Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Margrét Frímannsdóttir tekur undir málflutning Frjálslyndra

margretfrimannsdMargrét Frímannsdóttir fangelsisstjóri á Litla Hrauni er fyrrum formaður Alþýðubandalagsins. Hún tók við formennsku í þeim stjórnmálaflokki þegar miklir erfiðleikar steðjuðu að m.a. hafði fyrri formaður klúðrað fjármálunum all hressilega að sögn. Þá sögu kann sumt Alþýðubandalagsfólk betur en ég og ég þekki hana ekki nema af munnlegri frásögn sumra þeirra. Margrét sá að í óefni var komið með þennan arftaka Sósíalistaflokks Íslands og gerði það sem hún gat til að sameina vinstri menn svokallaða í einum flokki, Samfylkingunni. Það tókst þó með þeim harmkvælum að innvígðir og innmúraðir sossar sátu eftir  í faðmi Steingríms J.

Margrét á að baki langan og farsælan stjórnmálaferil. Eftir því sem ég man best þá lagði hún alla jafna allt gott til mála manna og málleysingja svo fremi að Svavar Gestsson, Ólafur Ragnar og Steingrímur byrgðu henni ekki sýn til skynseminnar.

Það var athyglivert að sjá Margréti í sjónvarpsfréttum í kvöld fjalla um samninga við erlend ríki um að þau taki við erlendum föngum. Þar greindi Margrét frá því hvað hlutfall útlendinga er orðið hátt í íslenskum fangelsum.  Eftir því sem ég gat best reiknað af þessu stutta fréttaviðtali við Margréti þá eru hlutfallslega þrisvar sinnum fleiri útlendingar í fangelsum hér á landi en nemur þeim hlutfallslega fjölda útlendinga sem hér búa.

Margrét ræddi það að nauðsynlegt væri að útlendingar sem hingað kæmu þyrftu að framvísa sakavottorði og nefndi að þeir gæfu einnig aðrar upplýsingar um sjálfa sig.

Þetta er alveg rétt hjá Margréti. Að sjálfsögðu á að gera það sem hún segir. Hún þekkir þetta af eigin raun.  En sósíalfræðingarnir í flokknum sem Margrét stofnaði "Samfylkingunni" kalla þetta rasisma þegar við Frjálslynd höfum bent á þetta. Nú veit ég að Margrét er ekki rasisti frekar en ég eða aðrir félagar mínir í Frjálslynda flokknum. Margrét er einfaldlega skynsöm kona sem vinnur í því umhverfi að hún veit um hvað hún er að tala í þessum efnum.

Skrýtið að fangelsisstjórinn á Litla Hrauni skuli nú fyrst taka undir það sem við Frjálslynd sögðum fyirr kosningar og dómsmálaráðherrann skuli vera að framkvæma það sem við sögðum fyrir kosningar. Þá var það rasismi í munni margra flokksystkina þeirra. Skyldi það fólk vera sama sinnis í dag?


Gott hjá dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er án efa einn dugmesti ráðherra sem við eigum í dag. Fólk getur að sjálfsögðu greint á um marga hluti og þannig er það með ýmis verk dómsmálaráðherra að það eru ekki allir sammála og þannig er það og á að vera í lýðræðislandi. Af sjálfu leiðir að þeir sem gera eru í meiri hættu á því að vera umdeildir en þeir sem gera ekki.

Ég hef ítrekað bent á ýmis vandamál sem eru því samfara fyrir fámenna þjóð að taka við miklum fjölda útlendinga á stuttum tíma. Sósíalíska félagsfræðikynslóðin með Eirík Bergmann fræðimann í broddi fylkingar hefur algjörlega hafnað þessu og brugðist ókvæða við.

Nú hefur dómsmálaráðherra farið að eins og ég benti á  fyrir tæpum tveim árum síðan, að við ættum að fara að, með svipuðum hætti og Norðmenn hafa gert að semja um að refsifangar af erlendu bergi brotnu afplánuðu refsidóma sína í heimalandi sínu. Nú hefur dómsmálaráðherra samið um það við stjórnvöld í Litháen að þau annist um að framfylgja refsidómum yfir þrem Litháum sem hafa verið dæmdir fyrir afbrot hér á landi. Næsta skrefið hjá dómsmálaráðherra er eftir því sem sagt er í fréttum að semja með sama hætti við stjórnvöld í Póllandi.

Dómsmálaráðherra á skilið að fá þakkir fyrir þessa framkvæmd.  Það er betra að horfa með raunhæfum hætti á þau mál og vandamál sem skapast þegar fjöldi fólks af erlendu bergi brotið kemur til landsins í staðinn fyrir að bora upp í nefið á sér og neita staðreyndum. 


Sigurbjörn Einarsson

Sigurbjörn Einarsson var tvímælalaust helsti trúarleiðtogi þjóðarinnar síðustu áratugi.

Ég minnist þess í fyrsta skipti sem ég hlustaði á hann þá var ég í Menntaskólanum í Reykajvík og Sigurbjörn kom til að ræða við okkur um kristni og kirkju. Það voru nokkrar áleitnar spurningar sem brunnu þá á mínum vörum sem ég spurði Sigurbjörn að og átti fyrirfram ekki von á að fá ásættanlegt svar frá honum. Ég hafði iðulega spurt þessara spurninga áður en ekki fengið viðunandi svör að mínum dómi.  Í þetta skipti brá svo við að Sigurbjörn svaraði öllum spurningum mínum með þeim hætti að sá efi sem var í unglingssálinni var ekki lengur til staðar.

Mér finnst þakkarvert að hafa átt þess kost að kynnast Sigurbirni Einarssyni og njóta leiðsagnar hans að nokkru.

Öll þjóðin stendur í þakkarskuld við Sigurbjörn Enarsson.

 Ég bið fyrir góðar kveðjur til fjölskyldu og náinna ættingja Sigurbjörns


Ráðdeild og sparnaður.

Flestir muna eftir helsta efnahagsúrræði forsætisráðherra sem hann setti fram í sumar að fólk ætti að spara m.a. fá sér sparneytnari bíla auk annars sparnaðar. Þessi ráðgjöf virðist bara eiga við almenning.  Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins á undan Davíð og Geir lögðu mikla áherslu á sparnað og ráðdeild í ríkisrekstri og töldu það aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins að standa þannig að landsstjórninni að fyllsta aðhalds og sparnaðar væri gætt.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn skipt um stefnu.  Varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra lætur sig ekki muna um að fara til Kína með ráðuneytisstjóra sínum og  mökum þeirra til að horfa á handboltaleik. Vissulega mikilvægan handboltaleik þar sem spurning var um gull eða silfur á Olympíuleikum.  Ferðin kostaði skattgreiðendur 2.090.000 eða tæplega tværmilljónir og eitt hundrað þúsund eða 35.000 á hverja mínútu leiksins.

Ljóst er að fjármunir eru afstæðir og nauðsynlegt er að eyða ríkisins fé til brýnna hluta. Spurningin er hins vegar hvort þessi útgjöld eru afsakanleg. Þurfti menntamálaráðherra, ráðuneytisstjóri og makar að fara? Þau höfðu ekkert með gengi eða gengisleysi landsliðsins að gera. Menntamálaráðherra tók ákvörðun um að fara vegna þess að hana langaði til að horfa á handboltaleik. Vissulega má  hana langa til þess en þá er líka eðlilegt að hún og föruneyti hennar borgi fyrir sig.  Það var engin þjónustu við skattgreiðendur að fara þessa ferð.

Ég velti fyrir mér hvort starfsþunginn í menntamálaráðuneytinu sé svona lítill við upphaf skólaárs að menntamálaráðherra og ráðuneytisstjóri geti fyrirvaralaust tekið ákvörðun um að hlaupa í burtu í viku að eigin geðþótta.

Nú geta einhverjir reiðst og sagt að eðlilegt hafi verið að menntamálaráðherra sem líka er íþróttamálaráðherra væri viðstödd þennan mikilvæga leik. Þannig er það bara ekki. Það bar enga nauðsyn til og hvernig sem bullinu er á botnin hvolft þá liggur það fyrir að það var engin þörf á þessari ferð. Það væri mannsbragur að því að menntamálaráðherra og föruneyti borguðu fyrir sig en létu skattgreiðendur ekki sitja uppi með kostnaðinn af bruðli og óráðssíu fyrirfólksins í þjóðfélaginu.

Hvað skyldi þurfa skatta margra láglaunafjölskyldna til að borga fyrir íslenska aðalinn í Peking?


Það sem þú segir, gildir.

michelle-obamaEiginkona Barack Obama hélt góða ræðu á flokksþingi Demókrata í nótt. Þar sagði hún m.a. að hún og eiginmaður hennar sem vonandi verður næsti forseti Bandaríkjanna ættu mörg sömu áhugamál og deildu mörgum hugðarefnum og hugsjónum. Hún lagði sérstaka áherslu á að meðal þess væri:

Að þú gerir það sem þú segist ætla að gera og haldir orð þín.

Að umgangast alla með virðingu óháð því hvort þú ert sammála eða ekki.

Mér finnt þetta skipta miklu. Þannig samþykki ég ekki að það sé heimilt  eins og sumir halda fram að segja ósatt í pólitík af því að það veiti einhvern sérstakan rétt til þess. Mér finnst einmitt óheilindin sem við höfum séð að undanförnu t.d. í borgarstjórn Reykjavíkur sýna að það eru ekki svona stjórnmál sem við eigum að hafa eða vilja.

Gerum frekar inntak þess sem Michelle Obama sagði í gær. Það er í raun forsenda siðrænna stjórnmála. Spurning er hvaða leið íslenska þjóðin vill fara.


mbl.is Draumurinn lifir í Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland.

Það var mikil stemmning þar sem ég horfði á úrslitaleikinn við Frakka. Flestir sem vit hafa á handbolta (ég er ekki einn þeirra) vissu að Frakkar eru með firnasterkt lið og Ísland yrði að gera betur en það besta til að eiga möguleika á að vinna gullið. Það tókst ekki. Samt sem áður þá hefur íslenska liðið staðið sig betur en nokkur þorði að vona fyrirfram og við erum öll stolt af afreksmönnunum okkar í handboltalandsliðinu.

Mér finnst það samt ekki ásættanlegt að það skuli líða meir en hálf öld á milli þess að við vinnum silfur á Olympíuleikum.  En við gerum bara betur og þessi árangur handboltalandsliðsins sýnir hvað hægt er að gera og hvað það er hægt að komast langt með einbeittum vilja og hörku. Ég er einn þeirra sem hef verið og er einlægur aðdáandi Ólafs Stefánssonar sem mér finnst alltaf skila sínu og rúmlega það. Mér finnst hann vara stóri pabbinn í landsliðshópnum.

Við getum verið stolt af landsliðsstrákunum okkar í Peking. Til hamingju Ísland að eiga þá.


Hafa skal það sem sannara reynist.

Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins hefur skýrt mér og formönnum kjördæmafélaga Frjálslyndra í Reykjavík frá því, að hann hafi aldrei gefið Ólafi F. Magnússyni vilyrði fyrir einni eða neinni stöðu innan Frjálslynda flokksins, ef hann gengi í flokkinn, hvað þá heldur að Ólafur hafi fengið ádrátt um að leiða lista við næstu borgarstjórnarkosningar. Allt tal Ólafs F um annað er því ekki sannleikanum samkvæm og þarf ekki frekari vitnanna við.  Guðjón hefur þannig svarað þeirri spurningu afdráttarlaust sem ég sagði að hann þyrfti að gera á blogginum mínu í gær.

Af sjálfu leiddi að Guðjón Arnar gat ekki hafa gefið þær yfirlýsingar sem Ólafur F. heldur fram að hann hafi gefið en vegna ítrekaðra ummæla Ólafs F. var nauðsynlegt að Guðjón Arnar gæfi þessa ótvíræðu yfirlýsingu.

Ólafur F hefur opinberlega sagst ætla að ganga í Frjálslynda flokkinn en hefur ekki sent inntökubeiðni þegar þetta er ritað tveim dögum eftir opinberu yfirlýsingu sína svo vitað sé. Óalfur F er því ekki félagi í Frjálslynda flokknum.


Get ekki boðið Ólaf F. Magnússon velkominn í Frjálslynda flokkinn.

Það kom mér á óvart að heyra það haft eftir Ólafi F. Magnússyni borgarfulltrúa að meðan ég var í fundarferð á landsbyggðinni hafi hann setið á hljóðskrafi með formanni Frjálslynda flokksins til að véla um það að hann mundi leiða lista Frjálslynda flokksins við næstu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík og formaðurinn hafi lagt að honum að ganga í Frjálslynda flokkinn.

Nú verður Guðjón Arnar Kristjánsson að gera afdráttarlaust grein fyrir því hvort að Ólafur F. Magnússon sé að segja satt eða ekki.

Óneitanlega er það merkilegt að Ólafur F. Magnússon skuli hafa sagt sig úr Frjálslynda flokknum fyrir síðustu kosningar án þess að gera nokkra grein fyrir því á hvaða forsendum. Þá er jafnframt merkilegt að hann skuli allan þann tíma sem hann var borgarstjóri hafa talað sem félagi í Íslandshreyfingunni. Ólafur F. verður að gera grein fyrir því af hverju hann á nú allt í einu samleið með Frjálslynda flokknum, þegar hann er búinn að missa stöðu sína, en átti það ekki áður.

Þá er eðlilegt að Ólafur F og þeir úr Frjálslynda flokknum sem Ólafur F. segir að hafi komið að máli við sig um að ganga í Frjálslynda flokkinn og gegna þar forustuhlutverki geri grein fyrir því af hverju ekki var talað við kjördæmafélögin í Reykjavík eða borgarmálafélagið um málið. Af sjálfu leiðir að þar var vettvangurinn til að tala um málið en ekki á flugvellinum á Ísafirði.

Hafi ég tekið rétt eftir sagði flokkssystir Ólafs F í Íslandshreyfingunni og varamaður hans í borgarstjórn, Margrét Sverrisdóttir,  að Ólafur væri að leita sér að fjárhagslegum vettvangi til að kosta framboð sitt við næstu kosningar. Stefnufesta hans er auk heldur svo mikil að haft er eftir honum á visir. is í gær að leiði hann ekki lista Frjálslyndra í Reykjavík þá muni hann leiða lista annars flokks. 

 


Góðir fundir á Húsavík og Akureyri.

Fundir okkar Sigurjóns Þórðarsonar á Húsavík á mánudaginn og Akureyri í gær heppnuðust vel og það urðu mjög fjörugar umræður á báðum fundunum. Engum datt í hug að koma í jakkafötum á kajann eins og talað var um í athugasemd varðandi bloggfærsluna um fundinn á Reyðarfirði. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af því að ungar konur hafi ekki verið á fundunum að þá er það misskilningur.

Það sem mestu skipti var að fundirnir voru góðir málefnalega. Umræðuefnið var "Út úr þrengingunum" og í framsöguerindum var fjallað almennt um þjóðmálin og hvernig á að bregðast við þeim vanda sem hefur verið að skapast. 

Það skipti líka máli og ég er ánægður með að hafa átt kost á því að kynnast af eigin raun hvernig staðan er á Austurlandi og Norðurlandi og hlusta á hugmyndir og úrræði fólksins í landinu. Ég lít á það sem hluta af skyldum þingmanns að gera það.


Góður fundur á Reyðarfirði

Frjálslyndir héldu góðan landsmálafund á Reyðarfirði í kvöld. Góð mæting var á fundinn og umræður fjörugar. Sigurjón Þórðarson ræddi um sjávarútvegsstefnuna og sýndi hvað mikil verðmæti fara í súginn með þeirri fiskveiðistjórnun sem við höfum. Ég var hinn frummælandinn á fundnum og ræddi m.a. um leiðir út úr núverandi vanda og vakti m.a. athygli á að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar væri svo algjört að fréttamenn væru hættir að leita eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum en spyrðu þess í stað stjórnarandstöðuna um hvað væri til ráða.

Umræður voru fjörugar og fram komu ábendingar um óréttlæti kvótakerfisins sem blasir við íbúum þessa svæðis þar sem þeir sem fengu gjafakvótann hafa selt hann og lifa í vellystingum praktuglega í útlöndum en lífsbjörgin hefur verið tekin frá ýmsum. Þá komu fram skemmtileg sjónarmið og skoðanaskipti um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og um aðhald að ríkisbákninu og fjölda annarra mála.

Út úr þrengingunum er spurning um að taka réttar ákvarðanir um hvert á að stefna til að viðhalda velmegun í landinu og koma í veg fyrir kreppu.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 181
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4002
  • Frá upphafi: 2427802

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 3705
  • Gestir í dag: 167
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband