

Af hverju passa lífeyrissjóðirnir sig á að rukka aldrei hærri höfuðstól en nemur þeirri upphæð að málið sé Hæstréttartækt?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 9.8.2011 kl. 17:09

3 Smámynd: Elle_

Við finnum það æ oftar hvað við búum við mikla forsjárhyggju og valdníðslu.  Það er alveg óþolandi að stjórnmálamenn skuli halda sig vera hæfari en við sjálf við að ´fjárfesta´ peningana okkar og enn ömurlegra að þeim sé svo rænt í leiðinni.  Þetta verður að endurskipuleggja og við megum ekki lengur vera með pólitískt hliðholla menn í stjórnum lífeyrissjóða (eða í Seðlabankanum).

Elle_, 9.8.2011 kl. 19:01

4 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Það er samt eðlilegt að halda því til haga lögmaður sæll, það var Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra. AGS gerði kröfur um skattahækkanir en leiðin var sú skylda launamenn til að greiða flatan 10% skatt af öllum dagvinnulaunum. Bjarni þessi var sá maður sem barði þetta í gegn.

ASÍ logaði í ein tvö ár stafnanna í milli vegna þessa máls. Ef þú efast um mína vitneskju um málið, þá vil ég segja þér að ég tók þátt í umræðunni. Þá tók ég einnig þátt í því a' reyna að bjarga fyrirbærinu 1980 þegar þessir sjóðir voru í raun gjaldþrota og aftur 1990.

Það er þjóðarnauðsyn að leggja niður þetta kerfi strax. Það er vissulega nauðsynlegt að hafa eftirlaunakerfi, en það á að vera hjá Tryggingastofnun.

Kristbjörn Árnason, 9.8.2011 kl. 21:36

5 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu var það hið þjóðkjörna Alþingi Þórhallur og þetta var ónákvæmt orðað hjá mér en það skiptir minna máli en þessi forsjárhyggja. Það var nú raunar þannig að það var eftir kjarasamninga þegar Þorsteinn Pálsson var framkvæmdastjóri VSÍ og Ásmundur Stefánsson framkvæmdastjóri ASÍ og Geir Hallgrímsson forsætisráðherra sem aðilar vinnumarkaðarins neyddu þennan óskapnað upp á allan landslýð.  Þetta var komið áður en þarna var frelsisopinu endanlega lokað.

Jón Magnússon, 9.8.2011 kl. 22:14

6 Smámynd: Jón Magnússon

Já Kristján því miður held ég að þessu verði ekki hnekkt á með vísan til einhvers ákvæðis stjórnarskrárinnar.  Hins vegar ætti að vera í stjórnarskrá sérstök vernd einstaklinga fyrir óhóflegri forsjárhyggju, en það datt engum á stjórnlagaþinginu það í hug að það þyrfti að setja slíka vernd.

Jón Magnússon, 9.8.2011 kl. 22:16

7 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála Elle.

Jón Magnússon, 9.8.2011 kl. 22:17

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ég efast ekki um þína vitneskju um málið Kristbjörn þetta er líka rétt þarna var þessu komið á launamenn en síðan var síðasta opinu lokað síðar eins og kemur fram í svari mínu til Þórhalls. Í báðum tilvikum þá voru það samtök atvinnulífsins sem knúðu þetta í gegn og Alþingi hlýddi. Skrýtið hvað samtök atvinnurekenda hafa lengi verið höll undir forsjárhyggjuna Kristbjörn. 

Ég held að það þurfi að vera kerfi sem er hluti af velferðinni er sammála þér.

Jón Magnússon, 9.8.2011 kl. 22:20

9 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Á þessum tíma var Hannibal Valdimarsson forseti ASÍ (eða Björn Jónsson) og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. ´Þetta voru auðvitað mjög erfiðir tímar eftir að síldin hvarf og verðfall varð á þorski. Það var bankakreppa  og með þessum gjörningi fylltust bankarnir af peningum launamanna sem voru notaðir til að lána fyrirtækjunum í landinu á óverðtryggðum kjörum.

Gulrótin fyrir launamenn, var að þeir áttu að eiga kost á lífeyrissjóðalánum eftir 1975. Þá voru sjóðirnir komnir í þrot og tekin var upp verðtrygging.

Staðan í dag er sú, að það eru mjög margir sem komast hjá því að greiða til þessara sjóða. Ég og fleiri sem ætlum nú að fá lífeyri fáum nákvæmlega jafnmikið í eftirlaun og þeir sem aldrei greiddu einn einast eyri í sjóðina

Kristbjörn Árnason, 9.8.2011 kl. 23:37

10 identicon

Það er þó gott Jón að þú sjáir vitleysuna sem hann fyrrverandi svili þinn og yfir forsjárhyggjumaður Íslands tróð upp á okkur í sinni formannstíð í VSÍ með honum Ásmundi sérgóða.

En þegar þeir tróðu þessu upp á okkur braut Alþingi rétt á okkur þegnunum því þá var ákvæði í stjórnarskránni sem bannaði ríkisvaldinu að afsala sér skattheimtu til þriðja aðila. 

En einhverntíman síðan hafa þingmenn læðst aftan að okkur þegnunum og látið breyta strórnarskránni þannig að þetta ákvæði var tekið út.

En auðvitað þarf að afnema þetta kerfi, það er uppspretta spillingar og valda manna sem enginn kærir sig um. Eða hver hefur áhuga á að láta Vilhjálm Egilsson ráða í lífeyrissjóði, eða afhverju komst Víglundur Þorsteinsson upp með að skulda í Kaupþingsbanka marga miljarða á sama tíma og hann var formaður lífeyrissjóðs.

Eða eigum við að rifja upp hver var stærsti skuldari Lífeyrissjóðs Vesrslunarmanna þegar Húsgagnahöllin var byggð hér á árum áður???

Þú kannast nú við þetta allt Jón, sem fyrrverandi bankaráðsmaður í Iðnaðarbankanum sáluga.

En það þarf að snúa þessu dæmi við og kanski er von ef við getum komið með frumvarp og lagt í þjóðaratkvæði eins og tillögur stjórnlaganefndarinnar leggja til.

Þá getum við lagt frumvarp til þjóðaratkvæðis um að 

1. Lífeyrissjóðirnir verði gerðir upp og allir sem eiga þar eignir fái þær afhendar til ráðstöfunar

2. Eigendur geta ráðstafað þessum eigum sínum með þrennum hætti.

a) lagt 70% af þeim inn í Íbúðalánasjóð á 2% vöxtum og fengið höfuðstól og vexti greidda út við 67 ára aldur.

b) keypt ríkisskuldabréf fyrir 70% af eigninni sem bera 2% vexti og fengið höfuðstól og vexti útborgaða við 67 ára aldur

c) látið 70% af höfuðstólnum vera í núverandi kerfi.

d) 30% af eignum lífeyrissjóðanna verður ráðstafað til framkvæmdasjóðs aldraðra sem mun byggja þjónustuíbúðir og sjá um rekstur þeirra

 3) Laun hækki um 10% eða sem nemur mótframlagi atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna.

4) Landsmenn spari 7% af launum sínum og geti ráðstafað þeim eins og samkvæmt lið 2.

5) Landsmenn greiði 3% af launum sínum í framkvæmdasjóð aldrara

6) Allir þeir sem eiga að fá eftirlaun samkvæmt sérstökum reglum sérsniðnum fyrir forsætisráðherra, ráðherra og sendiherra greiði 90% skatt af þeim lífeyri.

7) Við andlát myndast erfðaréttur á sparnaði samkvæmt þessum reglum.

Með þannig kerfi held ég Jón að við gætum komist í þá ákjósanlegu stöðu að skulda bara okkur sjálfum það sem við þurfum að fá lán fyrir, nákvæmlega sami strúktúr og er í Þýskalandi og við erum alltaf að líta upp til.

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 01:40

11 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Núverandi lífeyrissjóðakerfi er já risastórt svindl, því miður Ponzí svikamylla í raun, og í mörg herrans ár hefi ég rætt og ritað um lýðræðisleysið varðandi skipan stjórna verkalýðfélaga í stjórnir lífeyrissjóða sem er miðaldalýðræði.

Með ólíkindum er, að slíkt miðaldalýðræði skuli forsenda þess að menn geti síðan valsað um í fjárfestingum hægri vinstri með fjármuni launafólks sem innheimtir eru með lagaboði.

Spurningin þín um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafi getað staðið að slíkri skerðingu á einstaklingsfrelsinu er eitthvað sem er verðugt verkefni fyrir næsta landsfund til að fjalla um.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.8.2011 kl. 01:51

12 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er allt saman satt og rétt hjá þér Kristbjörn.

Jón Magnússon, 10.8.2011 kl. 10:29

13 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir gott innlegg Sigurður. Þær tillögur sem þú bendir á eru mjög góðar. Söguna sem þú segir þekki ég ekki nema að hluta en það er rangt að ég hafi verið bankaráðsmaður í Iðnaðarbankanum sáluga það var ég aldrei.  Ég var hins vegar stjórnarformaður Iðnlánasjóðs í 8 ár, en sá sjóður sem stóð með blóma var lagður til Fjárfestingabanka atvinnulífsins þegar sá lottóbanki var stofnaður og var síðan sólundað í Glitni. Þar fór illa áratuga uppbyggng á lánasjóð til iðnaðarins, sem m.a. var myndaður vegna hugsjóna iðnaðarmanna sem vildu byggja upp iðnað í landinu og lögðu sjóðnum til fjármuni við stofnun hans.

Jón Magnússon, 10.8.2011 kl. 10:33

14 Smámynd: Jón Magnússon

Hjartanlega sammála Guðrún María nú sem fyrr.

Jón Magnússon, 10.8.2011 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 433
  • Sl. viku: 3845
  • Frá upphafi: 2428066

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 3556
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband