Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ónýtur gjaldmiðill.

Man nokkur eftir því að bankastjóri Seðlabankans þá forsætisráðherra sagði að Evran væri ónýtur gjaldmiðill? 

Nú ber þessi sami maður mesta ábyrgð á gengi eða gengisleysi íslensku krónunnar. Hvað skyldi hann segja um krónuna í dag? 

Nú veikist krónan þá við séum með hæstu stýrivexti allra OECD ríkjanna e.t.v. að Tyrklandi undanskildu.  Krónan veikist líka þó að jöklabréfin séu framlengd og vöxtunum bætt ofaná.  Sú staðreynd er raunar uggvænleg.


mbl.is Evran náði sögulegum hæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að viðurkenna Kosovo?

Fram hefur komið hjá utanríkisráðherra að Íslendingar muni viðurkenna Kosovo en íbúar af Albönskum upprunna lýstu yfir sjálfstæði svæðisins fyrir nokkru.

Mér finnst mikilvægt að við flýtum okkur hægt í þessu efni. Við berum ásamt öðrum NATO þjóðum ábyrgð á árás á Serbíu á sínum tíma þegar stjórn Milocevits stóð fyrir árásum á Albanska minnihlutann.  Heppilegra heði verið á þeim tíma að beita þrýstingi á Serba í stað þess að hefja loftárásir með tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu mannvirkja.

Nú hefur Albanski meirihlutinn tögl og hagldir í Kosovo vegna aðgerða NATO og spurning er hvort það hafi verið réttmætt á þessu stigi að hann lýsti einhliða yfir sjálfstæði? Serbar segja sjálfir að það sé verið að taka landið þeirra vegna þess að mikill hópur fólks af Albönskum uppruna hafi flust til Kosovo og taki nú landið þeirra. Ég hef ekki kannað sögulega þróun þessa en er eitthvað til í þessu? Getur einhver upplýst mig um það.

Hvað sem því líður þá eigum við ekki að viðurkenna Kosovo fyrr en fyrir liggur að stjórn ríkisins tryggi öllum íbúum héraðsons óháð þjóðerni grundvallarmannréttindi.


Hamlet í hverju horni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur eignast hóp sem kemur fram eins og danski erfðaprinsinn Hamlet í samnefndu leikriti William Shakespeare. Að vera eða vera ekki það er spurningin. Villi ætlar að vera en samt ekki að vera. Hann er best til þess fallinn að vera oddviti meirihluta Sjálfstæðisflokksins en hann er samt sem áður ekki til þess fallinn að verða borgarstjóri. Hanna Birna er ekki til þess fallin að verða oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins af því að hún treystir Villa best til þess en hún er best til þess fallin að verða borgarstjóri sem þýðir þá að hún treystir ekki Villa til þeirra hluta.

Allir aðrir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins taka undir með Hönnu Birnu og segjast treysta Villa best til að vera oddviti meirihlutans. Einhverjir orðuðu það þannig að það væri þungu fargi af þeim létt með ákvörðun Vilhjálms, sem þýðir þá að það var þessu fólki áhyggjuefni hefði Vilhjálmur ætlað sér að vera borgarstjóri. Það þýðir væntanlega það samkvæmt rökhugsun að þessi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðísflokksins treystir ekki Villa til að vera borgarstjóri en treystir honum samt betur en nokkrum öðrum til að vera oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Er nokkur vitræn glóra í þessari afstöðu Hamletana?

 Að vera eða vera ekki borgarstjóri það er spurningin?


mbl.is Styður yfirlýsingu Vilhjálms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Clinton má þakka fyrir kurteisan mótframbjóðanda.

Hillary Clinton er með það margar beinagrindur í klæðaskápnum sínum að hún má þakka fyrir að Barack Obama skuli reka kosningabaráttu sína á jákvæðan hátt og fyrir það að hann skuli hafa lagt áherslu á að fjallað yrði um málefni en ekki farið í mótframbjóðendur hans eins og Hillary með neikvæðum og mannskemmandi hætti. Hillary finnur fyrir því hún á nú á brattann að sækja. Ungt fólk í Bandaríkjunum vill komast út úr þeirri pólitík sem Bush og Clinton fjölskyldan hafa rekið um 15 ára skeið.

Mér finnst nauðsynlegt að fá nýja strauma inn í Bandaríska pólitík og vona að þeir John Mc Cain og Barack Obama verði frambjóðendur stóru flokkana. Bandaríkin þurfa meir en nokkru sinni fyrr á forseta að halda sem getur bætt ímynd þeirra eftir mistök Bush stjórnarinnar.


mbl.is „Skammastu þín, Obama"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barátta gegn kynþáttafordómum.

Dúettinn Geir og Bubbi stóðu fyrir tónleikum gegn rasisma í fyrrakvöld. Þeir sem vildu leggja málstaðnum lið mættu á staðinn en margur var fjarverandi vegna annarra verkefna eins og gengur. Einn af þeim sem mættu var Viðar Guðjohnsen formaður ungliðahreyfingar Frjálslynda flokksins. Hann vildi með því ljá baráttunni gegn rasisma lið. Svo virðist sem sumir sem telja sig eiga einkarétt á málefninu hafi ekki verið hrifnir af því að Viðar skyldi mæta þarna og því fólki finnst greinilega nauðsynlegt að búa sér til óvini án nokkurrar ástæðu.

Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei alið á kynþáttafordómum eða stutt slíkt. Við höfum krafist þess að það yrði gætt að því að þau takmörk yrðu sett við innflutningi fólks að geta íslenska velferðarkerfisins annaði að búa öllum borgurum þessa lands fullnægjandi lífskjör. Við höfum bent á að við höfum fyrst og fremst skyldum að gegna við þá sem eru í landinu en ekki þá sem hugsanlega ætla að koma hingað. Þess vegna er það frumskylda okkar að gæta að jöfnum hagsmunum þeirra sem hér búa.

Við Frjálslynd vöruðum við því að frjálst flæði útlendinga til landsins gæti leitt til aukinna fordóma í landinu, en Bubbi hélt tónleikana sína vegna þess að hann telur að um aukna fordóma sé að ræða í garð útlendinga. Við bentum á að nauðsynlegt væri að þeir sem hingað flyttust ættu þess kost að aðlagast íslensku samfélagi sem fyrst m.a. með því að geta lært íslensku og um íslenska þjóðfélagið. Hefði verið farið að tillögum okkar Frjálslyndra hefði ekki orðið tilefni til þess að ástardúettinn Geir og Bubbi hefðu haldið tónleika sem þessa.

Viðar Guðjohnsen á heiður skilinn fyrir að láta ekki fordóma í sinn garð varna sér í baráttunni fyrir góðum málsstað. 

Bubbi Morthens og ýmsir fleiri ættu að gaumgæfa það að ekki veldur sá sem varar við.


Samfylkingarmenn á villigötum.

Allt frá því að Samfylkingin mældist fyrir ofan Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnun hafa ýmsir helstu forustumenn Samfylkingarinnar ekki kunnað sér læti og þess sáust glögglega merki á bloggi Össurs Skarphéðinssonar í gær þar sem hann réðist með rætnum og ómaklegum hætti að Gísl Marteini. Í dag birtir Dofri Hermannsson sem er flokkslíkamabarn Samfylkingarinnar auglýsingu þar sem hann segist auglýsa eftir þrem borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, þeim Hönnu Birnu, Ólafi F. og Vilhjálmi Þ. Vafalaust hefur þetta átt að vera fyndið hjá Dofra en þetta er dálítið klént svo ekki sé fastar kveðið að orði eða notaður ritsöfnuður Össurar flokksbróður hans.

Samfylkingarfólk gæti verið ánægt með sig ef Samfylkingin hefði unnið einhver afrek í þjóðmálum. Svo er hins vegar ekki ef undan er skilin skelegg framganga Jóhönnu Sigurðardóttur í sínum málaflokkum og Björgvins Sigurðssonar í sínum.

Hvað gerði Samfylkingin þegar hún leiddi meirihluta í Reykjavík? Einhver stórafrek?  Nei.

Stórafrek í iðnaðarmálum? Utanríkismálum? Samgöngumálum? Alla vega ekki enn.

Af hverju stafar þá skyndileg fylgissveifla Samfylkingarinnar? Mér er næst að halda að hún stafi af því sem Samfylkingin hefur ekki gert.  Sjálfstæðisflokkurinn tók hins vegar skammtímahagsmuni framyfir langtímahagsmuni þegar meirihlutinn í Reykjavík var myndaður með þeim hætti sem það var gert. Sjálfstæðisflokkurinn glataði með því trausti margra sem að hafa verið dyggir fylgismenn flokksins.

Það er hins vegar með ólíkindum ef Samfylkingin fær fylgi frá Sjálfstæðisflokknum vegna vanhugsaðra aðgerða þessi flokks í borgarmálum. Sá kjósendahópur á miklu meiri samleið með okkur Frjálslyndum.

Þeir Samfylkingarmenn sem nú dansa trylltan stríðsdans af fögnuði eru á villigötum. Það er fráleitt að ærast vegna skyndifylgisaukningar sem flokkur hefur ekki unnið fyrir. Það verður  alltaf að sýna eðlilega aðgát í pólitískri umræðu. Því hefur ekki verið til að dreifa í fagnaðartryllingi sumra þeirra.


Alvarleg umræða.

Um nokkurt skeið hefur verið mjög neikvæð umræða um íslenskt fjármálalíf og stöðu íslensku bankanna í fjölmiðlum í Bretlandi og Danmörku. Sú umræða og þær niðurstöður sem dregnar eru af erlendum aðilum sem fjallað hafa að undanförnu um þessi mál er mjög neikvæð og til þess fallin að hækka skuldatryggingarálag á íslenska banka.  Jafnframt er umræðan til þess fallin að auka vantraust á íslenskum fjármálastofnunum og íslenskri fjármálastjórn. 

Hátt skuldatryggingarálag á bankana er alvarlegt mál. Afleiðingar þess munu draga kraft úr efnahagslífinu í landinu. Háir stýrivextir Seðlabanka Íslands og hátt skuldatryggingarálag á bankana eykur líkur á því að ákveðinn samdráttur geti orðið að kreppu.

Það er óneitanlega athyglivert að umræða og mat fjármálastofnana og fjölmiðla í Danmörku og Bretlandi skuli vera svo gjörólík sem raun ber vitni og umræðunar hér á landi um stöðu fjármálafyrirtækja og íslenska hagkerfisins. Sé um rangar upplýsingar og niðurstöður sem koma fram erlendis þá er nauðsynlegt að leiðrétta það þegar í stað.  Guðni Ágústsson vakti athygli á þeim gríðarlega auði sem við ættum í lífeyrissparnaði landsmanna. Sú staðreynt er vafalaust vanmetin af erlendum sérfræðingum. En kann að vera um fleiri atriði að ræða. Það er með ólíkindum að umræðan hér á landi um íslenskt fjármálalíf og í nágrannalöndunum skuli vera svona ólíkt. Hvað veldur?


mbl.is Skuldatryggingarálagið hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt þorrablót Frjálslyndra

Þorrablót Frjálslyndra sem haldið var í gær var fjölsótt og glæsilegt. Satt að segja kom mér á óvart hvað margir sóttu blótið af því að langt er liðið á þorra og margir sótt þorrablót í hinum ýmsustu félögum sem fólk er í. Ég var fyrst á skemmtilegu villibráðarkvöldi hjá Oddfellowum í Hafnarfirði þar sem var rífandi stemmning og mikið fjör en undir lágnættið fór ég á Þorrablót okkar Frjálslyndra en missti af fyrsta skemmtiatriðinu fyrir. En Grétar Mar hinn rýri mun hafa farið á kostum. Jóhannes grínari toppaði að vísu.

Semsagt frábært kvöld. Ásgerður Jóna Flosadóttir sem bar veg og vanda af skipulagningu Þorrablótsins gerði það greinilega með mikilli vandvirkni og miklum sóma.


Gott mál

Minn maður tekur þarna afgerandi afstöðu í þessu vandræðamáli í Bandaríkjunum. Það er með ólíkindum að löggjafinn þar vestra skuli ekki fyrir löngu hafa komið þessum málum í viðunandi horf. Hvað þarf að drepa marga áður.

Vonandi er Obama á sigurbraut og verður næsti forseti Bandaríkjanna.


mbl.is Obama segir að útrýma verði byssuofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi nást samningar.

Sem betur fer getum við verið hóflega bjartsýn um að samningar náist og vinnufriður haldist.  Mikilvægt er að í tengslum við kjarasamninga nú verði þess gætt að kjör þeirra sem hafa lægstu launin batni hlutfallslega meira en annarra. Við Frjálslynd höfum lagt áherslu á að gera þurfi skattakerfið réttlátara með því að hækka skattleysismörk. Það er virkasta og besta kjarabótin fyrir láglaunafólk, öryrkja og ellilífeyrisþega. 

Því miður er svo komið eftir langt velsældarskeið að almenningur í landinu sem og flest framleiðslufyrirtæki að þjóðfélagið, einstaklingar og fyrirtæki mega  ekki við verkfalli.


mbl.is Fundi ráðherra og ASÍ lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 430
  • Sl. viku: 4234
  • Frá upphafi: 2449932

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3945
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband