Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Alvarlega námskreppan

Kalli vinur minn segir að námskreppan sé búin hjá sér. Hann hækkaði sig úr tveim í aðaleinkunn í 4 eða um 100% og sagði að kennarinn hefði sagt að hann væri langflottastur. Kalli sagði að Einar bekkjarbróðir hans hafi verið eitthvað súr af því að kennarinn sagði að það væri ekki í lagi hjá honum af því að hann lækkaði úr 8.4 í 8.3 í aðaleinkunn sem er náttúrulega rosalegt hallæri. Þannig að Kalli sagði að Einar væri í alvarlegri námskreppu meðan námskreppan væri búin hjá sér, eins og Gylfi Zoega aðal hagfræðingur RÚV mundi orða það.

Elsti banki í heimi fær aðstoð skattgreiðenda.

Banca Monte dei Paschi di Siena sem stofnaður var árið 1472 hefur fengið 3.9 milljarða Evru (630 milljarðar krónur)  fjárframlag og stuðning frá ítalska ríkinu. Hefði bankinn ekki fengið þessa fyrirgreiðslu frá skattgreiðendum hefði hann verið tekinn í skiptameðferð.

Bankinn var stofnaður 1472 af borgaryfirvöldum í Siena til að lána hinum fátæku. ´

Ítalska ríkisstjórnin segir að þetta sé gert til að Ítalía virði skuldbindingar sínar við Evrópusambandið um að styrkja bankastarfsemina.

Enn eitt dæmið um að svonefnd Evrukreppa er í raun bankakreppa og allt fárið og endalausir fundir leiðtoga Evrópusambandsins snúast í raun um með hvaða hætti og hvernig sem mestum byrðum af gjaldþrota bönkum og uppblásnum hlutabréfamörkuðum verði velt yfir á skattgreiðendum. Í raun hjálp fyrir hina ríku á kostnað samfélagsins. 

Ítalska þingið telur ekki  ástæðu til að skipa rannsóknarnefnd eða sérstakan saksóknara til að fjalla um þrot þessa banka. Þá verður sérstakur Landsdómur ekki kallaður saman.

Á Ítalíu virðast menn átta sig á að einkafyrirtæki geti farið í þrot án þess að stjórnmálamenn hafi með það að gera eða beri ábyrgð á því.  En því miður þá eru þeir eins og stjórnmálamenn í Evrópu og Ameríku helteknir af þeirri meinloku að það eigi að bjarga fjármunum hinna ríku á kostnað skattgreiðenda. 

Um það snýst fjármálakreppan í heiminum.


Rannsókn á embætti Umboðsmanns alþingis

Í síðustu viku vakti ég athygli á skrifum Halldórs Jónssonar verkfræðings um það hvernig Umboðsmaður alþingis kom sér undan því að rannsaka kvörtun hans vegna SpKef og Byr. Einnig hvernig Umboðsmaður brást hlutverki sínu með því að taka málið ekki upp af eigin frumkvæði sbr. 5.gr. laga um Umboðsmann alþingis.  Í kjölfarið hefur mér verið bent á að ýmis fleiri dæmi séu um að Umboðsmaður alþingis geri ekkert þegar honum er bent á brot á stjórnsýslureglum hjá núverandi stjórnvöldum.

Umboðsmaður mun hafa komið sér hjá að skoða forsendur og lagagrundvöll þess að 46 milljörðum var sóað í VBS og Saga Kapítal með vísan til þess að málið væri hjá eftirlitsstofnun EFTA.  Dæmin eru fleiri.

Umboðsmaður alþingis er eftirlitsstofnun stjórnsýslunnar með ríkar valdheimildir til að taka mál upp af eigin frumkvæði, afla allra gagna  og taka skýrslur af mönnum. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem menn hafa kosið að beina að stjórnmálamönnum og stjórnsýslunni fyrir hrun, þá hefur ekki verið rannsakaður þáttur eftirlitsstofnunar stjórnsýslunnar - Umboðsmanns alþingis.

Full ástæða er til að skoða áherslur umboðsmanns, framkvæmd eftirlits hans og málshraða. Jafnframt þarf að skoða þá samkennd sem virðist hafa ríkt með umboðsmanni og bankamönnum fyrir bankahrun.

Þekkt eru ummæli umboðsmanns á fundi með bankamönnum vorið 2007 þar sem hann sagðist ætla að gæta þess vel að eftirlitsstofnanir færu í einu og öllu eftir "skráðum og óskráðum" stjórnsýslureglum.  Umboðsmaður hvatti bankamenn einnig til að leita óhikað til sín með umkvartanir gagnvart stjórnsýslunni.

Auk þess að rannsaska starfsemi Umboðsmanns fyrir hrun þarf að rannsaka starfsemi embættisins eftir hrun. Sérstaklega þarf að skoða ástæður þess að Umboðsmaður veigrar sér við að skoða málefni sem gætu komið ríkisstjórninni illa.


Ósýnilega höndin eða dauða höndin.

Stjórnmálamenn hafa sjaldnast búið til arðbær störf. Þeir geta hins vegar stuðlað að umhverfi hagvaxtar og velmegunar með  því að takmarka skattheimtu og afskipti ríkisvaldsins af þeim sem eiga sjálfir fyrirtækin sín og bera alla ábyrgð á þeim.

Ríkisstjórnin hefur farið þveröfuga leið. Skattlagning hefur verið óhófleg á lítil og meðalstór fyrirtæki.  

Það fer oftast framhjá stjórnlyndum stjórnmálamönnum að smá og meðalstór fyrirtæki eru forsenda framfara, hagvaxtar og velmegunar.  Þessi fyrirtæki verða útundan af því að litli kapítalistinn berst áfram og nýtur afrakstursins ef vel gengur en það hjálpar honum enginn ef illa fer. Smá- og meðalstóra fyrirtækið fær ekki milljarða lán og það fær ekki afskrifað háar fjárhæðir. Það nýtur heldur ekki sérstakra skattaívilnana sem stórfyrirtækin geta nýtt sér.  Eigendur litlu fyrirtækjanna vinna meira, taka minni laun og missa eignir sínar ef það gengur ekki vel.

Hvílíkt regindjúp er staðfest á milli þeirra sem vinna í umhverfi smáatvinnurekstursins og velferðarkerfis stórfyrirtækjanna og ríkisfyrirtækjanna þar sem stjórnendurnir taka venjulegast enga áhættu en geta átt völ á góðum eftirlaunum, starfslokasamningum auk ýmiss smáræðis eins og námsferðum, orlofsárum o.s.frv. Milljarðarnir eru afskrifaðir á stórfyrirtækin og síðan halda sömu stjórnendurnir sem ekkert eiga áfram að stjórna endurreistum fyrirtækjum og geta grafið upp milljarð eða fleiri ef á þarf að halda til að halda fyrirtækinu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur aukið vanda smá og meðalstórra fyrirtækja verulega. Þannig var virðisaukaskattur hækkaður. Fjármagnskostnaður er sá hæsti sem þekkist í heimi og ofurskattheimta og pappírsfár í kringum lítil fyrirtæki íþyngir rekstrinum.

Nú hefur ríkisstjórnin komið með áætlun um atvinnusköpun með áherslu á millifærslur í gegn um ríkisfjárhirsluna með því að skattleggja suma og millifæra þá peninga til annarra. Atvinnuáætlun ríkisstjórnarinnar sem Guðmundur Steingrímsson alþingismaður kallar "planið góða" byggist aðallega á því að ná peningum frá útgerðinni með auðlindaskatti, til að millifæra peningana í gæluverkefni sem eru þóknanleg kommissar Jóhönnu og kommisar Steíngrími. 

Þessi hugmyndafræði fer þvert á það sem stjórnmálamenn í Bandaríkjunum eru að átta sig á að gengur ekki lengur. Obama forseti sem og pólitískir andstæðingar hans standa nú fyrir aðgerðum sem hafa fengið nafnið "Jumpstart our business startups act." Það felst m.a. í því að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem eigendurnir eiga og bera áhættu af fyrirtækjunum sínum.

Á Evrópska efnahagssvæðinu eru meir en 23 milljónir einkafyrirtækja þau fyrirtæki þyrftu ekki að ráða nema einn starfsmann hvert til að eyða atvinnuleysinu í álfunni en þar eru tæplega 23 milljónir atvinnulausir. 

Lítil og meðalstór fyrirtæki hér á landi eru umtalsvert fleiri en þeir atvinnulausu. Með því að lækka skatta og gefa litlum og meðalstórum fyrirtækjum eðlilegt svigrúm á markaðnum og eðlilegt lánaumhverfi  þá væri hægt að eyða atvinnuleysinu, auka velmegun og hagvöxt í landinu umtalsvert.

Dauða hönd ríkisstjórnarinnar, ríkisafskipta, gæluverkefnanna, útblásins svonefnds velferðarkerfis og andlitslausu stórfyrirtækjanna sem starfa á ábyrgð skattgreiðenda dregur hins vegar máttinn úr hagkerfinu.

Það verður að gefa því duglega fólki sem er tilbúið til að vinna mikið og leggja mikið af mörkum og taka áhættu til að gera drauma sína að veruleika eðlilegt svigrúm. Það er forsenda sjálfbærni og framfara í þjóðfélaginu.


Íslenska útrásin

Fáir hafa farið jafn fallegum orðum um íslensku útrásina og útrásarvíkinga og Ólafur Ragnar Grímsson, sem var þess vegna kallaður klappstýra útrásarinnar.  Tveim árum fyrir hrun sagði hann eftirfarandi á fundi hjá Sagnfræðingafélaginu:

"Útrásin er staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga, fyrirheit um kröftugra sóknarskeið en þjóðin hefur áður kynnst, ekki aðeins í viðskiptum og fjármálalífi heldur einnig í vísindum, listum, greinum þar sem hugsun og menning, arfleifð og nýsköpun eru forsenda framfara.

Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingar hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur Íslendinga."

Ekki verður segt að forseti vor sé spámannlega vaxinn. En þetta með öðru skýrir af hverju hann ber viðurnefnið "Klappstýra útrásarinnar"  og það með réttu.


Forsetinn, lýðræði og fjölmiðlar

Góð og hlutlæg fjölmiðlun skiptir miklu fyrir málefnalega umræðu. Góðir málefnalegir fjölmiðlar stuðla að því að alvöru stjórnmálamenn komist áfram en ekki bara glamrarar og fólk með yfirboð.

Miklu skiptir að fjölmiðlun sé ekki hneppt í fjötra. Fáir hafa bent á það með jafn góðum hætti og forseti lýðveldisins Ólafur Ragnar Grímsson.  Í þingræðu á Alþingi þ. 13. febrúar 1995 sagði hann eftirfarandi:

"Ef álíka hringamyndun verður í fjölmiðlum og orðið hefur á þeim sviðum atvinnulífsins sem kennd eru við kolkrabbann og smokkfiskinn þá er verið að að stefna lýðræðislegu eðli íslenskrar fjölmiðlunar í hættu. Ég vil þess vegna virðulegi forseti, biðja hæstvirtan menntamálaráðherra að lýsa viðhorfum sínum til þess að setja löggjöf með þessum hætti og jafnvel knýja á um það áður en þingi lýkur."

Árið 1995  taldi Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður nauðsynlegt að sett yrðu lög um fjölmiðla til að tryggja lýðræðislegt eðli fjölmiðla.

Árið 2004 þ. 2. júní neitaði Ólafur Ragnar Grímsson forseti að staðfesta fjölmiðlalögin sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafði fengið samþykkt á Alþingi þrátt fyrir hatramma andstöðu og málþóf Samfylkingarinnar til að koma í veg fyrir lýðræðislegt eðli fjölmiðla. 

Afleiðingin: Lýðræðislegt eðli íslenskrar fjölmiðlunar varð að engu. Fjölmiðlarnir voru í eigu auðhringja útrásarvíkinga og eigenda bankanna sem hrundu í október 2008. Gagnrýni á starfsemi þessara aðila náði því ekki fram í gegn um hefðbundna fjölmiðlun í landinu. Þökk sé Ólafi Ragnari Grímssyni.


Hver var það?

Hvaða frambjóðandi til forseta íslenska lýðveldisins skyldi hafa lýst sérstakri ánægju og hrifningu af stjórnarfarinu í Arabaríkinu   Abu Dhabi?  

Hvað nú kona?

Til hamingju með baráttudaginn íslenskar konur. 

Ef til vill var það þannig að þegar konur tóku sér frí og héldu einn best heppnaða útifund sem haldinn hefur verið í landinu, að þá opnuðust augu margra varðandi kynjamismun í landinu. Einn elsti þingmaðurnin á þeim tíma, dr. Gunnar Thoroddsen var af sumum atyrtur fyrir að leggja fram frumvarp um jafna stöðu karla og kvenna. En frumvarpið var samþykkt af Alþingi og  jafnstaða kynjanna urðu lög í landinu.

Hvað hefur gerst síðan? Njóta konur jafnréttis og jafnstöðu?   Í lagalegu tilliti gera þær það en mikill launamunur er enn á milli kynjanna. Stafar hann bara af kynferði eða eru aðrar ástæður sem valda því?

Viðurkennt er og hefur verið sýnt fram á í ítrekuðum könnunum á vegum Sameinuðu þjóðanna að velferð þjóða er þeim mun meiri eftir því sem jafnstaða kynjanna er meiri og atvinnuþáttaka kvenna. Þrátt fyrrir það býr rúmur helmingur mannkyns við mikla kvennakúgun.  Þvingaðar giftingar, umskurn, svipting eðlilegra réttinda, bann við skólanámi, atvinnuþáttöku og fleira er víða í Afríku, Asíu og raunar víðar. Í Evrópu viðgengst þrælasala þar sem konur eru hnepptar í ánauð og misnotaðar. 

Kvennréttindahópar hafa því verk að vinna sem og aðrir sem unna mannréttindum. Þetta er ekki einkamál kvenna. Þetta er hluti af almennri mannréttindabaráttu. Það skiptir máli að berjast fyrir því sem máli skiptir en láta vera aukaatriði sem jafnvel geta á endanum orðið til tjóns fyrir eðlilega starfsemi í þjóðfélagið.

Spurning er hvort að sumar kröfur femínístanna hafa orðið til þess t.d. að lækka laun ákveðinna stétta í stað þess að koma á launajafnrétti sem að var stefnt. Þá er spurning um hvort kynjakvótar og fléttuhugmyndir allskonar á kynjavísu eigi rétt á sér eða standist kröfur um jafnstöðu kynjanna.

Ég lít á réttindabaráttu kvenna fyrir jafnstöðu sem sjálfsagðan og eðlilegan lið í að koma á mannréttindum.  En það er rangt að láta fólk njóta eða gjalda kynferðis síns vegna þess að svo og svo margar konur eða karlar eru í fleti fyrir þar sem einstaklingur vill hasla sér völl

Aðalatriðið er samt að gleyma ekki grundvelli hugmyndarinnar um jafnstöðu kynjanna og nú er baráttuvettvangurinn sérstaklega að ná jafnstöðu fyrir konur þar sem réttindi þeirra eru smáð og svívirt og koma í veg fyrir kynlífsþrælkun og misnotkun á fólki. Það eru næg verkefni.

 Unga kona það er aldrei hægt að játa oki kynsystra þinna á forsendum ólíkrar menningar eða trúarbragða. Mannréttindi eru algild og það er aldrei hægt að samþykkja frávík frá þeim.


Umboðsmaður Alþingis bregst.

Halldór Jónsson, verkfræðingur, hefur ritað athyglisverða pistla um SpKef máilð á bloggsíðu sinni.  Í einum þeirra rekur hann kvörtun sína til Umboðsmanns alþingis vegna SpKef og Byr, en síðarnefnda fyrirtækið er einnig dæmi um ábyrgðarlausan fjáraustur Steingríms J. Sigfússonar úr sjóðum skattgreiðenda. 

 

Umboðsmaður Alþingis mun hafa komið sér undan því að fjalla um málið - taldi að Halldór ætti ekki aðild.  Umboðsmaður alþingis taldi ekki ástæðu til að taka málið upp af eigin frumkvæði, eins og hann hefur fulla heimild til skv. 5. gr. laga um Umboðsmann alþingis. 

 

Í málefnum Byrs og Spkef, einkum Spkef, liggur fyrir að fjármálafyrirtæki voru rekin á undanþágu í heilt ár og síðan stofnuð ný án þess að nokkur forsenda væri fyrir slíku.  Ekkert liggur fyrir um það að stjórnvöld hafi byggt á traustum gögnum við veitingu undanþágu ítrekað eða stofnun nýrra fyrirtækja.  Samtals tapaði SpKef um 30 milljörðum á árunum 2009 og 2010 - eigið fé fór úr því að vera jákvætt um 5,4 milljarða í upphafi árs 2009 (að teknu tilliti til bankahrunsins í október 2008) í 25 milljarða byrði á skattborgara þessa lands. 

 Það er furðulegt að embætti sem á að hafa eftirlit með stjórnvöldum sinni ekki slíku eftirliti og það kallar á spurningar um samkennd Umboðsmanns með núverandi stjórnvöldum. 

 

Þessi sami umboðsmaður Alþingis brást við með öðrum hætti  þegar  hann hóf  að eigin frumkvæði rannsókn á því þegar Geir Haarde, forsætisráðherra, réð tímabundið hagfræðing í skrifstofustjórastöðu á nýrri efnahags-og alþjóðamálaskrifstofu í forsætisráðuneytinu í miðju bankahruni.  Þá brást umboðsmaður alþingis skjótt við, að eigin frumkvæði, og lokaði málinu á methraða, 2 mánuðum, með ávítum á Geir þann 29. desember 2008.  

 

Á þessum tíma stóðu öll spjót á Geir og auðvelt að kaupa sér vinsældir með því að hnýta í hann. 

 

Það skiptir greinilega máli hver á í hlut en þetta dæmi miðað við þann hroða sem stjórnsýslan er í Spkef málinu og Byr málinu sýnir að umboðsmanni Alþingis virðist mislagðar hendur í mati sínu á mikilvægi mála og  ásættanlegri stjórnsýslu.


Stjórnmálamaður með framtíðarsýn

Þess er minnst að breski stjórnmálamaðurinn Enoch Powel hefði orðið 100 ára um þessar mundir.

Enoch Powell var framsýnn, víðlesinn, fjölmenntaður og einna gáfaðasti maðurinn í enskri pólitík á árunum upp úr seinni heimstyrjöld og fram yfir 1980.

Hann varaði við því að sameiginleg mynt í Evrópu gæti ekki haft neitt annað í för með sér en sameiginlega ríkisstjórn og sagði "annað er meiningarlaust og ómögulegt án hins"  Þessi ummæli eiga svo sannarlega við í dag þó þau væru sögð fyrir tæpum 30 árum.

Hann var á móti afskiptum Bandaríkjamanna í Víetnam frá upphafi og sagði þá m.a. "Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn búa ekki í Suð Austur Asíu eins og Víetnamar og nágrannar þeirra gera."

Með sama hætti má ætla að hann hefði verið á móti afskiptum í Írak, Afganistan og Líbýu. 

Hann krafðist þess að allir hermenn fengju góða og sömu meðferð, líka óvinahermenn. Í því sambandi gagnrýndi hann harðlega aðgerðir breska hersins gegn Mau Mau uppreisnarmönnum í Kenýa og fordæmdi harðlega þá sem kölluðu svörtu Mau Mau uppreisnarmennina "sub human".  Þá var annað andrúmsloft og virðing fyrir fólki af öðrum kynþáttum ólík því sem er í dag. Andstæðingur hans í pólitík Denis Healey sagði um ræðu Powell um baráttuna við uppreisnarmenn í Kenýa "the greatest paliamentary speech I ever heard, with all the moral passion and rhethorical force of Demosthenes."

Margir segja að ræða Powell um Mau Mau stríðsfangana og meðferðina á þeim megi allt eins vel heimfæra upp á fangana í Guantanamo í dag

Powell var einn merkasti þingmaður á breska þinginu á sínum tíma og viðurkenndur lærdóms- og gáfumaður. Hann varð þó viðskila við flokk sinn og er helst minnst í dag fyrir ummæli um innflytjendamál þar sem hann fordæmdi afneitunina og þöggunina varðandi þetta málefni og taldi að innflytjendum mundi fjölga mun meira en opinberar áætlanir gerðu ráð fyrir. Powell var fordæmdur fyrir þetta og kallaður rasisti. Í dag átta menn sig á að Powell hafði rétt fyrir sér. Hann hafði hins vegar rangt fyrir sér varðandi vaxandi átök milli fólks af ólíkum kynþáttum.

Ásakanir um rasisma leiddu til þess að Powell fór úr breska íhaldsflokknum. Í dag viðurkenna flestir að þær ásakanir voru rangar. Merkimiði sem hengdur var á hæfan málsvara málefnalegra skoðana til að reyna að þagga niður í honum og koma honum út í horn í breskri pólitík.

Í dag viðurkenna menn að Enoch Powell var langt frá því að vera rasisti. Meira að segja Michael Foot sem varð formaður Verkamannaflokksins viðurkenndi það og benti á viðhorf Powell varðandi Mau Mau uppreisnarmennina.

En óréttmætir merkimiðar eru hentugir fyrir þá sem vilja girða fyrir málefnalega umræðu og réttmætar en hættulegar skoðanir að mati þeirra sem hafa einkaleyfi á pólitískri rétthugsun.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 823
  • Sl. viku: 5766
  • Frá upphafi: 2472436

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 5251
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband