Leita í fréttum mbl.is

Skuggaveldi samhljómsins

Meðan tæknin var með þeim hætti, að einungis stórir fréttamiðlar gátu miðlað upplýsingum var aldrei talað um falsfréttir sem vandamál. Nú þegar fólk almennt á þess kost að koma skoðunum sínum, sjónarmiðum og þessvegna myndböndum á framfæri hamast stjórnmála- og fréttaelítan gegn svonefndum falsfréttum. 

Falsfréttir geta verið af ýmsu tagi. Þær geta falist í því að greina rangt frá staðreynum. Þær geta falist í því að þegja um staðreyndir. Þær geta falist í því að neita staðreyndum og þær geta falist í því að kæfa umræður með því að neita öðrum en þeim sem hafa hina "einu réttu skoðun" að mati fjölmiðilsins um að tjá þær. 

Í gær var sýnt úr franskri skólastofu í fréttum, þar sem áhersla var lögð á, að þeir sem vildu fara aðrar leiðir í baráttu gegn Cóvíd en þeirri sem stjórnvöld boðuðu sem og þeir sem afneituðu opinberri loftslagsstefnu væru að flytja falsfréttir. Dapurlegt var að hlusta á skólabörn sem höfðu verið mötuð á hinni einu "réttu skoðun" tjá sig um málið. 

Stóra spurningin í núinu eru ekki meintar falsfréttir heldur: Hvers vegna er komin sú lenska meðal fjölmiðlaelítunnar um allan heim að takmarka fréttaflutning og leyfa ekki ólíkum skoðunum að leikast á. Af hverju leyfa fjölmiðlarisar veraldar eins og t.d. facebook og Google,sér að úthýsa ákveðnum notendum og skoðunum?

Slíkt er skiljanlegt ef verið er að hvetja til hryðjuverka eða annarrar glæpastarfsemi. En er ekki vafasamt í meira lagi að útiloka almenn skoðanaskipti.

Skuggahlið stóra sannleikans hefur birst í fréttaflutningi fjölmiðla af Cóvíd fárinu um allan heim. Fréttir eru sagðar einhliða og til þess fallnar að valda ótta. Virtir aðilar t.d. læknar eru útilokaðir frá umræðunni alveg eða eins og hægt er, hafi þeir aðrar skoðanir á fárinu en þær viðteknu. Þannig eru þeir sem benda á lækningamátt ákveðinna lyfja í hópi óhreinu barnana, sem ekki mega komast að, en áhersla lögð á bólusetningar á fólki allt niður í ungabörn. Já og það með lyfjum, sem framleiðendurnir þora ekki einu sinni að taka sjálfir ábyrgð á enda hafa þau ekki fengið fullnægjandi prófanir. Raddir þeirra sem andæfa þessu offorsi stjórnvalda og lyfjarisana, að troða þessum lyfjum í alla eru kæfðar. Af hverju? Má ekki ræða þetta á markaðstorgi frelsisins?

Raddir þeirra jafnvel virtra vísindamanna, sem halda því fram með rökum, að loftslagsbreytingar séu náttúrulegar og maðurinn hafi ekkert með þær að gera eru kæfðar ekki má ræða þær á markaðstorgi skoðanaskipta. Skapa verður mesta mengunarvaldi heimsins, Kína, algeran markaðsforgang eins og Merkel, Macron og nú Biden hamast við að gera.

Sama á við um þá sem er á móti fjöldainnflutningi fólks til Evrópu. Þær raddir fá ekki að heyrast en eru stimplaðar sem öfgar og mannfyrirlitning þó hvorutveggja sé út í hött. Þessvegna þegja fjölmiðlarisarnir um þjóðerni glæpamanna og skipulagðra glæpasamtaka og fela það eins vandlega og hægt er, ef hælisleitandi á hlut að máli. Í því sambandi er athyglisvert að rifja upp hvernig breskir fjölmiðlar þögðu um hryllinginn sem átti sér stað í nokkrum stórborgum í norðurhluta Bretlands, þar sem ungar stúlkur voru teknar í kynlífsþrælkun af glæpagengjum innan íslamska samfélagsins og jafnvel þó að stjórnvöld hafi þurft að bregðast við og ákæra suma þeirra, þá gera fjölmiðlar litla sem enga grein fyrir málinu og þar er reynt að þagga það niður eins og verða má. 

Ef til vill ættu þeir sem bollokast um og hroka sér upp sem sjálfskipaðir talsmenn hins eina sannleika sem sé að finna á ríkisfréttamiðlum og hjá fjölmiðlarisunum, að huga að því, að umfjöllun almennings á fréttamiðlum eins og fésbók varð til þess m.a. að ekki var hægt að þegja yfir fjöldanauðgunum innflytjenda á þýskum stúlkum á nýársnótt í Köln fyrir nokkrum árum. Þar þögðu fjölmiðlar og lögregla já og borgarstjórinn í Köln neitaði því ásamt Angelu Merkel í lengstu lög að nokkuð slíkt hefðu gert. Það voru falsfréttirnar voðalegu, sem reyndust síðan vera sannleikurinn. Sama var með einstaklingsfréttamilun fólks í borgunum í Bretlandi sem gerði það að verkum að lögregla, barnaverndaryfirvöld og dómstólar gátu ekki haldið áfram að horfa framhjá víðtækri misnotkun og kynlífsþrælkun, glæpagenga manna úr íslamska heiminum á barnungum stúlkum í Bretlandi.

Með því að vanda fréttaflutning sinn og flytja fréttir með hlutlægum hætti og leyfa mismunandi skoðunum að leikast á verður best brugðist við falsfréttum. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að sía út það sem þeir telja rétt og hvað rangt. Það er til skammar fyrir stjórnmálaelítuna að tala einum rómi með sama hætti um að ekki megi aðrar skoðanir fá að heyrast í mikilvægum málum en þær sem þeim er að skapi.

Þessi afstaða fjölmiðlarisana sem og stjórnmálaelítunnar er virkilegt áhyggjuefni. Horfið hefur verið frá hugmyndafræði upplýsingastefnunnar um víðtækt tjáningarfrelsi allra og tekið til við að móta þjóðfélag í anda stjórnræðisins, sem George Orwell lýsti svo vel í bók sinni "Animal Farm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.11.): 804
  • Sl. sólarhring: 974
  • Sl. viku: 5810
  • Frá upphafi: 2419803

Annað

  • Innlit í dag: 754
  • Innlit sl. viku: 5380
  • Gestir í dag: 711
  • IP-tölur í dag: 684

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband