Leita í fréttum mbl.is

Hver ber ábyrgð á lífi og dauða

Á eins árs afmæli Kovid sjúkdómsins er eðlilegt að spyrja hvort hann sé versti sjúkdómurinn sem riðið hefur yfir heiminn síðustu 100 árin. Svarið er næsta örugglega nei. Lömunarveiki 1950 olli dauða og lömun milljóna barna svo dæmi sé tekið. Þá var mannfjöldi heimsins um helmingi minni en í dag.

Ýmsar inflúensur hafa verið skæðar og tekið mörg mannslíf. Þegar þetta er skrifað, er mannfjöldinn í heiminum 7.698.677.585 og fólki fjölgar um 3 á sekúndu eða um 260.000 á sólarhring. Á einu ári hafa 2 milljónir dáið úr Kovid, en á sama ári hefur fólki í heiminum fjölgað um 95 milljónir. Andstætt því sem margir halda fram, þá ógnar þessi sjúkdómur þó alvarlegur sé hvorki lífi mannsins á jörðinni og mundi ekki gera þó ekki yrði gripið til neinna ráðstafana.

Þróun í læknavísindum, næringarfræði og margvísleg önnur aukin þekking hefur stuðlað að betri lýðheilsu og lengt meðalævi fólks í okkar heimshluta jafnvel um tvo áratugi. Getur verið að vegna þessara miklu framfara á heilbrigðissviðinu, þá teljum við að hægt sé að koma í veg fyrir eða fresta dauðsföllum nánast í það óendanlega og það beri að gera það, hvað svo sem það kostar? Traust almennings og trú á heilbrigðiskerfið og krafan um ábyrgð ríkisins á lífi og dauða leiddi til þess, að heilbrigðiskerfið tók völdin í Kovid fárinu, en lætur stjórnmálamennina bera siðferðislega ábyrgð á því sem gert er eða ekki gert.

Krafan um að varðveita hvert einasta mannslíf og sú staðhæfing að mannslíf verði ekki metið til fjár, er flutt fram af slíkum þunga að athugasemdir um slæm áhrif vegna sóttvarnarráðstafana m.a. á líf annarra skipta ekki máli og afgerandi þjóðfélagsleg tilraun, á heilbrigðissviðinu er sett af stað og heldur áfram út í einhvern óendanleika. Svör við spurningum um siðferðlega ábyrgð á ákvörðunum sem varða líf og dauða eru mikilvæg. Ber einstaklingurinn ábyrgð, fjölskyldan, ríkið, Guð eða einhver annar?

Er í lagi að einstaklingurinn fari sér á voða en beri aldrei ábyrgð? Viljum við að ríkisvaldið setji ákveðnar reglur um líf og lífsstíl fólksins? Ef ríkisvaldið ber ábyrgðina á lífi og dauða er þá ekki rétt, að það taki ákvarðanir um fjarlægðarmörk, hvaða mörgum megi bjóða í boð, hvað margir mega koma saman, hvenær má kyssa ömmu og hvað megi borða og drekka og í hvað miklu magni. Matseðillinn frá lýðheilsustofnun verður þá það eina sem verður í boði.

Ef ríkisvaldið borgar allt hefur það þá ekki líka rétt til að taka allar ákvarðanir m.a. um atriði eins og hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvað eigi að gera til að koma í veg fyrir að fólk deyi. Viljum við fela ríkisvaldinu svona víðtækt vald? Var það einhverntíma ákveðið að ríkið hefði alfarið með líf og dauða fólks að gera?

Sagt er að Morgan skipstjóri, mikilvirkasti sjóræningi Karabíska hafsins, hafi spurt áhöfn sína þegar hann tók við sem foringi sjóræningjanna, hvort þeir vildu stutt líf og skemmtilegt eða langt líf og leiðinlegt í hlekkjum. Áhöfnin valdi frekar stutt líf og skemmtilegt.

Í þeim faraldri sem nú ríður yfir hefur ríkisvaldið ítrekað tekið ákvörðun um og talið sér heimilt, að frysta efnahagsstarfsemina og borga fólki laun fyrir störf sem það vinnur ekki og eru jafnvel ekki lengur til. Það er fordæmalaust, að ríkisstjórnir loki á atvinnustarfsemi og opni aftur að geðþótta. Á ríkisvaldið að hafa svo víðtækar heimildir? Hvenær var það samþykkt, að ríkisvaldið hefði svona víðtæk völd yfir atvinnustarfseminni?

Yfirvofandi efnahagskreppa er vegna pólitískra ákvaðanna. Sú kreppa verður óhjákvæmilega þung, þó fáir virðist skynja alvarleika hennar og ráðherrar tali eins og aldrei komi að skuldadögum og ríkissjóður standi enn svo vel, að við getum leyft okkur þetta. Vafalaust verður reynt að viðhalda trylltum hrunadansi efnahagskerfisins fram yfir kosningar ef þess gefst nokkur kostur, en hvað svo? Hafa stjórnmálaflokkar sett fram raunhæfa stefnu um það hvað eigi að gera til að vinna okkur út úr þeirri kreppu og hvernig þá eigi að skipta þjóðarkökunni?

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti sagði. „Helsta skylda ríkisins er að vernda borgarana en ekki að stjórna lífi þeirra. Slíkt þjóðfélag krefst einstaklingsfrelsis og einstaklingsbundinnar ábyrgðar, þar sem fólki er treyst til að ráða meiru heldur en minnu um líf sitt og störf. Í slíku þjóðfélagi blómstra flest blóm og mannlífið nær þeirri reisn og fjölbreytileika, sem er útilokaður í alræðishyggju ríkislausnasamfélags, sem við höfum stefnt hraðfara til undanfarin misseri vegna þess að stjórnmálamenn dagsins vilja ekki taka á sig ábyrgð og hafa takmarkaða hugmyndafræðilega kjölfestu og viðmiðanir.

Er ekki kominn tími til að treysta heilbrigðum einstaklingnum betur og láta hann gera sína réttu hluti og/eða vitleysur á eigin ábyrgð en ekki á ábyrgð skattgreiðenda. (Grein birt í Morgunblaðinu í dag 26.1.2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Góð grein var að lesa hana í Mogganum.

Helga Kristjánsdóttir, 26.1.2021 kl. 08:48

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Afar tímabær hugvekja frá þér í Morgunblaðinu í dag.  Ég er hræddur um, að stjórnvöld hérlendis og víðar séu á villigötum með aðgerðir sínar, sem fela í sér ágenga forræðishyggju og mjög íþyngjandi frelsissviptingu fyrir fólk og fyrirtæki.  Heilsufarslega eru aðgerðirnar vanhugsaðar, því að þær steypa mörgum í glötun, en hafa ekki merkjanleg áhrif á fjölda dauðsfalla samkvæmt nýlegum brezkum rannsóknum.  

Bjarni Jónsson, 26.1.2021 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 219
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 4435
  • Frá upphafi: 2450133

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband