Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Vakandi að feigðarósi

Var það ekki svo að 20 krónur af hverjum 100 sem ríkið eyddi í fyrra voru teknar að láni? Var það ekki svipað árið áður?  Hefur það ekki þýtt aukna skuldasöfnun ríkisins upp á rúmlega 200 milljarða á tveim árum auk ýmiss annars sem eftir er að koma fram?

Viðvarandi fjárlagahalli leiðir til ríkisgjaldþrots og það er ekkert langt í það að við komumst í sömu stöðu og Grikkland og Ítalía. Þá er engin Seðlabanki Evrópu til að kaupa af okkur ónýt ríkisskuldabréf og við erum búin að nýta okkur AGS fyrirgreiðsluna. Hvað ætlum við að gera þá.

Í gær var sagt frá hókus pókus aðferðum sem ríkisstjórnin boðaði til að hafa fjárlagahalla í lágmarki. Ekkert er þar fast í hendi og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er afar bágborin. Slík ríkisstjórn ætti að fara frá og viðurkenna að þeir ráði ekki við vandann og hafi engar haldbærar tillögur.

Eina vonin núna er að stjórnarandstaðan axli ábyrgð og leggi fram tillögur um hallalausan ríkisrekstur. Ríkisstjórnin getur greinilega ekki stjórnað landinu af ábyrgð og festu.


Lífeyrisránið

Ríkiskerfi sósíalismans skyldar alla  til að borga 15% af launum sína alla ævi í lífeyrissjóði.  Þeir sem borga í lífeyrissjóðina ráða engu um það með hvaða hætti peningunum þeirra er ráðstafað eða þeir ávaxtaðir.  Við ráðum ekki nema að takmörkuðu leyti í hvaða lífeyrissjóð við verðum að greiða. Hér gildir fullkomið einræði.

Við eigum þess ekki kost að spara sjálf á eigin forsendum.  Ríkisvald forsjárhyggjunnar svipti okkur því frelsi.

Lífeyrissjóðirnir spila á hlutabréfamörkuðum erlendis og tapa miklu fé. Ef til vill andvirði eins músikhúss eða 40-50 milljörðum síðustu viku.  Þá er eftir að gera upp tapið á vogunarsjóði lífeyrissjóðanna sem er í samkeppnisatvinnurekstri við einkafyrirtæki og ruglar allt sem heitir frjáls samkeppni.

Ræningjar forsjárhyggjunnar hafa ekki áhyggjur af þessu. Þeir stela sparnaðinum okkar með því að segja að við fáum bara minna borgað til baka. Hvaða ábyrgð ber ríkið á þessu. Það setti þvingunarlögin en ber enga ábyrgð.

Er lífeyriskerfið  risastórt svindl þar sem núkynslóðin er sú eina sem fær eitthvað út úr þessu, en komandi kynslóðir ekki. Í grein í Daily Telegraph á sunnudaginn var þessu líkt við frægasta svindl sögunnar kennt við Ponzi en þar gilti reglan fyrstir koma fyrstir fá hinir borga bara.

Þarf ekki að hugsa þetta kerfi upp á nýtt og gefa borgurunum aukið frelsi. Þeir sem vilja það ekki treysta fólki ekki og álíta að forsjárhyggjan sé betri en einstaklingsfrelsið. 

Hvernig stóð annars á því að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessari skerðingu einstaklingsfrelsisins?


Júðar nútímans

Á sínum tíma söng John Lennon um að konan væri negri heimsins. Sá tími er liðinn og nú hefur hvíti karlmaðurinn tekið stöðuna sem "Júðinn" hafði á fyrri hluti síðustu aldar. Sér í lagi ef hann er kristinn og gagnkynhneigður. Ef til vill væri rétt að hann gengi með gula stjörnu til aðgreiningar frá almennilegu fólki eins samkynhneigðum og femínistum

Ummæli sem Páll Óskar Hjálmtýsson sá ágæti listamaður lét falla um hvíta kristna mann og hatrið voru óheppileg, en sögð í hita leiksins og vonandi leiðréttir hann ruglið í kring um ummælin.

Hitt kemur á óvart að yfir 2000 manns lýsa yfir ánægju með ummælin og Ómar Ragnarsson skrifar vegna ummæla Páls Óskars að hvítir karlmenn beri ábyrgð á 2 heimstyrjöldum ásamt öðru illu.

Þessi afstaða byggist á þeirri skoðun að hvíti maðurinn eins og Júðinn áður sé fulltrúi fyrir allt hið illa og allri ánauð gagnvart mankyninu. Susan Sontag rithöfundur orðaði þetta þannig árið 1967. "Hvíti kynstofnin er krabbamein mankynssögunar."

Var ekki gleðigangan sem Páll Óskar var talsmaður fyrir hugsuð á grundvelli mannréttinda fyrir alla? Mannréttinda á forsendum mannréttinda einstaklinga en forðaðist að gefa einum hópi forréttindi umfram aðra. Eigum við ekki að halda okkur við það að mannréttindi séu fyrir einstaklinga og virða einstaklinga sem slíka en forðast að fara í rasíska kyngreiningu. 

Þeim sem  líkar við ummæli Páls Óskars og Ómar Ragnarsson má minna á, að fordómar eins og þessir gagnvart hópi eða hópum hafa orðið til þess í mankynssögunni að draga allt það versta fram í fólki og skiptir þá ekki máli hvort um hvíta kristna karlmenn er að ræða eða ekki.

Má minna á fjöldamorðin í Rúanda þegar Hútúar drápu yfir milljón Tútsa af því að þeir voru Tútsar. 


50 ára forseti

Barack Obama forseti Bandaríkjanna er 50 ára í dag.  Hann eins og svo margir forverar hans í Hvíta húsinu í Washington sýnir þess merki að hann eldist a.m.k. um tvö ár fyrir hvert eitt sem hann er forseti Bandaríkjanna.

Í dag velta margir fjölmiðla-og fræðimenn hvort Obama hafi gengið til góðs í forsetatíð sinni. Slíkt er eðlilegt við tímamót.  ´

Obama tók við embætti eftir að hafa háð kosningabaráttu vonarinnar og fyrirheitanna. Þegar hann tók við embætti eftir bankahrun var ljóst að engin innistæða var lengur fyrir flestum  þeim kostnaðarsömu fyrirheitum og hugmyndum.

Valdamikill stjórnmálamaður kemur alltaf mörgum góðum hlutum í verk og þannig er það með Obama. Hann hefur hins vegar ekki haft hugrekki til að taka á fjárlagahallanum og heimilað lítið hefta dollaraprentun auk peningaprentunar og skuldsetningar  í formi svonefndrar QE (quantitative easing).

Þá hefur hann ekki gert það sjálfsagða og nauðsynlega sem er að semja frið við Þjóðverja og kalla yfir 50 þúsund ríkisstarfsmenn Bandaríkjanna sem þar eru og kallast hermenn heim frá Þýskalandi.

Obama hefur ekki heldur  hugrekki til að kalla herinn heim frá Afghanistan, en heldur áfram að fórna mannslífum og gríðarlegum fjármunum í baráttu sem ekki er hægt að vinna. Baráttu sem engin vitræna glóra er að standa í. Það stendur  Kínverjum, Indverjum og Pakistönum nær að koma á eðlilegu ástandi í Afghanistan en Bandaríkjunum og NATO þjóðum Evrópu.

Vel getur verið að efnahagsvandamálin, stríðið í Afghanistan og vond hrossakaup forseta og þings valdi því að Obama verði ekki endurkosinn en vinsældir hans mælast nú í lágmarki í skoðanakönnunum. Hann  á þó alla möguleika á endurkjöri ef hann starfar síðari hluta kjörtímabilsins í samræmi við þá lífssýn sem hann boðaði í kosningabaráttunni.


200 innheimtulögfræðingar

Meiri hluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi, Þráinn Bertelsson fór mikinn í ljósvakamiðlum í kvöld vegna Kvikmyndaskóla Íslands og gerði kröfu til að hann fengi rekstrarfé úr ríkissjóði og sagði það merkilegra en mennta 200 innheimtulögfræðinga.

Kvikmyndaskóli Íslands er allra góðra gjalda verður  og vel getur verið rétt að skólinn fái aukið fé úr ríkissjóði. Það er óviðkomandi námi annars fólks.  Ég veit ekki til þess að nokkur skóli á Íslandi mennti innheimtulögfræðinga eða það sé sérstök námsbraut.  Þráni Bertelssyni finnst hins vegar rétt að gera lítið úr lögfræðinámi og það er  í samræmi við aðra sleggjudóma þessa manns.

Ekki er hægt að áfellast Þráinn Bertelsson fyrir vanþekkingu í skóla-og menntamálum en hitt ætti hann að vita, að hann er í sama stjórnmálaflokki og menntamálaráðherra og gæti því borið erindi Kvikmyndaskóla Íslands beint undir hana. Hann gæti komið fordómum sínum varðandi lögfræðinám á framfæri milliliðalaust og gert kröfur varðandi Kvikmyndaskólann. Þráinn er altént líftaug gjörspilltrar ríkisstjórnar, sem mundi vafalaust ekki muna um einn kepp í sláturtíðinni þegar svo mikilvægur maður á í hlut.

Þráinn getur því sparað sér þann pópúlísma og sýndarmennsku sem hann viðhafði í sjónvarpi í kvöld en unnið vinnuna sína á þingflokksfundum Vinstri grænna en undir þá heyra þessi mál.

Skrýtið að þessi heiðurslaunþegi skuli aldrei geta opnað munninn án þess að veitast að öðru fólki og reyna að gera lítið úr því.


Dýrt fyrir forsætisráðherra, en ekki bankastjóra

Fyrir nokkrum dögum var skrifað um það í breskum blöðum að forsætisráðherra Breta, David Cameron hefði tekið á leigu sumarbústað í Tuscanny á Ítalíu. Af mörgum var það talinn flottræfilsháttur af forsætisráðherranum að leigja sumarbústað í Tuscanny á tímum niðurskurðar og erfiðleika í þjóðarbúskapnum.

Fyrir nokkru leigði íslenskur bankastjóri sumarbústað  í sama héraði á Ítalíu engu síðri  en þann sem forsætisráðherra Breta leigir -já og það með öðrum. Hér talar engin um flottræfilshátt heldur þykir það greinilega sjálfsagt hér að yfirstéttinni leyfist allt.  Þannig var talið áður fyrr að það væri í Bretlandi, en nú er greinilega öldin önnur.

Já meira að segja forsætisráðherrann af Bretlandi þarf að ná í capucínóið sitt sjálfur þegar hann kemur eins og sléttur og felldur ferðamaður á veitingastað.

Ekki fer neinum sögum af raunum íslenska bankastjórans íslenska  í Tuscanny þegar hún var þar á ferð enda væntanlega haft meira umleikis en David Cameron forsætisráðherra.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 219
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 4435
  • Frá upphafi: 2450133

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband