Leita í fréttum mbl.is

Þegar Jesú er úthýst

"Í meir en 2000 ár hefur verið ómögulegt fyrir þjóðfélag að útiloka eða afmá Krist úr þjóðfélagslegu og pólitísku lífi án hræðilegra þjóðfélagslegra og stjórnmálalegra afleiðinga".

Þessa hugsun meitlaði Margaret Thatcher þá forsætisráðherra Bretlands í orð árið 1990. Hún var ekki að tala um aukin áhrif kirkju á stjórnmálin eða lýsa eindreginni trúarskoðun þegar hún sagði þessi orð. Hún var mun frekar að lýsa því að þjóðfélag sem byggði á siðaboðskap og manngildishugsjón kristindómsins, væri þjóðfélag sem væri byggt á kletti en án þeirra gilda væri þjóðfélagið byggt á sandi.

Sennilega mundi vestrænn stjórnmálamaður ekki viðhafa þessi ummæli í dag. Jafnvel þó þeir segi eitthvað fallegt um Jesús þá áræða þeir ekki að tala með jafn afdráttarlausum hætti um þær ógnir sem þjóðfélaginu stafar af því að gera Krist útlægan úr samfélaginu.

Sú skoðun hefur átt vaxandi fylgi að fagna á opinberum vettvangi í kristnum samfélögum, að trúarbrögð skipti annað hvort ekki máli eða séu jafnvel til tjóns. Elskaðu náunga þinn segir helsti páfi vantrúarinnar að skipti ekki máli og sé ekkert bundið trúarbrögðum. Þannig virðast margir ráðamenn telja eðlilegt að fólk geti muldrað bænir bakvið luktar dyr, en ekki meir.  Kristið fólk er ofsótt fyrir að bera krossmark. Í Bretlandi berst kona fyrir rétti sínum til að bera krossmark án þess að tapa þjóðfélagslegum réttindum vegna þess.

Þau einstaklingsbundnu réttindi sem við búum við hefðum við ekki fengið án áhrifa kristindómsins um óumbreytanlega virðingu hvers einasta einstaklings.  Við erum öll jöfn fyrir Jesú Kristi sagði Páll postuli. Þess vegna gat þrælahald aldrei staðist til lengdar í kristnum samfélaögum þó það tæki ótrúlega langan tíma að gera það ólöglegt.  En bann við þrælahaldi er ekki náttúrulegt lögmál þvert á móti. Með hnignandi áhrifum kristilegra lífs- og siðaskoðana sækir þrælahaldið á að nýju í ýmsum myndum

Í frönsku stjórnarbyltingunnni var kristindómnum úthýst og það sama gerðist í nasistaríkjunum og kommúnistaríkjunum. Hryllingurinn og hryðjuverkin sem unnin voru af öllum þessum aðilum hefðu ekki verið möguleg nema kristilegum gildum hefðu fyrst verið vikið til hliðar og þeim úthýst. 

Þar sem Jesús hefur verið úthýst hverfa grunngildi mannréttinda eitt af öðru. Trúleysingjar mættu stundum hugsa til þess og þakka fyrir að búa í kristnum samfélögum þar sem mannréttinda þeirra er gætt eins og annarra.

Kristið fólk verður að standa á grundvallaratriðum varðandi lífs- og siðaskoðanir og hafna því að Jesú sé úthýst úr skólum landsins. Gera verður kröfu til þess að í skólunum sem og annarsstaðar í þjóðfélaginu sé kristin trúfræðsla eðlilegur  og sjálfsagður hluti af náminu.

Þjóðfélag sem er á sandi byggt skolar burt. Byggja verður grundvallaratriði hvers samfélagssáttmála  á traustum grundvelli trúarskoðana kristninnar. Grunngildi kristinnar trúar hafa fært kristnum þjóðfélögum velmegun, virðingu fyrir einstaklingnum og mannréttindi. Þess vegna m.a. hefur páskaboðskapur Benedikts páfa sérstaka skírskotun til alls hins kristna heims. Færið heiminum ljós svo að augljósar staðreyndir um gildi kristinnar trúar komi fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Kristinn Þórðarson

Góður pistill Jón ekki í fyrsta sinn frá þér.Gleðilega páska

Guðmundur Kristinn Þórðarson, 8.4.2012 kl. 11:33

2 Smámynd: Skeggi Skaftason

Vestur-Evrópa er búin að vera kristin meira og minna í 1500 ár. Mannréttindi hafa samt ekki verið almennt virt nema ca. síðustu 200 árin eða svo. Voru það svo ekki kristnir Evrópubúar sem lögðu undir sig aðrar álfur á nýlendutímanum, hernumu lönd, hnepptu í þrældóm?

Ég sé enga fylgni milli kistindóms og mannréttinda.

Ég fagna því á páskum að búa í samfélagi trúfrelsis. Ég vona að svo verði áfram og að fólk eins og þú fái því ekki ráðið að trúarbulli verði troðið í mín börn í skólum.

Skeggi Skaftason, 8.4.2012 kl. 11:35

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú ertu lögfræðingur og ættir að eiga gott með að rökstyðja mál þitt.

Hvernig rökstyður þú þessa fullyrðingu þannig að hún haldi vatni fyrir dómi: " Hryllingurinn og hryðjuverkin sem unnin voru af öllum þessum aðilum hefðu ekki verið möguleg nema kristilegum gildum hefðu fyrst verið vikið til hliðar og þeim úthýst. "

Fyrir það fyrsta þá var trúarbrögðum ekki úthýst í Þýskalandi nasismans heldur byggðu þeir mikið af hugmyndafræði sinni á Lúter um leið og þeirvoru í bræðralagi við Kaþólsku kirkjuna. "Got mit uns" stóð á beltissylgjum þýskra soldáta. Gyðingamorðin voru réttlætt á grunni kristninnar.

Rússar bönnuðu ekki trúarbrögð né úthýstu neinum, en þeir hættu að styrkja kirkjuna með almannafé enda var kirkjan samofin aðlinum sem bylt var og var síður skárri harðstjóri en kommarnir.  Kirkjan fór því meira og minna á grasrótarstigið og leiðst sem slík.Þasð tók hana ekki langan tíma að ná fyrri hæðum aftur eftir fall kommúnismans og nú tildrast hún um gulli hlaðin sem fyrr.

Ég hef hvergi séð jafn mikið af ógrunduðum fullyrðingum í jafn stuttu máli og hér og tenging trúleysis við hryðjuverk sögunnar eru eins og hver önnur öfugmæli ef eitthvað má lesa út úr henni.

Ég veit að þú hefur ágæta menntun en mér finnst þú ættir að taka smá upprifjun í sögu. Með fullri virðingu annars.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.4.2012 kl. 14:33

4 identicon

Hitler háði stríð sem byggt var á kristnum gildum !

https://fbcdn-sphotos-a.akamaihd.net/hphotos-ak-prn1/552785_385534591479842_100000699134027_1232569_719528952_n.jpg

Palli (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 16:33

5 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Guðmundur.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 00:00

6 Smámynd: Jón Magnússon

Já Skeggi ég átti ekki von á öðru en þessu frá þér. En hvort sem þér líkar það betur eða verr þá eru kristnu samfélögin í dag þau einu þar sem mannréttindi og manngildi eru almennt virt.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 00:01

7 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er sérstök söguskoðun Jón Steinar.  Ég get haldið fyrirlestur um þetta ef þú vilt, en það er til ansi mikils mælst að rökstyðja þessar staðhæfingar með fullnægjandi hætti þannig að þér og þínum mundi líka. Ég er hins vegar tilbúinn til að mæta hverjum ykkar sem er til að rökræða þetta við ykkur ef þið viljið.

Aðeins til upplýsingar. Kristnu kirkjurnar fengu að starfa í hafti bæði hjá nasistum og kommúnístum raunar líka í frönsku byltingunni. Gyðingamorðin voru aldrei réttlætt með skírskotun til kristni það er rangt. Þú getur líka skoðað með hvaða hætti og hvernig var ráðist gegn prestum og kirkjunnar fólki í Þýskalandi af nasistunum og fjöldi sendur í fangabúðir eða drepin. Þessi ógn gegn kirkjunni náði út fyrir Þýskaland t.d. til Danmerkur þar sem prestar voru teknir af lífi og settir í fangabúðir. Það sama var í Sovétríkjunum sálugu.  Kirkjurnar fengu hins vegar að starfa á forsendum kommúnista og nasista. Þegar búið var að koma kirkjunni fyrir þá var einfaldara að viðhafa ógnarstjórn.

Það er nefnilega þannig Jón að kirkjan og kristnin hafa allsstaðar verið brjótsvörn gegn ógnarstjórnum og ófrelsi. Það hefur ekki dugað til nema e.t.v. á löngum tíma, en á endanum hefur frelsið unnið sbr. þegar kommúnisminn féll, en einn helsti áhrifavaldur þar var Jóhannes Páll páfi eins og þú getur kynnt þér.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 00:08

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er alrangt Palli. Hvernig í ósköpunum dettur þér þetta í hug. Það þurfti að koma kristninni og kirkjunni fyrir og stofna afstyrmi kirkjudeildar, en það var aðferðarfræði ógnarstjórnarinnar til að hafa eitthvað að yfirvarpi.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 00:10

9 identicon

Ég skil ekki hvað sumu fólki er illa við Jesús!hvað gerði hann rangt er stóra spurningin?

Rosi sigurdsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 02:05

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú máttu alveg glugga í Mein Kampf nafni ef þú segir enga kristna tengingu í þjóðarmorðum gyðinga eða hugsjón Nasista. Ég veit ekki hvaða apologistaþvælu þú hefur lesið en það er alveg ljóst að þú verður að taka þér tak í söguskoðuninni og lesa eitthvað um þau efni utan hins þröngasýna ramma kristinna réttlætingabókmenta.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.4.2012 kl. 05:21

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Samkvæmt þínum langsóttu tengingum og sögubjögun, þá ættu Svíar að vera næsta ógnarstjórn heimsins.  Þeir hljóta að hafa hafnað öllu almennu siðgæði og látiðfjarlægja íur sér samviskuna á skurðstofu um leið og þeir hafna trúarbrögðum sú trúlausa þjóð.

Þú ert verri en biskupinn í mjálminu. Þú ert svo áminntur um að hann er kommi og faðir hans einn af lykilmönnum kommúnistahreyfingarinnar hér í den, sem höfðu jú í hyggju byltingu. Hvernig færðu það til að koma heim og saman?

Jón Steinar Ragnarsson, 9.4.2012 kl. 05:31

12 Smámynd: Skeggi Skaftason

Það er nefnilega þannig Jón að kirkjan og kristnin hafa allsstaðar verið brjótsvörn gegn ógnarstjórnum og ófrelsi.

Nei þetta er nú ekki rétt. Líttu bara til Spánar, á ár fasistastjórnar Franco. Kirkjan sem slík var síður en svo að setja sig upp á móti einræði ig ógnarstjórn, með örfáum undantekningum einstakra hugrakkra presta. Nú er svo komið að kirkjan á Spáni er áhrifalaus, og nánast engin nýliðun er í prestastétt. Þetta hefur gerst samtímis því ða lýðræðið hefur fest sig í sessi.

Svo má líta til Suður- og Mið-Ameríku, þar sem kristindómur og trúarlíf er miklu öflugra en hér. Samt hefur lýðræðið ekki alltaf átt auðvelt uppdráttar. Glæpatíðni er geigvænleg víða í mið-Ameríku. Fylgir há morðtíðni kristindómi?

Svo má aftur líta til Japan, þar sem lítið hlutfall íbúa eru kristnir og trú er almennt ekki snar þáttur samfélagsins. Samt er þetta lýðræðissamfélag þar sem mannréttindi eru virt.

Þetta er einhver misskilningur hjá þér Jón að það sé fylgni á milli kristindóms og lýðræðis og mannréttinda.

Skeggi Skaftason, 9.4.2012 kl. 11:04

13 Smámynd: Jón Magnússon

Já það er einmitt spurning Rosi. En það eru alltaf sömu fáu einstaklingarnir sem skrifa út í það óendanlega og bjaga hlutina til og frá til að fullnægja eigin vantrú.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 13:58

14 Smámynd: Jón Magnússon

Mein Kamp nenni ég ekki að fletta upp í Jón Steinar. Ég las hana fyrir löngu síðan og minnist ekki trúarlegra tenginga, en varð sérstaklega minnistæður friðarboðskapurinn sem var þar.  Jón Steinar það er ekki hægt að tengja þýska nasista við kristilega boðun. Þeir voru í allskyns kukli og stofnuðu sína eigin kirkju af því að hefðbundin kristilega boðun hentaði þeim engan veginn.

Svo er það nokkuð sérstakt Jón minn Steinar að þú skulir tala um Svía sérstaklega og fá einhverjar tengingar fyrir hugaróra þína með vísan til þeirra. Svíar byggja á kristilegri menningu og arfleifð. Kristin viðhorf eru þar í fullu gildi. Þannig að tilvísun þín hvað þá varðar er algjörlega út í bláinn.

Ég vona að biskupinn sé mér fremri í trúfræðilegum málefnum og efast raunar ekkert um það. Það vill svo til að Karl Sigurbjörnsson var bekkjarbróðir minn í Menntaskólanum í Reykjavík og það er galið að tala um hann sem kommúnista. Það var hann aldrei. Hafði almennt ekki afskipti af stjórnmálum.  Sr. Sigurbjörn biskup var einn af helstu kennimönnum íslenskrar kristni og sú boðun var fjarri því að samsama sig ógnarkenningum eins og kommúnisma. Það skiptir engu máli í því sambandi þó hann hafi verið róttækur á menntaskólaárum sínum og kemur þessari umfjöllun ekki við frekar en annað Jón Steinar sem þú ert að fimbulfamba með.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 14:06

15 Smámynd: Jón Magnússon

Spánn er sérstakt dæmi þar sem kirkjur og klaustur voru ofsótt og prestar og nunnur myrtar af kommúnistum fyrir og í spænsku borgarastyrjöldinni. Ógnarverk beggja í borgarastyrjöldinni eru óafsakanleg. En af hverju rataði Spánn inn á braut lýðræðis og mannréttinda aftur. Það var vegna kristilegra gilda.  Af hverju gat Franco ekki beitt samskonar ógarnstjórn og kommúnistar að heimstyrjöldinni lokinni? Hugleiddu hvað það var sem gerði það að verkum.

Í Suður og Mið Ameríku gegnir kirkjan miklu hlutverki. Hún hefur haft gríðarleg áhrif til að bæta stjórnarfarið í þessum hluta heimsins þó það sé alls ekki nógu gott Skeggi, en það er ekki kirkjunni að kenna. Það sem áunnist hefur er hins vegar henni að  þakka.  

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 14:12

16 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þar sem Jesús hefur verið úthýst hverfa grunngildi mannréttinda eitt af öðru. Trúleysingjar mættu stundum hugsa til þess og þakka fyrir að búa í kristnum samfélögum þar sem mannréttinda þeirra er gætt eins og annarra.

Merkilegar fullyrðingar í ljósi þess að kristnir menn hafa nánast alla söguna verið á móti trúfrelsi. 

Áttu t.d. þeir trúleysingjar sem lifðu á Íslandi t.d. 17. öld að þakka fyrir að búa í kristnu samfélagi þar sem að "mannréttinda þeirra var gætt eins og annarra"?

Það er ekki fyrr en á síðustu tímu, og í kjölfar þessa hræðilegu andkristnu manna í frönsku byltingunni, sem að þjóðfélög okkar hafa mótast að þeim mannréttindum sem okkur þykir svo mikilvæg, mannréttindi sem að kristnir menn voru almennt á móti.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.4.2012 kl. 14:15

17 Smámynd: Þórólfur Ingvarsson

Jón ég vil þakka þér fyrir þessa þörfu og stórgóðu færslu sem þessi pistill er, ég er smála þér í öllu sem fram kemur í honum.

Þórólfur Ingvarsson, 9.4.2012 kl. 15:47

18 Smámynd: Ólafur Als

Hin ágætustu skrif, Jón - og ekki síður vel skylmst við fulltrúa trúleysisins. Þú hittir á höfuð naglans þegar þú viðrar hin kristilegu viðhorf, sem voru og eru jafnvel enn, ferskur andblær inn í ófriðarheim fyrri tíma og okkar eigin. Tilraunir manna til þess að skrumskæla friðarboðskap Jesú, eins og hann birtist í guðspjöllunum, eru hvorki nýmæli né mun þeim ljúka nokkru sinni. Verst er, að nafni þinn, skuli viðhalda fáfræði til þess að halda uppi skoðunum sínum um trúleysi ... sem er viðhorf sem hægt er að virða, á meðan því er ekki att fram á grunni fordóma og misskilinnar kunnáttu. Skeggi er jafnan samur við sig og eins og að lesa úr áróðursritum byltingarsinna frá fyrri árum. Er þessi sýn á veruleikann enn í gangi. Che Guevara er e.t.v. enn frelsishetja?

Ólafur Als, 9.4.2012 kl. 16:15

19 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fín úttekt, var við því að búast að trúleysingjarnir spryttu fram og notuðu tækifærið til að ata kristna trú sínum hefðbundn auri.

Ágætt að minnst er á Svíþjóð, en þar hefur myrkur trúleysisins átt hvað mestu fylgi að fagna. Hvað er líka að gerast þar? Múslimar eru að leggja undir sig landið í þessum skrifuðu orðum. Maður sér ekki mun á sumum hverfum í Malmö og slömmunum í arabalöndunum.

Theódór Norðkvist, 9.4.2012 kl. 17:32

20 Smámynd: Skeggi Skaftason

Jón Magnússon:

kaþólska kirkjan á Spáni studdi einræðisstjórn Franco. Það neitar því engin í dag, ekki einu sinni kirkjan sjálf. Það var ekki kirkjunni að þakka að Franco loks hrökklaðist frá völdum og lýðræði komst á.

Skeggi Skaftason, 9.4.2012 kl. 18:58

21 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka ykkur fyrir Þórólfur, Ólafur og Theódór. 

 Það er athyglivert að sjá hvernig þessi fámenni en harðsnúni hópur trúleysingja bregst jafnan við eins og flein sé stungið í hold þeirra þegar fjallað er um kirkju og kristindóm með jákvæðum hætti.

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 23:07

22 Smámynd: Jón Magnússon

Hverjum var það þá að þakka Skeggi?

Jón Magnússon, 9.4.2012 kl. 23:07

23 identicon

Ég þakka þér fyrir þessa grein Jón. Þetta er mikið alvörumál og orð þín eins og töluð úr mínu hjarta.

Úlfar Guðmundsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 375
  • Sl. sólarhring: 1350
  • Sl. viku: 5517
  • Frá upphafi: 2469901

Annað

  • Innlit í dag: 357
  • Innlit sl. viku: 5065
  • Gestir í dag: 356
  • IP-tölur í dag: 349

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband