Leita í fréttum mbl.is

Nýtt Þjóðleikhús

þjoðleikhusið.jpg.Á forsíðu Fréttablaðsins er sagt frá því að Þjóðleikhúsið sé að hruni komið auk þess sem tækjabúnaður sé gamall úreltur og jafnvel hættulegur. Þá sé vinnuaðstaða ófullnægjandi og brunavörnum verulega áfátt.

Ekki er svo ýkja langt síðan kostnaðarsömum viðgerðum og endurbótum lauk á Þjóðleikhúsinu. Nú þarf marga milljarða í viðbót. Mér er ljóst að margir hafa viðkvæmar taugar til gamalla bygginga. Þjóðleikhúsið er þó ekki eldra en 59 ára sem telst ekki mikið þegar um hús er að ræða. 

Ég tel mikilvægt að búa íslenskri leiklist góð skilyrði. Spurningin er þá hvernig á að gera það. 

Er skynsamlegt að endurbyggja Þjóðleikhúsið?

Er e.t.v. skynsamlegt að skoða möguleika á samvinnu við Borgarleikhúsið?

Væri hugsanlega mesta þjóðráðíð að setja þá fjármuni sem ella færu í endurbyggingu og viðhald Þjóðleikhúss í músikhúsið við höfnina og gera það að  Þjóðleikhúsi?

Ég er hræddur um óháð því hvaða tilfinningar fólk ber til Þjóðleikhúsbyggingarninar að það borgi sig ekki að halda áfram að tjasla upp á það. Aðrar lausnir séu líklegri til að hlúa að og örva gott og nútímalegt leiklistarstarf  og listastarf í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón Magnússon:

Ég ætla mér að vera ósammála þér í þessum máli og þótt ég þykist vita að þú sért ekki í hópi þeirra sem algjörlega eru að fara á taugum út af þeim tímabundnu erfiðleikum, finnst mér margir vilja spara á röngum stöðum. 

Mér sýnist margir vilja íslenskt menningarlíf feigt og líti á það sem óþarfa á tímum sem þessum. Margir  tala á þeim nótum að hér eigi helst að brjóta niður nýja tónlistarhúsið, reka sinfóníuna, loka Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Óperunni, Þjóðminjasafninu og öllum listasöfnum, breyta landinu í menningarlegu eyðimörk.

Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum fá falleg gömul hús og Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið og aðalbygging Háskóla Íslands eru dæmi um þau hús, sem byggð voru þegar þjóðin hafði mjög lítið fé á milli handanna. Þessi hús á að varðveita og gera upp á myndarlegan hátt, jafnvel þótt það taki nokkur ár eða áratug. Það hefði líka verið hægt að rífa Þjóðmenningarhúsið, en ég held að enginn aðhyllist það í dag.

Við Íslendingar munum rísa aftur upp úr þeirri kreppu, sem núna ríður yfir landið og þá horfa stolt á þessar byggingar og nýtt glæsilegt tónlistarhús.

Það er líf í kreppunni og á eftir kreppuna! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 11:56

2 Smámynd: Jón Magnússon

Við erum í grunninn sammála Guðbjörn. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort að Þjóðleikhúsið sé byggt þannig að það geti gegnt nauðsynlegu hlutverki sem  umgjörð um nútíma leikhúslíf.  Ég er líka sammála þér með þær byggingar sem þú nefndir en við skulum ekki gleyma því að Þjóðmenningarhúsið var ekki byggt sem Þjóðmenningarhús. Það gegndi öðru hlutverki þangað til nauðsynlegt var að svara kalli tímans hvað þá starfsemi varðr sem þar var hýst.

Þannig getur Þjóðleikhúsbyggingin áfram gegnt mikilvægu hlutverki ef það hentar ekki lengur að vera þar með nútímaleikhús. Ég er hins vegar ekki að fullyrða að svo sé. Eingöngu að velta hlutunum fyrir mér. 

Við erum sammála Guðbjörn um mikilvægi góðs og öflugs leikhúslífs og það er þess vegna sem ég setti þessar hugleiðingar fram.

Jón Magnússon, 13.6.2009 kl. 13:21

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Jón:

Já, ég gat mér nú til að við værum sammála í þessu máli líkt og í svo mörgum öðrum!

Þar sem vann í 11 ár í leikhúsi þekki ég aðeins til mála. Víða í Þýskalandi og Austurríki hafa mörg hundruð ára gömul leikhús verið tekin til annarra nota og nýtískulegri verið tekin í notkun, m.a. vegna breyttrar sviðstækni og af því að þau voru of lítil. Sum þeirra voru hönnuð til að þjóna sem hirðleikhús og þurftu því ekki að vera mjög stór.

Ég - og margir fleiri sem þekkja vel til - eru þeirrar skoðunar að nýja tónlistarhúsið sé allt of stórt. Íslenska óperan er hins vegar of lítil og ég held að Þjóðleikhúsið sé í raun af ágætis stærðargráðu. Óperuhús eru alltaf stærri en leikhús og er það m.a. vegna þess að fleiri áhorfendur þarf til að sýningin beri sig betur. Leikhhússýningar eru ódýrari, engin hljómsveit, kór eða ballett. þegar um sinfóníutónleika er að ræða eru þeir yfirleitt fluttir einu sinni og fjöldi gesta meiri en á leiksýningar eða jafnvel á óperu.

Að mínu mati var það tónlistarhús sem ákveðið var að byggja með allt of stórum sal, allt of dýrt og hreinlega um bruðl að ræða. Ég er ekki að sjá að hljómsveitin eða óperan nái að fylla 1800 sæti kvöld eftir kvöld. Hér er um sal að ræða sem myndi duga 2 milljóna borg en ekki 210.000 manna höfuðborgarsvæði (ég tel Suðurnesin með).

Ég tek það fram að við Gunnar bróðir minn, Kristinn Sigmundsson og fleiri vorum frá upphafi þeirrar skoðunar að óperan ætti að vera þarna inni. Að byggja sér óperuhús í Kópavogi var ekki aðeins "2007" árið 2009, heldur einnig árið 2006-2008.

Við höguðum okkur þarna líkt og annarsstaðar eins og fífl, en það verður ekki aftur snúið og nú verður við að klára þetta ferlíki og eflaust verðum við mjög stolt einhvertíma í framtíðinni að hafa látið verða af þessu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.6.2009 kl. 14:36

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Jón, var þetta hús ekki lengi á ábyrgð dæmda samflokksmannsins þíns?

Hvað fékk byggingarnefndin mikið borgað fyrir að koma þessu húsí í þetta ástand?

Haukur Nikulásson, 13.6.2009 kl. 17:15

5 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

   Mig langar bara að benda þér á Jón, að Þjóðleikhúsbyggingin er mun eldri en Þjóðleikhúsið.

   Fyrsta skóflustungan af Þjóðleikhúsbyggingunni var tekin 1926, og grunnurinn og kjallarinn var steyptur 1928, síðan þegar kreppan kom í kringum 1930, þá lá grunnurinn/kjallarinn opinn fyrir veðri og vindum, öll kreppuárin. 

   Í lok kreppunnar var hafist handa á ný, og útveggir og burðarveggir steyptir upp,  þá kom stríð,  og Þjóðleikhúsbyggingin var notuð sem birgðageymsla fyrir Breska herinn og síðar þann Bandaríksa, ásamt því að kjallarinn var notaður sem loftvarnarbyrgi.  Og byggingin stóð þessvega opinn fyrir veðri og vindum, öll stríðsárin. 

   Ef það hefði verið haldið áfram við byggingu Þjóðleikhússins 1930 þegar kreppan skall á, og henni lokað,  þá væri ekki svona illa komið fyrir Þjóðleikhúsbyggingunni eins og nú er.   Þar munar um að byggingin stóð uppsteypt en opin, öll stríðsárin. 

  Eitt að lokum: Skýrslan er nú ekki ný, (2006) svo það er búið að gera vð stóran hluta þeirra viðgerða sem þarna eru nefndir,  eins og þú getur reyndar séð,  og sagt er frá í greininni.

Að öðru leiti tek ég undir skrif Guðbjörns Guðbjörnssonar.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 13.6.2009 kl. 20:09

6 identicon

Þjóðleikhúsið er mikilvægur þáttur í byggingar- og menningarsögu okkar. Byggingin er merkileg fyrir nokkurra hluta sakir. En það kemur ekki í veg fyrir að fara megi skynsemisleiðina varðandi stofnunina sem það hýsir. Það er, að teikna upp og ljósmynda húsið, skrásetja vandlega tilurð þess og sögu, byggja af því líkan...og rífa húsið sjálft. Flytja starfsemina í tónlistarhúsið. Skynsemin verður að ráða og hagkvæmnin öðru fremur. Við erum lítil og bláfátæk þjóð.

Svo vil ég sjá torg í stað hússins, með veglegum gosbrunni og aðstöðu fyrir almenning allan - líka þann hlutann sem ekki sækir leikhús.

Fimmta valdið (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 20:23

7 identicon

Það var eitt eða tvennt í þessari frétt (ef frétt skyldi kalla) sem ég hjó eftir.  Annarsvegar er skýrslan sem fjallað er um þriggja ára gömul.  Hins vegar kemur fram í fréttinni að miklar skemmdir séu á múrhúð hússins.  Kannski er ég svona vitlaus en var ekki einmitt gert við múrhúð hússins fyrir einum eða tveimur árum?  Hefði nú ekki verið tilvalið fyrir þennan blessaðan blaðamann að hafa samband við Tinnu Gunnlaugsdóttir og hreinlega spyrja hvort eitthvað hafi verið gert til að bæta ástand byggingarinnar?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 21:20

8 Smámynd: Jón Magnússon

Haukur það sem máli skiptir í þessu er að það var eytt miklum peningum í húsið fyrir nokkrum árum og þú þekkir þá sögu sennilega betur en ég og þú getur þá sennilega upplýst mig líka um það hvaða þóknun nefndarmenn fengu og hvað miklu var eytt í endurnýjun og viðgerðir hússins á þeim tíma. 

Jón Magnússon, 13.6.2009 kl. 21:46

9 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þetta Lilja Guðrún, það er alveg rétt hjá þér að byggingin er mun eldri en Þjóðleikhúsið. Það mun hafa verið Jónas frá Hriflu sem í ráðherratíð sinni á þeim tíma lét Guðjón Samúelsson vin sinn fara að teikna húsið á þeim stað þar sem það er án þess að láta samráðherra sína vita. Frá því segir Jónas sjálfur í einni bóka sinna.

Þakka þér síðan fyrir að vekja athygli á því sem fór fram hjá mér í fréttinni að búið væri að gera við hluta af því sem talað er um í fréttinnin.

Jón Magnússon, 13.6.2009 kl. 21:49

10 Smámynd: Jón Magnússon

H.T. Bj. þetta er nákvæmlega það sem að Lilja Guðrún bendir á í athugasemd sinni. Þetta er alveg rétt athugasemd.

Jón Magnússon, 13.6.2009 kl. 21:50

11 Smámynd: Haukur Nikulásson

Mér sýnist skv. öðrum fréttum að það sé verið að þyrla um moldviðri hér. Kannski er verið að búa til neikvæða umræðu utan um Tinnu svo Katrín geti skipt henni út fyrir Kolbrúnu? Hvað veit ég svo sem...?

Haukur Nikulásson, 14.6.2009 kl. 00:47

12 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Eitt enn svona í gamni, þegar Guðjón Samúelsson teiknaði Þjóðleikhúsið, þá teiknaði hann það með staðsetningu á Skólavörðuholtinu í huga.  Því þar átti þessi  íslenska "Ævintýrahöll" að standa og blasa við bæjarbúum eins og höll úr Hrafntinnu og Stuðlabergi. 

Svo slóst eitthvað upp á vinskapinn milli Guðjóns og Jónasar frá Hriflu, svo sá síðarnefndi hefndi sín á Guðjóni með því að drita húsinu niður á Hverfisgötu, þar sem útlit byggingarinnar naut sín engan vegin, á við það sem hún hefði gert efst á Skólavörðustígnum.

Og það var einmitt sá verknaður Jónasar sem samráðherrar hans vissu ekki um,  fyrr en of seint. Því miður.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 14.6.2009 kl. 01:12

13 Smámynd: Halldór Jónsson

Er ekki ráðlegt að senda eitthvað fólk þarna inn með einhverju praktísku viti heldur en verkfræðingastóð sem vill berja sem allra mest útúr framkvæmdinni og leikarahjörð sem gerir heimsborgarakröfur í ræflalandi, sem hefur ekki lengur ráð á svoleiðis snobbi. Er ekki verið að leika í húsinu ? Er bara ekki alltílagi að sækja sýningarnar ?

Halldór Jónsson, 16.6.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 603
  • Sl. sólarhring: 645
  • Sl. viku: 5542
  • Frá upphafi: 2426176

Annað

  • Innlit í dag: 560
  • Innlit sl. viku: 5114
  • Gestir í dag: 535
  • IP-tölur í dag: 508

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband