Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Íslandsmet í orðhengilshætti og tvískinnungi.

Steingrímur J. Sigfússon er ótvíræður sigurvegari í Íslandsmótinu í orðhengilshætti og tvískinnungi. Nú er hann og VG búið að samþykkja að fara í aðildarviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Á sama tíma og Steingrímur tilkynnir flokksfélögum sínum það bendir hann á að VG sé eindregið á móti aðild að Evrópusambandinu. Er hægt að gera það betur. Vafalaust hefur ræða Steingríms hljómað eitthvað á þessa leið. "Góðir félagar. Ég er eindreginn andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu og studdi ákvörðun síðasta landsþings VG í þeirri afstöðu og af þeim sökum hef ég ákveðið að ríkisstjórn okkar og Samfylkingar muni hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið en að þeim loknum munum við kæru félagar greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu okkar."

Það að skýla sér á bak við þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning er næsta hjákátlegt. Það fer engin í aðildarviðræður ef hann hefur engan áhuga á aðild. Það að samþykkja aðildarviðræður eins og VG gerir sýnir áhuga á aðild að Evrópusambandinu ef hagstæðir samningar nást. Önnur niðurstaða er ekki rökfræðilega tæk.

Þessi afstaða VG sýnir að þeim eru kærari ráðherrastólar en yfirlýst stefna flokksins. Sagt er að Hamlet Danaprins hafi sagt á sínum tíma að það að vera eða vera ekki það væri spurningin. VG hefur svarað þeirri spurningu afdráttarlaust.  Þeir vilja vera í ríkisstjórn og þeir vilja í aðildarviðræður um Evrópusambandsaðild Íslands.


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einyrkjar í atvinnurekstri njóta ekki velferðar.

Það er hárrétt hjá Neytendasamtökunum að breyta þarf lögum um greiðsluaðlögun þannig að einyrkjar í atvinnurekstri og smáatvinnurekendur geti sótt um greiðsluaðlögun.

Þegar málið var til meðferðar á Alþingi í vor þá barðist ég fyrir því að lagafrumvarpinu yrði  breytt með þeim hætti og benti ítrekað á það í þingræðum að nauðsyn væri til að einyrkjar í atvinnurekstri og smáatvinnurekendur nytu þessa úrræðis sem og aðrir. Því miður var ekki nægjanlegur skilningur á þessu mikilvæga atriði og þess vegna var lagafrumvarpið afgreitt í vor án þess að smáatvinnurekendur eða einyrkjar fengju að njóta þessa réttarúrræðis.

Í umræðunni kom m.a. fram að það gæti verið mikilvægt fyrir bændur og iðnaðarmenn að geta fengið greiðsluaðlögun í ákveðnum tilvikum en þrátt fyrir það að það sjónarmið væri samþykkt þá náðist ekki fram breyting hvað þetta varðar. Nú kemur líklega í ljós fljótlega þegar reynir á lögin að það er óþolandi mismunun að neita smáatvinnurekendum og einykjum um greiðsluaðlögun.

Hugmyndin um greiðsluaðlögun á jafnt við um smáatvinnurekendur sem launþega og þess vegna er mér það óskiljanlegt af hverju mátti ekki láta lögin ná til þessara aðila.

Það verður því að breyta lögunum til að láta þau ná til smáatvinnurekenda og einkyrkja líka.


mbl.is Breyta þarf lögum um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbreytt gjafakvótakerfi þrátt fyrir kosningaloforð.

Sé það rétt sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins í dag að Vinstri Grænir og Samfylkingin ætli ekki að breyta neinu varðandi fiskveiðistjórnarkerfið þrátt fyrir kosningaloforð sín þá er þar um meiri háttar kosningasvik að ræða.

Samfylkingin og Vinstri grænir höfðu það á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að innkalla aflaheimildir með svonefndri fyrningarleið, sem getur verið skynsamleg ef hún er útfærð rétt. Samkvæmt fréttinni þá ætlar þessir flokkar að svíkja þetta kosningaloforð sitt án nokkurra skynsamlegra ástæðna.

Ástand í efnahagsmálum og skuldsetning sjávarútvegsins breytir engu um stefnumörkun í fiskveiðistjórnarmálum. Hægt er að ákveða leiðina, útfæra hana og ákveða tímamörk. Þar yrði m.a.að  taka á þeim helstu atriðum sem máli skiptir til að útgerðin sem helsti atvinnuvegur þjóðarinnar verði áfram burðarás í atvinnulífi okkar.

Önnur leið gæti verið miðað við ásatndið í dag að innleysa aflaheimildir á móti skuldum og bjóða þær aflaheimildir síðan út til hæstbjóðanda með skilyrðum e.t.v. um löndunarhafnir að hluta t.d. og ef til vill fleiri skilyrði.

Meginatriðið er núna það að VG og Samfylking lofuðu breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu fyrir kosningar. Voru efnahagsástæður ekki þekktar þá og var skuldastaða sjávarútvegsins ekki þekkt þá?

Það að heykjast á kosningaloforðinu um breytta fiskveiðistjórn eins og VG og Samfylkingin virðast vera að gera er því ekkert annað en svik við þá kjósendur sem greiddu þessum flokkum atvkæði í síðustu kosningum vegna þessara loforða.  Finnst kjósendum VG og Samfylkingarinnar þetta við hæfi?


mbl.is Kvótakerfi ekki umbylt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegur veruleikaheimur fjármálaráðherra

Sama dag og Vinnumálastofnun tilkynnti um að 283 hefði verið sagt upp í hópuppsögnum um síðustu mánaðarmót, sagði fjármálaráðherra á blaðamannafundi að það væri ánægjuefni að atvinnuleysi hefði ekki aukist og mundi samkvæmt spám ekki ná 10%.

Atvinnuleysi karla á höfuðborgarsvæðinu er samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar nú um 11%. En höfuðborgarsvæðið er ekki í kjördæmi fjármálaráðherra svo sem flestir vita.

Atvinnuleysi er nú með því mesta sem verið hefur í landinu. Einu ánægjulegu tíðindin hvað atvinnuleysið varðar er að það dragi úr því og það verulega.

Forsætisráðherra segir að ekkert liggi á að mynda ríkisstjórn og fjármálaráðherra segir það ánægjuefni að atvinnuleysi skuli ekki aukast. Var það þetta sem fólkið vildi sem kaus V og S?

Eitt er víst að tími Jóhönnu varir ekki að eilífu og með sama áframhaldi verður hann liðinn áður en varir.

 


Hvað tefur nýjan stjórnarsáttmála?

Jóhönnu Sigurðardóttur liggur greinilega ekki á að ljúka stjórnarmyndunarviðræðum og birta þjóðinni stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í stjórnarsáttmála stjórnarflokanna.

Hvað skyldi valda því að stjórnarsáttmálinn er ekki enn tilbúinn þrátt fyrir það að forsætisráðherra segi það ítrekað að engin vandamál séu uppi í stjórnarmyndunarviðræðunum. Varla er textahönnuðum VG og Samfylkingarinnar mikill vandi á höndum við að koma hugsunum sínum og samkomulagi á blað. Nóg eiga þeir af íslenskufræðingunum til að gera það vitrænt málfræðilega og setningarfræðilega þó annars sé ekki krafist.

Miðað við síðustu yfirlýsingu forsætisráðherra þá er greinilegt að það er einhver snuðra á þræðinum hjá Jóhönnu og Steingrími og ekki verður annað séð en að samkomulag liggi ekki fyrir að öllu leyti. Forsætisráðherra segir að þau hafi nógan tíma og ekkert liggi á en er það svo:

Er ekki brýnt að bregðast strax við vanda skuldsettra heimila og einstaklinga

Er ekki brýnt að koma virkri bankastarfsemi í gang í landinu

Er ekki brýnt að  gera ráðstafanir til að draga úr atvinnuleysi

Þarf ekki þegar í stað að gera ráðstafanir í gjaldmiðilsmálum eða er meiningin að hafa áfram gjaldeyrishöft.

Hér er bent á nokkur atriði sem voru vandamál þegar samstjórn VG og Samfylkingarinnar var mynduð í boði Framsóknar. Á þeim tíma hefur krónan fallið, gjaldeyrishöft verið hert og atvinnuleysi aukist.

Jóhanna hvenær lýkur þínum tíma? Hversu slæmt þarf ástandið að verða til þess? Staðreyndin er sú að það ber brýna nauðsyn til að starfhæf ríkisstjórn taki til starfa sem allra fyrst.


Stjórnarsáttmáli í smíðum

Formenn VG og Samfylkingarinnar segja að stjórnarsáttmáli sé í smíðum. Það þýðir að flokkarnir hafa náð saman um stjórnarmyndun og meginatriði og verið er að færa það í letur sem samið hefur verið um.

Fróðlegt verður að sjá stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og VG sérstaklega með tilliti til þeirra verkefna sem ný ríkisstjórn verður óhjákvæmilega að sinna. Þegar stjórnarsáttmálinn kemur fram má sjá að nokkru leyti hvert ríkisstjórnin hyggst stefna og hvort líkur eru á því að hún taki á vandamálunum með þeim hætti sem nauðsynlegt er.

Ég taldi eftir bankahrunið í október í fyrra að nauðsyn væri á myndun þjóðstjórnar því miður varð ekki af því. Ég tel með sama hætti nú að gott væri að mynduð yrði þjóðstjórn um lausn þeirra brýnu verkefna sem framundan eru. Ég er hræddur um að tveir sósíalistaflokkar ráði ekki við að taka á þeim vanda sem bregðast verður við með þeim hætti sem nauðsynlegt er.

En bíðum stjórnarsáttmálans og látum væntanlega ríkisstjórn njóta vafans meðan ekki liggur fyrir hvað hún ætlar að gera.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 219
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 4435
  • Frá upphafi: 2450133

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband