Leita í fréttum mbl.is

Til hvers Alþingi

Alþingi fer með löggjafarvaldið samkvæmt nánari ákvæðum stjórnarskrárinnar.  Auk þess eru heimildir fyrir Alþingi til að skipa rannsóknarnefndir.  Löggjafarvaldi sínu sinnir Alþingi með því að fjalla um lagafrumvörp.

Talsmenn eins stjórnmálaflokks, Pírata hafa sagt að það sé tímasóun að bera upp lagafrumvörp á Alþingi og þingmenn þeirra hafi því ekki annað frumkvæði en að bera fram fyrirspurnir og þingsályktunartillögur. Sama virðist upp á teningnum hjá Bjartri Framtíð sem hefur ekki lagt fram nema eitt frumvarp.

Ætla hefði mátt að nýir flokkar hefðu metnað til að breyta lögum til að ná fram breyttri skipan þjóðfélagsins. En það á hvorki við um Bjarta Framtíð eða Pírata. Ef til vill er það vegna þess að hvorugur þessara flokka hefur mótaða þjóðfélagssýn. 

Hlutskipti þingmanna samkvæmt skoðun Pírata og raunveruleikanum sem þingmenn Bjartrar framtíðar bjóða upp á er þá að ræða um og afgreiða frumvörp ríkisstjórnarinnar auk þess að stunda pópúlískar orðræður um þingsályktunartillögur og tilgangslausar eða litlar fyrirspurnir. 

Verður einhverju breytt með því?

Í þessari afstöðu Pírata felist uppgjöf gagnvart því frumhlutverki þingmanna að stunda löggjafarstarf. Hún er að vissu leyti skiljanleg vegna þess að á Alþingi hafa mótast þær starfshefðir að einræði framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnar,  skuli ráða þannig að stjórnarfrumvörp eru afgreidd hversu merkileg eða ómerkileg sem þau eru, en þingmannafrumvörp eru sett í salt og fá ekki afgreiðslu úr nefnd hversu merkileg eða ómerkileg sem þau eru.

Samt eru dæmi um að þingmenn hafi komið fram breytingum á löggjöf. Jóhanna Sigurðardóttir fékk t.d. samþykkt nokkur frumvörp sem þingmaður og ýmsir aðrir þokuðu málum þanig áfram með því að leggja mál ítrekað fyrir. Þannig var frumvarp sem ég lagði fram á sínum tíma til þess að bjórbanninu var aflétt enda hafði ég trausta meðflutningsmenn þá Geir H. Haarde og Inga Björn Albertsson.

Nokkur dæmi eru um að það hafi verið skaðlegt að þingmannafrumvörp fengu ekki afgreiðslu. Lúðvík Bergvinsson flutti ítrekað frumvarp um ábyrgðarmenn sem loksins fékkst samþykkt eftir Hrun en hefði þurft að ná afgreiðslu löngu fyrr.  Þingmannafrumvörp um greiðsluaðlögun voru ítrekað flutt meir en áratug fyrir Hrun,  sem hefði verið gott  að fá samþykkt þannig að þau hefðu mótast í stað þess að verða misheppnuð fálmkennd löggjöf við galnar aðstæður. 

Einræði meirihlutans er skaðlegt. Almennir þingmenn sem taka hlutverk sitt alvarlega bera iðulega fram góð mál sem væri til framdráttar landi og lýð að yrðu afgreidd.

Í ljósi sögunnar væri æskilegt að Alþingi skoðaði betur stöðu sína sem mikilvægasti hornsteinn lýðræðis í landinu og breytti starfsháttum þannig að afgreiða öll frumvörp sem fyrir Alþingi eru lögð í stað þess að láta nær öll þingmannafrumvörp lenda í ruslafötu gagnslítils nefndarstarfs þingnefnda.

Sú firring þingmanna sem kemur fram hjá þingmönnum Bjartrar framtíðar og Pírata að afsala sér frumkvæði í löggjafarstarfi er skiljanleg, en  slæm fyrir lýðræðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt er það. Þetta er furðuleg afstaða hjá Pírötum og flokki, sem kallar sig Bjarta framtíð. Skyldu þeir græða mikið á þessu? Gaman væri að sjá það.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 2.10.2014 kl. 10:03

2 identicon

"einræði framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnar, skuli ráða þannig að stjórnarfrumvörp eru afgreidd hversu merkileg eða ómerkileg sem þau eru, en þingmannafrumvörp eru sett í salt og fá ekki afgreiðslu úr nefnd hversu merkileg eða ómerkileg sem þau eru."

Þú svarar þér eiginlega sjálfur þarna. Píratar eru ekki að 'afsala sér frumkvæði í löggjafastarfi' heldur bara einfaldlega að nýta þær aðferðir sem virka best. Þrír þingmenn geta ekki eytt tíma í breytingar á lögum OG framlögn þingsályktunartillagna, ásamt fyrirspurnum sem þeim fylgja.

Ef Píratar væru fleiri á þingi, þá væri hægt að gera meira.

"En það á hvorki við um Bjarta Framtíð eða Pírata. Ef til vill er það vegna þess að hvorugur þessara flokka hefur mótaða þjóðfélagssýn."

Þó að þú skiljir ekki þá þjóðfélagssýn sem Píratar hafa þá þýðir það ekki að hún sé til. Heyrðu, kannski hefur þú bara aldrei heyrt hugmyndir Pírata um þessa þjóðfélagsmynd. Grípum þá tækifærið og fræðumst smá.

Markmið Pírata er beint lýðræði, friðhelgi einkalífs, gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og frelsi upplýsinga (þar sem það skarast ekki á við friðhelgi einkalífs).

Þessi markmið hafa ákveðnar afleiðingar hvað varðar þjóðfélagið. Almennt séð þá þýðir það að hver sú sem vill taka þátt í ákvörðunum sem hana varðar, getur það. Upplýsingarnar liggja fyrir og ferlið er augljóst og aðgengilegt. Þetta þýðir að hlutverk löggjafa og framkvæmda er þjónustuhlutverk, ekki valdahlutverk. Ákvarðanirnar eru teknar af kjósendum, þingmenn semja lög miðað við þær ákvarðanir og framkvæmdin sinnir sínu. Öfugt við núna þar sem flest lög koma frá ráðuneytum, þingmenn eru á launum við að ýta á bjöllu og kjósendur fá ekki einu sinni að kjósa þó að þeir æpi sig hása.

Semsagt, lýðræðislegt þjóðfélag. Alla daga ársins, alltaf, ekki bara á fjögurra ára fresti.

Björn Leví (IP-tala skráð) 2.10.2014 kl. 16:16

3 identicon

Það þyrfti að gera nokkrar breytingar á kosningalöggjöfinni sem við búum við.

1. Þingmaður sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil.

2. Þingmaður á ekki einnig að geta verið ráðherra.

3. Um leið og skipt er um ríkisstjórn þá ætti einnig að skipta út ráðuneytisstjórum sem og öðrum æðstu stjórnendum ríkisstofnanna.

Þetta er svona það fysta sem mér datt í hug en helst hefði ég viljað að við byggjum við tveggja flokka kerfi.

Ef menn geta ekki fundið pólítískan farveg í örðum hvorum flokknum þá eiga þeir að finna sér eitthvað annað að gera sem mjög margir, sem eru á þingi í dag, ættu að gera þjóðarinnar vegna.

Sumarliði (IP-tala skráð) 3.10.2014 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 1120
  • Sl. sólarhring: 1588
  • Sl. viku: 6262
  • Frá upphafi: 2470646

Annað

  • Innlit í dag: 1048
  • Innlit sl. viku: 5756
  • Gestir í dag: 1015
  • IP-tölur í dag: 986

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband