Leita í fréttum mbl.is

Hverjir bera ábyrgð á efnahagshruninu

Sú saga er sögð af þekktasta rannsóknarlögreglumanni allra tíma Sherlock Holmes að hann og Dr. Watson læknir vinur hans hafi einu sinni farið í útilegu og þar sem þeir eru í útilegunni að nóttu til snýr Holmes sér að félaga sínum og segir  “Segðu mér kæri vinur hvað þú sérð.”  Watson læknir lítur í kring um sig og upp fyrir sig þar sem hann liggur í svefnpokanum og segir “Ég sé milljónir af stjörnum.”  “Hvað segir það þér” spyr Sherlock Holmes. Watson læknir hugsar sig um og segir síðan. “Það segir mér að það séu milljónir sólkerfa og pláneta. Að Guð sé almáttugur og við erum  eins og sandkorn á ægistórri strönd.”  Þú ert nú meira fíflið Watson” sagði Sherlock Holmes þá við vin sinn. “Það segir þér ekkert annað en að það er búið að stela tjaldinu okkar.” Af sjálfu leiðir að Watson læknir hefði ekki getað séð upp í óravíddir geimsins þegar tjaldhimininn var yfir og honum átti strax að vera ljóst af hverju hann gat séð upp í himininn en hann fór á annað hugarflug sem hafði lítið með raunveruleikann að gera.  

Að mörgu leyti hefur mér fundist hinum innan sviga dáðríku fjölmiðlamönnunum og þeim svokölluðu sérfræðingum sem þeir hafa kallað til að fjalla um ástand þjóðmála hafa farnast eins og Watson lækni þegar þeir hafa fjallað um efnahagshrunið og ástæður þess að bankarnir hrundu. Aftur og aftur er klifað á því að efnahagshrunið stafi af því að ákveðnir stjórnmálamenn, stjórnmálaflokkar, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi ekki staðið sig sem skildi. Því hefur jafnvel verið lætt inn að þetta sé að kenna gjörspilltum stjórnmálamönnum. En er það þannig vaxið?

Var ekki tjaldinu einfaldlega stolið og fjölmiðlamennirnir og stjórnmálafræðingarnir varast að benda á þjófinn eða þjófana. Reynt er að gera þá ábyrga sem var stolið frá og sagt að þeir hafi ekki læst útidyrunum nógu og vel eða verið of seinir til að slökkva þá ofurelda sem höfðu verið kveiktir.

Enginn minnist hins vegar á brennuvargana. Einn þingmaður vinur minn Ellert B. Schram orðaði það þannig í umræðum um stjórnarskrána á fimmtudaginn að kerfishrunið væri Sjálfstæðisflokknum að kenna.  

Er það svo að bankahrunið hafi verið Sjálfstæðisflokknum að kenna? Er það svo að spilltir stjórnmálamenn hafi valdið því að bankarnir féllu. Var það vegna aðgerða Seðlabankans eða þess að Fjármálaeftirlitið sinnti ekki verkum sínum? Var samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar vanhæf og ber hún ábyrgðina eða er þetta e.t.v. afleiðing af rangri stjórnarstefnu undanfarinna ára og áratugs? 

Í umræðunni í fjölmiðlum og í þeim sérkennilega þætti Egils Helgasonar “Silfur Egils” eins og hann hefur þróast í vetur þá hefur ekki verið annað að skilja en að það séu stjórnmálamenn og  Seðlabankinn vegna þess að þar var lögfræðingur einn þriggja bankastjóra og Fjármálaeftirlitið sem í raun beri höfuðábyrgð á bankahruninu. En hafa verið færð einhver skynsamleg rök fyrir þessum staðhæfingum?

Eru þessar orðræður eitthvað annað en orð grunnhygginna fréttamanna og svokallaðra sérfræðinga sem reyna að slá pólitískar keilur, eða vita ef til vill ekki betur og nenna ekki að kynna sér staðreyndir en láta samt eins og þeir séu sérfræðingar. Mér finnst þessu fólki sem fer fram með þessa sleggjudóma farast eins og Watson lækni það sér ekki það einfalda í málinu. Tjaldinu var stolið.   

Hvaða einstaklingur hefur með fyrirtæki að gera sem skulda hundrað eða hundruði milljarða í öllum föllnu bönkunum. Mun hærri fjárhæð en svokallaðar Icesave ábyrgðir. Það er helsti ráðamaður Baugs. Skuldir Baugs og tengdra félaga við íslenskar banka- og lánastofnanir sem ekki fást greiddar nema tæpum þúsund milljörðum króna. Liggur þá ekki fyrir hver stal tjaldinu?

En af hverju tala fjölmiðlafræðingarnir ekki um Stjórnendur Baugs, Bakkavarar, FL Group/Stoðir og slíkra aðila. Það voru þeir sem stálu tjaldinu. Af hverju tala menn ekki um það með hvaða hætti lánastarfsemi bankanna var. Af hverju veitt voru hundraða milljarða lán sem engar tryggingar voru fyrir og engin vitræn glóra var að lána. Lán sem jafnvel voru andstæð öllum lánareglum.   

Þessir aðilar bera ábyrgðina á efnahagshruninu. Vondir bankamenn sem fylgdu ekki eðlilegum reglum í lánastarfsemi og vondir fjárfestar sem fjárfestu með glórulausum hætti. Ég hef í heiðri þá meginreglu siðaðs þjóðfélags að hver maður skuli talinn saklaus þar til sekt hans sé sönnuð. Þess vegna ætla ég ekki að kveða upp dóma á þessu stigi yfir einstaklingum en það er hins vegar alveg ljóst að það hefur verið farið á svig við bókhaldsreglur, lánareglur og ekki verður annað séð en um margháttaða svikastarfsemi hafi verið að ræða. Þeir sem það stunduðu bera á því ábyrgð og munu þurfa að svara til saka í fyllingu tímans. Það verða aðrir menn en stjórnmálamenn fyrrverandi Seðlabankastjórar eða stjórnarformaður og forstjóri Fjármálaeftirlitsins sem það þurfa að gera. Það verða þeir sem stálu tjaldinu og það er sorglegt að helstu álitsgjafar íslensks samfélags skuli stöðugt klifa á því að það séu einhverjir aðrir en þeir sem svo augljóslega bera ábyrgð á því.  

Ég spyr aftur. Hvernig stendur á því að fjölmiðlamennirnir og aðrir spekingar skuli ekki horfa á staðreyndir varðandi bankahrunið og kalla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð. Þá sem stálu tjaldinu.  

Ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á efnahagshruninu? Ég svaraði vini mínum Ellert B. Schram á Alþingi sama dag og hann flutti sína ræðu og benti honum á að það væri gjörsamlega fráleitt að halda því fram að einhver stjórnmálaflokkur bæri ábyrgð á efnahagshruninu. Að halda því fram að það sé Sjálfstæðisflokkurinn eins og Ellert gerði er fráleitt enda þarf hann þá að finna þeim orðum sínum eðlilegan stað sem hann hefur ekki gert. Vissulega brá mönnum í vetur þegar bankahrunið varð og vafalaust eru margir alsaklausir sem kenna sjálfum sér um.

Geir H. Haarde fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í setningarræðu á Landsfundi að hann bæðist afsökunar á því að þegar bankarnir voru seldir hafi ekki verið dreift eignarhald á þeim. En hefði það nokkru breytt. Hefði bankahrunið ekki orðið þrátt fyrir það.  Ég held því fram að það hafi engu skipt þó að ríkið hefði staðið að sölu bankanna með öðrum hætti en gert var. Jafnvel þó að almenningshlutafélag hefði verið stofnað um Landsbankann eða Kaupþing eða báða.

Við skulum í því sambandi skoða hvernig fór með almenningshlutafélagið Baug. Stoðaði þar að hafa dreifða eignaraðild? Nei svo sannarlega ekki. Með fullri virðingu fyrir Geir H. Haarde og þessari afsökunarbeiðni hans þá gildir hún ekki um bankahrunið og hefur ekkert með það að gera. Ég skal hins vegar taka undir með honum að það hefði verið betra að standa með öðrum hætti að einkavæðingu bankanna. 

En hvað þá með fyrirtæki eins og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Það var heldur betur dreifð eignaraðild þar. Breytti það einhverju um lánastefnu Sparisjóðsins eða gengisleysi hans? Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var fyrir nokkru ein allra traustasta fjármálastofnun landsins. Stjórnendur SPRON tóku sömu helsóttina og bankamenn stóru viðskiptabankanna og dreifða eignaraðildin skipti ekki neinu máli. Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur ber enga ábyrgð á bankahruninu. Flokkurinn sem slíkur eða stefna hans hafði ekkert með það að gera.

Bankahrunið varð vegna þess að markaðslögmálunum var ekki fylgt og fjölþjóðlegar reglur voru notaðar til að varpa þeirri ábyrgð sem einstaklingar eiga að bera á eigin rekstri yfir á samfélagið. Ábyrgð stjórnenda banka og annarra fjármálafyrirtækja var ekki með þeim hætti sem hún á að vera. Það er alþjóðlegt vandamál og þess vegna er bankakreppan ekki séríslensk heldur alþjóðleg.

Sjálfstæðisflokkurinn ber ekki ábyrgð á bankahruni í Írlandi, Englandi, Bandaríkjunum eða Ungverjalandi svo nokkur lönd séu nefnd. Í öllum þessum löndum hafa stærstu fjármálastofnanirnar fallið og ríkisvaldið hefur þurft að grípa inn í með ærnum tilkostnaði. Þeir sem halda því fram að bankahrunið verði að einhverju leyti eða öllu rakið til Sjálfstæðisflokksins verða þá að finna þeim orðum sínum stað.  Sú orðræða hefur farið fram í nákvæmlega hálft ár í dag.

Í dag er hálft ár liðið frá því að bankahrunið varð. Ekki einn einasti álitsfræðingur eða fjölmiðlamaður hefur fært nokkur gild rök að því að bankahrunið sé Sjálfstæðisflokknum eða einstökum forustumönnum hans að kenna. Þetta eru einfaldlega innantóm orð og rangar staðhæfingar. Það er með ólíkindum að þeir vinstri menn sem halda því fram að bankahrunið sé Sjálfstæðisflokknum að kenna skuli draga jafn rangar ályktanir og þeir gera af þeim gefnu forsendum sem fyrir hendi eru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Jón

Þú setur fram spurninguna: „Ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á efnahagshruninu?“

Og svarar henni neitandi sýnist mér.

Þetta er sama niðurstaða og kom fram áður þegar sjálfstæðismenn sögðu að það var fólkið sem brást en ekki flokkurinn. Ekkert nýtt í þessu. En margt af þessu fólki er í Sjálfstæðisflokknum, gott ef ekki vel flestir. Fólk út um allt - í stofnunum, fyrirtækjum, hér heima og erlendis.

Þú bendir á Baugsmenn sem „stálu tjaldinu“ og það er rétt svo langt sem það nær.

Stór hluti af vandamáli okkar er samt sú staðreynd að ríkisbankarnir voru seldir til einkaaðila, en með ábyrgð þjóðarinnar. Eins og stendur í skýrslu Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins:: „Almenningi var ekki gerð grein fyrir þeim möguleika að ábyrgð á hundruðum milljarða króna, í formi innstæðna í Bretlandi, lægi hjá íslenska ríkinu. Segja má að stjórnvöld í heild, ráðuneytin sem og stofnanir þeirra hafi verið sofandi í þessu máli.“ „Stjórnvöld sögðu almenningi að engin ríkisábyrgðværi á bönkunum, ef svo hefði verið hefðu bankarnir verið seldir á hærra verði. Ríkisábyrgðin reyndist hins vegar fylgja“

En Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði á ársfundi Seðlabankans 26. mars 2008: „Rétt er að athuga að bankar hér sem annars staðar reka starfsemi sína á eigin ábyrgð“. Þessi maður er ekki Sjálfstæðisflokknum óviðkomandi.

Pólitísk ábyrgð á einkavæðingu bankanna er hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Eigum við ekki þá að segja að Sjálfstæðisflokkurinn beri töluverða ábyrgð á efnahagshruninu?

Hjálmtýr V Heiðdal, 7.4.2009 kl. 09:56

2 identicon

Blaðamenn og svokölluðu (alvitru) álitsgjafar hér á landi sem reyndar er offramboð á, hafa ekki í heiðri þá grundvallarreglu sem Ari Fróði setti fram um "að hafa beri það sem sannara reynist".

Í dag gildir það hjá álitsgjöfum að "hafa skuli það sem betur hljómar"

Hjá blaðamönnum gildir það að "hafa beri það sem best selur".

Reyndar eru allt of margir blaðamenn hér á landi mjög lítið gagngrýnir.  Þeir spyrja t.d. aldrei áleitinna spurninga, né biðja viðmælendur sín að útskýra það sem þeir hafa fram að færa.  Þess í stað eru flest öll viðtöl einskonar drottningarviðtöl og viðtalsþættir, þar sem viðmælendur geta frjálst sagt það sem þeim sýnist.

Pálmar Þorkelsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 10:51

3 Smámynd: FrizziFretnagli

Jón, þú getur ekki neitð því að hér hefur allt farið á versta veg.  Ekkert sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde gerði, var til þess fallið að breyta einu eða neinu þar um.   Bankarnir hrundu, krónan er fallin og mun halda áfram að veikjast og ónýtast enn frekar á næstu misserum.  Efnahagslífið stefnir í glötun og fjöldi fyrirtækja hér stefnir í gjaldþrot.  Ríksstjórn Geirs H. Haarde skildi mjög illa við.  Þú ert að reyna að setja á svið einhvern 'hvítþvott' fyrir flokkinn, sem þú ert nýgenginn í aftur.  Ég sem fyrrverandi kjósandi þessa flokks, er nú bara hneykslaður á því hvernig þú reynir að verja þessa skussa, sem hafa kafsiglt þjóðfélaginu.  Þessi flokkur hefur enga stefnu, ekkert fram að færa í gjaldeyrismálum, né neinu öðru. 

FrizziFretnagli, 7.4.2009 kl. 11:02

4 identicon

Sæll Jón,

mér finnst þú nú falla í sömu gryfju og Watson.  Þú sérð að hrunið varð af sökum bankamanna og annarra fjárglæframanna en ekki að koma hefði mátt í veg fyrir margt af þessu með réttu eftirliti stofnana eins og FME og nú er komið í ljós að Seðlabankinn var að veita lán út á handónýt veð fyrir hundruðir milljarða.  Það segir sig sjálft að ef bankamaður hefur ekki hundruðir milljarða úr að spila sem hann fékk með ónýtum veðum, hefði hann aldrei getað valdið tjóni með þessum sömu peningum, sem hann hefði þá aldrei fengið.

Það er líka í ljós leitt og viðurkennt að FME var einna helst til að styðja við bakið á bönkum og hjálpa þeim í útrásinni, t.d. með traustsyfirlýsingum, en alls ekki sú lögregla gagnvart þeim sem það átti að vera.  Það er viðurkennt nú og þarf ekki að deila um.  Það er líka viðurkennt að efnahagsbrotadeild lögr.stjóra var og er alltof fáliðuð og mörg ár eru síðan Helgi Magnús benti á það í stóru blaðaviðtali að hann þyrfti að fá fjölda sérfræðinga til sín í deildina, ekki bara lögfræðinga heldur endurskoðendur, viðskipta- og hagfræðinga.  Efnahagsbrot eru jú þess eðlis að ekkert þýðir fyrir venjulegan lögfræðing eða rannsóknarlögreglumann að reyna að fletta ofan af flóknu bókhalds- og/eða lánveitinga- krosseignatengslasvindli, uppblásun bókhalds ofl. .  Það er líka í ljós leitt að Skattstjóri var fyrir mörgum árum byrjaður að ýta eftir lagabreytingu svo íslensk félög og einstaklingar gætu ekki komið fé undan í skattaskjól.  Það segir sig sjálft að hefði verið komið í veg fyrir slíkt, hefðu menn aldrei haft neinn hvata til koma fé þangað, sem og að skatturinn hefði fengið sinn hluta af þessu.  Löggjafinn allan þennan tíma var Sjálfstæðisflokkurinn (með hækjum).  Það stoðar því lítt að segja að gerendurnir sem nýttu sér þetta, löglega, beri sökina.  Þá ertu kominn á sama stað og Watson.

Ef eftirlit hefði verið verið fullnægjandi á þeim stað sem Sherlock og Watson misstu tjaldhimininn, hefði honum aldrei verið stolið.  Sem lögmaður veistu mæta vel að þar sem krafa er gerð um eftirlit stjórnvalda og löggjöf þar um, verður stjórnvald líka talið bera ábyrgð á atburðum sem hefði mátt koma í veg fyrir, hefði rétt verið staðið að málum.  Dæmi um slíkt gæti verið að í lögum stæði að lögregla ætti að hafa eftirlit með tilteknum skemmtistöðum.  Lögregla myndi svo ekki gera það, eða gera það mjög illa, en síðan kæmi í ljós að unglingar hefðu verið tíðir gestir á staðnum og þeim selt áfengi, eiturlyf og jafnvel vændi.

Þá eru það auðvitað gerendurnir sem eru fyrst og fremst sekir, auðvitað en ábyrgð lögreglunnar (stjórnvalda) væri mjög mikil og auðvitað mætti réttilega kenna lögreglu líka um hvernig fór því þetta hefði líklega ekki gerst ef eftirlitsskyldu hefði verið fullnægt, sérstaklega eftir að ítrekaðar sögusagnir voru farnar að berast um hvað var á seyði.

Það er þetta sem fólk á við þegar það kennir þeim stjórnmálaflokki sem hér stjórnaði í 18 ár um hvernig komið er, líka.  Ekki að þeir séu frumgerendur.  Þú snýrð líka út úr þegar þú segir að ,,sérkennilegir" þættir eins og Silfur Egils og aðrir kenni bara Sjálfstæðisflokknum um.  Það er af og frá.  Hefur þú ekki fylgst með?  Hefur sú mikla og harða krafa samfélagsins þess efnis að frumgerendur verði látnir sæta refsingar alveg farið fram hjá þér?  Að eignir þeirra verði frystar og síðar teknar.

Samfélagið, fjölmiðlar og Egill eru alveg fullkomlega upplýstir um hver er hinn beini gerandi.  Það er líka merkilegt að sjá þig tala svona í ljósi þess að þú ert talsmaður þess að fella ekki dóma yfir einstaklingum fyrr en sekt sannast, og átt þar við að samfélagið sé að ganga of langt þegar það krefst þess að nafngreindir einstaklingar verði settir bakvið lás og slá.  Samfélagið væri nú varla að krefjast þess og þú varla að verja það, ef menn teldu þetta bara Sjálfstæðisflokknum að kenna, er það?

Það er líka stórmerkilegt að sjá þig mæra Geir Haarde og segja Sjálfstæðisflokkinn ENGA ábyrgð bera á þessu ástandi.  Þú ert nýbúinn að vera hinu megin við borðið, hraunandi yfir Sjálfstæðismenn á þingi, finnandi þeim flest til foráttu.  Þarna missir þú allan trúverðugleika og nokkuð ljóst að þú talar bara eins og vindurinn blæs fyrir þig í það og það skiptið.  Þú ert ekki á þingi af neinni hugsjón, þú ert dæmigerður atvinnupólitíkus.  Flokkurinn og þingsætið skipta öllu máli, málefnin fyrir fólkið sem þú situr í þess umboði, skipta þig engu máli.

Það er því lítið að marka það sem þú segir varðandi þetta meinta ábyrgðarleysi S.flokksins.

Kveðja, S.H.

S.H. (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 12:19

5 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Nei, ég leyfi mér að efast um að Sjallarnir beri ábyrgð á hruninu alþjóðlega, enþeir voru nú ekki mikið að koma í veg fyrir það hérna og ég efast um að við hefðum hrunið jafn snemma og raun bar vitni ef ekki hefði verið fyrir tæpa tvo áratugi af Sjöllum í stjórn...

 ...núna munum við sjá farið með aðrar auðlindir okkar fara sama veg og fiskinn, í hendur einkaaðila þar sem þær eru ekki í þágu þjóðarinnar og verð á orku og vatni þýtur uppúr öllu og við verðum neydd skríðandi í ESB þar sem við missum allan sjálfsákvörðunarrétt, sem kemur þó ekki til með að skipta máli því á meðan við verðum ennþá að greiða IMF höfum við ekkert til þess að taka ákvarðanir um.

Þannig að Sjallarnir mega alveg breyta nafninu í Oligarcha og heimsvaldaáskriftarflokkurinn því hann hefur ekkert með sjálfstæði að gera lengur...

...ekki það að Samfokið, vinstri sauðgripir, mið sauðgripir, hægri sauðgripir eða andkvótahvalaflokkurinn séu neitt skárri.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 7.4.2009 kl. 12:37

6 Smámynd: FrizziFretnagli

Jón, þú hlýtur að viðurkenna að allt fór á versta veg á síðasta ári, hvað efnahagslíf íslands viðkemur.  Ríkisstjórn Geirs H. Haarde tókst ekki að bregðast á neinn hátt við því sem skall á landinu.  Stórsveit sjálfstæðismanna, með Geir H. Haarde í brúnni sigldu gjörsamlega meðvitundarlausir að feigðarósi.  Það eru engar afsakanir til fyrir þessari kollsteypu.  Að segja að menn beri ekki ábyrgð, er ekki mjög málefnalegt.

FrizziFretnagli, 7.4.2009 kl. 13:46

7 identicon

Ef þú ræður vaktmann, einsog til dæmis fjármálaeftirlitið, til að gæta eigna þinna, þá myndi þér ekki vera skemmt ef þú kæmir að honum sofandi og eignirnar horfnar.

Það leysir þjófinn ekki úr sök, en sök eins útilokar ekki sök annars.

En þér rennur blóðið til skyldunnar og það ber að virða.

Doddi D (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 22:46

8 identicon

Sæll Nafni

Ég verð að segja það að ég er sammála því sem þú segir. Ég er einn af þeim íslendingum sem líður eins og það hafi verið brotist inn hjá mér og öllu steini léttara stolið frá mér (sennilega íbúðinni sjálfri líka á endanum) Þó að löggan (stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið, seðlabankinn) hafi verið steinsofandi úti í bíl í innkeyrslunni á meðan innbrotsþjófarnir (Útrásarvíkingarnir) hreinsuðu út úr íbúðinni hjá mér, þá er glæpurinn innbrotsþjófunum að kenna, þó ég sé eðlilega ekki ánægður með lögguna sem svaf úti á plani.

Nú er staðan þannig að mér finnst ekki hægt að kjósa sjálfstæðisflokkinn eftir þessar ófarir, en ég vil heldur ekki vinstri stjórn. En ég hefði viljað sjá fleiri eins og þig við stýrið þ.e.a.s menn með vit í hausnum. Mikið væri gott að henda þessu flokkakerfi á haugana, þannig að hægt væri að kjósa einstaklinga.

Jón (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 220
  • Sl. sólarhring: 502
  • Sl. viku: 4436
  • Frá upphafi: 2450134

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband