Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Vér einir vitum

Arfakóngar fyrri alda töldu sig einir vita hvað þegnunum væri fyrir bestu. Þeir töldu sig hafa þegið vald sitt frá Guði og gengju næstir páfanum að óskeikulleika.

Nú hafa 9 þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu sem byggð er á viðhorfum arfakónga. Hugmyndir manna eins og John Stuart Mill um Frelsið og þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við myndun nútíma lýðræðisríkja er þeim fjarlæg.

Óneitanlega sérstakt að  þingmaður Sjálfstæðisflokksins taki þátt í þessu og tveir þingmenn Hreyfingarinnar.  Sér í lagi þar sem þingsályktunartillagan fer í bág við hugmyndir um frelsi borgaranna, sjálfsákvörðunarrétt og virðingu fyrir ólíkum lífsstíl og löngunum  og umburðarlyndi.

Tillaga þingmannanna sem telja sig ganga næst arfakóngum að gáfum kveður á um margháttaðar frelsissviptingar reykingafólks og einungis megi selja tóbak í apótekum. Af hverju apótek. Selja  þau ekki heilsuvörur og lyf?

Næsta tilllaga verður  um að hangikjöt, saltað folaldakjöt og annað saltkjöt, transfitusýrur og franskar kartöflur verði eingöngu seld í apótekum eða bannað vegna skaðsemi fyrir heilsuna.

Þeir einir sem hafa höndlað sannleikann um réttan lífsstíl eins og þingmennirnir 9 og telja sér heimilt að ráða fyrir öllum öðrum munu þá væntanlega ganga  leiðina á enda og skylda fólk til að borða að viðlögðum sektum og fangelsisvist í samræmi við matseðil sem gefin yrði út af Lýðheilsustofnun.

Reykingar eru hvimleiðar fyrir okkur sem ekki reykjum. En við eigum samt ekki rétt á því að svipta þá sem reykja öllum rétti til að gera það frekar en að svipta fólk rétti til að borða franskar kartöflur, ís og reykt kjöt svo dæmi séu nefnd.

Þjóðfélag sem virðir grundvallarskoðanir um frelsi einstaklingsins verður að sætta sig við að okkur kemur takmarkað við hvað aðrir gera svo fremi sem það skaðar ekki annað fólk.  Þingmennirnir 9  vilja sjálfsagt í samræmi við forsjárhyggju sína að fólk borði klálböggla og arfa í allan mat og stundi sjóböð fjallgöngur og lyftingar eftir vinnu. En þannig getur það ekki verið í lýðræðisríki.

Forsenda lýðræðis er  frelsi og umburðarlyndi og það má ekki gleyma því að löstur er ekki glæpur


Þessi manneskja

Þráinn Bertelsson Vinstri Grænn er þekktur af öðru en því að sýna konum virðingu.

Stutt er síðan hann kallaði nokkrar þingkonur  fasistabeljur og íhaldsbullur og brigslaði þeim um ómálefnaleg vinnubrögð.  Gamlir félagar Þráins héldu að þar væri gamli Komminn og fótaveiki Bóheminn kominn í gamla stuðið, eins og hann var á tímum kalda stríðsins.

Í dag minnir Ingibjörg Sólrun Gísladóttir utanríkisráðherra á loforð ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum.  Þá bregst Þráinn svo við að vísa til fyrrverandi þingmanns, ráðherra og formanns Samfylkingarinnar, sem "þessarar manneskju" og fárast yfir því að hún skuli yfir höfuð vilja eitthvað upp á dekk. Raunar orðar Þráinn það með þeim hætti að hann sakfellir Ingibjörgu og sakar utanríkisráðherra um það að hafa bjargað henni frá Landsdómi. 

Með öðrum orðum þá virðist  þingmaðurinn sem tryggir ríkisstjórninni meiri hluta á Alþingi telja að svipta eigi Ingibjörgu Sólrúnu málfrelsi og skoðanafrelsi auk þess sem hana hafi átt að ákæra af Alþingi og Landsdómur að dæma hana seka. Ekki í fyrsta sinn sem menn, sem mótaðir eru úr þessum hugmyndafræðilega leir, telja rétt að þeir fari með löggjafarvald, ákæruvald og dómsvald yfir þeim sem þeir telja ekki þóknanlega.

Það hlítur að vera gott að búa á kærleiksheimili stjórnarflokkana þar sem Þrárinn Bertelsson, sem Framsókn tróð inn í raðir þeirra sem fá heiðurslaun listamanna, sakfellir þingkonur og fyrrverandi þingkonur til hægri og vinstri auk þess sem hann kallar nánast alla þjóðina nema þingflokk Vinstri grænna hálfvita.

Ríkisstjórnin telur  sig eigi samstöðu með þessum þingmanni og  Þráinn er sannfærður um að þær skoðanir sem hann viðrar eins og að ofan greinir séu viðhorf ríkisstjórnarinnar. Meðan því er ekki mótmælt þá er það líka þannig.

 


Steingrímur sigar varðhundinum á flokkssystur sína

Steingrímur J. Sigfússon á í vök að verjast eftir að upplýst hefur verið að hann seldi íslensk heimili og fyrirtæki í skuldaánauð erlendra vogunarsjóða. Sem lið í ómálefnalegri málsvörn sinni hefur hann sigað varðhundinum sínum Birni Val Gíslasyni á þá sem hafa gagnrýnt þessa embættisfærslu fjármálaráðherra.

Málsvörn varðhundsins felst í því að reyna að gera lítið úr þeim sem hafa bent á þessi nánast glæpsamlegu mistök Steingríms J. Sigfússonar. Þannig vegur Björn valur í færsu á netsíðu sinni m.a. að Lilju Mósesdóttur flokkssystur sinnar, en lætur ekki nægja að vega að henni sem stjórnmálamanni heldur líka að henni sem fræðimanni.

Steingrímur og nánustu samstarfsmenn hans vita að það er ekki er hægt að afsaka framsal Steingríms á skuldakröfum heimilanna til erlendra vogunarsjóða og grípa því til þeirra "málefnalegu" vinnubragða að reyna að gera lítið úr öllum sem gagnrýna.

Hvernig skyldi standa á því að varðhundurinn Björn Valur skuli ekki víkja einu orði að því að aðgerð Steingríms J. með skuldaframsalinu til vogunarsjóðanna hafi verið rétt og skynsamleg? Segir það ekki mikla sögu?

Athyglivert að þessi atlaga Björns Vals að Lilju Mósesdóttur kemur fram á sama degi og flokksstjórnarfundur VG álytkaði að öll VG dýrin ættu að vera vinir og vinna saman. Björn telur greinilega enga ástæðu til að taka þessa ályktun alvarlega.


Hin eini þóknanlegi sannleikur

Meðan þursaveldið Sovétríkin var og hét, var haldið úti tveim opinberum dagblöðum, sem sögðu frá því sem æðsta stjórn Kommúnistaflokksins vildi að fólkið fengið að vita, til að skoðanir þess væru mótaðar í samræmi við hinn eina þóknanlega sannleika. Blæbrigðamunur var á því hvernig blöðin Isvestia og Pravda hin opinberu málgögn sögðu frá málum, en allt féll það í einn farveg að lokum sem sýndi fram á mikilleik og stjórnvisku leiðtogana.

Í gær kom fram birtingarmynd af þessari sovésku fréttamennsku þegar Isvestia Íslands, Stöð 2 talaði við Steingrím J. vegna þess sem sýnt hefur verið fram á að hann afhenti erlendum vogunarsjóðum  kröfur á íslensk fyrirtæki og heimili án fyrirvara þó að kröfurnar hefðu áður verið afskrifaðar að verulegu leyti.

Fréttamaður Isvestia, Stöð 2 spurði Steingrím og hann sagði að allir þeir sem héldu því fram að hann hefði afhent kröfurnar með þeim hætti sem m.a. Ólafur Arnarson og Lilja Mósesdóttir halda fram væru að fara með rugl og fleipur.  Þar með var stóri sannleikur kominn. Foringi flokksins var ekki spurður frekar og fréttamanninum fannst ekki ástæða til að tala við þessa meintu rugludalla Ólaf og Lilju. Hinn eini þóknanlegi sannleikur var kominn fram. Fréttastofan hafði gengt hlutverki sínu til að sýna fram á mikilleik stjórnvalda.

Fréttastofa ríkissjónvarpsins sem er eins og Pravda í gamla Sovét hefur ekki látið neitt frá sér heyra um málið. Alveg eins og það hafi alveg farið framhjá fréttamönnum á þeim miðli. Ef til vill er það vegna þess að þeir eru þó það vandir að virðingu sinni að þeir vilja ekki tala um það sem þeir vita að er ekki hægt að verja hjá ríkisstjórninni. Samt skal það sagt með fyrirvara og skoða hvað gerist á næstunni hvort fréttastofan þegir um málið eða segir frá því með eðlilegum hætti sem fréttastofa eða fer í sama stíl og Pravda forðum.

Í dag var Ólafur Arnarson í Silfri Egils og gerði rækilega og skilmerkilega grein fyrir hvað hér er um að ræða og hvernig íslensk stjórnvöld með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar brugðust íslenskum hagsmunum í febrúar 2009.  Athyglivert var að hlusta á viðmælendur hans í kjölfar umfjöllunar Ólafs. Róbert Marshall talaði um að gera yrði eitthvað í skuldamálum fyrir næstu kosningar. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins talaði í framhaldinu um skuldastöðu fyrirtækis sem missti yfirdráttinn.

Ef til vill er ekki von á því að fjölmiðlafólk átti sig á grundvallaratriðum þegar forustufólk á Alþingi sýnir jafn næman skilning og raun bar vitni í þessum Silfurþætti  á aðalatriðum og aukaatriðum. Stöð 2 og fréttastofa Rúv munu því áfram komast upp með fréttamennsku í samræmi við hin þóknanlega sannleika, jafn lengi og engin vitræn viðspyrna er gegn því.


Formaður Framsóknarflokksins brýtur gegn pólitískri rétthugsun.

Formaður Framsóknarflokksins hefur brotið gegn pólitískri rétthugsun með því að bera fram tvær fyrirspurnir á Alþingi um hlutdeild erlendra ríkisborgara í innbrotum á íslensk heimili og hlutfallslegan fjölda þeirra í fangelsum á Íslandi.

Ég hef spurt þessara spurninga og þá hafa talsmenn pólitískrar rétthugsunar og fjölmenningarsamfélagsins jafnan brugðist ókvæða við og haldið því fram að þetta kæmi málinu ekki við og væri hættulegt bæði að rannsaka og hvað þá heldur ræða.  Ég reikna með að Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins verði fyrir svipuðu aðkasti nú þegar hann leyfir sér að fara inn á þetta jarðsprengjusvæði sem varðar þó mikilvæga  hagsmuni heiðarlegs fólks.

Mér hefur alltaf verið  óskiljanlegt af hverju má ekki skoða þessa hluti eins og aðra. Það hefur ekkert með fordóma að gera heldur spurningu um viðbrögð við því að erlendir glæpamenn hafa komið í allt of stórum stíl til landsins. Það að bregðast ekki við með eðlilegum hætti þar á meðal upplýsingagjöf er hættulegt. 

Hvert einasta þjóðfélag verður að verja hagsmuni borgara sinna. Augu fólks víða í Evrópu eru nú að opnast fyrir því að Schengen reglurnar og opin landamæri Evrópusambandsins  án vegabréfa hafa opnað glæpahópum nýja möguleika. Við því verður að bregðast af skynsemi. Ef skynsemin verður að víkja fyrir pólitískum rétttrúnaði fjölmenningarhyggjunar þá er hætt við því að fordómar og kynþáttahyggja aukist. Með skynsamlegri umræðu og nauðsynlegri upplýsingagjöf og fordómalausri umræðu eru meiri líkur á góðum árangri.

Formaður Framsóknarflokksins sýnir pólitískt hugrekki með því að spyrja þessara nauðsynlegu spurninga. Því miður hefur pólitísk nauðhyggja fjölmenningarsinnana fært okkur á þann stað.  En til upprifjunar má benda á að á einu ári hafa bæði David Cameron og Angela Merkel talað um þau mistök sem gerð hafa verið  á grundvelli fjölmenningarhyggjunnar.

Á stuttum tíma hafa aðstæður á Íslandi breyst þannig að í stað þess að hér væru hlutfallslega fæstir innflytjendur á Norðurlöndum þá eru þeir nú flestir en á sama tíma streymir ungt dugnaðarfólk úr landi.

Væri ekki eðlilegt að stjórnmálamenn veltu þeirri spurningu fyrir sér hvað það er sem veldur þessu. Svörin liggja í augum uppi en er ef til vill ekki gott að svara svo þau verði þóknanleg þeirri pólitísku rétthugsun sem hefur heltekið stóran hluta talandi og skrifandi stétta í landinu.


Ótrúlegt, en satt.

Lilja Mósesdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismenn og Ólafur Arnarsson hafa vakið athygli á máli sem er þess eðlis að fyrirfram hefði mátt ætla að fjölmiðlar þjóðarinnar mundu loga og gera málinu verðug skil. Málið snýst um að hundruðir milljarða voru afhentir að óþörfu erlendum kröfuhöfum. Þetta er ótrúlegt en satt. Svona glópa höfum við sem æðstu stjórnendur því miður.

Málið varðar einmuna glópsku fjármálaráðherra og forsætisráðherra sem gáfu erlendum kröfuhöfum skotleyfi á íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki. Þessi glópska ráðherranna er með þeim hætti að manni fallast hendur. Þrátt fyrir takmarkaða virðingu fyrir stjórnvisku og hæfileikum þeirra Steingríms og Jóhönnu þá hvarflaði ekki að mér að þau væru þeir glópar að selja framtíð íslenskra heimila og atvinnufyrirtækja í hendur kröfuhafa endurreistra viðskiptabanka.

Nú bíð ég eftir því að stjórnarandstaðan taki þetta mál upp nú þegar og beri fram vantraust á þá ráðherra sem ábyrgð bera á þessari aðför að heimilum landsins og atvinnurekstri.  Þá verður það ekki nægjanlega undirstrikað að þessar upplýsingar sýna að Jóhanna Sigurðardóttir er svikin vara. Skjaldborgin gat aldrei orðið til vegna þess að Jóhanna fórnaði henni í febrúar 2009.

Nánar má lesa um þessa glópsku og svívirðingu Jóhönnu og Steingríms í góðri færslu Ólafs Arnarssonar á Pressunni en slóðin er þessi: http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/skotleyfi-a-skuldara---helstu-punktar

Nú reynir á hvort stjórnarandstaðan er vanda sínum vaxin.  Ef til vill væri rétt að Lilja Mósesdóttir yrði fyrsti flutningsmaður þessarar vantrauststillögu á þá ráðherra sem ábyrgð bera á þessari aðför að almenningi og atvinnulífi í landinu. Hún hefur alla vega tjáð sig með þeim hætti, og á þakkir skildar fyrir það, að það er rökrétt að hún beri fram vantrauststillögu á fyrrum formann sinn og fleiri ráðherra.


Bara svolítinn sykur

Þeir sem hafa séð kvikmyndina Mary Poppins muna vafalaust eftir því þegar hún fékk börnin til að taka meðalið sitt og söng "Just a spoonful of sugar helps the medicine go down( sykurskeið hjálpar til að koma meðalinu niður) Nú áratugum eftir að þessi sannindi komu fram hjá barnfóstrunni Mary Poppins þá er sagt frá því í tímaritinu "Nature" að þetta sé ekki bara rétt hjá Mary Poppins heldur auki sykurinn virkni sumra lyfja.

Þannig að "a spoonful of sugar makes the medicine work" (sykurskeið lætur lyfið virka) Þannig segir tímaritið frá því að sýklalyf sem gefin eru með sykri geti aukið virkni sýklalyfsins eins og t.d. þegar um berkla er að ræða og ýmissa aðra sjúkdóma.

Mary Poppins hefur greinilega vitað sínu viti og rúmlega það.


Út úr Afghanistan

David Cameron hefur kynnt þá skoðun sína að Bretar eigi að hefja heimflutning herliðs síns úr Afghanistan sem fyrst.  Þrátt fyrir það að forsætisráðherrann vilji kveðja herinn heim þá eru nokkur ljón á veginum.  Foringjar hersins eru ekki á sama máli og forsætisráðherrann.

Nú er spurningin hvað verður ofan á og hver ræður.  Talið er líklegt að heimkvaðning breska hersins byrji í sumar á sama tíma og Bandaríkin fækka í herliði sínu. En þar eru líka hershöfðingjar sem segja eins og þeir bresku að nú sé þetta alveg að koma og ekki megi fækka hermönnum.

Skrýtið hvað fólk lærir lítið af sögunni. Bretar þurftu ítrekað að fara frá Afghanistan iðulega eftir mikið mannfall án nokkurs árangurs. Rússar þurftu að fara frá Afghanistan eftir mikið mannfall án nokkurs árangurs. 

Herlið Bandaríkjanna og Breta er búið að vera í Afghanistan frá 2001 eða í tíu ár og gríðalegum peningum hefur verið varið til landsins og mikið lent í höndum spilltra stjórnvalda í landinu.  Samt sem áður sést engin árangur. En hershöfðingjarnir segja að þetta sé alveg að koma. 

Þeim mun fyrr sem Bandaríkin, Breta og aðrar NATO þjóðir kalla herlið sitt heim frá Afghanistan þá vinnst það að ungu fólki frá Vesturlöndum verður ekki lengur fórnað á blóðvöllum í Afghanistan í tilgangslausum hernaði sem er án markmiðs, takmarks eða tilgangs. Hætt verður að henda peningum í milljarðavís í tilgangslausan hernað.

Vonandi hefur David Cameron betur í viðureign sinni við bresku hershöfðingjanna og nær því að kveðja herinn heim fyrir 2014 eins og hann hefur boðað og  vonandi  sér Barack Obama að blóðfórnirnar og peningaausturinn er tilgangslaus í Afghanistan.  Bandaríkin ættu að hafa Víetnam til varnaðar.

En því miður lærir fólk lítið af sögunni og dregur ekki réttar ályktanir af þeim staðreyndum sem ættu að blasa við


Furðuleg ákæra

Ákæran á hendur Geirs H. Haarde er að jafn fáránleg og til var stofnað af hálfu Rannsóknarnefndar Alþingis, Atla Gíslasyni og öðrum ákærendum úr hópi Alþingismanna.  Saksóknari Alþingis ber þó ábyrgðina á ákærunni og er það illt veganesti fyrir hana í starfi Ríkissaksóknara.

Miðað við almennu ákæruatriðin hefði eins mátt ákæra þáverandi forsætisráðherra Bretlands og Írlands svo og forseta og fjármálaráðherra Bandaríkjanna. En þar dettur engum í hug að ákæra þessa menn af því að þar gera stjórnmálamenn og lögfræðingar sér grein fyrir því að þessir menn unnu sér ekkert til saka ekki frekar en Geir H. Haarde.

Ég mun á gera þessum fáránlega málatilbúnaði og þeirri skömm sem þessi ákæra er fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis, Alþingi, Saksóknara Alþingis og íslenska þjóð ítarleg skil á öðrum vettvangi enda brýn ástæða til að þegja ekki þegar flokkspólitísku ofbeldi er beitt.

Athyglivert er að í ákærunni eru m.a. ákæruatriði  vegna mála sem  heyrðu ekki undir forsætisráðherra heldur aðra ráðherra m.a. viðskiptaráðherra. Það vefst hins vegar  ekki fyrir fólki sem hefur varpað af sér oki þröngrar lagahyggju, í samræmi við ábendingar Rannsóknarnefndar Alþingis, að gefa út glórulausar ákærur.

Hefur fólk velt fyrir sér hver er andstaða lagahyggju og til hvers umboðsmaður Alþingis og Páll Hreinsson Hæstaréttardómari hvetja stjónvöld og dómstóla þegar þeir amast við því að farið skuli að lögum við úrlausn mála?

Ekki verður annað séð en ákæran á hendur Geir taki mið af því að ekki skuli farið að lagahyggju.


Óþolandi árás á heimili ráðherra

Það er óþolandi að ráðherrar á Íslandi geti átt von á því að ráðist sé á heimili þeirra. Í gær var ráðist á heimili Ögmundar Jónassonar og rúður brotnar með grjótkasti. Áður mátti forveri hans Ragna Árnadóttir þola það að hópur fólks úr aðgerðarhópi fyrir frjálst aðgengi útlendinga inn  í landið veittist að heimili hennar.

Maður sem gegndi tímabundið starfi forstöðumanns Útlendingastofnunar þurfti einnig að  þola aðsúg að heimili sínu af sama hópi og réðist gegn heimili Rögnu.

Það er ánægjulegt að lögreglan segist nú ætla að veita ráðherranum vernd og taka upp það nýmæli að rannsaka gaumgæfilega árásir á heimli fólks, grjótkast og skemmdarverk eins og það var orðað í fréttum í dag.

Þannig hefði lögreglan þurft að taka á málum strax og þetta kom upp. 

Já og stjórnmálamennirnir hefðu líka þurft að fordæma árásir, skrílslæti og eignaspjöll strax og styðja við aðgerðir lögreglu gegn óeirðafólki hvar svo sem því datt í hug að láta til sín taka með ósæmilegu og ólöglegu atferli.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 204
  • Sl. sólarhring: 843
  • Sl. viku: 4025
  • Frá upphafi: 2427825

Annað

  • Innlit í dag: 190
  • Innlit sl. viku: 3726
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband