Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Svo verður sungið og spilað á sítar og mandólín tvö

Morgunblaðið hefur í vetur verið pólitísk öndunarvél Margrétar Sverrisdóttur. Allt var það gert til að fá Margréti til að koma deilum af stað innan Frjálslynda flokksins og koma henni í pólitíska eyðimerkurgöngu. Það tókst, en nú hefur flokkurinn náð vopnum sínum. Óskaframboðið sem átti að sundra Frjálslynda flokknum, draga fylgi frá Vinstri grænum til að ríkisstjórnarflokkarnir héldu meirihluta sínum - hefur ekki náð að gera sig svo sem Morgunblaðsmenn og aðrir Sjálfstæðismenn ætluðust til.

Vonbrigðin leyna sér ekki.

Staksteinar í dag segja að það sé svo sem í lagi að syngja fyrir kjósendur og er þá vísað til Ómars Ragnarssonar en það sé ekki nóg. Þá segir að það dugi ekki fyrir Íslandshreyfinguna að lofa því að gera lífið skemmtilegra og staksteinahöfundur spyr. Hvernig ætlar fylkingin að standa við þetta?

Þetta minnti mig á sólskinsflokk í Danmörku sem fór fram með þau kosningaloforð að lofa betra veðri, styttri vetrum og hamingjusamara þjóðlífi og fallegra fólki. Allir vissu að þetta var í gamni. 

Staksteinahöfundur telur að framboð Ómars og meðreiðarfólks hans í Íslandsfylkingunni sé þannig að ekki sé hægt að taka það alvarlega. "Geir kann líka að syngja"; - segir Staksteinahöfundur.  En í lokin kemst Staksteinahöfundur að kjarna málsins. Pólitík er alvörumál. Talibanísk viðhorf varðandi Kárahnjúkavirkjun eiga ekki erindi í umræðuna í dag. Baráttan um það stóð fyrir 4 árum. Þá tók Ómar Ragnarsson ákvörðun um að sitja hjá. Nú vill hann berjast um fallið vígi með söng og dansi.

Og svo verður sungið og spilað á sítar og mandólín tvö og komdu og höndlaðu Ómar það hefst klukkan rúmlega sjö - eða hvað? 

Hefst það ef til vill ekki?


mbl.is Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskipti í ríkisfjármálum

Í nýjasta hefti peningamála  sem Seðlabankinn gefur út segir að líklegt sé að rekstrarafgangur ríkissjóðs snúist í halla strax á næsta ári og horfurnar fyrir árið 2009 séu enn verri.

Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að gleðileikurinn sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir gæti ekki staðið til langframa. Uppsveiflan í hagkerfinu hefur tryggt ríkissjóði miklar tekjur en ríkisstjórnin hefur verið versta óráðssíustjórn sem nokkru sinni hefur verið í landinu og ríkisútgjöld hafa margfaldast. Engin vinstri stjórn hefur nokkru sinni í Íslandssögunni aukið útgjöld ríkisins jafn hratt og fjölgað ríkisstarfsmönnum jafn mikið og þessi.

Nú er kosningaár og daglega spilar ríkisstjórnin út nýjum tilkynningum um gjafir til félaga eða hópa sem kosta skattgreiðendru milljónatugi eða hundruð. Af hverju er það gert núna? Sumt af þessu er eðlilegt og nauðsynlegt en annað ekki. Ljóst er að kosningabarátta Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins verður aðallega fjármögnuð af skattgreiðendum. Þar hlaupa útgjöld ekki á tugum milljóna heldur hundruðum.

Það er kominn tími til að víkja þessu eyðslu- og ríkishyggjufólki burt úr stjórnarráðinu og fá ábyrga aðhaldssama stefnu. Draga úr ríkisútgjöldum en auka velferð fyrir þá sem þurfa á henni að halda.


Mótum velferðarþjóðfélag?

Ég var á fundi hjá Sjálfsbjörgu í kvöld ásamt fulltrúum hinna flokkana. Ljóst var að talsmenn stjórnarflokkana höfðu lítið fram að færa. Fatlaðir eins og aldraðir hafa ekki notið þeirrar velferðar sem ríkasta þjóð í heimi hefði átt að sjá sóma sinn í að veita þeim. Fram kom í máli margra sem töluðu á fundinum að bótagreiðslur til þeirra dygðu ekki fyrir mat út mánuðinn. Hvað þá heldur að þau gæti leyft sér að eiga bíl eða fara í bíó eða leikhús. Við getum ekki sætt okkur við að velferðarkerfið sé með þeim hætti á Íslandi að aldraðir og öryrkjar eigi ekki einu sinni fyrir mat. Þessu verður að breyta og búa til raunverulega velferð þeirra sem þurfa á henni að halda. Það verður að lagfæra velferðarhallann í þjóðfélaginu. Velferðarhallann sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bera ábyrgð á.  Ég sagði á fundinum að það væri forgangsmál hjá mér að sinna hagsmunum aldraðra og öryrkja fengi ég til þess umboð að geta fært þeirra mál til betra horfs. Ég sætti mig ekki við að fólk sem þarf á velferð að halda fái hana ekki og líði skort. Það á að móta manneskjulegra þjóðfélag og það er keppikefli okkar Frjálslyndra.

Tilbúinn útúrsnúningur Hræðslubandalagsins.

Í Silfri Egils í dag vorum við báðir ég og Ágúst Ólafur Ágústsson. Í þættinum sagði Ágúst Ólafur að grundvöllur væri fyrir stjórnarsamstarfi Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar. Í þættinum gerði hann ekki athugasemdir við minn málflutning en sagði að Frjálslyndi flokkurinn mætti ekki fara yfir línu sem hann taldi flokkinn ekki hafa farið yfir.

Hræðslubandalagið gegn Frjálslynda flokknum reynir hvað það getur til að afflytja hugsjónamál flokksins. Við viljum gjafakvótann burt. Við viljum að íslendingar ráði sjálfir landamærum sínum og hverjum þeir bjóða í heimsókn eða taka til sín. Við viljum afnema lánaokrið og verðtryggingu á útlánum. Við erum í andstöðu við okurflokkana og þau sérhagsmunaöfl sem vilja viðhalda okrinu á almenning í landinu. Þess vegna er Hræðslubandalag stóratvinnrekenda, kvótagreifa og vinstrirétttrúnaðarsinna svo mikið í nöp við okkur.

Samfylkinginn ræður ekki áherslum og stjórnmálastefnu Frjálslynda flokksins. Í öðru lagi þá hefur Frjálslyndi flokkurinn rekið sín mál með málefnalegum hætti fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar og annarra sem hér búa. Í þriðja lagi á Frjálslyndi flokkurinn á meiri hugmyndafræðilega samleið með Samfylkingunni en Vinstri grænir eiga með Samfylkingunni. Í fjórða lagi eru stjórnendur Morgunblaðsins og ýmsir sérhagsmunaaðilar þeim tengdir að gera sitt ítrasta til að gera lítið úr og afflytja málflutning okkar Frjálslyndra. Það mun þeim ekki takast.  Við stöndum fyrir okkar málstað og þorum þegar aðrir þegja. 


mbl.is Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvélar mengun og fjármögnun Framtíðarlandsins.

Það kemur fram á bloggsíðu Jóns Axels að líklegur stuðningsaðili  hreyfingarinnar Framtíðarlandið sé Hannes Smárason FL Group.  Hannes má styrkja þá sem hann vill innan ramma laga og hópar eins og Framtíðarlandið geta tekið við styrkjum eins og þeir vilja innan ramma laga. Hitt er annað mál hvort það samrýmist markmiðum og baráttu samtaka eins og Framtíðarlandsins að taka við styrkjum frá hverjum sem er. Mundi Framtíðarlandið t.d. taka við styrkjum frá Landsvirkjun? Frá Alcoa? Sé það rétt að Framtíðarlandið taki við styrkjum frá FL Group eða aðilum þeim tengdum. Hver er þá afstaða Framtíðarlandsins til mengunar frá flugvélum? Umhverfismál einskorðast ekki við álver eða vatnsaflsvirkjanir.

 Ég hef horft á baráttu Framtíðarlandsins og fundist hún athygliverð og er sammála þeirra sjónarmiðum í mörgu. Það skiptir miklu fyrir baráttusamtök eins og Framtíðarlandið sem er nú að skipta þingmönnum í hópa að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum í fjármálum sínum ekki síst þegar fullyrðingar í þá veru eru hafðar uppi eins og hjá Jóni Axel. Vitað er að Ómar Ragnarsson þáði styrk hjá Landsvirkun alla vega kr. 8 milljónir en það er hans að sýna fram á að það hafi verið eðlilegt. En hverjir standa fjárhagslega á bak við Framtíðarlandið?


Aukin löggæsla öryggi borgaranna.

Það er ekki hægt að sætta sig við það að konur geti nánast hvergi verið óhultar fyrir kynferðisglæpamönnum.  Ekki einu sinni á bestu hótelum landsins. Það er ekki hægt að sætta sig við að fólk þurfi að yfirgefa heimili sín á hverjum morgni óttaslegið yfir að það verði búið að brjótast inn þegar það kemur heim.  Í vaxandi mæli eru þeir sem fremja þessa glæpi  útlendingar. Hvað á að gera til að bregðast við þessu?  Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins benti á nauðsyn þess að fá sem bestar upplýsingar um þá sem koma hingað til lands og taka á grundvelli þeirra upplýsinga ákvörðun um hvort þeim verði veitt dvalarleyfi. Hinir flokkarnir hafa hamast gegn þessum skoðunum og sumir talað um að Frjálslyndi flokkurinn sé holdsveikur af því að flokkurinn lætur sér annt um öryggi fólks. Það eru óábyrgir stjórnmálamenn sem neita að horfast í augu við raunveruleikann og neita að gera raunhæfar kröfur til að tryggja öryggi fólksins í landinu.

Nú þegar verður að bregðast við og efla lögregluna til mikilla muna svo að hún geti tryggt öryggi borgaranna og komið erlendu glæpafólki úr landi. Öryggi borgaranna og velferð eiga að vera algjör forgangsatriði stjórnmálamanna. Það eru hagsmunir allra að vel sé staðið að þessum málum ekki síst þess mikla meirihluta innflytjenda sem hingað hefur komið að undanförnu og stendur sig vel og ætlar að standa sig vel og aðlagast íslensku þjóðlífi og menningu. Við berum líka skyldur við það fólk.


Hjálp til sjálfshjálpar

Við Frjálslynd beitum okkur fyrir því að skattleysismörk verði hækkuð í 150 þúsund og bótaþegar geti unnið sér fyrir tekjum allt að kr. 100 þúsund án þess að bætur til þeirra skerðist að nokkru leyti. Ég hef heyrt þá gagnrýni á þessar tillögur okkar að þetta mundi hafa mikinn kostnað í för með sér. Það er rangt. Þetta hefur engan kostnað í för með sér. Hins vegar minnka tekjur ríkissjóðs með hækkun skattleysismarka en sú aðgerð er löngu tímabær og besta aðferðin í velferðarþjóðfélagi til að bæta kjör þeirra sem lökust hafa kjörin. Það er annkannanlegt að fólk sem er á bótum sem ekki duga til framfærslu skuli þurfa að greiða skatt af bótunum. Þannig á það ekki að vera.

Varðandi frítekjumarkið þá kostar það ríkissjóð ekki neitt. Þeir sem geta unnið gera það og geta þá jafnvel komið sér út úr fátæktargildrum eða bætt lífskjör sín og með því gætu skatttekjur ríkissjóðs aukist ef eitthvað er. Ríkissjóður tapar engu því án frítekjumarksins verða tekjurnar ekki til. Fólk sem getur unnið og vill vinna fær þá tækifæri til að bæta lífskjör sín og það ekki bara efnalega. 

Þessar tillögur skipta miklu  fyrir aldraða og öryrkja. En ekki bara bótaþega. Hækkun skattleysismarka hefur þýðingu fyrir þá tekjulægstu og stuðlar að auknum jöfnuðu í þjóðfélaginu. Gott væri ef aðrir stjórnmálaflokkar tækju einarðlega undir þessi sjónarmið. Hér er um það mikilvægt velferðarmál að ræða.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 823
  • Sl. viku: 5766
  • Frá upphafi: 2472436

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 5251
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband