Leita í fréttum mbl.is

Of lítið of seint.

Margir fjalla í dag og hafa fjallað um atburðina sem gerðust við Rauðavatn á miðvikudaginn þegar þar kom til átaka. Ég vil ekki fella dóma. Mér er ljóst að lögreglunni ber skylda til að halda uppi lögum og reglu.  Borgarar hafa líka rétt til að safnast saman og viðhafa mótmæli og eftir atvikum borgaralega óhlýðni. Þeir sem hafa verið sporgöngumenn borgaralegrar óhlýðni hafa alltaf beint því til þeirra sem hana viðhafa að aldrei undir nokkrum kringumstæðum megi beita ofbeldi eða ráðast beint gegn yfirvöldum eða fulltrúum þeirra.  Þegar  borgaralegri óhlýðni er beitt og lögreglan sér sig tilknúna til að koma á lögum og reglu þá er alltaf spurning um hvernig það er gert og hvort farið er fram með þeim hætti og gætni sem krefjast verður af lögreglu í lýðræðisþjóðfélagi. 

Ég hef ekki viljað leggja dóm á það sem þarna gerðist því mér finnast ýmis atriði ekki hafa verið skírð nægjanlega.  Það er eitt en hitt er að til mótmæla kemur iðulega vegna þess að yfirvöld í þessu tilviki ríkisstjórn bregst ekki við aðstæðum með réttum hætti og þá lenda aðilar eins og lögregla og mótmælendur í átökum vegna atriða sem fyrir löngu hefði átt að vera búið að afgreiða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn getur borið ábyrgð á því að vondir hlutir gerist vegna aðgerðarleysis síns.

Svo dæmi sé nefnt þá hefði átt að vera búið fyrir löngu að lækka verð á díselolíu. Það hefði komið flutningabílstjórum til góða en þeir aka á díselbílum. Það hefði líka verið vistvæn aðgerð. Þá hefði það líka verið sanngjarnt miðað við þær yfirlýsingar sem stjórnvöld gáfu þegar reglum um þungaskatt var breytt. En ríkisstjórnin svaf og ber alla ábyrgð á því að við skulum vera eina landið í Evrópu þar sem díselolía er dýrari en bensín.  Af hverju brást ríkisstjórnin ekki við. Þurfti mótmæli. Að sjálfsögðu átti þess ekki að þurfa. Lækkun olíugjaldsins var og er sanngirnismál.

Reglur um hvíldartíma bílstjóra eru ósveigjanlegar og eðlilegt hefði verið að hafa meiri sveigjanleika. Hægt hefði verið að reyna að gera reglurnar sveigjanlegri án mótmæla.  Sem betur fer hefur samgönguráðherra áttað sig á réttmæti þessara athugasemda atvinnubílstjóra og brugðist við og á hann þakkir skyldar fyrir það.

Atburðirnir við Rauðavatn eru dapurlegir. Ég horfi töluvert á erlendar fréttastöðvar og mér hefur fundist leiðinlegt að horfa á þessi átök á Evrópskum sjónvarpsstöðvum síðustu daga. Það er það eina sem komið hefur frá Íslandi í fréttum í langan tíma. Ekki góð landkynning það og gefur alranga mynd af aðstæðum hér á landi.

Þegar ríkisstjórn bregst ekki við sanngjörnum kröfum tímanlega þá gerast vondir hlutir. Að sjálfsögðu ber hver einstaklingur ábyrgð á gerðum sínum og það er alltaf fordæmanlegt þegar menn beita ofbeldi eða ráðast gegn lögreglu.  Það verður hins vegar að hafa í huga að þessi átök hefðu ekki orðið hefði ríkisstjórnin unnið vinnuna sína í tíma.  Hún hefur enn möguleika til þess og þarf að bregðast við sanngjörnum kröfum fljótt. Það er ekki að láta undan óeirðaseggjum eins og einhver kynni að orða það. Það er að framkvæma það sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu.

Ríkisstjórn má aldrei láta hræða sig frá því að sína sanngirni og gera rétta hluti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Þjóðfélagið er að vissu leyti eins og illa rekið fyrirtæki og eiga þá starfsmenn að líta í eigin barm eða eiga stjórnendur að endurskoða vinnuaðferðir sínar? Ég hallast að því síðarnefnda því eftir höfðinu dansa limirnir.

Ég er þó algjörlega á móti því að hlýða ekki lögreglu, því án laga og reglu verður hér algjört kaosástand. Við eldra fólkið erum fyrirmyndir þeirra yngri (og ríkisstjórn á að vera fyrirmynd) og kom það best í ljós þegar unglingarnir ákváðu að fara að fordæmi vörubílstjóra og loka fyrir umferð. Ég held að flestir þeirra hafi verið að gera það fyrir ,,sportið" og til að ögra en ekki verið með stórhuga málstað í maganum.  

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 26.4.2008 kl. 12:14

2 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Jón, ætíð málefnalegur.  Þessar vangaveltur þínar eiga svo sannarlega upp á pallborðið hjá mér.  Ríkisstjórninni bar að bregðast við eins og þú réttilega bendir ár. Góður pistill.

Tek líka undir orð þín Jóhanna.

Eigiði góðan dag.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 26.4.2008 kl. 14:51

3 Smámynd: Landfari

Af hverju á ég erfitt með að sjá þig bregðast svona við ef þú værir í meirihlutanum?

Olíugjaldið er föst krónutala og verðþróunin var nú ekki séð fyrir þessi hækkun á olíu umfram bensín. Væntanlega þyrfti þá að hækka gjaldið á bensínið til að mæta lækkunini á olíunni því nóg er eftir af hættulegum vegum hér. Veit nú ekki hvað það myndi vekja mikla lukku eða veiða mörg atkvæði.

En það held ég að sé rétt munað hjá okkur að það var ákvðið að hafa olíuna lægri af nátturusjónarmiðum. Hvort því var lofað að það yrði um aldur og ævi man ég nú ekki.

Landfari, 26.4.2008 kl. 18:07

4 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu skal hafa það sem sannara reynist Hafþór Örn og ég þakka þér fyrir að senda mér þessa verðskrá. Ég verð að viðurkenna það að hafa tekið þetta upp eftir aðila sem ég taldi örugga heimild um verð á bensíni og olíum í  Evrópu.

Ég man þetta síðan eins og Landfari að það hafi verið talað um að díselolían ætti að vera ódýrari af náttúruverndarsjónarmiðum.

Margir keyptu sér díselbíla á sínum tíma af því að þeir treystu á það sem um var talað.

Jón Magnússon, 26.4.2008 kl. 19:00

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Góð grein.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 26.4.2008 kl. 20:56

6 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Takk fyrir málefnalegt innlegg Jón.  Það er þó eitt sem ég vildi hnýta í en þú segir reglur um hvíldartíma ósveigjanlegar.  Ég er hreint ekki sammála þér og læt hér fylgja umfjöllun mína á aksturs- og hvíldartímareglum ökumanna stórra bifreiða.  Þar kemur líka fram til hvers reglurnar eru.  Þær hafi ekki orðið til bara við hugarflug einhverra skriffinna í Brussel.

Ég sem vegfarandi á þjóðvegum þessa lands er ekki tilbúinn til neinna tilslakana á sjálfsögðum, skynsamlegum reglum um akstur og hvíld á kostnað umferðaröryggis annarra.

Stóra vandamál þessara bílstjóra eru undirboð á markaði.  Undirboð sem þeir hafa tekið þátt í og koma nú illa í bak þeirra.  Flest þessara atvinnutækja þeirra eru á rekstraleigu (oftast í einhverri myntkörfu) sem hefur snarhækkað síðustu mánuði með falli krónunnar.  Þar liggur vandi þessara manna, ekki bara vegna oliuverðshækkana.

Því hef ég ekki skilið af  hverju þeir fari ekki og loki inngöngum í banka, kaupleigufyrirtæki og stóru flutningafélögunum.  Þar liggja ásteitingarsteinarnir, ekki hjá ríkisstjórn nema að hluta til. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 26.4.2008 kl. 23:37

7 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Reyndar átti umfjöllunin að koma í fyrri athugasemd en ýtti of snemma á send.  Hér kemur hún. http://sveinni.blog.is/blog/sveinni/entry/495417/

Sveinn Ingi Lýðsson, 26.4.2008 kl. 23:39

8 identicon

Sumir eru iðnir við að éta upp og tyggja sömu tuggu og Geir haarde tyggur . Og segja að það sé stór hættulegt að keyra lengur en 4,5 tíma í senn. Afhverju er þessi stétt bara tekinn út? Afhverju eru þá ekki allar starfsstéttir settar undir þennan sama hatt.

Ég má vinna heilu sólarhringana ef mér sýnist svo og keyra svo í framhaldi að því eins marga hringi um Ísland eins og mér sýnist án þess að taka mér pásu.

Glanni (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 03:09

9 identicon

Erum við ekki enþá sjálfstæð þjóð? Afhverju þurfum við þá að vera éta allt upp eftir Brussel. Við erum EKKI í ES síðast þegar ég gáði allavega.

það virðist ekki hægt að gera neitt hérna nema með leyfi frá Brussel

Það lítur út fyrir að við séum í Evrópusambandinu eftir alltsaman, við vitum bara ekki af því enþá. 

Glanni (IP-tala skráð) 27.4.2008 kl. 03:16

10 Smámynd: Landfari

Ertu orðinn einhvers víari eftir fudin með fulltrúa bílstjóranna hverju nákvæmlega verið er að mótæla?

Hvað vilja þeir að olían kosti og hvað þarf þá að hækka bensinið í?

Er verið að vinna í að aðlaga hvíldartímalögin?

Eruð þið búin að ræða við lögguna um af hverju farið var í að beita gasinu?

Landfari, 29.4.2008 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 800
  • Sl. sólarhring: 802
  • Sl. viku: 5739
  • Frá upphafi: 2426373

Annað

  • Innlit í dag: 741
  • Innlit sl. viku: 5295
  • Gestir í dag: 672
  • IP-tölur í dag: 632

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband