Leita í fréttum mbl.is

Skilur Hæstiréttur Íslands ekki neitt?

Brynjar Níelsson hrl  fjallar um nýgenginn dóm Hæstaréttar í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn stjórnarmönnum í Glitni á bloggi sínu í Pressunni í gær, en þau sjónarmið sem hann setur fram var löngu tímabært að fá fram. 

Í umfjöllun fjölmiðla þá sérstaklega í fréttum ríkisfjölmiðilsins og umræðuþáttum hefur helst mátt skilja að í Hæstarétti Íslands sætu dómarar sem bæru almennt lítið skynbragð á lög og rétt í landinu auk þess sem þeim væri fyrirmunað að skilja málefni sem varða viðskiptalífið auk þess sem þeir væru almennt á móti lítilmagnanum.

Ég hafði ekki kynnt mér umrætt mál þangað til dómur gekk og vonaðist til þess að Vilhjálmur Bjarnason hefði sigur í málinu. Svo fór ekki og við skoðun á málinu gat ég ekki séð að Hæstiréttur hefði getað komist að annarri niðurstöðu. Hvað sem því leið þá var umfjöllun fréttastofu Ríkisútvarpsins bæðí óeðlileg og hlutdræg.

Í samræmi við þá hlutdrægu umræðu sem RÚV hefur haldið uppi um málið var eðlilegt að um málið væri fjallað einhliða í helsta umræðuþætti ríkissjónvarpsins. Ekki verður annað séð en í frétta- og umræðuþáttum ríkisfjölmiðilsins hafi verið fjallað um þennan dóm Hæstarréttar af fólki sem hefur álíka færni í að meta dóma Hæstaréttar og lögfræðingur til að stunda heilaskurðlækningar.

Ég átti von á því að Lögræðingafélagið,Lögmannafélagið eða jafnvel félög laganema í þeim of mörgu háskólum landsins þar sem lögfræði er kennd mundu láta frá sér heyra um þessa hlutdrægu og ómálefnalegu umfjöllun ríkisútvarpsins um dóm Hæstaréttar.  Þögn þessara aðila er óskiljanleg vegna þess að sé það rétt sem haldið hefur verið fram í fréttum og fréttatengdum þáttum Ríkisútvarpsins þá þyrftu viðkomandi dómarar Hæstaréttar að segja af sér.  Þeir væru þá gjörsamlega vanhæfir.

Það má e.t.v. benda vandlæturum Ríkisútvarpsins og þeim fjölmörgu hagfræðingum og viðskiptafræðingum sem um dóminn hafa fjallað á það að eðlilegra er að beina reiði sinni að Alþingi fyrir að hafa afgreitt lög sem gera Hæstarétti ekki kleyft að dæma með öðrum hætti en þeim sem um ræðir. Hvað þá að gera ekkert í málinu þegar fyrir liggur túlkun Hæstarréttar á þessu lagaákvæði.

Slóðin inn á grein Brynjars Níelssonar hrl.:

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Brynjar/rettlaeti-og-sanngirni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Hvernig væri nú að menn færu að hlusta á Útvarp Sögu og segðu upp áskrift sinna hjá RÚV (he! he!)

Júlíus Valsson, 12.11.2009 kl. 14:02

2 identicon

Þessi grein Brynjar er afskaplega léleg, hún rennir engum frekari stoðum undir dóminn né réttlætir dóminn á nokkurn hátta annan að það sé ekki endilega hlutverk Hæstaréttar að finna sanngirni né réttlæti.

Þetta er einmitt það sem menn hafa verið að gagnrýna, hæstiréttur sé of upptekinn af lagatækni fremur en að framfylgja tilgangi laganna.  Það að gagnrýna manninn eins og Brynjar gerir í þessari grein eru sk ad hominem rök og ómerkileg fyrir það í sjálfu sér, hans skoðun er gerð ómarktæk vegna þess að hann er ekki hæstaréttarlögmaður en ekki vegna þess að hann fari með staðlausa stafi.  Brynjar hrekur ekkert í þessarri grein en leggur ofuráherslu á að enginn geti skilið löginn né dóma án sérþekkingar á því sviði. 

Ekki nóg með það þá hefur héraðsdómur líka ekkert vit á lögfræði skv niðurstöðu Brynjars, ef hæstiréttur gat ekki komist að annarri niðurstöðu því komst héraðsdómur að algerlega öndverðri niðurstöðu? 

Hvernig væri að ræða dóminn efnislega og þá sér í lagi þá himinhrópandi mismunun á túlkun laganna milli héraðsdóms og hæstaréttar í stað þess að úthrópa menn sem kjána hafi þeir ekki nákvæmlega sömu menntun og þeir sjálfir?

Þórður Áskell Magnússon (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 14:24

3 identicon

Svona fyrir forvitnissakir. Af hverju gátu þeir ekki dæmt á annan veg? Héraðsdómur dæmdi Vilhjálmi í vil og ekki breyttust lögin í millitíðinni. Það væri gott ef þú myndir útskýra þennan punkt betur.

Dagga (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 14:39

4 identicon

Hefur hæstiréttur Íslands ekki mun meiri ábyrgð og vald en í þeim löndum þar sem lög fylla tugi hillumetra ?

Í þessu máli, Kvótamálinu og Olíukongamálinu dæmir hæstiréttur að mínu áliti (og ég hygg flestra) í andstöðu við lög, almenningsálit, anda laganna, almennrar skynsemi, og mannréttindi. 

Að því er virðist til þess að verja valdastéttina.

Jón Jósef Bjarnason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 14:40

5 identicon

Þú gerir enga tilraun til að útskýra dóminn, setur eingöngu út á fréttaflutning af málinu. Málið er að það virðast búa tvær stéttir í samfélaginu, önnur sem lengst af er með hendurnar helbláar á framkvæmdarvaldinu, löggjafarvaldinu og hálfu dómsvaldinu og lifir í refsileysi og svo almenningur sem situr og horfir á ósköpin. Stéttin sem lifir svona kýs öll Sjálfstæðisflokkinn. Klíkan lifir.

Valsól (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 15:42

6 identicon

Sæll Jón

Mig langar að fá skýringar hjá þér á því af hverju Brynjar Nýlsen segir að ekki hafi verið hægt að kaupa hlutabréf af öðrum en Bjarna Ármannssyni? Afhverju átti að bjarga honum frekar en öðrum eigendum úr klípunni??

Ingimundur Þ. Jósepsson (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 15:43

7 Smámynd: Jón Magnússon

Því miður er ekki hægt að segja upp áskriftinni að RÚV  Júlíus. Mér finnst það með öllu óþolandi. Fólk getur sagt sig úr þjóðkirkjunni en ekki frá Ríkisútvarpinu.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 15:54

8 Smámynd: Jón Magnússon

Jón Jósef sínum augum lítur hver á silfrið. Ég tel grein Brynjars góða og orð í tíma töluð.  Ég sagði mína skoðun á dómi Hæstaréttar en það útheimtir ekki sérstakar skýringar mínar á dóminum. Ég hefði gjarnan viljað að málið hefði farið öðruvísi og einnig þau mál sem þú nefnir en þá stendur upp á Alþingi að breyta lögum ágæti nafni.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 16:01

9 Smámynd: Jón Magnússon

Dagga ég tel dóm Hæstaréttar réttan það er mitt mat en ég ætla ekki að fara að skýra dóm Hæstaréttar á bloggsíðunni minni. Ég er aðallega að setja út á með hvaða hætti ríkisfjölmiðillinn hefur fjallað um dóminn. Eðlilegt hefði verið að ríkisfjölmiðillinn hefði fengið lögmenn til að fara yfir málið og segja sína skoðun á málinu áður en palladómar voru felldir um dóminn.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 16:04

10 Smámynd: Jón Magnússon

Það er rétt Valsól ég er að setja út á fréttaflutninginn. Fréttastofa RÚV hefði átt að leita eftir hlutlægum skýringum á dóminum frá þar til bærum aðilum en ekki fara fram með þeim óafsakanlega hætti sem gert hefur verið.  Hlutdrægni og óvönduð vinnubrögð hafa einkennt framgang starfsfólks RÚV í þessu máli. Það finnst mér miður vegna þess að ég vil geta treyst þessum fréttamiðli.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 16:07

11 Smámynd: Jón Magnússon

Þórður ég tók óvart saman skrif þín og Jóns Jósefs fyrirgefðu það en ég ítreka að ég tel grein Brynjars mjög góða og Hæstarétti ber að dæma eftir lögunum og túlka þau það er hlutverk Hæstaréttar og við getum ekki ætlast til annars af æðsta dómstóll landsins þá væri réttarríkið í hættu.

Hvorki ég eða Brynjar erum að fjalla efnislega um dóm Hæstaréttar í þessum skrifum okkar heldur um þá furðulegu umfjöllun sem málið hefur fengið.  Af sjálfu leiðir að telji ég niðurstöðu Hæstaréttar rétta þá tel ég aðra niðurstöðu ekki rétta.  Ég get ekki lýst öðru en mínu mati á þeim lagaatriðum sem eru til umfjöllunar í dóminum.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 16:12

12 identicon

Ég las dóminn líka og komst að sömu niðurstöðu að Hæstiréttur gæti ekki hafa komist að annari niðurstöðu. Gefum okkur hinsvegar að rétturinn hefði samþykkt kröfu Vilhjálms tel ég að það hefði opnað gáttir þar sem Hæstarétti yrði skylt að hafa puttana í öllum viðskiptum sem fram fara í landinu. Yfirstjórn hlutafélaga yrði í raun Hæstiréttur.

Bjarni Hákonarson (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 16:28

13 Smámynd: Jón Magnússon

Ég velti þessu ekki fyrir mér Bjarni en við erum greinilega á sömu skoðun hvað varðar að þetta hafi verið hin eina rétta niðurstaða.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 17:16

14 Smámynd: Jón Magnússon

Ingimundur hann heitir Brynjar Níelsson og það er eðlilegra að þú spyrjir hann um það sem hann segir.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 17:17

15 identicon

Jón,

Fyrir liggur að hluthafafundur (æðsta vald félagsins) fól stjórninni að gera þennan samning. Með því óskaði hluthafafundur og þar með þeir sem áttu mestan hag af samningnum að hann skyldi gerður.

Minnihluti hefði á þeirri auðvitað getað verið ósammála og ef að sá minnihluti teldi að sér vegið hefði hann einfaldlega átt að selja hlut sinn í félaginu.

Ég tel að dómur Hæstaréttar fjalli einfaldlega um það að rétturinn geti ekki undir neinum kringumstæðum ályktað gegn vilja þeirra sem vilja gera viðskipti á einn eða annan veg. Með þessum dómi setti Hæstiréttur sér sín eigin takmörk. Okkur er öllum frjálst að gera við hvort annað samninga ef löglegum leikreglum er fylgt.

Bjarni Hákonarson (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 17:53

16 Smámynd: Jón Magnússon

Bjarni ég ætla ekki að túlka dóminn umfram það sem í honum felst.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 18:04

17 identicon

Jón.

 Ef hæstiréttur gat ekki komist að annarri niðurstöðu en hann gerði, afhverju gat héraðsdómur það þá?

Getur þú útskýrt hvað það er sem dómararnir í héraðsdómi hafa ekki vit á?

Eitthvað er það greinilega.

Svo finnst mér þetta ótrúlega þunn rök hjá þér, þegar þú ert að taka undir gagnrýni Brynjars.

"mér finnst þetta fín grein hjá honum".

Þetta þætti nú ekki merkilegur rökstuðningur á mínu heimili.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 20:50

18 Smámynd: Jón Magnússon

Sigurður ég sagði að ég teldi að Hæstréttur hefði ekki getað komist að annarri niðurstöðu. Mér er ljóst að héraðsdómur komst að annarri niðurstöðu og lögmaður Vilhjálms hefur örugglega verið sama sinnis. Ég var ekki að tala fyrir þeirra hönd heldur segja mína skoðun.

Í öðru lagi var ég ekki að halda því fram að dómari héraðsdóms hefði ekki vit á einhverju hvergi vikið að því einu orði.

Í þriðja lagi þá veit ég ekki hvernig umræður og röksemdafærslur ganga á þínu heimili en mér er heimilt að taka undir sjónarmið fólks óháð því hvernig umræður ganga á heimilinu.

Jón Magnússon, 12.11.2009 kl. 23:46

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Líklega hefur þessi dómur Hæstaréttar verið meiðandi. Að dómur sé meiðandi þarf ekki að hafa skírskotun í hlutdrægni dómara en slíka dóma þarf skoða faglega af löggjafanum með það þá í huga hvort ástæða sé til að enduskoða viðkomandi lög. Það skal tekið undir að mikils er vert að dómarar falli ekki í þá gryfju að hafa önnur sjónarmið en  þau að tryggja lögum fullnustu. Það er áreiðanlega ekki auðvelt.

Árni Gunnarsson, 13.11.2009 kl. 11:06

20 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Árni góða og málefnalega færslu. Það er einmitt mergurinn málsins að löggjafinn skoði hvort nauðsyn sé á að breyta lögum þegar dómur Hæstaréttar fellur í máli eins og þessu.

Jón Magnússon, 13.11.2009 kl. 16:02

21 identicon

Jón Magnússon.

Þú segir að þeir sem gagnrýnt hafa dóm hæstaréttar í rúv og séu honum ósammála hafi ekki vit á þessum málum.

Héraðsdómur var einnig ósammála Hæstarétti, og því hlítur það að vera mat þitt að þeir hafi heldur ekki vit á þessu í héraði?

Þó þú segir það ekki beinum orðum, þá er varla hægt að skilja þig öðruvísi.

Bæði dómsstig voru að notast við sömu lög.

Þess vegna væri mjög fróðlegt að fá málefnanleg rök fyrir því hvers vegna Hæstiréttur gat ekki komist að annarri niðurstöðu en hann gerði.

 Að lokum get ég upplýst þig um það að á mínu heimili kenni ég mínum börnum að "af því bara" séu ekki rök, ekkert  frekar en "mér finnst það bara".

Virðingarfyllst.

Sigurður.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 219
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 4435
  • Frá upphafi: 2450133

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband