Leita í fréttum mbl.is

Getur enginn neitt nema Ríkið?

Ríkisbáknið hefur vaxið öruggum og hröðum skrefum. Mikil hækkun á launum alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins í upphafi kjörtímabilsins hafa leitt launaþróun, sem engin innistæða var fyrir og það var fyrirséð, eftir að gírugur ráðamenn vildu engu sleppa af feng sínum. 

Ríkissjóður var rekinn með verulegum halla 2019 í mesta góðæri sem við höfum fengið. Nú er fyrirséð, að tekjur ríkisins muni dragast verulega saman. Þrátt fyrir það hefur fjármálaráðherra mótað þá efnahagsstefnu, að ekki skuli skera niður í ríkisfjármálum og ráðist skuli í auknar fjárfestingar hin opinbera að því er sagt er, til að verja störf. 

Sú var tíðin, að Sjálfstæðisflokkurinn boðaði, að nauðsyn bæri til að minnka umsvif ríkisins og lækka skatta. Með því yrðu þau öfl leyst úr læðingi, sem mundu stuðla að aukinni nýsköpun,  framkvæmdavilja og aukinni arpðsköpun. Við það mundu ný störf verða til og tekjur ríkissjóðs aukast. Ungir sjálfstæðismenn leiddu baráttuna undir vígorðinu "Báknið burt."

Stefnumótun fjármálaráðherra nú sýnir að það hefur orðið 180 gráðu stefnubreyting hjá Sjálfstæðisflokknum, Talið er vænlegast til árangurs og varnar gegn þjóðarvá að stækka ríkisbáknið hlutfallslega með því að spara ekkert og með auknum fjárfestingum hins opinbera, en með þeim hætti verði störfin varin. 

Samkvæmt hefðbundinni borgaralegri hagfræði þýðir þessi stefna, gríðarlegan hallarekstur ríkssjóðs og þar sem ekki á að lækka skatta þrátt fyrir efnahagsáföll, sem bitna af mestum þunga á þeim helmingi vinnumarkaðarins, sem þarf að standa sjálfur undir launagreiðslum með því að afla tekna fyrst áður en hægt er að greiða laun verður greinilega þröngt í búi. Ef það verður þá nokkuð bú eftir annað en þrotabú. 

Hjá ríkisvaldinu í núinu er því öfugt farið og hin nýja stefna þýðir, að fyrst skuli eytt áður en teknanna er aflað. Stórfelldum halla á ríkissjóði verður þá ekki mætt nema leggja á aukna skatta á fólk og fyrirtæki nema sú auðvelda leið bráðabirgðaaðgerða verði valin, að vísa þessum vanda eyðslustefnu ríkissjóðs til framtíðarinnar. Til barna og barnabarna.

Stjórnmálastéttin hefur á fáum árum hlaðið undir sig með margvíslegum hætti og færri og færri þingmenn eru í raunverulegum tengslum við framleiðsluatvinnugreinarnar í landinu. Stjórnmálastéttin hefur á kjörtímabilinu bætt kjör sín verulega og langt umfram flestar aðrar stéttir í landinu. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir verið á einu máli um að fjölga aðstoðarmönnum bæði þingflokka og ráðherra auk þess sem framlög til stjórnmálaflokka hafa verið margfjölduð.

Það er dapurlegt, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem hafði það einu sinni á stefnuskrá sinni að draga úr ríkisútgjöldum, bruðli og sóun í ríkisrekstrinum en hlúa að frjálsu framtaki skuli ekki sjá neina leið til að spara ogdraga saman  m.a. með því að lækka ofurlaun íslenska stjórnunaraðalsins. Þá er slæmt, að ekki skuli  vera til í orðabók ríkisstjórnarinnnar, að lækka skatta til að stuðla að nýsköpun og fleiri störfum.

Ég sé því ekki betur, en Óli Björn Kárason undirritaður og vafalaust margt annað Sjálfstæðisfólk séum orðin eins og nátttröll í flokki, sem var flokkur einstaklingshyggjunar. Hvað sem því líður, þá er ég ekki tilbúinn til að víkja frá þeirri stefnu í pólitík, sem mótast af því. "að hver sé sinnar gæfu smiður"  og "sinna verka skuli hver njóta". Slíkt gerist ekki nema ríkisvaldið hafi sem minnst afskipti af borgurum þessa lands.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það er erfitt að taka aftur gæði sem einu sinni hafa verið gefin.

Ragnhildur Kolka, 5.8.2020 kl. 10:59

2 Smámynd: Ómar Geirsson

 Blessaður Jón.

Samkvæmt hefðbundinni borgarlegri hagfræði er Bjarni að gera rétt, og Óli Björn hefur alla þekkingu til að vita það og leggja slíkt til ef Bjarni gleymir uppruna sínum og heldur að niðurskurður frjálshyggjunnar sé leiðin út úr kreppu vegna ytri aðstæðna.

Þú ættir að vera þakklátur að þínir menn leiði þjóðina í dag, fjöldagjaldþrot er ávísun á upplausn, jafnt hjá einstaklingnum, fjölskyldum eða útí samfélaginu. 

Það eru aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn sem gera út á slíkt ástand, og þeir eru engum til góðs.

Alla síst borgarastéttinni.

Sem og almenningi.

Sem og samfélaginu.

Auðsöfnun Örfárra er ekki borgarleg hagfræði.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 13:35

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þú skrifar af mikilli þekkingu um hvernig kerfið hefur verið rekið yfir tíðina.

Nú óskum við eftir því að þið allir með víðfeðma þekkingu, hugsið upp hvernig við eigum að hafa fjárlögin. 

Þá verður um leið að hafa hliðsjón af að peningar eru bókhald. 

Bókhaldið verður að vera rétt, sýna staðreyndir. 

Við vitum núna að verðmætið er hugur og hendur fólksins. 

Hvernig við getum náð til þeirra hugmyndaríku, og þeirra sem kunna að reka fyrirtæki er eitthvað sem við verðum að læra.

Við vinnuaflið verðum að vilja og gera það sem þarf að gera. 

Ég veit ekki hvernig við eigum að standa að þessu.

Þú ert einn af þeim sem getur lagt mikið til málana.

Ekki virðist gott að hafa atvinnuleysi til að halda uppi vinnuviljanum. 

Við finnum lausnir, með hjálp þeirra, sem hafa getuna og þekkinguna.

Egilsstaðir, 05.08.2020   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 5.8.2020 kl. 13:47

4 Smámynd: Jón Magnússon

Það hafa margir reynt það Ragnhildur og reynst erfitt. En svo fara ríkisstjórnir reglulega framúr sjálfri sér í velferðarríkjum og neyðast til að taka til. Því miður gerum við það almennt með gengisfellingum en ekki hagræðingu og sparnaði. 

Jón Magnússon, 5.8.2020 kl. 14:07

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar Geirsson. Í lok síðari heimstyrjaldar var mun meiri örbirgð í heiminum en nú. Í Bandaríkjunum var framsýnn forseti sem hét Harry S. Truman og hann lækkaði ríkisútgjöld um rúm 40% og upp úr því hófust mesta velmegunartímabil í sögu Bandaríkjanna. Skattar voru lágir og ríkisbáknið var skorið niður. Segir það þér einhverja sögu Ómar.

Vestur Evrópa við stríðslok var í sárum og Þýskaland m.a. í rúst og deilt á milli Vesturveldanna og kommúnistanna. Í Vestur Evrópu, þar sem voru takmörkuð ríkisútgjöld og afskipti ríkisins af borgurunum hófst mikið velmegunartímabil ekki síst í Vestur Þýskalandi sem reis úr rústum einum. En þar sem hin dauða hönd ríkisvaldsins hvíldi yfir í Austur Þýskalandi, Austur Evrópu og Sovétríkjunum var viðvarandi fátækt og því lauk síðan með því að Sovétríkin urðu gjaldþrota og þurftu að leita á náðir kapítalistanna í Vestri. Segir það þér einhverja sögu Ómar.

Ef ekki þá hef ég í sjálfu sér engu við að bæta. Þú verður að hafa trú þína í friði. 

Jón Magnússon, 5.8.2020 kl. 14:12

6 Smámynd: Jón Magnússon

Jónas það skiptir mestu fyrir þjóðfélagið að það sé nóg af arðbærum störfum ekki að það sé búin til atvinnubótavinna, sem engu skilar í þjóðarbúið og er bara kostnaður. Hér á landi eru svo margir útlendingar að vinna tímabundið, að það er með ólíkindum ef tímabundið efnahagsáfall getur leitt til fjöldaatvinnuleysis 

Jón Magnússon, 5.8.2020 kl. 14:15

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón.

Truman gerði þann einfalda hlut að draga saman stríðhagkerfi, og gerði það vel.

Ef hann hefði ekki gert það, þá hefði hagkerfið sprungið út í óðaverðbólgu.

En forveri hans, með fullu samþykki Trumans, þandi út hagkerfið með peningaprentun, og það er líklegast frumskýring þess að nasisminn var lagður að velli.

Rök frjálshyggjunnar, það er Hayek nálgunar hennar, hefði aðeins þýtt eitt, að borgarleg hagkerfi hefðu lotið í gras fyrir Keynisma Stalíns eða Hitlers.

Ég ætla ekki lögmanni að vita, en ég veit, og ég get vitnað í ágreining milli Friedmans, og Hayeks. 

Friedman sagði að það þyrfti illsku til að skilja Hayek.  Og vísaði í kenningar Hayeks í aðdraganda seinna stríðs.

Eitthvað sem ég hef aldrei merkt í þínu skrifum Jón.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 15:33

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Íslendingar þurfa að fara nýsjálensku leiðina í landbúnaði og spara milljarða í niðurgreiðslur þar.

Íslendingar þurfa að fara norrænu leiðina í heilbrigðismálum, verðleggja meðferðir og bjóða út til einkaaðila. Ísland gæti hæglega orðið risi á alþjóðlegum heilbrigðismarkaði (í stað þess að moka fé í einkaspítala í Svíþjóð).

Stjórnvöld þurfa að velta hverjum steini í opinberum rekstri og skera af honum allt sem stjórnarskráin beinlínis skipar ekki ríkinu að gera. Meðal annars má hér nefna rekstur á fjármálastofnunum - akkeri sem munu sökkva ríkissjóð í næsta hiksta fjármálakerfisins, og auðvitað eignarhald á jörðum og byggingum.

Það þarf að frelsa sveitarfélögin - afnema hámarks- og lágmarksútsvar, fækka lögbundnum verkefnum þeirra og auðvelda hverfum og jafnvel götum að kljúfa sig frá lélegum sveitarfélögum. Til dæmis ætti Grafarvogur miklu frekar heima í sæng með Mosfellsbæ frekar en ráðshúsinu.

Samhliða öllu þessu mætti lækka bæði skuldir og skatta stórkostlega og gefa hagkerfinu risastóra vítamínsprautu. Það muna kannski margir hvað átak vinstristjórnarinnar, "Allir vinna", gekk vel - svo vel að SJS sjálfur talaði um að lækkun skatta væri að auka skatttekjur. Og tók bara örfáa mánuði að sanna sig. Stórtækar og almennar skattalækkanir munu hafa sömu áhrif (þótt markmiðið eigi auðvitað alls ekki að vera að auka skatttekjur hins opinbera).

Geir Ágústsson, 5.8.2020 kl. 16:05

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Játa reyndar Jón að ég las ekki restina í orðum þínum, en per se þá finnst mér þú vera góður lögfræðingur.

Og magnaður penni þegar fer saman heiðarleg borgarleg lífsviðhorf, ásamt rökfestu sem öllum er hollt að kynna sér.

Pistlar þínir um Erdogan og ógæfu Vesturlanda í Sýrlandi, voru magnaðir.

Það besta sem ég hef lesið á íslenskri tungu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 16:17

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Síðan skal ég við það bæta Jón að það hvarfli að mér að þú lesir athugasemdir mínar þér til gagns, annars færir þú ekki svona algjörlega rangt með í andsvari þínu, en krafan um að þær séu birtar er ekki markmið þeirra.

Lögfræðingar fara sjaldnast rétt með hagfræði 101, jafnvel í ritskoðuð andsvari. 

Þeir þekkja samt muninn á réttu og röngu.

Þar er þinn styrkur, stundum vandfundinn á íslenskri tungu.

Og PS, ég vænti þess að þú eyðir þessari athugasemd.

Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 16:26

11 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar athugaðu að Truman gerði meir en það. Ekki gleyma að Kóreustríðið var á  hans tíma sem forseta og Bandaríkjamenn lögðu mikið fé í allskyns hjálpar- og uppbyggingarstarf. Samt tókst að draga verulega saman í ríkisrekstrinum. 

Svo deili ég ekki aðdáun á Franklin Delano Roosevelt. Athugaðu að þrátt fyrir fjáraustur í opinberar framkvæmdir, spillingu og pólitískar mútur stjórnar hans, þá dró ekki úr atvinnuleysinu fyrr en eftir að þjóðin var komin í stríð í seinni heimstyrjöldinni. Roosevelt var vondur forseti, sem kostaði m.a. að Evrópa mátti þola ok kommúnismans í tæpa hálfa öld.

Jón Magnússon, 5.8.2020 kl. 18:16

12 Smámynd: Jón Magnússon

Geir ég er nánast algjörlega sammála þér.

Jón Magnússon, 5.8.2020 kl. 18:18

13 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Ómar en oflof töldu menn til forna vera háð. Ég les að sjálfsögðu athugasemdir þínr og finnst gaman að skiptast á skoðunum við þig og les pistlana þína mjög oft. Að sjálfsögðu hefur maður gagn og gaman að öllum vinsamlegum og skynsamlegum skoðanaskiptum. Þakka þér fyrir það.

Jón Magnússon, 5.8.2020 kl. 18:19

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Og taktu svo þenna 3. Orkupakka Bigga Ármanns sem er bara ESB sinni í dulbúningi. Hvað höfum við svona kódéra að gera sem formann þingflokks meðan hinir sem þú nefnir eru flokkaðir sem fýlupokar?

Halldór Jónsson, 5.8.2020 kl. 20:08

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Reyndar ekki oflof Jón, það er bara svo sjaldan sem ég les eitthvað sem er skrifað í dag, og hugsa með mér, "þetta hefði ég sagt viljað hafa".

Þið hægri menn verðið bjargið sem heldur, í upplausn komandi ára og þegar rætt er við ykkur, fær maður svör, því beinskeyttari eftir því sem spurningin er beittari.  Vinstra meginn við miðju hafa mínir menn týnt sér í froðu og innihaldslausum frösum, í besta falli, svört miðaldahugsun rétttrúnaðarins í versta falli.

Keyne og Friedman voru angi að sama meiði, að líta ekki á fjármagn sem fasta heldur hvata, þeirra viska er forsenda bjartari tíma. 

Og leiðtoginn sem þið hægri menn munu ala af ykkur, skilur þetta.

En við getum allavega sannmælst um eitt, besta innspýtingin inní hagkerfið í dag, sem mun vernda flest störf, er að lækka beina skatta á fyrirtæki, og þar blasir fyrst við að leiðrétta afglöp Steingríms, að lækka tryggingargjaldið verulega.

Seðlabankinn verður að fjármagna Bjarna, ekki skattahækkanir, þær kæfa, gera illt verra.

Kúnstin er síðan að koma fjármagninu í gróskuna þar sem hugvit og kraftur einstaklingsins drífur hagkerfið áfram.

Takk fyrir skoðanaskiptin og þolinmæðina Jón.

Ég held að við séum að lýsa sama fílnum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.8.2020 kl. 09:03

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Peningar vaxa ekki á trjánum. Hvorki í ríkissjóði, seðlabanka eða annars staðar. Þegar framleiðsla í hagkerfinu minnkar minnka skattgreiðslur líka og því verður nauðsynlegt að hagræða í rekstri ríkisins. Raunar ætti ávallt að leitast við að reka ríkið með sem minnstum tilkostnaði, ekki bara á krepputímum. Skattgreiðendur eru að standa undir margvíslegum kostnaði sem er óþarfur. Þann kostnað þarf að skera burt. Það er til dæmis engin þörf á þremur blaðafulltrúum í Seðlabankanum eða upplýsingafulltrúum í hverri einustu ríkisstofnun, jafnvel þar sem örfáir starfa. Það er engin þörf á bruðlinu í utanríkisþjónustuna. Og svo má spyrja hvort nokkur þörf er á allri umsýslunni sem snýst um að millifæra peninga frá skattgreiðendum og beina leið til þeirra aftur. Hlutverk ríkisins er að sinna nauðsynlegum sameiginlegum verkefnum. Ekki að búa til vinnu fyrir fólk sem hefur náð sér í gagnslitlar háskólagráður í stað þess að læra gagnlegar iðnir.

Þorsteinn Siglaugsson, 6.8.2020 kl. 16:08

17 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

´´Báknið burt´´ var slagorð sem við ungir Sjálfstæðismenn notuðum óspart á áttunda áratug síðustu aldar. Margir af þeim sem þá voru fremstir í flokki ungra Sjálfstæðismanna náðu síðan kjöri inn á Alþingi og síðan hefur ekkert til þeirra annað spurst en að þeir hafa sjálfir mergsogið báknið og unnið að því flestum árum að þenja það út að þolmörkum samfélagsins. Lagðist þar lítið fyrir margan góðan dreng. 

 Í huga tuðarans er forysta Sjálfstæðisflokksins í dag óræður hrærigrautur, sem samanstendur af ofvernduðum, reynslulitlum eða lausum pabbastrákum og stelpum, sem víla ekki fyrir sér að haga seglum eftir eigin vindum, í stað heildarinnar. Innihaldslítið orðagjálfur þeirra villir ekki sönnum Sjálfstæðismönnum sýn.

 Þakka stórgóðan pistil, eins og þín er von og vísa, Jón.

 Goðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.8.2020 kl. 00:28

18 Smámynd: Jón Magnússon

Gæti ekki verið meira sammála ykkur Þorsteinn Siglaugsson og Halldór Egill og þakka hólið Halldór. 

Jón Magnússon, 7.8.2020 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.1.): 620
  • Sl. sólarhring: 804
  • Sl. viku: 6173
  • Frá upphafi: 2461426

Annað

  • Innlit í dag: 562
  • Innlit sl. viku: 5626
  • Gestir í dag: 550
  • IP-tölur í dag: 539

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband