Leita í fréttum mbl.is

Löstur er ekki glæpur

Danir vilja virða lesti reykingarfólks og gefa því kost á að eiga sitt griðland. Danir hafa heimilað kráareigendum á krám sem eru 40 fermetrar eða minna að leyfa reykingar í sínum veitingahúsum. Nú sýna skoðanakannanir að meiri hluti Dana vill virða þennan sjálfsákvörðunarrétt og heimila reykingarfólki löst sinn án algers banns.

Við ættum að hugleiða þessa leið líka. Það er óneitanlega ankannalegt að sjá fólk norpa í vetrarkulda eða sumarrigningum fyrir utan veitingastaði. Annað sem væri þó betra að mínu mati og ég lagði til á þingi í fyrra, að heimila uppsetningu á sérstökum reykherbergjum.

Löstur er ekki glæpur og það verða rétttrúnaðarþjóðfélög ríkisafskipta af einstaklingunum að virða. Ég er persónulega algerlega á móti reykingum en get ekki og á ekki að stjórna því fyrir aðra svo fremi það trufli ekki þá sem ekki reykja.  Það hefði verið betra að við hefðum tileinkað okkur meira af dönsku umburðarlyndi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Löstur er ekki glæpur, en að hrinda lestinum (rétt beygt?) í framkvæmd er glæpur.

Ég vil ekki ganga svo langt að kalla reykingar glæp, nema einna helst gegn eigin heilsu, en reykingar innan um annað fólk er brot á rétti þeirra sem ekki reykja og vilja hafa aðgang að fersku lofti, sem reyndir flestir vilja og þurfa lífsnauðsynlega.

Skil samt ekki rökin fyrir því að leyfa reykingar í minni veitingahúsum. Það hlýtur að vera meiri reykmengun eftir því sem rýmið er minna og reykurinn dreifist ekki eins mikið.

Theódór Norðkvist, 27.12.2009 kl. 00:23

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Reykherbergin þyrftu að vera þannig að inngangur í þau væri utan frá. Það var til dæmis reynt að hafa reykherbergi í Útvarpshúsinu en það var ekki framkvæmanlegt vegna þess að svo mikinn reyk lagði út um dyr þess vegna stöðugs umgangs.

Auk þess þarf feikna loftræstibúnað til að ræsta út reyk frá litlum herbergjum sem reykingamennirnir eru ekkert hrifnir sjálfir af að hafa svona reykfyllt og reykja ekki aðeins sjálfir heldur láta alla hina reykja ofan í sig í ofanálag.

Fyrst eftir reykingabannið í húsinu reyndi reykingafólk að vera í bílageymslunni en þaðan lagði reykinn inn líka.

Ég er sammála þér um það að ef veitingastofur eru mjög litlar, helst ekki stærri en 30 fermetrar, megi leyfa reykingar í þeim fyrir þá sem þar vilja vera í samfélagi við annað reykingafólk.

En þróunin verður ekki stöðvuð. Hér fyrr á tíð ríkti það umburðarlyndi gagnvart munntóbaksfólki sem Halldór Laxness lýsir í Alþýðubókinni sem þætti fráleitt á okkar tímum.

Ég stjórnaði einu sinni spurningakeppni á veitingastað meðan reykingar voru enn leyfðar.

Áður en ég byrjaði spurði ég viðstadda hvort þeir teldu ekki rétt að ég hefði frelsi til að ákveða sjálfur hvort ég vildi reykja á meðan á keppninni stæði.

Því var játað.

Ég sagðist þá hafa ákveðið að reykja ekki en yrði að fara út til að njóta þessa frelsis míns vegna þess að annars yrði reykt ofan í mig.

Ef ég fengi ekki að njóta þessa frelsis innan dyra myndi ég afhenda spurningalistann öðrum umsjónarmanni og hverfa af vettvangi.

Þetta væri annar kosturinn sem væri í boði. Hinn væri að gerð væri 10 mínútna pása og reykingafólkið færi út að reykja en síðan yrði ekki reykt inni fyrr en keppnin væri búin.

Þetta var samþykkt, líklegast vegna þess hvernig málið var lagt upp.

Ómar Ragnarsson, 27.12.2009 kl. 01:13

3 identicon

Sæll.

Alveg hárrétt, ríkið getur ekki verið að skipta sér að öllu. Það er hins vegar eðlilegt að reykingamenn borgi fyrir það heilsutjón sem þeir valda sjálfum sér sem og að þeir séu ekki að svæla ofan í öðrum. Sorglegt að Haukur Mortens skyldi deyja úr óbeinum reykingum.

Varðandi 99 milljarða fjárlagahallann:

Það er ekki svo langt síðan einhver góður maður reiknaði út að ríkið hefði þanist út um þriðjung eða svo á undanförnum 10 árum eða svo (ég man ekki smáatriðin, þú getur kannski grafið þau upp og bloggað um þau). Ef maður rennir yfir starfsmannalista ráðuneytanna er sá listi afar langur. Hverju skila svo allar þessar blækur? Ráðuneytin eru flest í mestu vandræðum með að svara fyrirspurnum þó þau séu skyldug til þess, lenti í því í fyrra (fékk ekki svar við fyrirspurn til eins ráðuneytisins). Hér má grisja vel frekar en að skera niður á LHS. Þrátt fyrir þennan her starfsmanna þurfa ráðuneytin sífellt að kaupa þjónustu út í bæ eins og bent var á nýlega á amx.is. Heilbrigðisráðuneytið sker núna niður um 1% hjá sér á meðan LSH þarf að skera niður um 10%. Er heil brú í þessu? Ég kæri mig ekki um að ríkið seilist sífellt dýpra í vasa minn, nóg tekur það fyrir.

Við erum með um 5 sinnum fleiri þingmenn en frændur okkar á Norðurlöndum m.v. fjölda íbúa á bak við hvern þingmann. Þetta er okkur alltof dýrt sérstaklega í ljósi þess að stór hluti þingmanna hefur ekki gripsvit á efnahagsmálum. Hvað er þetta fólk að gera þarna? Þarna eru of margir framapotarar sem eiga að vera annars staðar. Fólk sem heldur því fullri alvöru fram að auknir skattar muni örva efnahagslífið er búið að sýna að ekki er hægt að eiga við það orðastað!!

Jon (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 12:31

4 identicon

Frelsi er ekki glæpur, ég mæli með því að taka þetta skref.  Það styður líka litla veitingamanninn og ekki veitir þeim litlu af smá forskoti á tímum endalausra sameininga og stórra sálarlausra auðhringjakeðja.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 13:34

5 identicon

Sæll Jón. Fínn pistill og gott innlegg. Sjálfur reykti ég í 35 ár og mikið en tókst að hætta fyrir sennilega 4 árum. Ég hef aldrei getað skilið af hverju eigendur kráa eða matsölustaða fá ekki að ráða því hvað þeir bjóða uppá og þar á meðal hvort reykt er á staðnum eða ekki. Það gæti verið skilti sem sýndi hvort hér væri reykt eða ekki. Síðan velja reykingamenn td. að fara á stað þar sem reykingar eru leyfðar og þeir sem ekki reykja velja sér slíkan stað. Sjálfum er mér alveg sama hvort reykt er í kringum mig eða ekki, hvort skata er soðin í næstu íbúð eða ekki eða hvort grillað er á svölunum eður ei. Það vantar alveg í þessa þjóð genið með umburðalyndi.

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 16:45

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Mæltu manna heilastur Jón. Ég bý við að ganga í gegnum hóp útinorpandi reykingafólks að mínum inngöngudyrum. Ég vorkenni þessum greyjum tvisvar, fyrst fyrir skjálftann og það sem það leggur á sig fyrir þessa þjónkun og svo heimskuna. Skítinn og óþrifin sem fylgir þessu verða aðrir að þrífa. Það á að skylda kráareigendur til að innrétta sérstakt reykhús inni á kránum svo þetta lið abbist ekki svona uppá saklausa vegfarendur með útblæstri sínum og aumingjaskap.

Halldór Jónsson, 27.12.2009 kl. 18:30

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

algerlega sammála. hélt að sýnt væri að fasismi væri ekki góð stefna, hvorki í þessu né öðru.

Brjánn Guðjónsson, 27.12.2009 kl. 22:00

8 Smámynd: Jón Magnússon

Getur vel verið rétt Theódór en spurning er hvort rétt sé eða betra að banna algerlega að þeir sem vilja reykja fái að gera það. Við getum verið sammála um að reykingar séu heilsuspillandi en þeir sem vilja taka áhættuna gera það og svo lengi sem þeir spilla ekki fyrir öðrum af hverju mega þeir þá ekki reykja við notalegar aðstæður?

Jón Magnússon, 27.12.2009 kl. 22:38

9 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir góða færslu Ómar. Það eru til reykklefar í dag sem eru þannig útbúnir að inngangur þarf ekki að vera sérstakur. Það hefur orðið mikil framför í  útbúnaði reykherbergja þannig að þeir sem þar eru þurfi ekki að vera í reykkófi eða reykurinn að berast í aðrar vistarverur.

Jón Magnússon, 27.12.2009 kl. 22:41

10 Smámynd: Jón Magnússon

Ágæti nafni minn Jón ég er alveg sammála þér með Hauk Morthens og því miður er hann ekki eina fórnarlamb óbeinna reykinga. Ef við tökum þann kostinn að reykingarmennirnir sjálfir eigi að borga sérstaklega fyrir heilsutjón sitt af óbeinum reykingum þá verður sama regla að gilda fyrir alla. Þannig verða þeir sem týnast við rjúpnaveiðar að borga fyrir leitina, þeir sem eru of feitir að borga fyrir það sem þeir hafa gert sér með ofáti, þeir sem eru með tannskemmdir að borga fyrir það og þeir sem borða mikið af transfitu að borga fyrir það. Listinn er nánast endalaus.

Jón ég hef iðulega átalið útþennslu ríkisins og sveitarfélaganna ekki bara síðasta ár heldur síðustu áratugi. Getuleysi stjórnmálamanna til að forgangsraða og hafna er raunveruleg ógn við lýðræðis- og velferðarkerfið. Þar sýnist mér við vera algerlega sammála

Jón Magnússon, 27.12.2009 kl. 22:47

11 Smámynd: Jón Magnússon

Gullvagn við eigum alltaf að styðja við bakið á litla kapítalistanum ef hann er að gera góða hluti. Litli kapítalistinn er ekki á framfæri ríkisins og það þarf aldrei að afskrifa milljarða af skuldunum hans. Hann fær aldrei svo mikið lánað. Það eru bara keðjubréfasnillingarnir og kvótagreifarnir sem fá þannig fyrlrgreiðslu.

Jón Magnússon, 27.12.2009 kl. 22:50

12 Smámynd: Jón Magnússon

Tryggvið við eigum það sameiginlegt að hafa reykt en ég hef ekki reykt á þessari öld og mér finnst sígarettureykur óþægilegur en ég vil samt ekki að þeir sem vilja reykja séu sviptir frelsi til að gera það svo fremi að það komi ekki niður á frelsi þeirra sem ekki reykja.

Jón Magnússon, 27.12.2009 kl. 22:51

13 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki kalla þetta aumingjaskap ágæti Halldór þetta er löstur og sannarlega ekki sá versti í okkar menningarsamfélagi. En hver er laus við alla lesti. Einhvern tíma var sagt að heildarútkoma lastanna væri alltaf sú sama þannig að ef maður léti af einum þá bættust aðrir við eða aukning í öðrum. Það held ég að sé ekki rétt. Sigur á einum lesti leiðir til þess að auðveldara er að ná stjórn á öðrum.

Jón Magnússon, 27.12.2009 kl. 22:55

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Er ekki verið að brjóta á rétti starfsfólks veitingahúsa til að anda að sér hreinu lofti með því að leyfa reykingar á veitingahúsum?

Theódór Norðkvist, 27.12.2009 kl. 23:23

15 Smámynd: Jón Magnússon

Nei það þarf engin að vera inn í reykherbergjunum nema þeir sem vilja reykja. Varðandi litlu veitingahúsin þá er það ákvörðunaratriði þeirra sem reka þau hvort þeir vilja hafa reyk eða reyklaust.

Jón Magnússon, 28.12.2009 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 291
  • Sl. sólarhring: 733
  • Sl. viku: 4112
  • Frá upphafi: 2427912

Annað

  • Innlit í dag: 267
  • Innlit sl. viku: 3803
  • Gestir í dag: 259
  • IP-tölur í dag: 248

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband