Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Af hverju þegir Ómar Ragnarsson?

Það er athyglivert að formaður Íslandshreyfingarinnar Ómar Ragnarsson hefur ekki tjáð sig um nýjan meirihluta í Reykjavík.  Þögn Ómars um nýja meirihlutann í Reykjavík er þeim mun sérkennilegri þegar það er skoðað að varaformaður Íslandshreyfingarinnar Margrét Sverrisdóttir hefur sagt skilið við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra og stuðningsmann Íslandshreyfingarinnar í síðustu Alþingiskosningum.  Spurning er hvort Ómar hefur enga skoðun á atferli og deilum þessara vina sinna eða hvort hann telur heppilegast að tjá sig ekki í málinu?

Ólafur F. Magnússon upplýsti það í viðtali við Egil Helgason í Silfri Eglis nú í desember þegar hann snéri til starfa í borgarstjórn eftir veikindaleyfi að hann væri félagi í Íslandshreyfingunni og hefði gengið í hana fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Mér er satt að segja spurn hvort sá mæti maður Ómar Ragnarsson er sáttur við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð undanfarna mánuði í borgarstjórn Reykjavíkur og síðan hvort hann styðji varaformanninn sinn Margréti Sverrisdóttur eða vin sinn  og flokksbróður Ólaf F. Magnússon?


Nýr meirihluti í Reykjavík.

Ég óska nýjum borgarstjóra til hamingju og óska honum velfarnaðar í störfum sínum.

Sjálfstæðismenn hafa sýnt að þeir eru tilbúnir til meirihluta samstarfs við hvern sem er nánast á hvaða grundvelli sem vera skal einungis ef þeir eru í valdaaðstöðu. Sú breyting hefur orðið á Sjálfstæðisflokknum á langri vegferð fyrst undir stjórn Davíðs Oddssonar og síðan að hann er fyrst og fremst valdaflokkur sem metur meira völd en framtíðarlausnir í íslenskum þjóðmálum.

Í viðtali við þá Ólaf F. Magnússon verðandi borgarstjóra og Vilhjálm Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóra í útvarpinu í morgun voru þeir að því spurðir hvort meirihlutinn væri nægjanlega traustur miðað við að Margrét Sverrisdóttir hefði lýst yfir andstöðu við þennan nýja meirihluta. Margrét er jú varamaður Ólafs. Þeir töldu báðir að það væri ekki vandamál og hinn nýi borgarstjóri orðaði það með þeim hætti að það ætti eftir að skipa í nefndir og var á honum að skilja að hann teldi ólíklegt annað en fá mætti Margréti til fylgilags við þá félaga með því að bjóða henni góða bitlinga á vegum borgarinnar.  Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig Margrét bregst við. Nú reynir á það hvort Margrét er til sölu svo sem skilja mátti á Ólafi  F. Magnússyni. Haldi Margrét hins vegar fast við andstöðu sína þá er nýi meirihlutinn vægast sagt í vanda staddur.

Ólafur F: Magnússon var valinn af Frjálslynda flokknum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar til að leiða lista flokksins í Reykjavík. Margrét Sverrisdóttir skipaði annað sætið. Bæði hafa þau sagt skilið við flokkinn og eru því hvorugt á ábyrgð Frjálslynda flokksins. Margrét gekk í annan stjórnmálaflokk og er þar varaformaður en Ólafur hefur ekki gefið endanlega upp stöðu sína.

Formaður Frjálslynda flokksins hefur bent á að við erum flokkur sem berst á málefnalegum grundvelli og hann lýsti því yfir að hann væri ánægður með að nýi meirihlutinn hafði ákveðið að taka upp helstu málefnaáherslur Frjálslynda flokksisns frá því fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Frjálslyndi flokkurinn getur hins vegar ekki lýst yfir stuðningi við nýjan borgarstjóra eða borið nokkra ábyrgð á honum pólitískt eða starfslega nema hann taki til starfa innan flokksins í fullu samráði við Frjálslynda í Reykjavík.


Dagar hnífasettana.

Guðjón Ólafur Jónsson hrl. og fyrrverandi alþingismaður sagði marga athygliverða hluti í Silfri Egils í gær. Hann sagðist vera með mörg hnífasett í bakinu eftir Björn Inga Hrafnsson og nefndi dæmi þar sem Björn hafði reynt í vinsemd að vega hann pólitískt með þeim hætti sem segir í kvæðinu um Goðmund konung. Ljóst virðist vera að eins hefur Guðjóni farið og skálindu að hann er kalinn á hjarta eftir hjaðningavígin en sá er munurinn að skáldið slapp en Guðjón stendur enn í miðri orrahríðinni.

Það er annars merkilegt að Framsóknarflokkurinn skuli loga stafna á milli í hjaðningavígum og innanflokksátökum. Nýr formaður Guðni Ágústsson er vinsæll og mannasættir en það virðist ekki duga til. Ef til vill er það vegna þess að Framsóknarflokkurinn var svo lengi í ríkisstjórn að hugsjónirnar gleymdust. Alla vega virðist ekki erfitt fyrir suma Framsóknarmenn að skipta pólitískum litum eins og kamelljón eða gerast málaliðar skoðana sem þeir telja geti fleytt sér áfram. Sjálfsagt þarf Framsóknarflokkurinn að fara í pólitíska endurhæfingu ef hann ætlar að eiga frekara erindi og erfiði í íslenskri pólitík.

Ég þekki Guðjón Ólaf ekki sem pólitíkus en  sem lögmann og það af góðu einu. Mér finnst því líklegt miðað við kynni af Guðjóni að hann sé ekki að búa til sögur heldur sé að segja satt. 

En skelfing hlítur að vera erfitt að liggja á bakinu með heilu hnífasettin í bakinu.


Sé ykkur á laugardaginn.

Eins og kemur fram á heimasíðu Frjálslynda flokksins þá verð ég með viðtalstíma í félagsheimili Frjálslynda flokksins að Skúlatúni 4, 2.hæð Reykjavík á hverjum laugardegi milli kl. 13.30 og 16. Ég vona að ég sjái sem flesta. Það verður auk þess opið hús og heitt á könnunni og kalt í ísskápnum. Vonast til að sjá ykkur sem flest.

Íslensku bankarnir á toppnum.

Það er athyglivert að sjá að Íslensku bankarnir eru á toppnum í könnun um meðal kostnað og tekjur skv. bls. 64 í síðasta tölublaði The Economist 12-18. janúar.  Um þetta er fjallað í grein sem heitir"Slow motion" þar sem aðallega er fjallað um vandamál þýskra banka en þeir eru á botninum þeirrar könnunarsúlu sem birt er í blaðinu.

Því miður kemur ekki fram greining á því af hverju íslensku bankarnir standa sig svona vel. En óneitanlega er ánægjulegt þegar íslensk fyrirtæki standa sig best á markaðnum.  En ég vil gjarnan vita hvers vegna það er.

 

 

 


Það þarf að ná þjóðarsátt um fiskveiðistjórnina.

Ég vona að forsætisráðherra átti sig á því að það er óviðunandi að gera ekki verulegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Að mínu mati er kerfið andstætt atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu. Þá liggur fyrir að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðana telur kerfið óréttlátt og andstætt mannréttindum.  Við slíkar aðstæður væri þá ekki rétt að ríkisstjórnin skipaði nefnd allra þingflokka til að fara yfir málið og gera tillögur um breytingar hið fyrsta.

Við eigum alltaf að keppa að því að vera á fremsta bekk en ekki þeim aftasta. Við eigum sérstaklega að keppa að því að vera í fremsta flokki þegar um virðingu fyrir einstaklingnum er að ræða og mannréttindi fólksins í landinu.


mbl.is Álit um kvótakerfið gefur ekki tilefni til lagabreytinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna dýrasta land í heimi?

Mér fannst athyglivert að lesa ummæli forustumanna þingflokkanna í lok desember s.l. þar sem þeir tjáðu sig um það hvort það væri viðunandi að Ísland sé dýrasta land í heimi. Það er út af fyrir sig athyglivert að allir þingflokksformenn eru sammála um að Ísland sé dýrasta land í heimi. Skýringarnar eru hins vegar mismunandi af hverju það stafar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem er raunar varaformaður Sjálfstæðisflokksins svarar ekki efnislega en segir frekar vilja búa við þessa dýrtíð en í einhverju fátæku landi. Þorgerður virðist ekki átta sig á því að það er fjölmargt fólk sem hefur ekki milljón á mánuði í laun eins og hún. Efnislega gerir hún enga grein fyrir af hverju dýrtíðin er svona mikil eða kemur með lausnir.

Siv Friðleifsdóttir segir að það sé markaðsbrestur hjá okkur sem þurfi að laga og bendir  á að það þurfi að stórefla Samkeppniseftirlitið og aðrar eftirlitsstofnanir til að hamla gegn einokun og fákeppni. Vissulega rétt hjá þingflokksformanni Framsóknarflokksins en skyldi þetta duga til að lagfæra markaðsbrestinn?

Steingrímur J. Sigfússon svarar efnislega með sama hætti og varaformaður Sjálfstæðisflokksins að hann vill frekar búa þar sem lífskjör eru góð hvað sem dýrtíð líður en gleymir því þá með sama hætti að það eru ekki allir með milljón á mánuði eins og hann. Steingrímur telur síðan að það þurfi að efla eftirlit með fákeppni og einokun.

Kristinn H. Gunnarsson segir að íslendingar séu í góðri stöðu og búi við góð lífskjör en vísar ekki til þess hvað geti orðið til að breyta því að við skulum vera dýrasta land í heimi.

Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar segir að það sé óásættanlegt að búa við þá dýrtíð sem hér er og vill lýsa yfir stríði við okursamfélagið og uppræta dýrtíðina. Varaformaðurinn vill að samkeppni verði efld og endurskoða vörugjöld.

Mér finnst athyglivert að enginn af ofangreindum þingmönnum skuli nefna það sem blasir hvað skýrast við varðandi dýrtíðina á Íslandi. Í fyrsta lagi þá er hvergi jafn hátt verð á innlendri matvöru og hér á landi. Ísland sker sig algjörlega úr hvað það varðar. Það má greinilega ekki minnast á það og sumir hafa jafnvel orðað það svo að það sé í lagi af því að kaupmáttur launa sé svo hár hér. Þó að matvaran skipti minna máli en áður í heildarútgjöldum heimilanna þá vega þau þó þungt og hátt verð á þeim veldur því að verð á afleiddum vörum verður hærra en ella.

Aðeins Ágúst Ólafur Ágústsson minnist á vörugjöldin en hluti af dýrtíðarvanda okkar stafar af óheyrilegum álögum hins opinbera á vörur og rekstrarvörur ýmis konar. Vörugjöld eru há. Við erum með mjög háan virðisaukaskatt og við bætast ýmis önnur gjöld sem valda hækkun vöruverðs. Þá má ekki gleyma okurálagningu ríkisins á bensín og olíuvörur sem hefur áhrif til hækkunar vöruverðs.

Ýmis innlend framleiðsla er seld á uppsprengdu verði vegna skorts á samkeppni án nægjanlegs aðhalds. Nægir að minna á að verð á samheitalyfjum er hér mun dýrara en í nágrannalöndum okkar. Þá er símaþjónusta orðin verulegur baggi á mörgum heimilum en samkeppni stóru símafyrirtækjanna hefur ekki leitt til lægra verðs til neytenda.

Svo er spurningin með brauðið dýra. Ítrekað hefur komið fram í samanburðarverðkönnunum að verð á brauði og kökum er margfalt dýrara hér en í nágrannalöndunum. Af hverju?

Þá er verslunarumhverfið á Íslandi óhagkvæmt og bendir til þess hvað sem hver segir að samkeppni sé ekki nægjanleg á því sviði. Hvernig stendur á þessum gríðarlega langa opnunartíma verslana? Líka lágvöruverðsverslana. Að sjálfsögðu kostar það mikið að hafa jafn langan opnunrtíma og um ræðir. Ég veit ekki um eitt einasta land í veröldinni þar sem opnunartími er jafn langur og hér á landi. Þá eru verslunarfermetrar á einstakling mun fleiri hér en annarsstaðar í Evrópu. Umsetning á fermeter verslunarhúsnæðis er því líklega lægst hér þrátt fyrir hámarksálagningu. Bruðlið í versluninni og samkeppnisskortinn borga neytendur.

Mér finnst það gjörsamlega óásættanlegt að við skulum búa við þá dýrtíð sem hér er og tróna á toppi dýrtíðarinnar í heiminum.  Það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að draga úr hlut ríkisins í vöruverði. Í öðru lagi að heimila neytendum að gera hagkvæmustu innkaup alltaf og afnema innflutningshöft og ofurtolla sem koma í veg fyrir frelsi borgaranna. Í þriðja lagi þá verður að taka á ofurverði þar sem samkeppni er ekki næg eins og t.d. hjá símafyrirtækjunum og má þá benda á viðbrögð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við ofurálagningu símafyrirtækja varðandi millilandasímtöl. Heilbrigðisráðherra verður að tryggja eðlilega samkeppni á lyfjamarkaði.

Þá er það mikilvægt að vilji meirihluti Alþingis halda uppi atvinnurekstri sem er ekki samkeppnisfær þá er útilokað að láta neyendur borga fyrir það í háu vöruverði. Eðlilegra er að styrkja slíka starfsemi beint þannig að það liggi fyrir hvað slíkt kostar í stað þess að það sé falið í háu vöruverði á kostnað neytenda.

Vilji er allt sem þarf. En spurning er um vilja þeirra sem sætta sig við ástandið eins og það er?


Er allt í lagi að brjóta lög af því að engin eru viðurlögin?

Prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands bendir réttilega á það að það séu engin úrræði hjá Sameinuðu þjóðunum til þess að fylgja niðurstöðum Mannréttindanefndarinnar eftir.  Hins vegar telur prófessorinn að það þurfi að skoða þessa niðurstöðu mjög alvarlega og reyna eins og unnt er að fylgja henni. Vandinn segir prófessorinn vera þann að niðurstaðan sé óskýr og rökstuðningurinn mjög knappur.

Það er rétt hjá prófessornum að það eru engin úrræði til að fylgja niðurstöðunum eftir. Það er enginn lögregla Sameinuðu þjóðanna í þessu efni. Þess vegna líðst þjóðum eins og t.d. herforingjastjórninni í Búrma, stjórn Mugabe í Zimbabwe og ýmsum fleiri stjórnum í ríkjum heimsins að brjóta mannréttindi án þess að gripið sé í taumana en viljum við vera í þeim hópi.

Spurning er síðan hvað með bótarétt þeirra einstaklinga sem að úrskurðarnefndin segir að eigi bótarétt. Munu íslenskir dómstólar hafna niðurstöðu mannréttindanefndarinnar í því efni. Mér er nær að halda að svo yrði ekki. En þá er spurningin ef þeir einstaklingar sem þarna fóru í mál eiga bótarétt eiga þá ekki fleiri bótarétt.

Ég get ekki séð að ríki sem vill ekki tryggja borgurunum sínum grundvallarmannréttindi eins og þau sem mannréttindanefndin telur að séu ekki fyrir hendi hér, eigi erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

En hér er bara spurning um vilja. Vilja íslensk stjórnvöld virða mannréttindi?

Vilji er allt sem þarf.


Gjafakvótakerfið er óréttlátt.

Niðurstaða mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um fiskveiðistjórnun á Íslandi byggir m.a. á því að frjálsa framsalið þar sem sumir geta leigt öðrum eða selt öðrum þjóðareignina sé óréttlátt og ósanngjarnt.

Þetta er það sem við Frjálslynd höfum alltaf haldið fram.  Af hverju er íslenska stjórnkerfið svo forstokkað að það þurfi ítrekað að fá niðurstöðu dómstóla og nefnda erlendis frá til að tryggja almenn mannréttindi á Íslandi.

Spurningin er nú ætla ráðherrarnir að fara að niðurstöðu nefndarinnar og breyta kvótakerfinu þannig að það sé í samræmi við almenn mannréttindi eða ætla þeir að viðhalda ójöfnuðinum og óréttlætinu.


Spurning um hvort við búum í réttarríki?

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu í máli Erlings Sveins Haraldssonar og Arnar Sævars Sveinssonar gegn Íslandi að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að að kvótakerfi frjálsa framsalsins sé byggt á sanngjörnum og réttlátum mælikvörðum. Þá segir einnig í áliti nefndarinnar að íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að þetta fyrirkomulag standist kröfur meðalhófssjónarmiða. Mannréttindanefndin ályktar síðan og telur kvótakerfið ekki byggt á sanngjörnum grundvelli eða meðalhófssjónarmiðum.

Til viðbótar þessu leggur Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þá skyldu á hendur íslenska ríkinu að greiða Erlingi Sveini og Arnari Sævari bætur og endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið.. Þá vísar nefndin til þess að íslenska ríkið hafi viðurkennt hæfi mannréttindanefndarinnar til að kveða á um það hvort að um brot á mannréttindasáttmálanum hafi verið að ræða í samræmi við aðra grein sáttmálans og leggur fyrir ríkisvaldið að gefa nefndinni upplýsingar um til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að koma skoðunum Mannréttindanefndarinnar í framkvæmd.

Þetta þýðir einfaldlega að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur gjafakvótakerfið ekki standast í þeirri mynd sem það er.  Ríkisstjórn Íslands á nú tvo kosti. Annars vegar að fara að dæmi ríkja eins og Uruguy, Úganda og Sýrlands og taka ekki tillit til sjónarmiða Mannréttindanefndarinnar en með því yrði staðfest innan alþjóðasamfélagsins að Ísland er ekki réttarríki þar sem mannréttindi eru virt.

Hinn kosturinn er að gera ráðstafanir sem standast kröfur um jafnræði borgaranna, en það felur það í sér að afnema verður gjafakvótakerfið og gefa borgurunum jafnan aðgang að fiskveiðiauðlindinni.

Mér finnst kærkomið að fá þessa niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna því að ég hef talið að gjafakvótakerfið stæðist ekki hvorki hvað varðar ákvæði um jafnræði borgaranna eða meðalhóf. Ýmis fleiri atriði koma einnig til skoðunar. En fleira kemur til: Fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er framkvæmt er ekki bara óréttlátt og mismunar borgurunum og er með því brot á mannréttindum eins og Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna kemst að niðurstöðu um. Til viðbótar því hefur kvótakerfið ekki skilað neinu í sambandi við verndun og uppbyggingu nytjastofnanna við Ísland. Sú þröngsýni og þráhyggja sem einkennt hefur fruntalegar stjórnvaldsaðgerðir í fiskveiðistjórnarmálum verða að víkja fyrir skynsemi og virðingu fyrir jöfnum rétti borgaranna.

Ég hef áður bent á að sú leið sem Víglundur Þorsteinsson benti á fyrir tæpu ári síðan varðandi auðlinamál í Alaska ættu að geta komið hér til skoðunar og þá yrðu þeir sem vildu nýta sér þessa auðlind þjóðarinnar að greiða fyrir hana til þjóðarinnar og þeir fjármunir sem þannig fengjust yrðu nýttir til uppbyggingar nytjastofnanna. En það sem umfram yrði mundi verða greitt til allra ríkisborgara jafnt sem mundu þá fá ávísun einu sinni á ári vegna leigutekna af nýtingu sameiginlegrar auðlindar. 

Er ekki kominn tími til að ná þjóðarsátt um þetta atriði og víkja frá hagsmunum hinna fáu til hagsbóta fyrir hagsmuni hinna mörgu.

En megin spurningin núna er hvort ríkisstjórnin ætlar sér að fara að niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eða fara sínu fram með þeim afleiðingum að hætta er á að litið verði þannig á að Ísland sé ekki réttarríki.


mbl.is Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 728
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband