Leita í fréttum mbl.is

Hvað hefði Ólafur Thors fyrrverandi forsætisráðherra gert?

Í allri þeirri orrahríð sem verið hefur vegna köpuryrða nokkurra drukkinna þingmanna á Klausturbar með víðtækri fordæmingu og kröfu um afsögn þeirra sem viðstaddir voru hvort heldur þeir voru sekir um eitthvað eða ekki datt mér í hug saga af Ólafi Thors fyrrum forsætisráðherra. Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins um áratugaskeið og er tvímælalaust farsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar á síðustu öld. 

Ungur róttækur maður var kjörinn á þing og hataðist út í Ólaf Thors meir en nokkurn annan því að í huga unga þingmannsins var Ólafur Thors talsmaður og fulltrúi auðvaldsins og andstæðingur verkalýðsins. 

Í fyrstu þingveislu fyrsta vetrar kjörtímabilsins varð ungi þingmaðurinn víðáttu drukkinn og hellti sér yfir meintan óvin sinn Ólaf Thors með heitingum,frýjunarorðum og hótunum. Viðstaddir sáu og heyrðu hvað fram fór. 

Morguninn eftir vaknaði ungi þingmaðurinn í herbergi sínu á Hótel Borg, en í þann tíð bjuggu utanbæjarþingmenn iðulega þar. Hann var uppfullur af skömm yfir framferði sínu og vissi að hann hefði orðið sér til mikillar skammar. Hann velti fyrir sér mitt í öllum timburmönnunum hvað hann ætti að gera og komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði að segja af sér þingmennsku og fara aftur til sín heima með skottið á milli lappana. Leið nú dagurinn í einveru og þungum þönkum. Engin talaði við hann eða reyndi að setja sig í samband. 

Unga þingmanninum auðnaðist lítt að sofa aðfaranótt mánudagsins en sofnaði undir morgun og vaknaði seint og fór þá að undirbúa afsögn sína og leið svo fram að hádegi. Hann heyrði ekki í neinum, sem hann teldi að segði sína sögu um stöðu hans. Í hádeginu var barið að dyrum og ungi þingmaðurinn fór til dyra og varð bæði undrandi og nokkuð skelkaður þegar hann sá að fyrir utan stóð engin annar en óvinurinn sjálfur Ólafur Thors.

Ólafur falaðist eftir að fá að koma inn og var það auðsótt mál. Ungi þingmaðurinn byrjaði á að biðja Ólaf fyrirgefningar og fór að afsaka sig og sagði að hann gerði sér grein fyrir því að hann hefði skandalíserað þvílíkt að það væri ekkert annað í stöðunni fyrir sig en að segja af sér.

Ólafur Thors horfði á hann og sagði hvað er eiginlega að þér ungi maður. Láttu þetta ekki hvarfla að þér. Eins og það geti ekki komið fyrir unga menn að fá sér of mikið neðan í því og segja einhver vanhugsuð orð og vitleysu. Ekki erfi ég það við þig og drífðu þig nú í fötin og komdu síðan með mér út á Alþingi og við skulum labba saman inn í þingsalinn rétt eftir að þingfundur hefst og ég á undan og þegar við erum komnir inn í þingsalinn þá klappar þú á öxlina á mér og ég sný mér við og við klappa þér á öxlina og síðan skiptumst við á orðum þannig að allir sjái að við erum vinir og þá stendur ekkert eftir af þessu rugli í þér í þingveislunni. 

Þeir gengu síðan saman í þingsal og allt gekk eftir svo sem Ólafur hafði fyrirlagt. Ungi þingmaðurinn átti síðan farsælan þingferil og varð síðar ráðherra. 

Þennan unga mann hefði Ólafur Thors getað eyðilagt ef hann hefði viljað. En Ólafur var mannkostamaður og sem ráðherra og valdamaður í þjóðfélaginu taldi hann sér að sjálfsögðu ekki ógnað þó að ungur þingmaður í fyllirýi væri að veitast að sér með orðum sem allir máttu vita að engin innistæða væri fyrir. 

Einhvernveginn virðist nú sem tímar fyrirgefningar og umburðarlyndis séu liðnir í íslensku samfélagi og hver og einn reynir að slá pólitískar keilur vegna vanhugsaðra óhæfuorða tveggja þingmanna á Klausturbar og krefjast þess að allir sem viðstaddir voru orðræðu þeirra segi af sér þingmennsku.

Mér er sem ég sjái Ólaf Thors upplifa þessa orðræðu. Af framangreindri sögu mætti e.t.v. ráða að honum hefði brugðið við að sjá hvers konar fólk situr á Alþingi í dag og hvernig þjóðfélagið hefur þróast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Jón.

Þú segir eiginlega allt sem segja þarf.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.12.2018 kl. 08:53

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þetta innlegg er gott, og sýnir best hvað gott er að lesa um það þegar að einhver, þarna Ólafur Thors sýndi þetta frábæra fordæmi fyrir okkur hina, sem þurfum rækilega á því að halda.

Góð fordæmi inn í skólana.

Egilsstaðir, 07.12.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 7.12.2018 kl. 10:03

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hvað sögðu ekki farísearnir -við þökkum þér guð, að við erum ekki eins og hinr. 

Allt gengur þetta út á dyggðaflöggun og ef taka má andstæðing af lífi er það gert.

Ragnhildur Kolka, 7.12.2018 kl. 10:14

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þarna var það sá sem baktalaður var, sem fyrirgaf og leysti málið. Í Klausturmálinu eru það margir sem níddir voru og margir sem níddu þá. Það gerir málið óneitanlega flóknara. En prinsipið hjá Ólafi er gott.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.12.2018 kl. 17:11

5 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka ykkur fyrir ykkar innlegg. Ég er ekki að bera saman í sjálfu sér heldur að benda á hvernig stórbrotinn stjórnmálamaður tók á því þegar veist var að honum og hann vissi, að maðurinn sem gerði það var í vanda, þótt hann væri mannkosta maður. Ég held að hér fyrr á árum þó að stjórnmálin væru oft illvígari en nú, að þá hafi menn gætt að sér í nærveru sálar mun meira en nú er gert. Ef einhverjum verður eitthvað á í dag, þá er eins og úlfahópur renni á blóðlyktina og geri sitt til að murka lífið úr viðkomandi.

Jón Magnússon, 7.12.2018 kl. 20:59

6 Smámynd: Már Elíson

Sæll Jón,

Er þetta dæmisaga, eða er einhver fótur fyrir þessu ? - Góð er sagan og til eftirbreytni, en eftir situr sönnunin og hver þessi "farsæli þingmaður" hefði átt að vera. - Ólafur var án efa ágætur, en að Ólafur heitinn hafi verið "tvímælalaust farsælasti stjórnmálamaður á síðustu öld.." fer alveg eftir því með hvaða gleraugum það er skoðað. - Við íslendingar áttum mjóg góða og tvímælalaust afbragðs stjórnmálamenn á síðustu öld...þó kannski ekki alla flokkstengda þér, ágæti Jón. 

Már Elíson, 7.12.2018 kl. 23:51

7 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það var ekki stórmannlegt af Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, að úthrópa 6-menningana sem ofbeldismenn einmitt þegar leðjuslagurinn stóð sem hæst og tími til kominn að einhver með outoritet og fullu viti  stigi fram til að bera klæði á skylmingarnar. Undanskildi hún engan og kvaðst ekki myndu fyrirgefa.  Maður hélt einmitt að hún gæti verið rétta manneskjan en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Með þessari illa ígrunduðu framgöngu í Kastljósi gengisfelldi hún ekki aðeins orðið ofbeldi heldur eigið orðspor. Það kann að koma henni í koll þegar fram líða stundir í viðleitni hennar til að ná enn lengra á hinni pólitísku braut sem stjórnmálamaður.   Líkurnar á því að sameining Framsóknar- og Miðflokksins með hennar atbeina, sem margir vonuðust til, eru nú varla í sjónmáli.

Daníel Sigurðsson, 8.12.2018 kl. 00:45

8 Smámynd: Ívar Ottósson

Mjög athyglisvert....og sýnir berlega hverskonar maður Ólafur var. En munurinn hér er líklega sá að þessi ungi þingmaður var búin að ákveða að segja af sér og hefði líklega gert svo ef ekki Ólafur kom með sáttahendina....6 menninningarnir eru staðráðnir að sitja sem fastast og ekki mikil iðrun á borði þar þó svo að hún er í orði.

Þeir hafa ekkert erindi lengur á Alþingi Islands...því miður.

Ívar Ottósson, 8.12.2018 kl. 06:25

9 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Það var ekki stórmannlegt af Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, að úthrópa 6-menningana sem ofbeldismenn einmitt þegar leðjuslagurinn stóð sem hæst.og tími til kominn að einhver með outoritet og fullu viti  stigi fram til að bera klæði á vopnin. Undanskildi hún engan.og kvaðst aldrei myndu fyrirgefa.  Maður hélt einmitt að hún gæti verið rétta manneskjan en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Með þessari illa ígrunduðu framgöngu í Kastljósi gengisfelldi hún ekki aðeins orðið ofbeldi heldur eigið orðspor. Það kann að koma henni í koll þegar fram líða stundir í viðleitni hennar til að ná enn lengra á hinni pólitísku braut sem stjórnmálamaður.   Líkurnar á því að sameining Framsóknar- og Miðflokksins með hennar atbeina, sem margir vonuðust til, eru nú varla í sjónmáli.

Daníel Sigurðsson, 8.12.2018 kl. 12:35

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ólafur sýndi oft snilli í mannlegum samskiptum eins og ótal sögur eru um.  Samt var það svo, að í svonefndu Eiðrofsmáli varð trúnaðarbrestur á milli hans og Hermanns Jónassonar, sem varð mikill trafali í íslenskum stjórnmálum í tuttugu ár eftir það. 

Ólafur og Gylfi Þ. Gíslason áttu snerru á þingi sem gekk svo langt að lagt var fram frumvarp á Alþingi um að svipta Ólaf þinghelgi svo að Gylfi gæti sótt meiðyrðamál á hendur honum. 

Það var fellt. Síðar varð Gylfi máttarstólpi í Viðreisnarstjórninni við gagngerar breytingar í efnahagsmálum og voru þá fullar sættir með þeim og mátu þeir hvor annan mikils. 

Nú eru nýir tímar eins og Mee-too og mál Björns Braga og Klausturmálið sýna.  

Ómar Ragnarsson, 8.12.2018 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 671
  • Sl. sólarhring: 926
  • Sl. viku: 6407
  • Frá upphafi: 2473077

Annað

  • Innlit í dag: 608
  • Innlit sl. viku: 5836
  • Gestir í dag: 583
  • IP-tölur í dag: 570

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband