Leita í fréttum mbl.is

Covid varnir

Í dag flaug ég í fyrsta skipti erlendis eftir að Covid fór að sliga heimsbyggðina. Yfirvöld segja fólki hvernig það eigi að hegða sér frá morgni til kvölds. Hamingjan öll og heillin felst í því að hlýða þríeykinu að ógleymdum landsstjóranum. Sem tekur í lurginn á sóttvarnarlækni eða ráðherrum eins og dreissugur kennari þegar svo ber undir. 

Í flugstöðinni í Keflavík virtist allt vera steriliserað og reglubundið drundi í hátölurum áskorun um að virða tveggja metra fjarlægð og hafa grímur. Ekki var annað að sjá, en að fólk hlýddi þessu. Þegar út í flugvélina var komið þá var hefðbundið millibil um 40 cm. á milli fólks. Grímuskyldunni var almennt fylgt þó einstaka maður togaði grímuna vel niður fyrir nefið. En ég spyr af hverju tveggja metra reglu í flugstöðinni en 40 c.m. fjarlægðarmörk á 3-5 klukkustunda flugleiðum?

Þegar ég ætlað að setja handfarangur upp í handarangursgeymsluna kom gustug flugfreyja aðvífandi og sagði að þetta mætti alls ekki gera. Af hverju spurði ég. Af því að það veldur smiti sagði flugfreyjan með áminningarsvip eins og þetta væri eitthvað sem allir ættu að vita. Hvernig getur staðið á því segir ég. Það skiptir ekki máli sagði hún þetta eru fyrirmæli frá landlækni. Þá vitum við það. Á sama tíma sá ég fólk framar í vélinni vera að troða aragrúa af farangri upp í farangursgeysmsluna og spurði því. Af hverju fá þau að gera þetta? Af því sagði flugfreyjan eins og hún væri að tala við vanvita. "Þau eru við neyðarútgang og geta ekki haft farangurinn á gólfinu. "Er þá minni eða önnur smithætta í farangursrýmum við neyðarútganga en í öðrum rýmum" spurði ég og hef ekki enn fengið svar.

Við komuna þurfti að skila rafrænum upplýsingum, sem gekk fljótt og auðveldlega fyrir sig og síðan gátu allir farið sína leið. Engin skimun og sóttkví í 5-6 daga og síðan önnur skimun. Ég sagði takk fyrir við unga manninn sem taldi upplýsingar mínar fullnægjandi og hann sagði "Velkominn til Spánar!" með þeirri hlýju og einlægni sem iðulega er einkennandi í samskiptum fólks hér í landi, þar sem fólk er ekki upptekið við að yfirgnæfa norðanáttina vetur, sumar, vor og haust. Þegar ég sagði vini mínum frá þessu, þá tók hann andköf og sagði það er þessvegna sem smit eru svona algeng á Spáni 

Það er auðvelt að hrapa að niðurstöðu þegar hræðsluógnin er það eina sem er gjaldgengt í umræðunni. Hér á Costa Blanca svæðinu eru smit minni en víðast hvar á Spáni og álíka mikil og á Íslandi þrátt fyrir að fólk sé boðið velkomið og þurfi ekki að fara í tvöfalda skimun á landamærunum.

Í stórmarkaðnum er skylda að vera með grímu og spritta sig í bak og fyrir og ekki má taka aðra innkaupavagna en þá sem búið er að sótthreinsa. Ég fékk ekki að fara inn í verslunina fyrr en lögmæt sprittun hafði farið fram, en eftir það var allt eins og venjulega nema grímurnar huldu andlit fólks sem sprangaði um í stuttbuxum og bolgopum þannig að vel mátti ímynda sér vöxt og atgervi hvers og eins á meðan nefið var hulið. 

Ég velti því í framhaldi fyrir mér hvort David Allen hefði haft rétt fyrir sér þegar hann talaði um að ef konum væri gert að hylja nefið umfram aðra líkamsparta, þá kæmi að því að karlmönnum þætti þetta mest spennandi hlutur kvennlíkamans, sem þeir yrðu að fá að sjá umfram allt annað. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hátíð fáfengileikans eftir Kundera hefst á löngu samtali nokkurra aldurhniginna herramanna um þá tísku ungra kvenna að láta sjást í naflann og hvort þessi líkamshluti sé orðinn meira spennandi en hinir hefðbundnu. Ágætis ábending með nefið.

En mikið hlýtur þú annars að vera pirrandi flugfarþegi Jón. Síspyrjandi spurninga um súrrealískar reglur sem viðmælandinn reynir ekki einu sinni að svara.

Annars þarf maður kannski að fara að hugsa sér til hreyfings til frambúðar, svona í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með skýrt plan um að setja landið alveg á hausinn.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.10.2020 kl. 19:30

2 identicon

Þegar maður flýgur erlendis. Milli staða í útlöndum.

Svo flýgur maður frá Íslandi til útlanda.

Bodvar Gudmundsson (IP-tala skráð) 1.10.2020 kl. 21:32

3 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir athugasemdina Böðvar hún á rétt á sér. Mun leitast við að leiðrétta málfarið í samræmi við ábendinguna. 

Jón Magnússon, 2.10.2020 kl. 17:35

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta var líka mjög góð hugsun hjá Kundera. Ég veit það ekki svo gjörla hvort ég er pirrandi flugfarþegi. Ég hef ekki gert það að reglu Þorsteinn að spyrja spurninga eða vera með leiðindi. En mér finnast sumar þessar reglur svo galnar, að ég get ekki á mér setið. Hér á Spáni verður fólk að vera með grímu þó það sé eitt að ganga á víðavangi. Galið. 

Ég skil ekki á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er hvorki í efnahagsmálum né í þeirri viðleitni að skipta um þjóð í landinu. 

Jón Magnússon, 2.10.2020 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 817
  • Sl. viku: 5758
  • Frá upphafi: 2472428

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 5249
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband