Leita í fréttum mbl.is

Bankakreppa í Danmörku?

roskildebankÞað er með ólíkindum að danskir bankamenn og greiningaraðilar skuli í meir en ár hafa talað um bankakreppu á Íslandi og vandamál íslensks efnahagslífs á meðan vandamálin hrönnuðust upp fyrir augnum á þeim í dönsku þjóðlífi.

Nú hefur Hróarskeldubankinn neyðst til að taka neyðarlán hjá danska Seðlabankanum og fleiri danskir bankar hafa verið í vandamálum. 

Það er alvarlegt að lesa um vandann í dönsku fjármálalífi. Samdráttur, bankakreppa og verðhrun í Danmörku er alvarlegt mál fyrir okkur.  Íslenskir fjárfestar hafa fjárfest mikið í Danmörku og niðursveifla þar mun óhjákvæmilega bitna á okkur og sennilega flestum íslenskum fjármálastofnunum ef svo heldur fram sem horfir.

Af hverju skyldi danskt efnahagslíf sigla svona fljótt inn í vandamál?


mbl.is Eitthvað er rotið í Danaveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Roskildebank er svona álíka stór og sparisjóðurinn á Hellisandi miðað við hina frægu íslensku höfðatölu. En vandamál Roskildebankans er að hann hefur gert út á fasteignalán og hlutabréf ,en hvoru tveggja hefur hrunið hér í landi undanfarið ár.

En það er rétt að það hafa hrannast upp óveðurský í dönsku efnahagslífi,en hér er samt en þá engin kreppa,en hún gæti verið á leiðinni því að mörg stórfyritæki eru rekin með tapi þessa dagana eins og t.d SAS og hið íslenska Sterling sem margir halda að lifi ekki af þessa kreppu.

Nasistinn (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 17:39

2 identicon

Þessi samanburðarumræða öll, og lausnir sem á að grípa til eru með ólíkindum. Nú síðast skauta fram á sviðið félag íslenskra stórkaupmanna, sem vill inngöngu í ESB og það strax. Þetta er hluti af gamla heildsalaveldinu sem lifði í vellystingum á kostnað útgerðarinnar, sem var haldið á núllinu. þegar útgerðin var að hruni komin var gengið fellt til að koma útgerðinni á núllið aftur. Gengisstefnan var miðuð að þörfum stórkaupmanna.

Núna gefur eitthvað á bátinn hjá stórkaupmönnum. þá á bara að henda sjálfstæðri fjármálastefnu og hoppa í djúpu laugina, án þess að vita hvort menn geti synt eða hvort það fylgi kútur með í þessu.

Af hverju gefast menn upp um leið og gefur á bátinn? Það vita allir að Íslendingar hafa lifað um efni fram undanfarin ár. Það er komið að skuldadögum. Núna reynir á menn. Þá er Félag íslenskra stórkaupmanna fyrst að gefast upp. Þetta er nú frekar aumt.

Þeir kalla þetta að "hefja könnunarviðræður". Það vita allir sem hafa kynnt sér málin hvaða kostir eru í boði. Nýjasta og skýrasta dæmið er skattur á allt flug innan ESB. Íslendingar hafa engin tök á að ferðast  milli landa öðruvísi en með flugi. Engin skipt, engar rútur, engar lestar og ekki hægt að ferðast til meginlandsins á bílum. Þrátt fyrir þessa sérstöðu hefur ESB gefið út AÐ ENGAR UNDANÞÁGUR verði gefnar.

Af hverju ætti ESB að gefa út einhverjar undanþágur varðandi fiskveiðar á Íslandsmiðum? Það eru engar líkur á því. Íslendingar þyrftu að gangast undir nákvæmlega sömu skilyrði og aðrar þjóðir, og fengju litlar sem engar undanþágur.

Manni finnst eins og að andstaðan við ESB í N-Evrópu sé að aukast. Danir og Svíar eru að færast frá ESB í þeim könnunum sem hafa verið gerðar undanfarin ár. Næsta víst er að David Cameron verði næsti forsætisráðherra Breta. Allir vita að hann vill halda öllum ESB umsvifum í lágmarki. Írar voru að fella mikilvægan sáttmála, sem setur allt í uppnám í sambandinu.

Á sama tíma og allt þetta er að gerast fara öfl á borð við Stórkaupmenn og sjálfur Framsóknarflokkurinn í einhverja ESB herferð. Maður er alveg steinhættur að skilja framsókn. Fyrir örfáum árum vissu menn þó hvað sá flokkur stóð fyrir. Nú er ekki hægt að fá nokkurn botn í hvað sá flokkur stendur fyrir. Engin furða að hann virðist ætla að vera flokkur með innan við tveggja stafa fylgi.

joi (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 20:59

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Það er alveg rétt að það er alvarlegt mál ef Danir eru að lenda í fjárhagsmótlæti. Þeir hafa greinilega ekki verið að greina réttu aðilana.

Frábært svar frá joi, takk fyrir það.  Ég er hjartalega sammála honum um ESB og þá umræðu en etv spurning hvort Framsókn endi með samlíkingu við Sparisjóð Hellissands en hann er að því ég best veit ekki til. Landsbankinn yfirtók þá starfsemi  fyrir lifandi löngu og þá er spurning hver yfirtæki Framsókn. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 12.7.2008 kl. 21:29

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Komið þið sæl.

Já þetta er banki númer tvö sem fer á hausinn hér í Danmörku á skömmum tíma. Hvorugur þeirra voru þó stórbankar eins og bent er á hér fyrir ofan.

En þetta er þó ofur eðlilegt því það munu fyrst og fremst verða bankar í Evrópu sem munu gjalda fyrir undirmálslánin frá BNA og víðar. Einfaldlega af því að það voru einmitt evrópskir bankar sem fjármögnuðu þessi lán. Evrópumenn voru svona "vitlausir/gáfaðir" að kaupa þessa pappíra.

Já, Danmörk er komin í kreppu. Almenna skilgreiningin á "kreppu" (e. recession) er að hagvöxtur hafi verið neikvæður í samfleytt tvo eða fleiri ársfjórðunga í röð. Nokkuð sama er víst að segja um Portúgal og kanski einnig Írland, ég er samt ekki alveg viss því það hafa komið nokkrar leiðréttingar á tölum þeirra. Ég spái að flest lönd ESB verði komin í kreppu innan skamms. Ég spái einnig að Bandaríkin muni EKKI fara inn í kreppu og ég efast enn sterklega um að Ísland muni ná að falla ofaní kreppu. En ef Ísland mun ná því þá mun hún þó ekki vara lengi sökum hins stóra sveigjanleika í hagkerfi Íslands. En kreppan mun hinsvegar vara lengi hér í ESB eða ca. 6-10 ár. Þegar ESB fer í kreppu þá vita allir að það mun taka heila eilífð að komst út úr henni aftur vegna þess að það er enginn sveigjanleiki og dýnamík í hagkerfum ESB.

Jsyke Bank kom með nýja greiningu á væntingum þeirra til evru sem gjaldmiðils á næstunni. Lausleg þýðing hér:

Gullna hliðið lokast - gengishrun evru yfirvofandi?

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 12.7.2008 kl. 22:59

5 identicon

Viðskipti | mbl.is | 31.1.2008 | 15:53

Danske Bank græddi 193 milljarða

,,Hagnaður Danske Bank á síðasta ári nam 14,8 milljörðum danskra króna, jafnvirði 193 milljarða króna, á síðasta ári. Hefur hagnaðurinn aukist um 10% frá árinu á undan og bankinn reiknar með því að afkoman batni enn á þessu ári. Gengi bréfa bankans hefur hækkað um 3,2% í dag.

Lagt er til að 40% af hagnaði bankans verði greidd út sem arður til hluthafa eða sem svarar til 8,50 danskra króna á hlut.'' 

Langaði að koma með gleðifréttir úr dönsku bankalífi um bankan Danske bank og er sá banki sem ég hef haft mín viðskifti við ef þess hefur þurft með. Danske bank er fimmti öruggasti bankinn í heimi til þess að geyma peninganna sína í segja fræðingar í þeim málaflokki síðast er ég vissi. Þegar þessi hagnaður 193 milljarðar í Íslenskum krónum var reiknaður um síðustu áramót var gengið á dönsku krónunni um 12 krónur íslenskar. Þessi hagnaður ætti því að reiknast í dag miðað við gengið í dag um ca. 270 milljarðar í íslenskum krónum. Þeir í Danske bank segja að þeir eigi von á en betri afkomu á þessu ári svo ef við segum að hún verði 15% miðað við frá áinu í fyrra er talan um næstu áramót væntanlega um 310 milljarðar íslenskar krónur. Er ekki Íslenska hagkerfið að bíða eftir því að ríkisstjórnin taki þetta erlenda lán sem hún hefur heimild til að taka upp á 500 milljarða íslenskra króna þá í evrum ef ég man rétt? Er málið ekki leyst hringja bara í Danske bank hann reddar þessu?

Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ

B.N (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 23:07

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þetta eru gamlar fréttir Baldvin. En já er alveg rétt Baldvin að DDB er álitinn traustur Banki. Fáir efast um það. En rekstrarárangur DDB fyrir ársreikningsárið 2007 var þó 3% undir því sem bankinn náði á rekstrarárinu 2006.

En árin 2006 og 2007 eru ein bestu ár í hagsögu Danmerkur í mjög langann tíma. Það vita þó allir að tímarnir eru breyttir nú. Allt breyttist hér frá og með tilkomu fjármálakreppunnar sem hófst í ágúst 2007. Íslenskir bankar skiluðu einnig glæsilegum árangri fyrir rekstrarárin 2006 og 2007.

Allir vita þó að strax og atvinnuleysi eykst hér í Danmörku þá munu bankarnir blæða því nauðungaruppboð munu margfaldast mjög hratt og þeir eru mjög viðkvæmir fyrir efnahagsástandi heimilanna.

Allir skiluðu inn góðum afkomutölum fyrir rekstrarárin 2006 og 2007. Einnig á Íslandi. En nú mun reyna á þolrifin á ný því uppsveiflan er búin og Danmörk er komin í kreppu - á undan Íslandi.

Gunnar Rögnvaldsson, 13.7.2008 kl. 00:01

7 identicon

Sæll Gunnar og takk fyrir síðast

Já mikið rétt þú segir að íslensku bankarnir hafi líka gert það gott árin 2006 og 2007. En voru það ekki bara íslenskir peningar sem bankarnir á Íslandi settu í skúffurnar sínar þegar þeir voru búnir að telja Matador gróðan? Það tel ég a.m.k og þess vegna bólar ekkert á þessum 500 milljörðum inn í hagkerfið sem ríkisstjórnin á Íslandi hefur heimild til að taka að láni erlendis sem allt of margir eru að bíða eftir að þeir geri. Þegar það gerist að lánið verður tekið kæmi það mér ekkert á óvart að það yrði gert til þess að ríkið tæki bankanna aftur yfir ef þeir lenda í greiðluþrot að greiða erlendu lánin sín til baka lán sem verður að greiða með erlendri viðurkenndri mynt í alþjóðarviðskiftum.

Íslenska krónan er aldrei sterkari en hagkerfið leyfir og að styrkja hana endalaust með erlendri lántöku gengur ekki endalaust upp því miður það höfum við gert allt of lengi og líka allan þann tíma sem heil þjóð taldi að góðæri væri í landinu sínu góðæri sem var bara í raun loftbóla sem var yfirveðsett án þess að það væri til innistæða fyrir henni.

ESB aðildarumræðan eins og hún hefur verið og er í dag hér á landi er vottorð um algjöra örvæntingu Íslenskra stjórnmálamanna sem ráða ekkert við ástandið sem er ekki furða þeir kunna bara að taka lán sem eru ekki núna í boði bara með því að smella fingri 

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 11:12

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka ykkur fyrir góðar og upplýsandi athugasedmir. 

Ég tek ekki undir það að ESB umræðan sé dæmi um örvæntingu íslenskra stjórnmálamanna. Það eru aðrir aðilar sem hafa rekið þau mál af meiri örvæntingu en stjórnmálamenn. Vandinn er e.t.v. sá að stjórnmálaflokkarnir hafa ekki farið í neina alvöru greiningu á því hvað geti unnist og hvað tapast við aðild að ESB.  Það má öllum vera ljóst að það eru ákveðnir hlutir jákvæðir við að vera í ESB og aðrir neikvæðir. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir alla að muna að við eigum ekki og megum ekki gera breytingar til lengri eða skemmri tíma nema bæði langtíma- og skammtíma hagsmunir þjóðarinnar séu ávallt það sem verður látið ráða úrslitum um hvert við ákveðum að fara.

Jón Magnússon, 13.7.2008 kl. 16:22

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Jón. ESB umræðan eins og hún er núna ber í sér örvæntingarkeim ég tek undir það og ekki bara stjórnmálamanna heldur banka og stórkaupmanna auk nokkurra einstaklinga sem hafa steypt sér í skuldir og hugsa ekki lengra fram í tímann en milli gjalddaga. Hvað á að skoða? Ég held að við töpum sjálfstæðinu og ég bara spyr er eitthvað verðmætara en það? kveðja til þín Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.7.2008 kl. 20:42

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Alveg sammála. Þetta er örvæntingin frá hita leiksins. Menn ættu að taka sér frí frá störfum í smá tíma áður en þeir gera eitthvað sem þeir munu sjá eftir um aldur og æfi margra komandi kynslóða. Þetta eru einfaldlega RÖNG vinnubrögð. Dead wrong!

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 675
  • Sl. sólarhring: 925
  • Sl. viku: 6411
  • Frá upphafi: 2473081

Annað

  • Innlit í dag: 612
  • Innlit sl. viku: 5840
  • Gestir í dag: 587
  • IP-tölur í dag: 574

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband