Leita í fréttum mbl.is

Til varnar Jóni Kristinssyni Gnarr

Þó ég hafi ítrekað gagnrýnt Jón Kristinsson sem kallar sig Gnarr vegna ýmissa sjónarmiða sem hann hefur sett fram, þá erum við sammála um það grundvallaratriði að hver borgari hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar hversu gáfulegar eða vitlauasar sem öðrum finnast þær.

Í pistli sínum í dag bendir Jón réttilega á að Guð er ekki einkamál presta og að þeir séu engir rétthafar að guðshugtakinu. Í því sambandi má benda Jóni Kristjánssyni á það að Jesús segir að hverjum og einum sé heimilt að nálgast sig með þeim hætti sem hann/hún óskar. Jesús segir það beinum orðum að engin hafi einkarétt á guðshugtakinu eða að nálgast sig heldur geri það hver sem er eftir vilja og skilningi á boðun hans.

Kerfisfólk allra tíma hefur hins vegar viljað takmarka rétt einstaklingsins til þeirrar sjálfstæði nálgunar sem Jesús boðar. Kerfismennirnir tóku yfir á  kirkjuþinginu í Níkeu 325 með afleiðingum sem að mínu viti hamlar eðlilegri nútímalegri boðun Kristinnar trúar.

Í annan stað biður Jón um að trúaðir virði rétt hans til að hafa aðra skoðun. Af sjálfu leiðir að við sem viljum frelsi einstaklingsins og skoðanafrelsi virðum þann rétt.

Í þriðja lagi segir Jón Kristinsson orðrétt: "að ekki megi gera grín að trú fólks. Það þykir mér hættulegt viðhorf."  Breski leikarinn Rowand Atkinson (Mr. Bean) hefur ítrekað bent á þetta sama, en þar skiptir sköpum hverrar trúar fólk er. Kristið fólk lætur grín um trú sína yfir sig ganga, en ítrekað höfum við orðið þess vör á síðustu vikum að það gera Íslamistar ekki. Það er mikilvægt að við á Vesturlöndum ítrekum stöðugt þessi sjónarmið. Það á að vera heimilt og refsilaust að gagnrýna og gera grín að trúarskoðunum og sérhópum, þó hver verði að bera ábyrgð skoðana sinna. 

Það er grundvallaratriði að einstaklingarnir hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar í lýðfrjálum löndum og við tileinkum okkur öll þau viðhorf sem að eignuð eru heimspekingnum Voltaire. "Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég er tilbúinn að leggja mikið á mig til að þú fáir að halda þeim fram. " 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Talsvert jákvætt frá þérí þetta gagnvart Jóni Gnarr Kristinssyni sem þú virðist á barnalegan hátt forðast að kalla Jón Gnarr eins og aðrir landsmenn...en hvað er þetta..:"Þó ég hafi ítrekað gagnrýnt Jón Kristinsson sem kallar sig Gnarr vegna ýmissa sjónarmiða sem hann hefur sett fram,..." Það eru í fyrsta lagi EKKI "ýmis sjónarmið" sem hann hefur nokkurntíma "sett fram.." eins og þú segir í greinilegum skætingi, heldur hefur hann margoft skýrt frá því afhverju hann sækist eftir þessu nafni sem viðbót við sitt nafn. Einfaldlega var þetta heyrn hans á nafni hans "Gunnar" hratt borið fram þegar mamma hans kallaði á hann úr fjarska.

En samt bara talsverð jákvæðni hjá þér í þessum pistli og rýni þinni á Jón Gnarr, takk fyrir.

Már Elíson, 21.2.2015 kl. 12:57

2 identicon

Samkvæmt Þjóðskrá heitir hann Jón Gnarr Kristinsson. Óþarfi að gera lítið úr honum.

Hilmar (IP-tala skráð) 21.2.2015 kl. 13:36

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eitt aðalatriði í kvekaratrúnni, sem hún Manga með svartan vanga aðhylltist, var að enginn maður væri þess umkominn að sjá um samband hans við skapara sinn nema hann sjálfur. 

Ég held að aðrar kristnar trúardeildir geti lært nokkuð af því. 

Ómar Ragnarsson, 21.2.2015 kl. 16:59

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Af hverju gerir maður gys að því sem maður veit að er viðkvæmt hjá viðmælandanum. Myndi maður segja við ættmenni manns sem hefði hengt sig: Hvenær ætlar þú að hengja þig? 

Af hverju þarf ég að teikna skrípamynd af Múhameð ef ég veit að það veldur einhverjum vesalingum harmi? Get ég ekki bara haft hana fyrir mig og þá sem eru jafnsniðugir og ég? Eða get ég selt hana í blað? Það er meðvituð ákvörðun að selja barni landa eða handsprengju. Hlær maður ef þetta veldur skaða? Ef ég segi að allir trúaðir séu fífl hverjum er ég að skemmta ef ég fekki borgað fyrir það? Verði fleiri kátir en súrir? Hvað segir það um mig að vera vondur við lítilmagnann eða þann sem mér finnst vera lítilmagni? Mörg dæmi eru um að svo meg brýna deig járn svo bíti. Af hverju vilja menn vera kvikindislegir við aðra? Ekki var ég svo uppalinn.

Halldór Jónsson, 21.2.2015 kl. 20:21

5 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta með Gnarr tökunafnið er ekkert mál eða atriði í þessum pistli heldur þau sjónarmið sem verið er að tal um Hilmar og Már.

Jón Magnússon, 21.2.2015 kl. 23:20

6 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála því Ómar.

Jón Magnússon, 21.2.2015 kl. 23:21

7 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Halldór. Mér finnst ekkert sniðugt að gera grín að fólki eða ögra því nema það geti auðveldlega svarað til baka og aðgát skal höfð í nærveru sálar. En ég vil ekki banna það. Þó við verðum að þola sorann vegna tjáningarfrelsisins þá er það samt þess virði

Jón Magnússon, 21.2.2015 kl. 23:22

8 identicon

Ég skil ekki hversvegna má ekki gera grín að trúarbrögðum hver svo sem þau eru og ég spyr þessa andansmenn sem boða trú hvar voru þeir félagar guð og múhameð fyrir 13,8 miljörðum ára?

allidan (IP-tala skráð) 21.2.2015 kl. 23:34

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Minn ágæti hr. hrl., þú gengur allt of langt í meðvirkni með honum nafna okkar hér. Hann á það miklu fremur skilið fyrir ófyrirleitin prakkarastrikin, að talað sé til hans með tveimur hrútshornum!

Þessi bragur gerir það með sínum hætti:

Sumum er gjarnt að gera narr,

að Guði ei síður en mönnum.*

Einn í þeim hópnum er Jón Gnarr,

sem ýfist við siðleysisbönnum.

 

Hans hugsjón hann meinar sé heilög og stór:

að hér sé frjáls tilli og píka.

Í Antwerpen því fór sem fór,**

(og flugvöllinn hatar hann líka***).

 

Ófæddum gefur hann ENGAN rétt,****

en ALLAN mæðrum sem svíkja 

börn sín í tryggðum. Bræður, ei létt

er að böli því orðum að víkja.

 

Af litlu viti hann lýgur um Krist

og lætur sem sjálfur sé fróður.

Hann þykist ei hafa mikils misst*

og meinvillu boðar hálf-óður.

 

Um miðaldir veit hann ei hætishót°

nema hrafl úr dylgjum ó-sönnum.

En aldrei hann lastaði Ásablót

sem ófáum slátruðu mönnum.

 

Hann hyggur sig vera hæfan til þess

að heita forseti þjóðar.

Eðli máls samkvæmt segir ei: "yes!"

sá sem hér í hann hnjóðar.

 

Því Gnarrinn sór sig með gungum í hóp,

sem gáfust upp á að verja

lands okkar rétt–––honum leizt jú, þeim glóp,

leyfilegt á oss að herja!°°

 

Í Icesave-máli sem Bjarni hann brást,

og báðir töldu þá sæma

uppgjöf og svik,°° en það yfirsást,

að eftirtíðin mun dæma.

 

Eins er hann maður ESB,°°°

ekki upp á fullveldið púkkar.

Röngu hann veifar, ei réttu tré,

reynir svo það sem vel lúkkar!

 

Afglapar margir ætla hann þó

öðrum fremur að velja

til Bessastaða suður með sjó,–––

og svo má hann þjóðina kvelja!

   


http://www.visir.is/gud-er-ekki-til/article/2015702149993
** http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/1307982/
*** http://www.dv.is/frettir/2013/10/3/thessi-flugvollur-tharf-ad-fara/
**** http://krist.blog.is/blog/krist/entry/1630207/
° http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/562122/
°° http://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1558952/
°°° http://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/1356444/

Svo á Jón Viðar Jónsson frábærlega skýra og skarpa krufningu á þessum illa til fundnu og misheppnuðu skrifum Gnarrs um skapara sinn, hún (krufningin) er á Vísisvefnum með seinni grein J.Gn.:  http://www.visir.is/gud-©

Jón Valur Jensson, 22.2.2015 kl. 06:27

10 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Sæll Jón, auðvitað hefur Jón Gnarr rétt á að tjá sig. Hitt er annað mál að í okkar þjóðfélagi virðast ekki allir hafa þann rétt. Vinur minn Snorri Óskarsson þurfti að eyða heilum degi nýverið í réttarsal á Akureyri fyrir sína skoðun og ekki var hann að hæðast að neinum, aðeins að tjá sína skoðun. Hitt er annað mál, sem ég reyndar benti á, í umsögn til alþingis varðandi lög um " Guðlast" að það eru til önnur lög, sem reyndar var breytt 2014, þar sem er bannað að hæðast að trúarskoðunum fólks,kynhneigð og fl. og það refsivert að 2 árum.

233. gr. a laganna orðast svo:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með

ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis,litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sætasektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Ef menn vilja taka burt refsiákvæði, varðandi "Guðlast" þá mætti líka lagfæra þetta, sem reyndar er nýbúið að gera. En þá held ég að " Annnarlegur andi" hafi svifið yfir sölum alþingis.embarassed

Kristinn Ásgrímsson, 22.2.2015 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 219
  • Sl. sólarhring: 505
  • Sl. viku: 4435
  • Frá upphafi: 2450133

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband