Leita í fréttum mbl.is

Vald án ábyrgðar

Á sama tíma og forráðamenn ýmissa ríkisstofnana krefjast þess a fá aukin völd í samskiptum sínum við borgarana, er þess krafist, að þeir skuli vera ábyrgðarlausir í stöfum sínum. 

Seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon fyrrum ráðherra og formaður bankaráðs Seðlabankans telja, að þrátt fyrir að starfsmenn Seðlabankans brjóti lög í störfum sínum og níðist á borgurunum, þá skuli þeir samt vera ábyrgðarlausir. 

Hvað þýðir það?

Það þýðir að þeir sem verða fyrir óréttmætum afskiptum starfsfólks hins opinbera skuli liggja óbættir hjá garði og bera harm sinn í hljóði því að réttur þeirra var tekinn út fyrir sviga af því að hinum opinbera valdsmanni sé allt heimilt í samskiptum sínum við einstaklinginn jafnvel að gera gróf mistök og jafnvel fara gegn viðkomandi sökum óvildar í hans garð.

Það er með miklum ólíkindum að endurómur hugmyndafræði einvaldskonunga átjándu aldar skuli settur fram með þeim hætti sem nú er gert af stjórnendum Seðlabanka Íslands. Mér er nær að halda að Seðlabankastjóri,sem er gjörhugull maður hafi ekki hugsað þessa hugsun til enda.

Hvar er þá vernd laganna fyrir einstaklinginn, sem má þola aðför og jafnvel ofsóknir af hálfu valdsherranna? Samkvæmt hugmyndafræði valdsherranna í Seðlabankanum skal almenningur bera harm sinn í hjóði og láta svipuhögg valdsins yfir sig ganga.

Þá er spurningin gildir eitthvað annað fyrir starfsfólk Seðlabankans en aðra opinbera valdsmenn eins og t.d. saksóknara, lögeglu og ráðherra. Já og hvað með starfsfólk heilbrigðiskerfisins með sömu rökum má halda því fram, að þessir aðilar allir eigi aldrei að bera neina ábyrgð á mistökum sínum eða jafnvel aðför að rétti borgaranna. 

Fyrir nokkrum árum fór gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands offari í aðför að einstaklingum og fyrirtækjum. Í einu tilviki voru fimm einstaklingar, sem ráku fyrirtæki erlendis sviptir lífsviðurværi sínu, æru og möguleikum til tekjuöflunar. Það var vegna þess m.a. að forstöðumaður gjaleyriseftirlits Seðlabankans gerði meiri háttar mistök og sakfelldi viðkomandi einstaklinga fyrirfram vegna brots á lögum, sem  voru ekki til. Þessir einstaklingar, sem þannig voru sóttir til saka og sviptir aflahæfi sínu og æru um margra ára skeið voru á endanum sýknaðir og þeim dæmdar óverulegar bætur vegna þessara gríðarlegu og óafsakanlegu mistaka starfsfólks gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. 

Hvað varð svo um valdsmanninn í Seðlabankanum, sem var vegna vanhæfni og vankunnáttu valdur að því að fjöldi fólks missti fótanna í lífinu? Seðlabankastjórinn fyrrverandi sá til þess að viðkomandi væri komið fyrir í merkri stofnun erlendis og leyst út með 30 miljón króna gjöf frá bankanum. 

Það er með ólíkindum  að þeim miðaldakenningum skuli í dag, haldið á lofti af málsmetandi mönnum og einum æðsta embættismanni þjóðarinnar, að hið opinbera vald skuli hafa heimild til að fara fram gegn fólki og fyrirtækjum að vild, án þess nokkru sinni að bera ábyrgð á gjörðum sínum. 

Jafnvel þó að valdsmennirnir í Seðlabankanum telji nú vera lag að opinbera myrka miðaldahyggju óskeikulleika hins opinbera valds og nauðsyn þess að einstaklingar í þjónustu hins opinbera valds beri aldrei ábyrgð á gjörðum sínum, þá er það ekki svo í lýðfrjálsu ríki og má aldrei verða.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jón, þessi greining á meðferð valds er afskaplega vel rökstudd. - Væntanlega þyrfti að m.a. að breyta hegningarlögum og stjórnarskrá til að gera starfsfólk Seðlabankans þannig friðheilagt.

EINAR S HALFDANARSON (IP-tala skráð) 30.4.2021 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 626
  • Sl. viku: 2947
  • Frá upphafi: 2294566

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2684
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband