Leita í fréttum mbl.is

60 ár frá stofnun Ísraelsríkis.

aðskilnaðarmúrinnÍ gær voru 60 ár síðan Ísraelsríki var stofnað. Stofnun Ísraelsríkis var í kjölfar síðari heimstyrjaldarinnar þar sem þjóðir vesturlanda voru fullar af skömm vegna þeirra ógna sem Gyðingar í Evrópu höfðu mátt sæta.  Þess vegna var ekki gætt  sem skyldi að hagsmunum þeirra sem fyrir voru í Palestínu. Ísraelsríki var búið til í samræmi við hugmyndafræði Zíonismans með tilstyrk hinna Sameinuðu þjóða.

Áður en Ísraelsríki var stofnað höfðu ýmis hermdarverk verið unnin sérstaklega af hermdarverkahópum Gyðinga sem vildu losna við Breta sem stjórnuðu landinu. Þeir vildu líka losna við Palestínumenn sem voru og höfðu verið fyrir í landinu.  1946 drápu hermdarverkasamtök Gyðinga 6 breska hermenn þar sem þeir sváfu í rúmum sínum. Hluti hótelsins King David í Jerúsalem var sprengdur upp af hryðjuverkasamtökum Begins sem síðar varð forsætisráðherra í Ísrael og 91 maður lét lífið. Þetta voru þó e.t.v. smámunir á við það þegar palestínska þorpið Deir Yassin sem er nálægt Jerúsalem þar sem 250 karlar, konur og börn voru drepin  og líkunum misþyrmt. Í framhaldi af hermdarverkum Gyðinga í Deir Yassin flýðu 750.000 Palestínumenn heimili sitt og land.

Þrátt fyrir þetta þá gættu þeir sem stóðu að stofnun Ísraelsríkis ekki hagsmuna þeirra sem bjuggu í landinu. Palestínumenn eru nú í risastóru fangelsi í Ísrael hvort heldur þeir búa á Vesturbakkanum eða Gasa svæðinu. Þeir geta ekki komið, farið eða selt framleiðslu sína nema með leyfi herrastjórnarinnar í Ísrael sem byggir og stjórnar á grundvelli  trúarlegrar apartheid stefnu.

Þessi saga er sorgleg. Sameinuðu þjóðirnar og þar á meðal við Íslendingar sem greiddum atkvæði með stofnun Ísraelsríkis berum ábyrgð á því sem þarna hefur gerst og er að gerast. Við getum ekki liðið það að fólk sé svipt mannréttindum og búi við hörmungar áratugum saman og sé ekki virt sem manneskjur. Við berum ábyrgð á örlögum Palestínumanna og okkur ber skylda til að beita okkur fyrir því að Ísraelsmenn fari að alþjóðalögum og virði mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt fólks. Á sama hátt þá ber okkur að stuðla að því að reynt verði að leggja grunn að varanlegri uppbyggingu í Palestínu og eðlilegum samskiptum þeirra sem byggja þessi lönd.

IMG_0065Ein forsenda þess er að viðurkenna að allir menn eiga sama rétt og eru jafnmikilvægir og merkilegir.

Vandamál Palestínumanna verða ekki leyst nema þar sem þeir eiga heima. Okkur ber skylda til að leggja stóraukna fjármuni til mannúðarstarfs á þessu svæði. Vandamál Palestínumanna verða ekki leyst nema í Palestínu.  Þau verða ekki leyst á Akranesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Nákvæmlega.

Ég hef haft mikla samúð með palestínsku þjóðinni og verið óhræddur að láta hana í ljósi.  

En þetta flóttamannamál sem á að fara út í núna, nánast undirbúningslaust og með miklum fjármunum leysir engan vanda.

Engan.

Við leysum ekki vandamál með því að búa þau til hér á Íslandi.

Magnús Þór Hafsteinsson, 15.5.2008 kl. 11:22

2 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Ég er ósammála þér með að það sé skylda okkar, að leggja stóraukið fé til mannúðarmála á þessu svæði. Við berum ekki ábyrgð á syndum feðra og höfum auk þess nóg að gera hér heima. En þetta er einmitt vandamálið í Palestínu / Ísrael, þeas gamalgróið hatur byggt á  "dýrkun fortíðarinnar" í formi blóðhefndar og trúarbragða. Ég sé ekki að þáttaka í vitleysunni sé eina leiðin til að hafa áhrif. Ef við eigum að "bæta"  fyrir ruglið 1947, erum við þá ekki föst í sama vítahring? Er     " blóðsamviska " betri en blóðhefnd? Ég held ekki. Að öðru leyti erum við sammála um þessi mál. Liðin tíð er liðin tíð. Við Íslendingar eigum að taka afgerandi afstöðu gegn ofbeldi, og taka sömu afstöðu gegn öllum sem því beita. Segja okkur úr NATO, beita okkur hjá UN, reka sendiherra allra stríðandi þjóða heim og sækja okkar, osvfr. FRIÐUR( meðal allra.)

Haraldur Davíðsson, 15.5.2008 kl. 12:01

3 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll og blessaður.

Einhverra hluta vegna eru nú tvær hliðar á krónunni og þannig er það líka með Deilur Araba og Ísraelsmanna.

Ég sá eftir þessum 250 milljónum sem Ingibjörg sólrún gaf Hamas í Palestín. Ef ég hefði það fast í hendi að þessir peningar hefðu verið notaðir til að fæða íbúa landsins myndi ég ekki síta það en ég treysti ekki Hamas sem er hryðjuverkarsamtök og eru með þáð á stefnuskrá sinni að útrýma Gyðingum.

http://www.zion.is/ 

http://snorribetel.blog.is/blog/snorribetel/entry/539744/#comment1385756

http://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/539693/#comments

http://rosaadalsteinsdottir.blog.is/blog/rosaadalsteinsdottir/entry/465441/#comments

Þessi pistill uppörvar mig ekki að ganga í Frjálslyndaflokkinn.  

Rósa Aðalsteinsdóttir, 15.5.2008 kl. 14:15

4 identicon

Þetta var allt saman plott til þess að uppfylla spádóma biblíu.
Sorglegt

DoctorE (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 15:24

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Magnús við eigum að skipuleggja okkar hjálparstarf betur og þar tek ég raunar líka undir með Rósu. En Rósa þú virðist ekki átta þig á að það sem ég nefni eru sögulegar staðreyndir. Framkoma Ísraelsmanna við Palestínumenn er óafsakanleg. Þar með er ekki verið að afsaka hryðjuverk gagnvart Ísraelsmönnum. Það eiga allir sama rétt til lífs. Áhersluatriðið er það. Ég veit ekki hvort sú afstaða gerir þig fráhverfa Frjálslynda flokknum en sé svo þá verður það þannig að vera.

Haraldur það er alltaf spurning hvað sé hagkvæmast í bráð og lengd og ég tel hagkvæmast fyrir okkur og töluvert margra peninga virði að það komist á friður og eðlilegt ástand fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Jón Magnússon, 15.5.2008 kl. 15:52

6 Smámynd: Halla Rut

Sammála Haraldi.

Halla Rut , 15.5.2008 kl. 16:39

7 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jón Magnússon.

Ég var nú að gera grín með Frjálslyndaflokkinn og þú hlýtur að hafa skilið það með hláturkarlinum sem ég setti fyrir aftan þessa setningu sem var bara grín.

Þetta mál er miklu flóknara en að það séu bara Ísraelar sem drepa Palestínumenn. Þetta er gagnkvæmt því miður og gjörðir Palestínumanna eru líka óafsakanlegar. Lestu ritgerðina mína sem ég setti inn hjá þér og greinarnar okkar Snorra sem eru á blogginu í dag.

Ég er mjög ósátt við fréttaflutning sem við Íslendingar fáum sem er einhliða. Dæmin sem þú tekur í pistlinum eru að gerast í Ísraels lika en við fáum ekki fréttir af því úr kommúnískum fjölmiðlum Íslendinga. Hvað veldur? Hvaðan eru fréttirnar fengnar og er það frá hlutdrægum aðilum eða ekki?  Viltu kanna þetta fyrir mig sem þingmaður.

Ég réttlæti ekki morð. Það er alveg sama hver veldur. Það er synd að fremja morð. Við þurfum að kynna okkur báðar hliðar.

Hvernig fannst þér með Egyptana sem eru líka með múr á milli landamæra Egypta og Palestínumanna? Þeir opnuðu þá í aðeins örfáa daga og svo var kærleikurinn þrotinn?

En nú ætla ég að vera sniðug og setja ekki fleiri innlegg hjá þér svo þú komist ekki  í heitar umræður.  

Megi Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs blessa þig og varðveita.

Shalom/Rósa 

Rósa Aðalsteinsdóttir, 15.5.2008 kl. 16:41

8 identicon

Það er búið að vera að ausa fjármunum í þetta svæði og fjölmörg önnur sem hafa átt við ýmis vandamál að etja og ekki hafa málin einfaldast við það.

Það er ein og aðeins ein leið til þess að friður verði á þessu svæði og það er þegar allir aðilar viðurkenni þann grundvallar sannleik að aðeins er einn Guð og öll erum við frá honum komin. Á þessum sameiginlega grundvelli verður hægt að byggja aftur upp það sem áratuga ófriður hefur brotið niður.

Hvað varðar brotflutta palestínumenn á fimmta áratugnum þá var stór hluti ef ekki meirihluti þeirra sem yfirgaf Ísrael vegna þess að Arabalöndin í kring ætluðu að gera eina allsherjar innrás til að hrekja burt gyðinganna. En það fór sem fór og óskipulagður her arabanna var brotinn á bak aftur og þeir sem höfðu farið úr landi fengu ekki leyfi til að snúa aftur heim - skiljanlega kannski.

En þetta var þá og núna þurfa báðar hliðar að læra að fyrirgefa hvort öðru og byrja upp á nýtt. Maður vonar að það gerist á manns eigin lífstíð.

Bestu kveðjur,

Jakob

. (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 16:56

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hérna er Jakob að taka undir einn versta lygaáróður Ísraela og stuðningsmanna þeirra varðandi deilur Ísraela og Palestínumanna. Flóttamennirnir flúðu af nákvæmlega þeirri ástæðu, sem Jón nefnir í þessu bloggi sínu. Þeir voru að flýja undan hryðjuverkasveitum Zíonista, sem með því framkvæmdu einhverjar verstu þjóðernishreinsanir veraldarinnar eftir lok seinni heimstyrjaldar.

Þessi sögufölsun Ísraela var viðtekin skoðun á Vesturlöndum fram undir 1960 en þegar vestrænir sagnfræðingar fóru að skoða málið komust þeir að því að þessi fullyrðing Ísraela hélt ekki vatni. Þeir fundu greinileg merki þess að fólkið hafði flúið í ofsahræðslu. Þeir fundu reyndar dæmi um hvatningar frá arabaríkjum til araba á þessu svæði um að forða sér og segja að vera megi að hluti flóttamannanna hafi verið að hlýða því kalli en eru sammála um að það geti í mesta lagi átt við um 5% hópsins.

Það var ekki nóg með að hryðjuverkasveitir Zíonista hafi framið grimmileg fjöldamorð heldur ýktu útvarpstöðvar þeirra verulega grimmd þeirra til að skapa ótta meðal Palestínumanna. Þar var meira að segja talað um efnavopn og kjarnorkuvopn. Fáfróðir Arabar á þessum slóðum sáu ekki í gegnum þá lygi.

Það er líka söguföldun að tala um innrás arabaríkja, sem árás á friðelskandi Ísraelsríki. Stofnendur Ísraelsríkis voru ekki bara búnir að fremja fjöldamorð á aröbum og reka 750 þúsund þeirra á flótta heldur hernámu þeir líka stóran hluta þess lands, sem var ætlað Aröbum með samþykkt Sameinuðu þjóðanna árið 1947. Stríð stofnenda Ísraelsríkis gegn aröbum var því þegar hafið með þessum árásum stofnenda Ísraelsríkis og voru aðgerðir Arabaríkja aðeins svar við þeim og tilraun til að rétta hlut þeirra araba, sem höfðu verið hraktir af heimilum sínum og landi þeirra stolið. Þetta var því í raun svipað og árásin á Írak eftir hernám þeirra á Kuweit. Það var verið að reyna að hrekja hernámslið á brott frá ólöglegu hernámssvæði sínu. Írakar höfðu þó ekki hrekið hundruð þúsunda manna á flótta eins og stofnendur Ísraelsríkis höfðu gert.

Sigurður M Grétarsson, 15.5.2008 kl. 17:22

10 Smámynd: Halla Rut

Jakop: Væri ekki betra ef fólk áttaði sig á því og viðurkenndi að Guð er ekki til.

Halla Rut , 15.5.2008 kl. 19:17

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég verð að taka undir orð pistilshöfundar. Slæm samviska Evrópuþjóðanna hefur gert það að verkum að þær hafa látið óáreitt ítrekuð og alvarleg mannréttindabrot Ísraelsmanna á Palestínuaröbum.

Bandaríkin beinlínis styðja og styrkja Ísraelsríki eins og sjáaldur auga síns og virða þar með að vettugi sína eigin grunnreglu um að semja ekki við hryðjuverkamenn.

Góð athugasemd einnig hjá Sigurði M. Grétarssyni. Við hana má bæta að þjóðsagan um að arabaleiðtogar hafi sagst ætla að hrekja Gyðinga í hafið er að öllum líkindum komin frá David Ben Gurion, en engin gögn eru til um að nokkur arabaleiðtogi hafi látið þessi orð frá sér.

Theódór Norðkvist, 15.5.2008 kl. 20:56

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrstu minningar minar af ognum styrjaldarastands eru hrydjuverkin sem thu talar um, Jon, og ef eg man rett voru thad Israelsmenn sem drapu eina sendifulltrua Sameinudu thjodanna sem drepinn hefur verid eystra.

Islendingar bera serstaklega abyrgd Palestinu vegna thess atbeina sem Thor Thors veitti Israelsmønnum atbeina thegar their thurftu thess serstaklega med a vettvangi Sameinudu thjodanna. Thad gerdi hann ad sjalfsøgdu fyrir okkar hønd.

Arin eftir stridid voru timar mikillar samudar med theim sem nasistar leku gratt. Slikt getur gengid of langt. 14 milljonir Tjodverja voru fluttir til i refsingarskyni fyrir Hitler og nasismann og flest af thessu folki hafdi buid øldum saman a theim svædum sem voru "hreinsud".

Ómar Ragnarsson, 15.5.2008 kl. 21:59

13 Smámynd: Jón Magnússon

Rósa endilega hafðu skoðanaskipti við mig en ég sé ekki annað en við séum að mestu leyti sammála. Ég trúi á þann Guð sem Jesús fræddi okkur um það þarf ekki að blanda öðrum inn í það. ´

Ég er sammála þér Ómar og þú nefnir ákveðið atriði sem sjaldan er talað um. Það er sá mikli fjöldi Þjóðverja sem var drepinn eftir að Þjóðverjar gáfust upp.  Það var líka stríðsglæpur.

Jón Magnússon, 15.5.2008 kl. 22:56

14 Smámynd: Víðir Benediktsson

Þetta snýst ekki um að leysa vandamál Palestínu, það er fullmikið í lagt. Þetta snýst um að bjarga 30 manneskjum frá örbyrgð. Manneskjum sem líklega eiga ekki einn einasta þátt í því hvernig komið er. Saklaust fólk sem sem hefur lent á milli steins og sleggju brjálæðinga.

Við fáum allavega tækifæri til að sýna að við séum þroskaðri en þeir sem ráða ríkjum í þessum löndum. Akurnesingar eru höfðingjar upp til hópa, allavega þeir sem ég þekki og ég hef ekki áhyggjur af þeirra þætti.

Víðir Benediktsson, 15.5.2008 kl. 23:10

15 identicon

 

 

Jón Magnússon:

 

Fjöldi fórnarlambanna í Deir Yassin er mjög umdeildur. En flestir telja að 107 eða 110 Palestínuarabar hafi verið myrtir þar og byggja þær tölur á upplýsingum araba. Ísraelsmenn hafa af einhverjum ástæðum verið með hærri tölur. Í nýútkominni bók ( sem heitir einfaldlega ”1948”) eftir hinn þekkta ísraelska sagnfræðings Benny Morris telur hann að rúmlega 100 araba hafi fallið við Deir Yassin. Þessu voðaverki í Deir Yassin fylgdiusíðan hefndaraðgerðir araba á Gyðingum á Mount Scopus og í Gush Etzion.

Vil benda þér á þetta því mér hefur áður virst þú fara mjög frjálslega með tölur en þá í allt öðru samhengiJ

Fjöldi Gyðinga sem flúðu frá arabalöndunum til Ísraels eftir 1948  var um 850.000. Þessir Gyðingar sættu  hatursofsóknum af stjórnvöldum þar í löndum og var það bein afleiðing af stofnun Ísraels og þeir hröktust frá eignum sínum og landsvæðum. Meiri hluti þessara flóttamanna, um 600.000, fengu griðastað í Ísrael og þetta án aðstoðar Flóttamannahjálpar S.Þ.

Það er ógæfa palestínsku flóttamannanna að arabískir bræður þeirra í nágrannalöndunum hafa því nær ekkert gert til að hjálpa flóttamönnunum. Hefðu ekki nær 500 miljónir araba átt að geta tekið við og búið flóttafólkinu þolanleg lífsskilyrði í svo fjölmennum löndum, sumum vellauðugum? En arabar töldu sér hag í því ( gagnvart Ísrael og umheimi) að halda palestínsku flóttafólki í  eymd og niðurlægingu og þar hafa ,því miður, SÞ einnig brugðist sem með UNRWA hafa stutt og ”permanentað” þetta ástand.

S.H. (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 08:16

16 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er ekki sök þjóðanna, sem flóttamennirnir flúðu til að þeir búa enn við ömurleg skilyrði jafnvel þó þær gætu gert betur. Þjáningar þeirra eru fyrst og fremst sök þeirra, sem hröktu þá af heiman og hafa neitað að hleyp þeim heim aftur þrátt fyrir augljósan rétt þeirra til þess samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðasamþykktum.

Það er einfaldlega ekkert, sem réttlætir það að palestínskir flóttamenn fái ekki að snúa aftur til síns heima.

Sigurður M Grétarsson, 16.5.2008 kl. 12:08

17 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll Jón Magnússon.

Ætli ég komi ekki aftur með innlegg fyrst að ég fæ svona fallega áskorun.

Þú skrifar:  "Ég trúi á þann Guð sem Jesús fræddi okkur um það þarf ekki að blanda öðrum inn í það." Ég varð alveg heilluð að lesa þessa setningu. Þetta líkar mér og örugglega Guðsteini Hauki vini okkar beggja.

Þegar við erum að gefa peninga til hjálparstarfa þurfum við að fylgja þeim eftir svo þeir séu notaðir fyrir fólkið en ekki eitthvað annað.

Svo þarf líka að hugsa um fátækt fólk á Íslandi.

Ég er svo ósátt við fréttaflutning þann sem okkur er boðið uppá hér á Íslandi. Ég vona að þú viljir lesa ritgerðina mína um Deilur Gyðinga og Araba. Þar kemur ýmislegt fram sem flestir Íslendingar vita ekki því við fáum ekki rétta sýn frá þessu svæði. Svo væri nú heiður ef þú vildir kvitta á síðuna hjá mér. Ég skal taka vel á móti þér.

Ég veit að það eru til öfga Gyðingar og það eru til öfga samtök eins og Hamas. Þessi samtök vinna ljót verk og saklaust fólk BEGGJA VEGNA LANDAMÆRANNA líða. Ekki bara fólk í Palestínu. Ingibjörg Sólrún heimsótti heimili í Ísrael sem hafði orðið fyrir árás Hamas sem ég treysti ekki. Hún gaf konunni þar koss sem var þar grátandi. Ég var svo stolt af Ingibjörgu Sólrúnu eftir þessa ferð en hún hefur breyst. Nú sér hún ekkert nema Palestínu, þannig að þessi koss virkar á mig sem Júdasarkoss í dag. Ætli næsta sendiráð Íslendinga verði reist í Palestínu?

Við vitum að þegar þessar þjóðir hafa reynt að semja frið eins og Ísrael og Egyptaland gerðu (sjá ritgerð) þá var það Arabi sem drap Sadat forseta Egyptalands. Þetta hefur líka gerst í Ísrael að Yitzhak Rabin var drepinn af öfga Gyðingi vegna þess að hann var búin að landa friðarsamningi.

Þarna eru ill öfl sem vinna markvisst gegn öllum sem þrá frið. Ég geri mér fulla grein fyrir því frá hverjum þessi illu öfl eru komin. Þarna er gífurleg barátta á milli góðs og ills og eins og ég sagði áðan eru ill öfl í þeim sem eru að drepa eins og t.d. forsetana sem vildu frið en Myrkrahöfðinginn vill engan frið og þess vegna er þetta svona. Við öll eigum óvin sem heitir Satan sem vill meiða okkur. Hann vill að við séum óhamingjusöm, hann elskar að sundra fjölskyldum, hann vill að fólk ánetjist vímuefnum og líf þess fari í rúst en á meðan við íslendingar höfum ekki þessar staðreyndir á hreinu er erfitt að vinna markvisst gegn þessum viðbjóði sem er óvinur okkar allra. Flestir Íslendingar hafa sem betur fer ekki kynnst persónulega svona hatramri baráttu eins og á sér stað í Miðausturlöndum. Þarna gengur Myrkrahöfðinginn um sem öskrandi ljón í leit af þeim sem hann getur gleypt. Hann hefur sagt sjálfur að hann sé kominn til að stela slátra og eyða. Við Íslendingar erum einhvers staðar eins og í öðrum heimi og sjáum ekki staðreyndirnar sem blasa við okkur. Sorglegt því við þurfum að vígbúast og berjast gegn illum öflum. Þá væru fleiri hamingjusamar fjölskyldur á Íslandi en í dag. Brotin heimili, áhyggjur , skuldahali, sorg og sút. Við þurfum að biðja til Guðs að snúa við högum Íslendinga. Við þurfum að skera burtu krabbameinið sem grasserar hér. Krabbameinið er Satan sem hefur fengið að valsa um hér vegna þess að við Íslendingar erum að afkristnast. Þjóðarskútan okkar rekur stjórnlaust því þeir sem eiga að stjórna skútunni hafa ekki skipstjóraréttindi og hafa greinilega aldrei lært að sigla skútunni. Ég var bara barn þegar ég lærði að róa þannig að ég held bara að ég væri skárri að stjórna skútunni en konungshjónin okkar. Ég kann allavega að róa bát.

Megi almáttugur Guð blessa þig og blessa þig í því starfi sem þú hefur tekið að þér fyrir íslenska þjóð.

Shalom Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.5.2008 kl. 13:14

18 identicon

Sæll Sigurður,

Ég reyni yfirleitt að halda mig við staðreyndir málsins. Ég veit með fullri vissu að það sem ég lýsti gerðist en ég ákvað að skoða þetta aftur og sá fjöldinn hjá mér var langt frá því að vera réttur en hann var allavega ekki meirihluti þessarra sem hröktust burt. Það að kalla þetta lygaráróður Ísraela segir ansi mikið um þína afstöðu og því held ég að ég leiti að staðreyndum úr annarri átt.

Fjöldi þeirra sem hraktist burt var 711.000 samkvæmt tölum SÞ en þeir hröktust burt á meðan stríði Ísraela og Araba stóð yfir.

 Sæl Halla,

Ég held ekki en ég virði rétt manna til að trúa ekki á Guð. Ég hef hinsvegar hæpna trú á því að meirihluti mannkyns eigi eftir að gefa upp trú sína á Guði en tel það grundvallaratriði að til þess að friður náist í heiminum verðum við að viðurkenna - Það er aðeins einn Guð - trúarbrögðin eru frá honum upprunnin - að mannkyn er eitt.

Þetta er ekki bara einhver pólitísk leið að friði heldur í mínum huga heldur grundvallar sannleikur byggður á því að hafa skoðað trúarbrögðin.

Bestu kveðjur,
Jakob

. (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 15:32

19 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ég verð eiginlega að vera sammála Haraldi í þessu máli, nema hvað að það skaðar nú ekki að veita einhverjum upphæðum í þessi mál, en við verðum að muna að við erum lítil þjóð uppí ballarhafi sem hefur lítið sem ekkert með þessi átök að gera.

Rósa, bíddu, myrkrahöfðinginn? Var Sauron ekki drepinn í LOTR III?
Eiga trúfrjálsir að hlýða endalaust á skáldskap einhverra eyðimerkurtöffara fyrir 3000 árum? Ég meina, þetta meikar ekkert sens.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 16.5.2008 kl. 17:03

20 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæll J. Einar.

Já hann skrifar fínar sögur J.R.R.T. En hvað það hefur með Biblíuna að gera er allt önnur Ella.

En vissir þú að J.R.R.T byggir nú LOTR sögur sínar að mestu upp úr Íslendingasögum enda nam hann íslenskufræði. Þetta hef ég frá vini mínum sem hefur gaman af LOTR. En ég hef ekkert spekulerað í J.R.R.T.

Svo langar mig að benda þér á að ég minntist ekkert á Ariel Sharon. Eða var það ekki hann sem þú ert að skrfia um Sauron?

Ég meika sens með með því að trúa á Jesú Krist og hann upprisinn.

Shalom/Rósa.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.5.2008 kl. 19:39

21 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælt veri fólkið.

Langar að setja inn slóð hér. Heyrðuð þið þessa frétti í fjölmiðlum á Íslandi? Árás frá Gasa. Athyglisvert.

http://vonin.blog.is/blog/vonin/entry/541584/#comment1390760

Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 16.5.2008 kl. 22:35

22 identicon

Það er leiðinlegt að sjá þessa Rósu eyðileggja umræðuna með leiðindasvörum og bulli. Þessi manneskja á eitthvað bágt.

Johnny Rebel (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 03:32

23 identicon

Merkilegt að fólk lýsi yfir trú á guð tortímingar og morða, á áróðursrit gyðinga.
Sér fólk ekki að þarna er bókastríð í gangi, Rósa ver allt sem Ísrael gerir því þá trúir hún að guðinn illi verði góður við hana og fljúgi með hana í himnaeinræðisríkið, sömu sögu er að segja um múslíma.
Sorglegt árið 2008

DoctorE (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 11:48

24 Smámynd: Haraldur Davíðsson

 Rósa taktu afstöðu gegn ofbeldi, sértu kristin en ekki bara ein helv....blaðurskjóðan enn þá tekurðu afgerandi afstöðu gegn ofbeldi. SAMA HVER ER AÐ BEITA ÞVÍ. Ísraelsríki er stofnað í blóðbaði og ekkert breytir því. Endalaus afskipti misviturra stjórnmálamenna heimsins er bara olía á eldinn. Zíonistar eru sprottnir upp úr nákvæmlega sama jarðvegi og Hamas. Stefnuskrá Zíonista er alveg jafn hatursfull og blóðþyrst og stefnuskrá Hamas. Það er ákaflega sorglegt að sjá boðbera jesu reyna að réttlæta misréttið. Myrkrahöfðinginn segir þú, hann þarf ekkert að gera við erum miklu snjallari en hann. Hann situr á steini og hlær......að þér. FRIÐUR (Með þeim sem ÞÚ hefur velþóknun á)?

Haraldur Davíðsson, 17.5.2008 kl. 11:50

25 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sælir strákar.

Hér er mjög mikið fjör. Þar sem við Jón erum ekki bloggvinir þá get ég ekki fylgst með ef hann er kominn með nýjar athugasemdir. En ég er mætt og mér líður mjög vel og sem betur fer á ég ekki bágt þökk sé Guði.

Persónulega fannst mér ég ekki taka einhliða afstöðu.

Ég skrifa að það væri fólk beggja vegna landamæranna sem þjáðist vegna ofbeldis.

Ég tók það fram að morð er synd alveg sama hver veldur.

Ég skrifaði um forseta Egyptalands sem var drepinn af öfga Araba og ég skrifaði líka að öfga Gyðingur hafi drepið forseta Ísraels.

Ég hef farið til Ísraels og ég hef heimsótt skóla Vonarinnar sem er í Betlehem. Þar voru Arabísk börn í kristnum skóla. Til þess að fara til Betlehem þurfti bílstjórinn að vefja fullt af hálsfestum á spegilinn fremst í bílnum því annars hefðum við getað átt það á hættu að vera drepin.

Ég varð fyrir ofbeldi þegar ég var að busla í Dauðahafinu. Það voru fjórir Arabar sem réðust á mig en ég barðist og barðist og losnaði úr klónum á þeim. Það var Arabi í Jeríkó sem hrópaði á eftir mér að hann vildi stinga úr mér augun.

Hér er talað um flóttamannabúðir og fullyrt að Ísraelsmenn hafi rekið þetta fólk í flóttamannabúðir. Ég hef heimildir að það hafi andstæðingar Íraelskanna gert til að fá samúð umheimsins en það væri fróðlegt að einhver gæti hjálpað okkur að koma með það sem er rétt í þessu máli. Tvær spurningar í sambandi við flóttamannabúðirnar. Af hverju hafa þjóðirnar umhverfis Ísraels ekki boðið þessu fólki að flytja  til þeirra úr flóttamannabúðunum? Er engin samúð með þessu fólki eða er ályktun mín kannski rétt að þarna er verið að senda skilaboð til umheimsins eftir samúð við Palestínu og hatri gegn Gyðingum í leiðinni?

Fyrst að ég er svona vinsæl á síðu þingmannsins ætla ég að taka mér það bessaleyfi og tala beint við vini mína hér fyrir ofan. Johnny margur heldur mig sig og spurning um hvor er að eyðileggja þú eða ég?

Doctor E. það er nú ekki svaravert þetta rugl í þér enda ertu rugguhestur.

Haraldur skrifar að ég sé blaðurskjóða. En þú ert dónalegur en það er í lagi er það ekki?  Ég þoli nú meira en þetta og tek þetta ekki nærri mér svona blaðurskrif en ég get ekki samþykkt skrif hans að stefnuskrá Ísraels sé eins og hryðjuverkasamtakana Hamas.

Ég hef samúð með öllum sem eiga bágt hvort sem það eru Palestínumenn eða Gyðingar og ég tók það fram hér ofar að fólk beggja vegna landamæranna líði þjáningar.

Þó að ég elska Ísrael þá samþykki ég alls ekki allt sem þeir gera. Ég tók það fram að það sé synd að fremja morð alveg sama hver veldur.  Ég þakka þessum blessuðum mönnum að búa til skoðanir sem þeir segja að sé mína en því miður þeirra vega þá skrökvuðu þeir og það er líka synd.

Jón minn ég vona að við getum verið sátt þó að einhverjir fuglar séu að búa til skoðanir fyrir mig sem ekki eru réttar.

Megi Guð almáttugur blessa bæði Palestínu og Ísrael og gefa frið. Eins óska ég furðufuglunum mínum Guðs blessunar.

Guð blessi þig Jón og það starf sem þú gegnir. Mundu þegar þér bregst viska þá biddu Guð að gefa þér visku og hann gefur þér meiri visku átölulaust.

Frjálslyndar friðarkveðjur

Shalom/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 17.5.2008 kl. 14:06

26 identicon

Góðir Lesarar og Skrifarar.

Á meðan Íslamistar  trúa jafn stíft á Kóraninn og þeir gera í dag og hafa nóg af peningum til að elta fyrirmælin hans Allah samkv. Kóraninum 008:039  um heimsyfirráð, álít ég alla samninga milli Íslamista og annarra vonlaust mál  hvort sem það er Ísrael eða einhver önnur af þessum 25 svæðum sem Íslamistar herja á í dag.

Sk´. Sk. (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 21:39

27 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Rósa, ég laug ENGU um þig, ég SPURÐI þig hvort þú værir kristin eða blaðurskjóða, ég sagði ALDREI "stefnuskrá Ísrael, heldur stefnuskrá Zíonista, svo áður en þú kallar mig syndara fyrir "rangfærslur" skaltu líta þér nær.Hvað sagði jesu? Ekki dæma... er það ekki? Sem "kristin" kona, hlýtur þú nú að vera syndug kona. Svo geymdu yfirlætið góða mín þú gætir þurft að svara fyrir það hjá Pétri.

Haraldur Davíðsson, 18.5.2008 kl. 00:16

28 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Að lokum Rósa, AL SALAAM ALAYKUM!

Haraldur Davíðsson, 18.5.2008 kl. 00:17

29 identicon

Sk

Ég fann tilvitnunina sem þú bendir á og hér er hún ásamt versinu á undan og á eftir:

38 Tell those who disbelieve that if they cease (from persecution of believers) that which is past will be forgiven them; but if they return (thereto) then the example of the men of old hath already gone (before them, for a warning).

39 And fight them until persecution is no more, and religion is all for Allah. But if they cease, then lo! Allah is Seer of what they do.

40 And if they turn away, then know that Allah is your Befriender - a Transcendent Patron, a Transcendent Helper!

Er ekki bara verið að bjóða múslimum að verja sig? Sé ekki aðra merkingu.

Salaam Alaykum (Friður sé með yður) 

Jakob 

. (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 20:38

30 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Rósa, Rósa, Rósa...

Ég vissi þetta með JRRT, en fyrir mér er Biblían jafn mikill skáldskapur.

Þér að segja er jafn mikið af staðreyndum, sögulegum heimildum og sannleika í Biblíunni og það er mikið af hamborgaratilboðum og iPod.

Ekki snefill. 

Friður sé með þér og þínum. (Við erum á Íslandi, ekki Ísrael eða Palestínu.) 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 19.5.2008 kl. 16:09

31 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jakob. Það er rangt hjá þér að flestir palestínsku flóttamennirnir hafi hrakist frá heimilum sínum í stríðinu. Hið rétta er að hryðjuverkasveitir Síonista voru búnar að hrekja þá frá heimilum sínum áður en stríðið hófst í einum verstu þjóðernishreinsunum eftirstríðsáranna. Flestir flýðu næstu þrjár vikurnar eftir fjöldamorð Síonista í þorpinu Deir Jassin þann 9. apríl 1948. Stríðið hófst síðan þann 15. maí 1948.

Sigurður M Grétarsson, 22.5.2008 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 816
  • Sl. viku: 4519
  • Frá upphafi: 2426389

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 4193
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband