Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarmyndun í ljósi skoðanakannana

Undanfarið hafa Píratar séð fylgið minnka með hverri nýrri skoðanakönnun sem birtist. Þess vegna spiluðu þeir út þeirri hugmynd að vinstri flokkarnir mynduðu ríkisstjórn í samræmi við skoðanakannanir.

Forustumenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sáu við þessum ruglanda og þökkuðu pent fyrir sig. Katrín Jakobsdóttir sem á erfitt með að taka afstöðu í nokkru máli setti tilboðið í "ferli" en Samfylkingin sem er við dauðans dyr sá kærkomið tækifæri til að leika á sömu pópúlísku pípuna og Píratar.

Formaður Samfylkingarinnar lýsti áhuga á stjórnarsamvinnu Pírata og annarra vinstri flokka og rykið var dustað af Ólafi Harðarsyni stjórnmálafræðingi sem lýsti þessari auglýsingu sem merkilegustu uppákomu í íslenskum stjórnmálum í tugi ára. Enn meira ryk var síðan dustað og uppmunstraður Jón Baldvin Hannibalsson sem á sínum tíma stóð að stofnun Samfylkingarinna og hann vitnaði um þá  pólitíska blessun sem fælist í tilboði Pírata í sama anda og Steinn Steinar orti á sinni tíð um Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hjálpræðishernum.

Meira þurfti til að koma í þeirri viðleitni að fá einhverja til að glepjast. Fréttadeild Samfylkingarinnar á RÚV lagði sitt að mörkum og þriðjungur kvöldfréttatímans á sunnudagskvöldi fór í að fjalla um þetta "merka pópúlíska útspil" Pírata og kallaðir til meintir sérfræðingar til að slá þá hörpustrengi sem hentuðu Samfylkingunni.

Það er nú einu sinni þannig að það eru kosningar en ekki skoðanakannanir sem telja. Stjórnarmyndun á grundvelli skoðanakannana er hvað svo sem þeir heiðursmenn og eðalkratar Jón Baldvin og Ólafur Harðarson segja lítilfjölegt útspil málefnasnauðs flokks til að vekja á sér athygli og viðbrögð Samfylkingarinnar eru dæmigerð viðbrögð annars málefnasnauðs flokks.

Vert er að óska forustufólki Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar til hamingju með að hafa ekki fallið í Píratapyttinn, en þeir Jón Baldvin og Ólafur Harðarson geta kyrjað úr ofangreindu kvæði Steins Steinar:

"Það fékk á vor fátæku hjörtu

og færði oss huggun í sál

að hlusta á þitt Halelúja

og hugljúfa bænamál.

Halelúja Birgittu Jónsdóttir varð í umfjöllun þessara herramanna sem æðri opinberun og mikið yrði nú landinn sæll að fá Steingrím J. aftur sem ráðherra svo ekki sé talð um væri rykið dustað af fleirum krataforingjum eins og t.d. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvílík snilld yrði það nú í stjórnarmyndun að fá það dáindisfólk eða lærisveina þess aftur að stjórn landsins. Tær snilld eins og bankastjórinn orðaði Iceseifið forðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju Píratar með að hreyfa svona vel við öllum þessum mosavöxnu blámönnum.

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 18.10.2016 kl. 00:01

2 identicon

Satt segirðu. Hrap Samfylkingarinnar er skiljanlegt, ekki aðeins vegna löngunar sinnar á því að fuðra upp með öðrum í brennandi ESB-kofaskriflinu auk stórfelldrar misnotkunar flokksins á Rúv, sem er farið að ganga fram af heilbrigt hugsandi fólki, heldur tel ég stærstu ástæðuna fyrir hruni Samfylkingarinnar vera fyrrverandi varaformanni flokksins, núverandi borgarstjóra og hans nóta að kenna, eins og framkoma þeirra við okkur borgarbúa hafa verið, svo að sé nú ekki talað um yngstu borgarbúana. Það hlálega við þetta er bara, að fólk virðist gjörsamlega gleyma því og horfa framhjá, að ruglið og vitleysan í Reykjavík er í boði Pírata. Þess vegna hef ég aldrei skilið, hvað fólk virðist vera spennt fyrir þeim sérvitringum, algerum stjórnleysingjum, sem vita ekkert, hvað þeir vilja, eða hvert þeir vilja stefna, þó að ég sé nú ekki viss um, að þeir fái eins mikið út úr kosningunum sjálfum eins og þessar heimatilbúnu skoðanakannanir gefa til kynna. Mér fannst það líka furðulegt, þegar Eva Soli talaði nákvæmlega eins og þeir í sjónvarpinu í gær, og taldi allt vera ómögulegt hér á Íslandi við núverandi aðstæður. En það er allt á sömu bókina lært hjá þessu vinstra fólki og Pírötum. Við skulum vona, að Sjálfstæðisflokkurinn sigri vel í þessum ótímabæru kosningum, þrátt fyrir Viðreisn, og Framsókn komi heldur ekki alltof illa út úr þeim, svo að þeir geti haldið áfram að stjórna landinu, svo að vitið og skynsemin sé við völd, enda er alveg nóg að hafa ruglið og vitleysuna í vinstri hjörðinni hérna í borginni, þótt það sé nú ekki á landsvísu líka.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2016 kl. 12:55

3 identicon

Raunar hef ég aldrei skilið það, að sömu kjósendur og segjast ekki vilja fara inn í ESB, skuli samt kjósa þá flokka, sem vilja ana þangað inn, og ég tala nú ekki um, þegar allt stendur í björtu báli þar innan dyra. Furðulegt svo ekki sé meira sagt.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.10.2016 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 297
  • Sl. sólarhring: 693
  • Sl. viku: 4118
  • Frá upphafi: 2427918

Annað

  • Innlit í dag: 273
  • Innlit sl. viku: 3809
  • Gestir í dag: 264
  • IP-tölur í dag: 253

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband