Leita í fréttum mbl.is

Íslenska krónan ekki samkeppnisfær segir fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins og fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar mjög góðan og athygliverðan leiðara í blað sitt í dag. Þar fullyrðir hann að lantgímavandi fyrirtækja og alls almennings í landinu sé að íslenska krónan sé ekki samkeppnisfær.

Þá bendir Þorsteinn á að raunverulegar ógöngur peningastefnunnar hafi komið fram þegar gengi hennar var sem hæst, en þá hafi lífskjörin og trúin á stöðugleikann verið látin ráðast af erlendurm lántökum en ekki verðmætasköpun. Það hafi verið sýndarveruleiki.

Loks segir Þorsteinn að vandinn felist í gjaldmiðlinum og bendir á að helstu forstöðumenn hagsviðs og hagrannsókna í Seðlabankanum hafi komist að þeirri niðurstöðu að krónan geti ekki tryggt sambærilegan stöðugleika og öflugt myntkerfi. Hann  segir einnig að bankastjórn Seðlabankans hafi ekki haft styrk til að taka á þessari umræðu.

Ég er sammála þeim sjónarmiðum og rökstuðningi sem Þorsteinn setur fram í leiðaranum og finnst kærkomið að loksins skuli forustumaður í Sjálfstæðisflokknum fjalla um þessi mál af alvöru. Það voru hins vegar  vonbrigði að forsætisráðherra skuli reyna að drepa umræðunni um peningamálastefnuna á dreif.

Framlag forsætisráðherra í umræðuna er raunar afar merkileg með vísan til þess að hann er lærður hagfræðingur.

Af leiðara Þorsteins verður þó ekki annað ráðið en að framsýn öfl innan Sjálfstæðisflokksins vilji beita sér fyrir nýrri stefnumótun í peningamálum og afstöðunni til Evrópusambandsins á meðan flokkseigendafélagið í Sjálfstæðisflokknum heldur sig fast við Davíðskuna.  Svo virðist sem það verði örlög Sjálfstæðisflokksins í bráð að halda sig við Davíðskuna.

Spurning er þá hvort að framsýnt, frjálslynt fólk á heima í flokknum meðan svo fer fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Jón

Þú getur verið alveg viss um að það mun draga til tíðinda næsta vetur varðandi Sjálfstæðisflokkinn og afstöðuna til ESB aðildar.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.6.2008 kl. 19:30

2 identicon

Þessi umræða um hvort við eigum að taka upp evru hér á landi eða ei er á svo lágu plani að það nær ekki nokkru tali. Þegar litið er til þess að allt er að skola á haf út í efnahagsmálum okkar Íslendinga efnahag sem byggður var á EES samningnum í grunninn. Það vantaði ekki EEs sönginn hér í den þegar menn töluðu um að EES myndi bjarga öllu!! Hvernig er umræðan hjá þeim sem hafa tök á ríki og fjölmiðlun í landinu? Dæmi Þorsteinn Pálsson vil taka upp evru, Geir H.Haaarde vil skoða dollar, annar segir ég vil norsku krónunna og ég segi ég vl dönsku krónunna.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 20:53

3 identicon

Hér er frétt sem birtist á ruv.is í dag. Þessi frétt er gott sýnishorn hvað EES samningurinn hefur gefið okkur almenningi.
Hvar stendur það í Íslensku stjórnarskráni að yfirþjóðlegt vald geti skipað alþingi okkar Íslendinga fyrir verkum? 

    ESA: Starfsemi Íls brot á reglum

 

,,Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir að niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA um Íbúðarlánasjóð sé áminning til ríkisstjórnarinnar. Hann segir að Íbúðalánasjóður gæti þurft að endurgreiða ríkisstyrki sína. ESA telur starfsemi Íbúðalánasjóðs ekki samræmast reglum EES-samningsins.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur ákveðið að halda áfram skoðun sinni á því hvort starfsemi Íbúðarlánasjóðs samræmist EES samningnum. Samtök fjármálafyrirtækja telja að niðurstaða ESA muni sýna fram á að ríkið hafi nú í mörg ár verið að halda úti ólögmætri samkeppni á þessum vettvangi.

Ríkisstjórnin hefur lýst yfir því að í haust verði almenn lán Íbúðalánasjóðs og félagsleg lán aðskilin. Íbúðalánasjóði gæti verið skylt að endurgreiða ríkinu þann ríkisstyrk sem hann hefur notið.''

Tilvitnun lokið.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ 

B.N. (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 21:19

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er greinilegt að allir eru búnir að gleyma þeirri tíð þegar:


1 evra féll yfir 30% á vantraustinu einu og Euroland-þegnar voru að missa vitið af bræði. Þeir voru ekki að byggja virkjanir hér í ESB ef einhver skyldi halda það. Og þeir voru ekki að fjárfesta. Nei, hún féll bara, og engin lyf ECB megnuðu að rétta við fallið.

2 þegar stýrivextir Deutsche Bundesbank tröllriðu efnahag saklausra EMS-landa ESB á árunum 1987-1997

Það þarf einnig að hafa stjórn á verðbólgu þó svo að maður leggist í götuna og afhendi peningastjórn sína til annarra landa og meðtaki mynt og papriku þeirra eins og auðmjúk nýlenda. Þá fyrst þarf maður að beita refsivaldi hins opinbera. Og þá verður ekkert gaman hvorki hjá Þorsteini Pálssyni eða neinum banka á Íslandi. Þá mun grátkórinn og bræðin fyrst verða fyllilega "samkeppnishæf".

Fallþungi fávisku getur verið stór. Skyldi vera hægt að . . . nei, sennilega ekki.

Gunnar Rögnvaldsson, 28.6.2008 kl. 22:16

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Ljóst og leynt er Þorstein Pálsson búinn að vera að tala fyrir Evrópusambandsaðild í nokkurn tíma í sinum leiðurum, ásamt dásömun á kvótakerfinu sem hann ber að hluta til ráðherraábyrgð á.

Ég er honum ósammála.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.6.2008 kl. 23:47

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Af því að Baldvin nefndi EES-samninginn þá sögðu einmitt margir andstæðingar hans að hann væri fordyrið inn í Evrópusambandið. Er það að koma á daginn?

Hinsvegar veit ég ekki hvernig þjóðfélagið væri í dag án EES. Samningurinn hefur gert þá útrás sem orðið hefur kleifa, hún hefði ekki orðið án EES. Samningurinn er hinsvegar ekki gallalaus og fól án efa í sér framsal fullveldis að hluta til, t.d. hvað varðar innflutning erlends vinnuafls og fjármagns.

Við ráðum ekki stefnunni sjálf í innflutningi erlends vinnuafls, eins og sumir frjálslyndir hafa ranglega haldið fram og í efnahagsmálum virðumst við vera að sogast inn í bandalagið, með svo til verðlausa örmynt og evruna sem ráðandi mynt að hluta. Í landinu eru tvö hagkerfi, ef ekki fleiri.

Theódór Norðkvist, 29.6.2008 kl. 01:06

7 identicon

Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið. Lýðveldið Ísland fór þessa leið að spinna úr EES samningnum undir forustu Jón Baldvins.

Núna er máltækið í dag kannski svona: Neyðin kennir ekki naktri konu að spinna þar sem hún hefur ekkert til að spinna úr. Þökk sé EES samningum.

Það er vand séð að við eigum nóga marga stjórnmálamenn sem vilja í hjarta sínu standa vörð um sjálfstæði þjóðarinar því miður.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 09:57

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Verð að viðurkenna að ég skil ekki athugasemd Baldvins.

Theódór Norðkvist, 29.6.2008 kl. 14:59

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég deili þessari von með þér Þrymur.

En ætli besta lausnin felist ekki í þeim skilningi að við Íslendingar eigum nægar auðlindir sem auðveldlega standa undir öllum okkar þörfum og sókn til framfara. Og án allra samninga um "gagnkvæm" fríðindi þar sem við erum ævinlega að afhenda forgjöf.

Árni Gunnarsson, 29.6.2008 kl. 17:19

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Árni hittir naglann á hausinn.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki þörf á neinni nýrri "lausn". Þið eruð nú þegar með lausnina, en hún er sú að halda áfram á þeirri braut sem þið eruð á, bíta á jaxlinn, og láta ekki hræða sig frá réttri braut, því þið eruð nú þegar á réttu brautinni.

Þið getið ekkert gert í alþjóða fjármálakreppunni.

Þið getið ekkert gert í innfluttri alþjóðlegri verðbólgu á hráefnum og matvælum.

Og þið getið ekkert gert í óróleikum á gjaldeyrismörkuðum.

Enginn veit hvaða næsti gjaldmiðill verður gengisfelldur eða settur í skrúfstykkið.

Þið eruð nú þegar að vinna í því sem hægt er að vinna í, og komnir vel á veg.

Stýrivextir munu koma niður aftur. Þess er ekki langt að bíða. Alþjóðlega fjármálakreppan er að byrja að fjara út í Bandaríkjunum og mun þarnæst lagast á Íslandi, en hún er aðeins rétt að byrja hér í ESB. Gengi ISK mun rétta sig við í takt við að hræðsla minnkar á stærsta fjármálamarkaði heimsins, BNA. Það kemur kanski einn eftirskjálfti í viðbót í BNA núna í sumar, en svo munu markaðir vestanhafs fara í gírinn aftur.

Athugið að þetta er versta alþjóðlega fjármálakreppa síðan 1930

Gunnar Rögnvaldsson, 29.6.2008 kl. 18:12

11 identicon

Sæll Theódór

Eftir alþingiskosningarnar 1991 leiddi Jón Baldvin sem utanríkisráherra þá vinnu að koma í höfn samningi um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og við þau tímamót þegar skrifað var undir samninginn lét ríkisstjórnin í það skína að við Íslendingar hefðum fengið nánast allt fyrir ekkert og velmegun myndi aukast verulega þegar fram liðu stundir.

Andstæðingar aðildar vildu láta reyna á tvíhliða viðræður við Evrópusambandið (ESB) um samning sem yrði svo hægt að auka að efni til eftir atvikum. Þeir sem voru á móti EES samningnum töldu hann ekki verða til góðs því með honum yrðu tekin tvö skref af þremur inn í ESB sem hefði í för með sér brot á fullveldisákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.

Annað ákvæði í EES- samningnum um frjálst fjármangsflæði milli aðildarríkjanna skipti sköpum og fullveldissinnar treystu því ekki að okkar litla hagkerfi stæðist ágang erlends fjármagns og myndi því hreinlega sogast inn í hringiðu hagkerfis Evrópusambandslandanna. Þetta myndi leiða til þess að Íslendingar misstu efnahagslegt sjálfstæði sitt í framtíðinni.

Eins og sjá má á þjóðmálaumræðunni í dag hafa erlendar skuldir landsmanna vaxið langt umfram getu okkar litla hagkerfis eftir inngönguna í EES og hafa þær aldrei verið meiri. Góðæriskenningin á sínar rætur frá þessari þróun, skuldir undirstaðan þó þeirra væri aldrei getið í sjálfum málflutningnum þ.e.a.s. þeirra sem studdu EES samninginn. Sannarlega hafa þær verkað sem driffjöður á lífæð hagkerfisins hér á landi, já, hér er verið að tala um skuldir, sem jafnframt hafa verið stór þáttur stöðugleikans, svokallaða.

En hvar er hin raunverulega framleiðni? Uppsveifluna í efnahagslífinu má rekja að mestu leyti til uppbyggingar á Stór- Reykjavíkursvæðinu sem varð til vegna landsbyggðarflóttans sem hefur verið mikill síðustu tvo áratugina. Hornsteinn þessarar þróunar, (landsbyggðarflóttinn annars vegar og fjármagnsstreymið til uppbyggingar hér syðra hins vegar) var lagður með kvótabraskkerfinu sem tryggt var svo í sessi með aðildinni að EES samningnum, áratug síðar. Þetta gerði hinum fáu útvöldu kleift að fjármagna mestu búsyfjan af mannavöldum í sögu þjóðarinnar.

Alls kyns spákaupmennska hefur rutt sér til rúms síðustu árin þar sem arður er gerður úr væntingum og greiddur út í milljörðum til réttra aðila. Þetta hefur verið að gerast í íslensku atvinnulífi og nú síðast í sjávarútveginum á Akureyri, svo tekið sé dæmi. Sameiningarferli íslenskra fyrirtækja undir nafninu ,,Hagræðing” er eingöngu til þess fallið að fyrirtækin geti haldið sjó á meðan þau eru að ná þeim stærðum á markaðinum að þau verði góður fjárfestingarkostur fyrir stóru erlendu fjárfestana sem bíða handan við hornið.

Lykilinn til að ná þessum markmiðum endanlega er innganga okkar í ESB svo að erlendir fjárfestar geti eignast hér áhrif og völd í framtíðinni í okkar annars auðuga landi. Með inngöngunni myndu hinir fáu útvöldu áskotnast mikið fé við að selja auðlindir íslensku þjóðarinar ásamt réttindum til lands og sjávar sem þeir hafa verið að söðla undir sig síðustu misserin geng vilja þorra landsmanna.

Íslenskum útflutningsfyrirtækum er fyrirmunað að stunda sjálfbæran og heilbrigðan atvinnurekstur svo sem í sjávarútvegi og iðnaði. Þau heyja allt að því vonlausa baráttu vegna kvótabraksins og hátt gengis íslensku krónunnar en í staðinn hefur rekstrargrundvelli þeirra verið haldið gangandi með stöðugu flæði af erlendu lánsfé inn í hagkerfið. Gjaldþrot hafa verðið með mesta móti á síðasta ári og sér ekki fyrir endann á þeirri óheilla þróun.

Samtök iðnaðarins hafa staðfest flótta iðnfyrirtækja frá Íslandi. Þreytumerki hafa líka komið fram hjá fyrirtækjum sem framleiða gjaldeyrissparandi vörur fyrir innanlandsmarkað og eru í samkeppni við innfluttar vörur sem eru ódýrari en ella vegna gjaldeyrisútsölunnar.  Samtök iðnaðarins hafa sagt að mörg fyrirtæki væru í rekstri þrátt fyrir að í raun væru þau löngu orðin gjaldþrota. Þar kom einnig fram að Samtök iðnaðarins teldu að full aðild að ESB og upptaka evru væri besta vörnin til að bæta markaðsstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja.

Hér ber að hafa í huga þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES samningnum töldu sömu aðilar að stigið hefði verið eitt stærsta skref til sóknar fyrir atvinnulífið hér á landi. Stundum verður manni á að þekkja ekki muninn á vörn og sókn þegar kemur að framsetningu markaðsmála. Stóra vandamálið í dag er  að það sé ekki hægt að fá meiri lán til að drífa hagkerfið áfram. Á aldrei að greiða upp skuldirnar  bara skuldbreytta þeim endalaust inn í framtíðina  er það markmiðið?

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 29.6.2008 kl. 21:48

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eiginlega ætti þessi athugasemd þín Baldvin að nægja til að slíta þessu fáviskutali um frekara afsal á sjálfstæði þjóðarinnar.

 Nóg er komið.

Við eigum mörg viðfangsefni á "hærra plani" til að fást við. 

Árni Gunnarsson, 29.6.2008 kl. 21:58

13 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Jón þessi fyrrverandi formaður Flokksins hefur nú fengið aðra húsbændur og sem hjú þeirra getur hann tæplega talað gegn ímynduðum hagsmunum en yfirlýstum, Bónusfeðga.

Svo mikið hlýtur að liggja fyrir og þarf varla að fjölyrða mikið um það frekar.

Miðbæjar, þú veist.

Bjarni Kjartansson, 1.7.2008 kl. 15:18

14 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll kæri vinur Jón 

 Mig minnir að þessum formanni hafi verið  hafnað af landsfundi Sjálftæðisflokksins og annar kosinn í hans stað. Alveg án minnar tilstilli þó.  Ég man nú ekki hvort þú varst samhlaupa honum í skoðunum þá frekar en hins sem tók við. Allavega er þér nú heldur í nöp við þinn gamla flokk eftir regeringstíð þess sem við tók Jón minn góður.

En varðandi formanninn fyrrverandi þá bendir  Miðbæjaríhaldið á sstaðreyndir um húsbændur og hjú og varla færi Baugur að láta skrifa á móti skoðunum Jóns Ásgeirs í sitt eigið málgagn, hvað sem prívat skoðunum ritsjórans liði. 

Fréttablaðið er orðið langöflugasti fjölmiðill landsins. Eignarhaldið á því sýnir mér hversu áhrifamikilar skoðanir eiganda slíks miðils geta orðið þegar hann beitir sér. Og hann á 365 Miðla líka. Má ekki benda á Silvíó á Ítalíu sem hliðstæðu ?  

Varðandi muninn að hafa dollar eða Evru eða myntbundna krónu, þá sé ég nú engann mun þar á. Nema við erum frjálsir að því að taka upp dollar ef við viljum en ekki Evru nema við göngum inn. Og það verður ekki meðan við sitjum fastir í kreppusúpunni sem við nú erum fastir í og meirihluti þjóðarinnar vill lækna með fjallagrösum og föndri í leður. Og ef við komumst uppúr henni einhverntíman þá verður krónan ekkert verri en hún var í síðasta góðæri. 

Halldór Jónsson, 1.7.2008 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 705
  • Sl. sólarhring: 902
  • Sl. viku: 3986
  • Frá upphafi: 2448953

Annað

  • Innlit í dag: 669
  • Innlit sl. viku: 3721
  • Gestir í dag: 637
  • IP-tölur í dag: 612

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband