Leita í fréttum mbl.is

Kristi úthýst

Borgarráð hefur ákveðið að úthýsa kristinni boðun úr leik- og grunnskólum borgarinnar. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn benda réttilega á að þessar tillögur beri m.a. merki alvarlegra fordóma í garð trúfélaga.

Sumir halda því fram að það skipti engu máli hvaða flokkur er kosinn þar sé sami grauturinn í mismunandi skálum. Þetta er rangt og sú afstaða Borgarráðs að úthýsa kristinni fræðslu úr skólastarfi í borginni sýnir m.a. að það skiptir máli hverjir fara með stjórn borgarinnar og samfélagsins.

Engin vandamál hafa verið í skólastarfi varðandi trúarbragðafræðslu eða trúarlega boðun nema að fámennur en hávær hópur trúleysingja hefur hamast gegn kristinni boðun og trúarbragðafræðslu.  Fulltrúar trúleysingjanna eiga nú sinn meirihluta í stjórn Reykjavíkurborgar þvert á skoðanir meiri hluta borgarbúa.  Sú ákvörðun minni hlutans að úthýsa Kristi úr skólastarfi Reykjavíkur sýnir því að þessu leyti að það skiptir máli hverjir eru valdir í kosningum til að stjórna borg og ríki.

Kristnar lífsskoðanir eru samofnar íslensku þjóðfélagi og menningu. Það verður því erfitt fyrir kennara að framfylgja ákvörðun borgarráðs í daglegu skólastarfi.  Sem dæmi um regluverk Jóns Gnarr og Margrétar Sverrisdóttur um bann við kristinni boðun þá er ákveðið að "Sígildir söngvar o.fl. sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum skuli halda sínum sessi."  Miðað við þetta er þá má syngja "Heims um ból" og í "Betlehem er barn oss fætt" rétt fyrir jólin en þó ekki af öllum.

Önnur regla borgarráðs segir  "Þá verði þess gætt að nemendur fylgist einungis með en séu ekki þáttakendur í helgisiðum eða athöfnum"  Nemendum verður þannig einungis heimilt að fylgjast með þegar jólasálmarnir eru sungnir en mega ekki sjálfir taka þátt. Það að syngja "Heims um ból" er jú bæði helgisiður og athöfn.

En þetta er ekki nóg. Borgarráð ákveður líka að setja sérstakar tálmanir varðandi áfallahjálp presta og heimsóknir í kirkjur. 

Manni er spurn hvort brýna nauðsyn bar til þessara ákvarðana við stjórn Reykjavíkurborgar? Einnig hvaða hvatir eru að baki svona ákvörðunum Besta flokksins og Samfylkingarinnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

> ...nema að fámennur en hávær hópur trúleysingja hefur hamast gegn kristinni boðun og trúarbragðafræðslu.

"og trúarbragðafræðslu"!

Af hverju bætir þú þessu við Jón þegar þú veist vel að þetta er lygi? Ég hef persónulega leiðrétt þetta nokkrum sinnum hér á blogginu þínu og einu sinni rætt þetta við þig augliti til auglits. Það er enginn að hamast gegn trúarbragðafræðslu.

Finnst þér sjálfum eðlilegt að trú sé *boðuð* í leik- og grunnskólum?

Matthías Ásgeirsson, 7.10.2011 kl. 08:43

2 Smámynd: Einar Karl

Sæll Jón,

aðeins er þetta ónákvæmt og rangt að hluta hjá þér, en það er nú langt um liðið síðan þín börn voru í skóla svo þú þekkir e.t.v. ekki málið frá fyrstu hendi. Þú segir:

Engin vandamál hafa verið í skólastarfi varðandi trúarbragðafræðslu eða trúarlega boðun nema að fámennur en hávær hópur trúleysingja hefur hamast gegn kristinni boðun og trúarbragðafræðslu. 

Þetta er ekki rétt. Trúleysingjar hafa alls ekki hamast gegn trúarbragðafræðslu. Ef þú þekkir dæmi þess bið ég þig að benda á þau.

Hitt er rétt að þeir hafa talað gegn trúarlegri boðun. Þeir hafa gert það vegna þess að hún hefur viðgengist. (Ég get bent þér á fjölmörg dæmi um það.) Slík boðun, ekki síst í leikskólum, jókst á síðustu 20 árum, sumir hafa kennt um dvínandi ásókn í sunnudagaskóla eftir tilkomu morgunsjónvarps fyrir börn um helgar.

Nú kann að vera að þér finnist slík trúarleg boðun í leikskólum ekkert vandamál. En það finnst 10 af 15 fulltrúum Borgarráðs Reykjavíkur.

Einar Karl, 7.10.2011 kl. 08:51

3 identicon

"Manni er spurn hvort brýna nauðsyn bar til þessara ákvarðana við stjórn Reykjavíkurborgar? Einnig hvaða hvatir eru að baki svona ákvörðunum Besta flokksins og Samfylkingarinnar?"

Mannréttindi? 

Gulli (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 09:42

4 identicon

Hvað viltu Jón, viltu það að ísland verði dregið fyrir mannréttindadómstól vegna þess að lítil börn á íslandi þurfa að búa við misrétti vegna kristni á íslandi.
Þú býrð ekki lengur í svarthvítu landi Jón, hér býr fólk af mörgum mismunandi trúarbrögðum, já og með engin trúarbrögð. Og þú kemur fram, segist vera réttlætisgaur, ferð mikinn á hinum ýmsu fjölmiðlum í einhverjum réttlætisgír; En sérð svo ekki að þú sjálfur ert að bora þinni persónulegu trú ofan í lítil saklaus börn.

Presta á ekki að kalla til þegar áföll verða, það er eins og að setja auglýsingu frá þjóðkirkju á áfallið, mjög ósmekklegt; Auðvitað á að kalla til sérfræðinga sálfræðinga/geðlækna blah; Ekki einhverja galdrapresta sem eru bara að auglýsa trú sína og ekkert annað, nýta áföll barna og annarra til að selja galdrakarlinn.

Þú veist að þetta er vitleysa í þér Jón, þú bara veist það þó svo að þú sjálfur hafir verið settur undir kristna forritun þegar þú varst lítið barn.

Break the spell!

DoctorE (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 10:01

5 Smámynd: Einar Karl

Dæmisaga um vald meirihluta og minnihluta:

Á ekki meirihlutinn að fá að ráða?

Einar Karl, 7.10.2011 kl. 10:10

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ef þessi hersing sem nú fer með völd í höfuðstaðnum, ætti að vera samkvæm sjálfri sér, hljýtur hún að láta það verða sín næstu skref að afnema jólafrí í skólum borgarinnar. Einnig að afnema alla frídaga sem á einn eða annan hátt tengist trú. Þessi samsuða kaffilepjandi menningarelítu úr 101 er ekkert annað grátleg sem borgarstjórn, en svona er lýðræðið. Stór hluti borgarbúa kaus "eitthvað fyrir róna" og fullt "af allskonar" yfir sig og uppsker nú saamkvæmt því.

Halldór Egill Guðnason, 7.10.2011 kl. 11:26

7 identicon

Nú hef ég lesið þennan pistil þinn þrisvar sinnum og um hann er ekkert gott að segja anda öllum staðreyndum snúið á haus. Þú þykist allvel menntaður - manstu þetta erindi úr ágætu kæði Stephans G.:

Örðug verður úrlausn hér,
illa stend að vígi.
Hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.

Ekki ljúga, Jón.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 12:24

8 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Þetta er í takt við áhugaleysi landsmanna á kristinni trú. Kirkjunna eru tómar í messum. Einu skiptin sem fólk fer í krikju er í giftingum, fermingum og jarðarförum.

Ekki er hægt að benda á fjölda í Þjóðkirkjunni því hver einasti Íslendingur fæðist inn í hana.

Sleggjan og Hvellurinn, 7.10.2011 kl. 12:29

9 Smámynd: Þröstur Heiðar Guðmundsson

Ég var í smá bíltúr í gær með 5 ára dóttur minni.

Útvarpið var stillt á Harmageddon, og fóru þeir félagar mikinn í því að lýsa trúleysi sínu og tilgangsleysi kristinna trúar.

Ég áttaði mig ekki á því að hún hlustaði á hvert einasta orð sem þeir sögðu, þegar þeir voru búnir að hæðast og tala niður allt er varðar kristni og að allt væri nú þetta lýgi, þá spurði dóttur mín mig, en Pabbi hvar er þá Jesú núna.

Ég spurði hvar heldur þú að hann sé þá bennti hún með puttanum upp feimnislega upp til himins eins og hún væri að segja einhverja vitleysu og sagði hann er í skýunum ég vill að hann sé áfram í skýunum. Ég þurfti að sannfæra hana um það að ef hún trúði því að hann væri í skýunum þá er hann í skýunum.

Henni var greinilega mikið létt við því að hann skyldi í hennar huga ennþá vera til þrátt fyrir upphrópanir Erps og félaga.

Þarna kom í ljós að barn ný orðið 5 ára finnst notalegt að vita af einhverju góðu í skýunum,það nægir mér.

Skilaboðin mín eru þessi , ég og mínir virðum ykkar trúleysi og finnst mér ekkert athugavert við það ef það er ykkar val en virðið þið þá sem trúa á eitthvað fallegt í stað þess að eyðileggja með niðurrifi og fordómum.

Það að prestur komi og kynni fallegar biblíusögur fyrir börnin gerir engum mein og það hlýtur að vera réttur hvers barns að fá að kynnast þeirri þjóðtrú sem er í hverju landi, við hvað eru menn hræddir ?

Annars finnst mér merkilegt út á hvað samtökin vantrú ganga...

http://www.vantru.is/log-vantruar/

Þarna kemur fram svart og hvítu að aðalmarkmið þeirra er að tala niður aðra í stað þess að kynna hvað þeir sjálfir hafa fram að færa.

Hræsni eða ?

Þröstur Heiðar Guðmundsson, 7.10.2011 kl. 12:49

10 Smámynd: Magnús Ragnar (Maggi Raggi).

Er ekki verið að brjóta á VI. kafli – 63. gr. og 64. gr. okkar núverandi stjórnarskrá sem hljóðar svo:

63. gr.
● Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

64. gr.
● Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.
○ Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
○ Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.

Maður bara spyr?

Kær kveðja frá þínum einlæga vin,
Magnús Ragnar (Maggi Raggi).

Magnús Ragnar (Maggi Raggi)., 7.10.2011 kl. 13:04

11 identicon

Þette eru orð í tíma töluð, Jón, og þú hittir naglann á höfuðið. Vonandi kemur nýr meirihluti í næstu borgarstjórnarkosningum sem snýr stýrinu og beinir okkur í rétta átt hvað þetta varðar.

Friðrik Schram (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 13:14

12 identicon

Mjög athyglisverð færsla og eiginlega furðulegt að viðbrögðin hafi látið á sér standa.

Ég hef því miður ekki fylgst með almennum umræðum um eða fréttum af þessari ákvörðun Borgarráðs Reykjavíkur svo ég kem eiginlega "ofan af fjöllum".

Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér enga grein fyrir því að "kristin boðun" væri hlutverk leik og grunnskóla  menntakerfisins. 

Þú segir réttilega  " Kristnar lífsskoðanir eru samofnar íslensku þjóðfélagi og menningu."  Fræðsla  er hins vegar  kannski ekki það sama og "boðun".

Ég myndi vera þér þakklát fyrir ábendingar um hvar upplýsinga sé helst að leita um hver tengsl íslensku þjóðkirkjunar við menntakerfið raunverulega eru.

Agla (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 14:44

13 Smámynd: Valur Arnarson

Sæll Jón,

Ég þakka þér fyrir góðan pistil. Það er rétt sem þú segir, tillögurnar eru skýr merki um mjög alvarlega fordóma í garð trúfélaga og lífsskoðanna fólks. Það sem verra er, eru afleiðingarnar sem fáviskugjörningur þessi leiðir af sér. Með þessu móti eiga trúfélög engan málsvarnaraðila innan veggja menntastofnanna og því geta kennarar, eins og Egill Óskarsson og Brynjólfur Þorvarðarson, heilaþvegið börnin okkar með allskonar ranghugmyndarugli um meint innihald Biblíunnar. En eftir því sem ég best veit eru þeir félagar kennarar hér í borg og meðlimir í öfgasamtökunum Vantrú.

Það er hreint með ólíkindum að borgarstjórn með trúðinn í broddi fylkingar sé orðin sjálfsafgreiðslustofnun fyrir öfgasamtökin Siðmennt, sem fela sig á bak við mannúðarstefnuna, en eru ekkert annað en skipulagt leynifélag. Það verður ekki stoppað hér, ég var á blogginu hans Arnars Pálssonar sem er Náttúruhyggjusinni, Erfðafræðingur og kennir þróunarlíffræði við Háskóla Íslands. Þar var hann að tala um að það þyrfti að banna sköpunarsöguna í trúarbragðafræði. Þvílíkir öfgar. Það er allt í þessa áttina.

það skiptir máli hverjir eru valdir í kosningum til að stjórna borg og ríki.

Ég get tekið heilshugar undir þessi orð. Ég var félagshyggjumaður en hef séð það núna að þessir svokölluðu félagshyggjuflokkar hérna eru ekkert nema öfgafull fasistafélög, ekki fer atkvæðið mitt aftur í þennan óskapnað og greinilegt að þessi "félög" eru ekki heillavænleg fyrir þá sem vilja halda í góð kristin gildi í samfélaginu.

Valur Arnarson, 7.10.2011 kl. 22:46

14 Smámynd: Jón Magnússon

Matthías mér finnst eðlilegt að trú sé boðuð í leik- og grunnskólum. Hvað er það sem þú hefur leiðrétt? Að það sé fámennur hópur trúleysingja sem standi fyrir þessari aðför að eðlilegri kristilegri fræðslu?  Það er nú bara þannig. Fólk úr öðrum trúarhreyfingum er almennt ekki að amast við trúarlegri boðun.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:40

15 Smámynd: Jón Magnússon

Einar Karl það hafa ekki verið nein vandamál og ég vísa þér á svarið sem ég sendi Matthíasi.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:41

16 Smámynd: Jón Magnússon

Mannréttindi hverra Gulli? Var verið að troða einhverju upp á einhverja sem vildu það ekki. Hvaða mannréttindi voru brotin? Erum við ekki með þjóðkirkju og eru ekki yfir 90% landsmanna í kristnum söfnuðum?

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:43

17 Smámynd: Jón Magnússon

Guðmundur Guðmundsson mér finnst þetta síðasta sem þú skrifar ekki svaravert og þú þarft greinilega að lesa pistilinn oftar fyrst þú náðir ekki samhenginu eftir að hafa lesið þetta þrisvar sinnum.  Hvað er það sem er ekki satt og rétt í því sem skrifað er í þessum pistli Guðmundur. Ljóðið er ágætt en ég sé ekki samhengið.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:44

18 Smámynd: Jón Magnússon

Þú sem kallar þig Sleggju þá er það vissulega áhyggjuefni að þjóðfélagið skuli hafa þróast frá kristilegum gildum. Í stað þeirra tóku yfir á þessari öld græðgi og síngirni og lygi sem kollvarpaði fjármálalífinu að hluta árið 2008 og sömu öfl eru því miður enn að.  Er ekki einmitt ástæða til að spyrna á móti þessari óheillaþróun?

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:48

19 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Þröstur Heiðar þetta er einmitt mergurinn málsins.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:49

20 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Friðrik og þakka þér fyrir þinn hlut og þína boðun.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:50

21 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er góð ábending Magnús Ragnar þakka þér fyirr það.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:51

22 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Agla. Ég er ekki rétti maðurinn til að upplýsa þig um það,en ég mundi byrja á að leita til sóknarprestsins míns hvað það varðar.  Kristinn fræðsla er annað en kristileg boðun.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:53

23 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Valur en ekki gleyma hlut Samfylkingarinnar í þessu máli. Það er fulltrúi Samfylkingarinnar sem heldur þessari vitleysu við og leggur fram tillögu eftir tillögu gegn kristilegri fræðslu. Þannig að mér virðist Jón Gnarr miklu frekar vera meðreiðarsveinn í þessu þar sem höfundurinn er Samfylkingarkonan Margrét Sverrisdóttir. Hún setti raunar upp slæðu undirgefni og kvennakúgunar þegar hún heimsótti íslamskt land á sínum tíma, þó hún sé formaður Kvennréttindafélags Íslands.  Sérkennilegt að það félag skuli aldrei hafa tekið fyrir raunverulega kvennakúgun og ályktað gegn henni, en formaðurinn skuli hamast gegn kristninni og þjóðkirkjunni, sem virðir konur til jafns við karla.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:57

24 Smámynd: Jón Magnússon

Doktor E og þið aðrir fulltrúar trúleysingja sem hér komið fram. Ég vissi að þið munduð ekki láta ykkar hlut eftir liggja frekar en fyrri daginn þegar talað er með jákvæðum hætti um kristilega fræðslu og boðun.  Það sýnir hins vegar hvað þið eruð fá að það skuli ekki fleiri en þið hamast gegn réttri og eðlilegri færslu minni.  Ykkur fer greinilega fækkandi.

Jón Magnússon, 7.10.2011 kl. 23:59

25 Smámynd: Valur Arnarson

Mig langar til að velta upp þeirri spurningu hvort að gjörningur borgarstjórnarinnar sé ekki brot á barnasáttmálanum:

2. grein Jafnræði — bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

Það er kannski óþarfi að taka það fram, en hver veit á þessum tímum, barnasáttmálin er líka gerður fyrir trúuð börn.

3. grein Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

Í þriðju greininni kemur fram allar ákvarðanir yfirvalda skuli vera barninu fyrir bestu. Ég á erfitt með að sjá hvernig trúuð börn njóta góðs af ákvörðun borgarstjórnar.

4. grein Ábyrgð aðildarríkja
Aðildarríki eiga að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um eftir því sem þau framast geta, m.a. með lögum og reglum. Ríkin skulu hjálpast að þannig að öllum börnum verði tryggð þessi réttindi.

Hvernig eru réttindi trúaðra barna tryggð í menntakerfi Reykjavíkurborgar?

13. grein Tjáningarfrelsi
Börn eiga rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Börn eiga rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Ef börn mega ekki vera þátttakendur í t.d. bænum, er það þá ekki einmitt brot á tjáningafrelsi 13. greinar?

14. grein Skoðana- og trúfrelsi
Aðildarríki skulu virða rétt barna til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Aðildarríkjum ber að virða rétt og skyldur foreldra til að leiðbeina börnum sínum í þeim efnum.

Á hvaða hátt er sannfæring barns virt ef það má ekki taka þátt í helgiathöfnum?

17. grein Aðgangur að upplýsingum
Börn skulu hafa aðgang að innlendum og erlendum upplýsingum og öðru efni sem stuðlar að alhliða þroska þeirra og sem þau njóta góðs af félagslega og menningarlega. Aðildarríkjum ber jafnframt skylda til að vernda börn fyrir efni sem skaðað getur velferð þeirra.

Þegar hugmyndir Arnars Pálssonar ná fram að ganga þá hafa börn ekki aðgang að sköpunarsögunni sem er partur af þeirra menningarlegu arfleifð.

19. grein  Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning.

Hvernig ætla borgaryfirvöld að vernda trúuð börn gegn ofbeldi, þegar Vantrúarliðið verður búið að koma sínum öfgahugmyndum um eðli trúaðs fólks og eðli trúarrita á framfæri?

25. grein Eftirlit með vistun utan heimilis
Barn sem vistað er utan heimilis síns og fjarri fjölskyldu sinni, til þess að vernda líkamlega eða andlega heilsu þess,  á rétt á því að stjórnvöld hafi reglulega eftirlit með meðferð og aðstæðum á stofnuninni eða heimilinu sem barnið dvelst á.

Með þessari samþykkt er verið að ýta undir fordóma og einelti gegn trúuðum börnum, hvernig á þá samþykktin að vernda andlega heilsu þeirra?

29. grein Markmið menntunar
Menntun á gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. Stuðla ber að virðingu fyrir mannréttindum, mismunandi menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, öðru fólki og náttúrulegu umhverfi mannsins.

Hvernig felur þessi samþykkt í sér virðingu fyrir menningarlegri arfleifð?

30. grein Minnihlutahópar
Börnum sem tilheyra minnihlutahópum skal ekki bannað að njóta eigin menningar, iðka eigin trú eða nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum.

Hérna kemur það skýrt fram að börnum skuli ekki bannað að iðka sína eigin trú.

Valur Arnarson, 8.10.2011 kl. 00:19

26 Smámynd: Valur Arnarson

Rétt Jón,

Ég mun ekki gleyma hlut samfylkingarinnar í þessu máli. Ég sendi þessum 10 borgarfulltrúum hófsama fyrirspurn með tölvupósti en fékk náttúrulega engin svör. Enda er djókið allsráðandi núna í ráðhúsinu og þeir hafa ekki tíma í svona smámuni, eru alltof uppteknir við að naglalakka sig og fara í permanet. Mér sýnist Sjálfstæðisflokkurinn vera eini flokkurinn sem hefur áhuga á að verja mannréttindi trúaðra í þessu landi, ekki gera fasistarnir í Besta flokknum, vinstri grænum og samfylkingunni það.

Valur Arnarson, 8.10.2011 kl. 00:25

27 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Takk fyrir þinn pistil Jón.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 8.10.2011 kl. 02:24

28 identicon

> Erum við ekki með þjóðkirkju og eru ekki yfir 90% landsmanna í kristnum söfnuðum?

Það væri meira að marka þessa tölu ef fólk skráði sig sjálft í trúfélög. Eins og þú veist kannski, þá skráir ríkið börn í trúfélög móður við fæðingu. Ríkiskirkjan hagnast þannig á sinnuleysi þeirra mæðra sem ekki eru kristnar en sjá ekki ástæðu til skrá sig úr félagi sem þær aldrei skráðu sig í.

Skoðanakönnun Gallups fyrir Biskupsstofu frá 2004 gefur betri vísbendingar kristni í landinu. Þar telja ca. 70% sig trúuð og af þeim aftur ca. 70% kristinn. 70% af 70% eru ca. 50%. Ef 80% af þessum 50% eru í ríkiskirkjunni þá eru það 40%. Sem er helmingur þeirrar tölu sem þú nefndir.

Flestir af þeim 40% hefðu hæglega getað lent á bálinu fyrir trúvillu þegar kristnin stóð í sem mestum blóma. En nú þegar slíkt þykir ekki lengur kristilegt, hefur kirkjan snúið við blaðinu og gert lítið úr öllum þeim kreddum sem áður var taldar forsenda þess að vera kristinn.

Hve margir af þeim sem kalla sig kristna trúa á upprisu dauðra á dómsdegi, endurkomu krists, meyfæðinguna, osfrv?

Þetta kallar á aðra skoðanakönnun.

Trúir þú þessu?

Thor K (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 07:09

29 Smámynd: Einar Karl

Þröstur Heiðar segir áhugaverða sögu, m.a. segir hann

ég og mínir virðum ykkar trúleysi og finnst mér ekkert athugavert við það ef það er ykkar val en virðið þið þá sem trúa á eitthvað fallegt í stað þess að eyðileggja með niðurrifi og fordómum.

Það að prestur komi og kynni fallegar biblíusögur fyrir börnin gerir engum mein [...]

Þresti Heiðari finnst sjálfsagt að prestar komi í skóla og boði trúarlega lífsskoðun, en samtímis lýsti hann því að honum finndist vont að útvarpsmenn væru að boða dóttur hans trúleysi.

Þröstur Heiðar: hvernig getur þú sagst virða lífsskoðanir annarra þegar þú vilt samt leyfa prestum að boða börnum þeirra andstæðar lífsskoðanir?

Myndir þú vilja hleypa Erpi reglulega í tíma til dóttur þinnar og boða að Guð sé ekki til?

Einar Karl, 8.10.2011 kl. 08:44

30 Smámynd: Einar Karl

Ég vil útskýra betur sýn mína á sögu Þrastar Heiðars. Tek fram að ég vil alls ekki gera lítið úr þessari einlægu frásögn. ÉG skil áhyggjur hans af því að barni sé innrætt eitthvað andstætt því sem hann hefur kennt því.

Þröstur Heiðar segir:

Þarna kom í ljós að barn ný orðið 5 ára finnst notalegt að vita af einhverju góðu í skýunum,það nægir mér.

Ég dreg í efa þessa túlkun. Okkur er ekkert eðlislægt að trúa því að góðar verur búi uppi í skýjunum, Það sem ég held að barninu hafi fundist óþægilegt var heyra menn rengja eitthvað sem pabbi hennar og fleiri höfðu kennt henni að væri satt og rétt, að Jesús Kristur væri til og að hann byggi á himnum.

Ef Armageddon-menn hefðu verið að tala um Superman og að hann væri ekki til, eða þrumuguðinn Þór, eða hindúaguðinn Varaha sem birtist í mynd villigaltar, þá hefði hvorki barni né föður brugðið. Í huga þeirra eru þessir Guðir ekki til.

Trúleysingjar bæta bara einum Guði í þá flóru guða sem kristnir Íslendingar trúa ekki að séu til.

Einar Karl, 8.10.2011 kl. 10:35

31 identicon

> Erum við ekki með þjóðkirkju og eru ekki yfir 90% landsmanna í kristnum söfnuðum?

Það væri meira að marka þessa tölu ef fólk skráði sig sjálft í trúfélög. Eins og þú veist kannski, þá skráir ríkið börn í trúfélag móður við fæðingu. Ríkiskirkjan hagnast þannig á sinnuleysi þeirra mæðra sem ekki eru kristnar en sjá ekki ástæðu til skrá sig úr félagi sem þær aldrei skráðu sig í.

Skoðanakönnun Gallups fyrir Biskupsstofu frá 2004 gefur betri vísbendingar um algengi kristni í landinu. Þar telja ca. 70% sig trúuð og af þeim aftur ca. 70% kristin. 70% af 70% eru ca. 50%. Ef 80% af þessum 50% eru í ríkiskirkjunni þá eru það 40%.

Flestir af þeim 40% hefðu hæglega getað lent á bálinu fyrir trúvillu þegar kristnin stóð í sem mestum blóma. En nú þegar slíkt þykir ekki lengur kristilegt, hefur kirkjan snúið við blaðinu og gert lítið úr öllum þeim kreddum sem áður var taldar forsenda þess að vera kristinn.

Hve margir af þeim sem kalla sig kristna trúa á upprisu dauðra á dómsdegi, endurkomu krists, meyfæðinguna, osfrv?

Þetta kallar á aðra skoðanakönnun.

Trúir þú þessu?

Thor K (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 13:11

32 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þessi innlegg Valur

Jón Magnússon, 8.10.2011 kl. 18:10

33 Smámynd: Jón Magnússon

Takk sömuleiðis Guðrún.

Jón Magnússon, 8.10.2011 kl. 18:10

34 Smámynd: Jón Magnússon

Thor og Einar Karl ykkur liggur greinilega mikið á að gera hlut kristninnar sem minnstan. Af hverju? Skiptir það ykkur máli að gera lítið úr trúarskoðunum kristins fólks? Líður ykkur eitthvað betur með að fjandskapast út í trúarskoðanir annarra? Hvaða hvatir eru að baki þessari baráttu ykkar?

Jón Magnússon, 8.10.2011 kl. 18:12

35 Smámynd: Þröstur Heiðar Guðmundsson

Einar Karl !

Ég sé að þú hefur ákveðið að útfæra mína sögu á þinn hátt,

En svona bara fyrir þig til að pæla í þá sagði ég aldrei að mér þætti eitthvað slæmt að Erpur og félagar væru að segja það sem þeir voru að segja mér er alveg sama annars hefði ég slökkt á útvarpinu.

Ég er ekki að segja eins og þú heldur fram "Þresti Heiðari finnst sjálfsagt að prestar komi í skóla og boði trúarlega lífsskoðun, en samtímis lýsti hann því að honum finndist vont að útvarpsmenn væru að boða dóttur hans trúleysi."

Að mér finnist eitthvað vont hvað þeir segja hvenær sagði ég það ?

Ég er bara að benda á hræsnina sem fer fram og ef menn ætla að vera heilir í því að vilja ekki "trúboð" þá verða menn að virða það að vera ekki sjálfir að boða sitt "trúboð".

Ég kann ekki við hvernig þú þykist vita hvernig uppeldið á mínu barni fer fram og td hefur enginn á heimilinu sagt við dóttur mína að Jesú væri í skýunum hún hefur það annarstaðar frá , vinsamlega ekki reyna að draga mitt heimilislíf inn í þínar pælingar .

Persónulega er mér alveg sama hvort Erpur mætir í leikskólann og segir eitthvað við mitt barn eina sem hann myndi tala um væri kristin trú og hversu vitlaust hún er í stað þess að hafa eitthvað fram að færa í raun og veru.

Ég treysti dóttur minni alveg að velja síðar meir sína sýn á lífið og tilveruna burt séð a því hvað Erpur og þú halda fram.

En spurningin er samt sem áður sú sama treystir þú ekki þínum börnum á sama hátt ?  Við hvað ertu hræddur ?  Ef þetta er svona mikil vitleysa þá hljóta börnin að finna út úr því seinna ekki satt ?

Þröstur Heiðar Guðmundsson, 8.10.2011 kl. 18:39

36 Smámynd: Einar Karl

Jón,

margur heldur mig sig.

Ég er alls ekki að gera lítið úr trúarskoðunum kristinna. Hvar lestu það úr athugasemdum mínum? Þvert á móti ber ég virðingu fyrir þeim. En ég ber líka þá von í brjósti að þeir sýni mér þá sömu virðingu. Gerir þú það?

Mér finnst þú gera lítið úr lífsviðhorfum mínum. Ég myndi alls ekki fara að predika mín lífsviðhorf fyrir óstálpuðum börnum. En þú beinlínis segir í hér í athugasemd

"mér finnst eðlilegt að trú sé boðuð í leik- og grunnskólum."

Þér finnst m.ö.o. í góðu lagi að innræta mínum börnum ÞÍN lífsviðhorf, trú á Jesú Krist, Guð og heilagan anda.

Hvernig samræmist það TRÚFRELSI að þín lífsviðhorf séu RÉTTHÆRRI en mín, og skuli predikuð fyrir 2-4 ára börnum í leikskólum?

Einar Karl, 8.10.2011 kl. 19:36

37 identicon

> Thor og Einar Karl ykkur liggur greinilega mikið á að gera hlut kristninnar sem minnstan. Af hverju?

Er það ekki augljóst? Þú nefndir sem rök fyrir að hleypa ríkiskirjuprestum inn í skólastofurnar að 90% íslendinga væru skráðir í það ríkiskirkjuna. Hvað er þá að því að benda á að þessi rök standast ekki þar sem skráningin er að mestu leyti ósjálfviljug og gefur ranga mynd af algengi kristni í landinu? Það er ekkert annað en eðlileg röksemdafærsla.

> Skiptir það ykkur máli að gera lítið úr trúarskoðunum kristins fólks? Líður ykkur eitthvað betur með að fjandskapast út í trúarskoðanir annarra? Hvaða hvatir eru að baki þessari baráttu ykkar?

Mér er sama hverju fólk trúir meðan það þvingar ekki trú sinni upp á aðra, sem er það sem þú villt gera með því að hleypa ríkiskirkjuprestum inn í skólastofurnar.

Þeir sem vilja blanda trúarkreddum sínum inn í ákvarðanatöku samfélagsins, hvað þá þeir, sem krefjast þess að þær séu kenndar sem heilagur sannleikur í barnaskólum, verða að þola að ljósi sé beint að göllunum í trúarskoðunum þeirra.

Thor K (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 19:40

38 Smámynd: Þórólfur Ingvarsson

Frá mér hefur þú hjartans þökk fyrir þennan pistil Jón.

Kær kveðja Þórólfur.

Þórólfur Ingvarsson, 8.10.2011 kl. 23:06

39 identicon

Er ekki ljóst fyrir hugsandi fólki að trúarbrögð eiga heima heima?

Ef manneskja er KRISTIN, Jón, þá þekkist það af breytni hennar, og engu öðru!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 23:22

40 Smámynd: Ingólfur

Valur:

2. grein

Hérna finnst mér þú kasta steinum úr glerhúsi. Áttar þú þig ekki á því að öll börn, bæði trúlaus og trúuð, sem ekki tilheyra trúarstefnu Þjóðkirkjunnar, þurfa að líða öll þessi meintu brot og fleiri við núverandi ástand. En þér virðist standa á sama um réttindi þeirra

3. grein

Hérna gerir þú ráð fyrir því að öll trúuð börn tilheyri trúarstefnu Þjóðkirkjunnar. Ég held reyndar að fæst börn hafi gert endanlega upp við sig hvaða trúarhóp þau vilji tilheyra. Þess vegna tel ég það þeim fyrir bestu að eitt trúfélag fái ekki skipulega að boða þeim sinn sannleik umfram önnur.

4. grein

Eins og allra barna, með að vera ekki boðuð ein trú umfram aðra innan skólans. Trúuðum börnum er eftir sem áður frjálst að sækja sunnudagaskóla, æskulýðsstarf kirkjunnar eða bara messu, hvort sem er að eigin frumkvæði eða fyrir tilstuðla foreldra sinna.

13. grein

Mér finnst þessi grein ekki eiga alveg við þar sem 14. greinin passar betur, en ég sé ekki að reglurnar komi í veg fyrir að börn biðji bænir að eigin frumkvæði. Því sé ég ekki hvernig á að vera brotið á þeim.

14. grein

Tilgangur skólans er að fræða börnin um trú en ekki að boða trú. Þess vegna á prestur sem er fenginn til þess að fræða börnin um sitt trúfélag að gera það á þeim forsendum, en ekki að segja börnunum að byðja bænir með sér eða taka á annan hátt í trúariðkum. Það er hins vegar enginn sem bannar barni að iðka trú ef það gerir það að eigin frumkvæði.

17. grein

Sköpunarsagan verður eftir sem áður kennd í kristin og trúarbragðafræðslu. En væri sköpunarsagan kennd sem vísindi eða sem einhver staðreynd, að þá flokkast hún líklega undir efni sem gæti skaðað velferð barnanna og samkvæmt 17. grein eiga yfirvöld að vernda börnin fyrir því.

19. grein

"Vantrúarliðið" fær engan aðgang að skólum landsins, ekki frekar en trúfélög.

25. grein

Í fjölda ára hafa börn sem ekki hafa tekið þátt í kristinfræðslu, krikjuheimsóknum eða trúarstarfi innan veggja skólanna, þurft að sæta eineltis eða stríðni af þeim sökum. FJölmörg dæmi eru um foreldra sem láta börn sín taka þátt í þesskonar viðburðum gegn eigin sannfæringu vegna þess að þeir vilja ekki auka hættuna á því að þeirra börn séu tekin fyrir. Nýju reglurnar ættu að minnka þetta en þau ýta ekkert á einelti gegn trúuðum börnum. Þvert á móti leiða reglurnar líklega til þess að börnin verða minna vör við trú hvers annars og minni líkur er því á því að trúarbrögð skilji þau að.

29. grein

Taktu eftir því að greinin talar um mismunandi menningarlega arfleið, ekki eina útvalda.

30. grein

Ertu á því að þeir sem tilheyri trúarstefnu Þjóðkirkjunnar séu minnihlutahópur? Það má vel vera rétt hjá þér. En þeim er hvergi bannað að iðka eigin trú, ef þau svo kjósa.

Kveðja,

Ingólfur

Ingólfur, 9.10.2011 kl. 04:52

41 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Þórólfur

Jón Magnússon, 9.10.2011 kl. 10:32

42 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er rétt hjá þér Anna. En ekki gleyma því að Jesús boðar fyrirgefningu af því að hann veit og skilur breyskleika fólksins.  T.d. það að fyrirgefa óvinum sínum og biðja fyrir þeim reynist mörgum erfitt svo dæmi sé tekið. 

Jón Magnússon, 9.10.2011 kl. 10:35

43 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

"En svona bara fyrir þig til að pæla í þá sagði ég aldrei að mér þætti eitthvað slæmt að Erpur og félagar væru að segja það sem þeir voru að segja mér er alveg sama annars hefði ég slökkt á útvarpinu."
Alveg eins og við getum slökkt á skólunum ef verið er að boða börnunum trú! Nei, bíddu...

Jón: Þú veist að það er ekki á nokkurn hátt verið að banna trúfræðslu. Nú langar mig að spyrja: Ertu svona vitlaus, eða ertu vísvitandi að ljúga?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.10.2011 kl. 12:22

44 Smámynd: Egill Óskarsson

Valur Arnarsson, má ég biðja þig vinsamlegast um að taka aftur ummæli þín þar sem þú vegur að starfsheiðri mínum hér fyrir ofan og biðjir mig afsökunar. Þetta eru fáránlegar dylgjur hjá þér. Þú þekkir mig ekki og hefur ekki hugmynd um hvað ég geri í mínu starfi.

Fyrir utan það að vera ekki kennari hjá Reykjarvíkurborg eins og þú virðist halda þá koma mínar lífsskoðanir ekki við sögu í samskiptum mínum við börn í starfi mínu. Þú munt ekki geta fundið eitt dæmi um það að ég „heilaþvoi“ börn með einhverjum ranghugmyndum um Biblíuna.

Þetta er óþverraleg athugasemd hjá þér, þó að það komi reyndar lítið á óvart að þú kjósir að ráðast svona á starfsheiður fólks. Þetta lýsir innræti þínu, strangtrúaðs mannsins, ágætlega.

Egill Óskarsson, 9.10.2011 kl. 12:56

45 Smámynd: Rannveig Guðmundsdóttir

Takk fyrir góðan pistil, Jón. Og takk líka, Þröstur Heiðar, fyrir að segja það sem ég vildi sagt hafa!

Rannveig Guðmundsdóttir, 9.10.2011 kl. 13:04

46 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

" Hvað er það sem þú hefur leiðrétt? "

Mér fallast hendur Jón, svo langt gengur þú í útúrsnúningum. Ég endurritaði og setti gæsalappir utan um það sem ég hef leiðrétt ítrekað:

"og trúarbragðafræðslu"!

Hingað til hefur þú haldið því fram að málið snúst um kennslu um trúarbrögð. Hingað til hefur þú haldið því fram að fólk sé að berjast gegn kristinfræðik.

Nú loks kemur þú úr skápnum sem talsmaður trúboðs í leik- og grunnskólum landsins.

Nú þarf ég semsagt ekki að leiðrétta þig oftar því í ljós hefur komið að þú misskyldir aldrei neitt. Þú varst bara óheiðarlegur í málflutningi þínum. Meðal annars augliti til auglits við mig.

Þú ættir kannski að íhuga málstað þessa Jesúsar aðeins betur, hann hafði víst eitthvað við hræsni og lygar að athuga.

Merkilegt hvað klappstýrur Jesús virðast temja sér lítið af boðskap hans.

Matthías Ásgeirsson, 9.10.2011 kl. 14:47

47 identicon

Þessi pistill og umræða ætti að heita "Listin að hlusta ekki á neitt, svara ekki neinu og gera dylgjur um allt" eða bara "Réttindi eru fyrir fjöldann, andskotinn hirði þá sem færri teljast".

Grjóni Einskítsson (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 16:01

48 Smámynd: Valur Arnarson

Sæll Ingólfur,

Við skulum fara yfir þetta lið fyrir lið:

2. greinin fjallar um bann við mismunun. Þegar málsvarnaraðilar trúaðra barna er bannaður aðgangur að skólum landsins þá er þeim mismunað. Hér er um að ræða mismunun við t.d. börn samkynhneigðra en málsvarnaraðilar þeirra fá réttilega aðgang að skólum landsins, það á að gilda það sama um alla.

3. greinin fjallar um það sem er barninu fyrir bestu. Í útskýringunni minni hér að ofan útskýri ég á hvaða hátt nýju reglurnar eru trúuðum börnum ekki fyrir bestu.

4. greinin fjallar um ábyrgð aðildaríkjanna, hér bregst aðildaríkið Ísland trúuðum börnum í Reykjavík, bregðist stjórnvöld landins ekki við því órétti sem hér er beitt.

13. greinin fjallar um tjáningafrelsi en samkvæmt nýju reglunum er börnum bannað að biðja bænir við guðsþjónustur sem eru heimsóttar á vegum skólans, því er hér um brot á tjáningafrelsinu að ræða.

14. greinin fjallar um skoðana og trúfrelsi en í þeim guðsþjónustum sem eru heimsóttar á vegum skólanna, þurfa trúuð börn einmitt að halda aftur af sannfæringu sinni með því að sleppa því að taka þátt í bænahaldi.

17. greinin fjallar um aðgang að upplýsingum, sem betur fer þá verður sköpunarsagan og aðrar menningarlegar heimildir ennþá aðgengilegar börnunum okkar, en eins og ég útskýrði áður þá er sá fámenni hópur samfélagsins sem kom þessum reglum í gegn að undirbúa næstu skref og þau fela m.a. í sér að útrýma öllu úr menntakerfinu sem samræmist ekki þeirra heimsýn.

19. greinin fjallar um ofbeldi en ef miklir fordómar skapast í samfélaginu vegna þekkingaleysis þá bitnar það oft mest á börnum þeirra sem fordómarnir beinast gegn. Ef börnin fá engan málsvarnaraðila innan menntastofnunarinna þá er næsta víst að með tímanum þá munu reglurnar bitna á þeim.

25. greinin fjallar um vistun utan heimilis (sjá umfjöllun um 19. grein)

29. grein fjallar um virðingu fyrir menningarlegri arfleifð og það er rétt hjá þér, Ingólfur, hér er talað um mismunandi menningarlega arfleifð og ber að virða allt saman, reglurnar bera hins vegar ekki vott um virðingu fyrir neinu nema tómhyggjusjónarmiðum trúleysingja.

30. grein fjallar um minnihlutahópa. Þú talar hér, Ingólfur, eins og Þjóðkirkjan sé eina kirkjan á Íslandi en svo er ekki. Ég tilheyri sem dæmi Hvítasunnukirkjunni og tel mig því vera í minnihlutahópi í þessu samhengi. Samkvæmt nýju reglunum þá verður barninu mínu bannað að biðja bænir þegar bekkurinn heimsækir guðsþjónustur og því er þetta skýrt brot, ekki bara á þessari grein, heldur fjölda greina barnasáttmálans, hvort sem þér líkar betur eða verr.

Mér finnst merkilegt, Ingólfur, að það er eins og þér finnist alltí lagi að brjóta gegn trúuðum börnum svo framalega sem það sé bara gert innan veggja menntastofnana og það er eins og þú gerir sjálfkrafa ráð fyrir því að börn geti ekki verið trúuð vegna þess að þau eru börn. Þetta er undarleg túlkun hjá þér.

Svörin þín eru bara: Farið bara með börnin í sunnudagaskóla, þau geta farið með bænir þar. Látið þau bara fara með bænir heima hjá sér, þetta á ekkert heima innan veggja skólans.

Þetta eru náttúrulega ekkert nema fordómar og frekja. Svona viðhorf eru einmitt til þess fallinn að skapa misrétti og ójöfnuð.

Ekki hef ég neitt á móti því að t.d. múslimi myndi heimsækja skóla borgarinnar og sýni börnunum hvernig þeir iðka sína trú. Þetta myndi einmitt minnka fordóma gegn múslimum og sýna börnum að það sé ekkert skrítið við siði múslima og menningu. Þú stillir mér hins vegar upp sem einhverskonar málsvara Þjóðkirkjunnar sem ég er ekki, ég tilheyri henni ekki einu sinni. Mér þykir hins vegar vænt um Þjóðkirkjuna vegna þess að hún er samofinn menningu okkar. Mér þykir líka vænt um Snorra Eddu, Eddu kvæðin og Hávamál. Ekki dytti mér í hug að halda barninu mínu frá þeirri arfleifð.

Ekki hefði ég heldur neitt á móti því að fulltrúar Siðmenntar og Vantrúar myndu heimsækja skólana og kynntu starf sitt. Ég á hins vegar erfitt með að ímynda mér kynningu Vantrúar sem yrði einhvern vegin á þessa leið: Ja, við erum nú bara aðallega í því að benda á það hvað allir hinir eru asnalegir en við frábærir, það er nú lítið annað á bak við þetta hjá okkur, já og svo viljum við að allir séu eins og við, við viljum lækna samfélagið af trúarveikinni.

Hef þetta ekki lengra að sinni.

Kveðja,

Valur Arnarson, 9.10.2011 kl. 16:10

49 Smámynd: Jón Magnússon

Tinna ég er sennilega svona vitlaus. Með líkum hætti og ritstjórar bæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins ásamt ýmsu öðru málsmetandi fólki sem kemst að sömu niðurstöðu og ég.  Er ekki tími til að þú skoðir sjálfa þig.

Jón Magnússon, 9.10.2011 kl. 18:01

50 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Rannveig.

Jón Magnússon, 9.10.2011 kl. 18:01

51 Smámynd: Valur Arnarson

Sæll Egill,

Ég sé að ég hef farið yfir strikið. Mér var heitt í hamsi, ég bið þig, Egil Óskarsson og Brynjólf Þovarðarson afsökunnar.  Þetta var ósanngjarnt af mér. Ég tek þau orð sem voru ætluð ykkur í athugasemdinni minni til baka.

Valur Arnarson, 9.10.2011 kl. 18:11

52 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Það stendur skýrum stöfum í reglunum að trúarbragðafræðsla fari fram eins og hingað til. Þetta er búið að segja þér, þú ert væntanlega búinn að lesa þetta í reglunum, og, afsakaðu endurtekninguna, en það er búið að segja þér þetta margoft!

Þegar þú heldur fram einhverju, þrátt fyrir að vita að hið gagnstæða er rétt, hlýt ég að komast að þeirri niðurstöðu að þú sért annað hvort óheiðarlegur eða illa gefinn. Í besta falli ertu sneyddur lesskilningi.

Maður spyr sig hvort slíkir menn séu hæfir til að gegna dómarastöðu.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 9.10.2011 kl. 19:12

53 Smámynd: Reputo

Ég er með sáttatillögu fyrir kristna meirihlutann sem alltaf er verið að kúga. Já kúgaða meirihlutann sem otað hefur sínum tota í Stjórnarskrána, lagasetningar, ríkisféhirði, ómálga hvítvoðunga, leik- og grunnskóla ásamt ýmsu öðrum, en þykist nú verða fyrir barðinu á ótýndum öfga og villimönnum sem vilja einungis sjá jafnrétti í opinberum stofnunum. Setjum upp plan. Fyrst leiðréttum við trúfélagaskráningu sem kemur væntanlega til með að líta u.þ.b. svona út m.v. tölur frá Hagstofu Íslands ásamt trúarlífskönnun frá árinu 2004. 

Ríkiskirkjan35%
Trúlausir 25%
Persónuleg trú = guðlausir24,09%
Kaþólska kirkjan3,05%
Fríkirkjan í Reykjavík2,59%
Fríkirkjan í Hafnarfirði1,69%
Óháði söfnuðurinn0,91%
Hvítasunnukirkjan á Íslandi0,66%
Ásatrúarfélagið0,44%
Búddistafélag Íslands0,28%
Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi0,24%
Vottar Jehóva0,22%
Vegurinn0,22%
Krossinn0,20%
Bahá'í samfélagið0,13%
Félag múslima á Íslandi0,12%
Rússneska rétttrúnaðarkirkjan0,11%
Íslenska Kristskirkjan0,09%
Menningarsetur múslima á Íslandi0,07%
Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu0,06%
Serbneska rétttrúnaðarkirkjan0,06%
Betanía0,06%
Fríkirkjan Kefas0,05%
SGI á Íslandi0,04%
Boðunarkirkjan0,03%
Zen á Íslandi - Nátthagi0,02%
Sjónarhæðarsöfnuðurinn0,02%
Fyrsta baptistakirkjan0,01%
Samfélag trúaðra0,01%
Reykjavíkurgoðorð0,01%
Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar 0,01%
Kirkja hins upprisna líf0,01%

Önnur trúfélög og ótilgreint

 6,19%

Úpps.. kristnir eru víst ekki í þessum gífurlega meirihluta sem þeir hafa státað sig svo af. M.ö.o., kristnir eru tæp 50% þjóðarinnar, trú-og guðlausir tæp 50% og um 1% tilheyra einhverju öðru. En eigum við ekki að leyfa börnunum að kynnast öllu sem er í boði í trúmálum hér á landi? Þau geta jú ákveðið sig sjálf þegar þau verða eldri. Ef við leyfum hverju trúfélagi að boða trú sína í eina kennslustund á mánuði og taka börnin í tveggja daga ferðalag á ári mundi það ekki gera nema rúma viku í mánuði í trúboð og ca. 80 daga í ferðalög á ári tileinkuðu trúboði. Blessuð börnin hafa jú rétt á að kynnast því sem er í boði. Við trúlausi hópurinn gætum svo komið og sagt börnunum hvað okkur finnst um guðatrúr og afhverju dæmið gengur ekki upp. Annað væri auðvitað bara mannréttindabrot eins og Valur bendir á hér að ofan.Hinn kosturinn er auðvitað að úthýsa þessu öllu og leyfa foreldrum að sjá um trúaruppeldið ýmist persónulega eða í gegnum barnastarf söfnuðanna.

Reputo, 9.10.2011 kl. 21:40

54 Smámynd: Ingólfur

Valur, ég er búinn að marglesa reglurnar og ég get ekki komið auga á þessu mannréttindabrot. Í mesta lagi væri hægt að segja að það væri verið að taka af forréttindi sem einn ákveðinn hópur hefur haft í skólakerfinu.

Eins og ég sagði að þá eiga reglurnar að koma í veg fyrir að börn séu látin taka þátt í trúariðkun á skólatíma, en ekki að banna þeim að taka þátt að eigin frumkvæði.

Þú segir að þú viljir ekki halda Snorra Eddu og Hávamálum frá þínum börnum. Ég skil það vel, enda er þar að finna mikla visku.

En hvað finndist þér um það ef goði kæmi í skólann og kenndi öllum börnum þessi fræði sem óvéfengjanlegan sannleik og kenndi þeim og leiddi í því að færa guðunum fórnir, til þess að bæta líf sitt og árangur?

Þarni er nefnilega himin og haf á milli.

Ingólfur, 10.10.2011 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 217
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 4433
  • Frá upphafi: 2450131

Annað

  • Innlit í dag: 198
  • Innlit sl. viku: 4127
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 192

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband